Reza Aslan og málsvörn fyrir fræðilegt hlutleysi

Ég hef verið afar hugsi yfir umræðunni um fræðimanninn Reza Aslan undanfarið. En áður en ég vind mér í hana vil ég byggja undir hugleiðingar mínar með eftirfarandi atriðum (ég biðst velvirðingar á lengdinni og afsaka það ef lesendum leiðist að ég skuli endurtaka sumt sem þeir þegar vita):

Aslan (fyrir utan að vera flott nafn, sem allir sem hafa einhverju sinni alist upp vita að merkir ljón, eða tengja a.m.k. við ljón) er með fjórar háskólagráður. Þrjár af þeim skipta máli fyrir þessa umræðu: Hann er með B.A.-próf í trúarbragðafræðum (religion), M.A.-próf í guðfræði og almennri trúarbragðafræði (theological studies), og doktorspróf (Ph.D.) í trúarlífsfélagsfræði (sociology of religion), allt frá virtum háskólum. Það þýðir ekki nauðsynlega að Aslan sé góður rannsakandi, en það þýðir þó það að hann er sérfræðimenntaður á sviði trúarbragðarannsókna.

Hann er fæddur í Íran en fluttist á barnsaldri ásamt foreldrum sínum til Bandaríkjanna sem flóttamaður, þar sem hann tók upp kristni. Hann snerist síðar aftur til íslam og það er annað aðalatriðið af tveim í þessari umræðu. Sem kunnugt er skrifaði Aslan bók sem þegar í titlinum gefur í skyn að Jesú frá Nasaret hafi verið ofstopamaður, og fyrir það réðist Lauren Green á ofstopastöðinni Fox á hann og fékk það, sem frægt er orðið, óþvegið tilbaka.

Þetta eitt lygilegasta sjónvarpsviðtal síðustu ára hefur skiljanlega kallað fram þónokkra þórðargleði í fólki, en einnig þau viðbrögð frá trúleysingjum (þótt einn skrifi hef ég það í fleirtölu því ég sé marga taka undir) að þó að árásin á Aslan hafi verið óverðskulduð þá hafi hann sjálfur verið ósanngjarn í garð – ef ekki hreinlega fávís um – trúleysi sem lífsafstöðu. Svo er áreiðanlega til allur fjöldinn af annars konar viðbrögðum sem ég hefði ekki geð í mér til að kanna til hlítar.

Ég rakst einnig á annað sjónarhorn og það er fyrst og fremst það sem ég hef áhuga á að bregðast við vegna þess að það snertir mig sjálfan sem rannsakanda (meðal annarra hluta) trúarbragða. Minn ágæti kunningi og samdoktorskandídat um Vatnsmýrina, Höskuldur Ólafsson, spurði nefnilega:

Hér er fræðimaður sem er einnig trúaður múslimi að halda fram ákveðinni kenningu um guð kristinna manna. Spyrillinn, sem starfar fyrir íhaldssama (kristilega) sjónvarpsstöð spyr eðlilegra spurninga í því trúarlega og menningarlega samhengi. Hvað er skrítið við þetta viðtal annað en að fræðimaðurinn reynir að gera það að aukaatriði að hann aðhyllist trú sem afguðar þann sem hann er að skrifa um?

Aðaldjúsið í því sem hann setur spurningamerki við er þó þetta:

Alltént, ég á erfitt með að trúa því að vísindamenn geti auðveldlega skilið hugmyndafræði sína við þröskuldinn þegar þeir stíga inná skrifstofuna.

Í fyrstu varð ég hissa á þessari skoðun en varð þó að viðurkenna að þetta er mikilvæg umræða, sem ég hef raunar átt í áður – síðast á miðaldaráðstefnu í Leeds þar sem rétttrúaður, gyðinglegur fræðimaður spurði mig í léttu hjali hvernig það eiginlega gengi fyrir sig að ég, trúlaus maðurinn, rannsakaði kristni á miðöldum (hans sérsvið er, vel að merkja, gyðingdómur á miðöldum). Ég lái honum ekki það að spyrja, en hann hóf heldur ekki samræðurnar á því að segja mér í óspurðum fréttum að Xur Xurssyni úti í bæ þætti ég vera ómerkilegur fúskari.

Svarið er ekki einfalt, en áður en ég kem að því vil ég nefna fleiri atriði til umræðunnar.

Ég hef ekki lesið bókina frekar en gagnrýnendur Aslans, svo ég ætla ekki að bera í bætifláka fyrir neitt sem þar kann að koma fyrir. Ég gat þó ekki skilið hann öðruvísi en svo að hann ynni útfrá þeirri megintilgátu að Jesús frá Nasaret hafi sannarlega verið uppi. Það þarf ekki að þýða annað en það að hafi hann verið til, þá sé hægt að bera saman heimildir um hann við sögulegar heimildir frá sama tíma. Eina dæmið sem hann nefnir um vinnubrögð sín í sjónvarpsviðtalinu er einmitt þess eðlis (að hafi Jesús verið krossfestur í reynd, þá séu til heimildir frá Rómverjum um það hvers konar glæpamönnum var refsað þannig) og það þykir hreint út sagt ekkert óeðlilegt við að viðhafa slík vinnubrögð í trúarsögulegum eða sagnfræðilegum rannsóknum.

Aslan er hinsvegar ekki gagnrýndur fyrir rannsóknina heldur fyrir að kalla Jesú ofstopamann (zealot), sem raunar þarf ekki mikið hugmyndaflug til að hafa yfir mann sem samkvæmt heimildum var áhrifamikill safnaðarleiðtogi sem opinberlega gekk í berhögg við ríkjandi skipulag síns tíma. Og Aslan er vitaskuld langt því frá fyrstur til að gera það þó að ég muni raunar enga titla; ég hef ekki lesið um efnið í ein sjö ár en ég get rifjað eitthvað upp ef einhver gengur á mig.

Reyndar er svo lítið nýnæmi í þessari bók af útlitinu og umræðunni að dæma (hið fyrra er að sönnu slæmur mælikvarði en hið síðarnefnda gefur á hinn bóginn til kynna að það sé ekki bókin sem er vandamálið) að ég fæ ekki séð að málið snúist um neitt annað en það að það angrar sumt kristið fólk í Bandaríkjunum að múslimi, samlandi þeirra eður ei, skrifi bók um Jesú sem tekur til endurskoðunar þær túlkanir á honum sem birtast í guðspjöllunum. Sem þýðir aftur að fullkomlega hefðbundin nálgun á afar flóknar heimildir hefur nú ýtt undir umræðu um innbyggða fordóma (implicit bias), að „sú hugmyndafræði sem maður aðhyllist sé að hafa áhrif á þá rannsókn sem maður stundar og þ.a.l. á niðustöðuna“. Mér finnst þetta vera svolítið stökk en það er á hinn bóginn greinilegt að þetta er umræða sem verður að taka. Og ég tek það fram að ég er á margan hátt sammála Höskuldi um flest það sem hann nefnir (nema kannski helst það að spurningar Lauren Green hafi verið sanngjarnar eða eðlilegar – þær voru a.m.k. fyrirsjáanlegar), þó að mitt sjónarhorn sé að vísu töluvert frábrugðið.

Hvernig gæti ég hlutleysis í mínum rannsóknum? Hvernig hindra ég það að hugmyndafræðin vefjist fyrir fótum mér? Fyrst um hlutleysi: það er auðvitað ekki hægt vera hlutlaus og það vita allir sem fást við vísindi að það er frekar lítið sem vinnst með því að ræða þann ímyndaða möguleika. Það er ekki einu sinni hægt að vera hlutlaus raunvísindamaður, því jafnvel ef hægt væri að taka vísindamanninn út úr myndinni þá eru mælitækin ekki hlutlaus heldur eru þau óhjákvæmilega aðeins túlkandi fyrir veruleikann sem þau eiga að mæla. Það þýðir ekki að niðurstöðurnar verðir rangar; þær geta verið réttar en þær eru háðar því kerfi sem mælt er eftir, og öll kerfi eru túlkandi hvert með sínum hætti. Málið vandast þó enn frekar þegar gögnin sem mæla á eru textar og aðalmælitækið er tungumálið, sem hvorki er raunsönn né hlutlaus lýsing á veruleikanum nema að svo miklu leyti sem við höfum ákveðið að tiltekin tákn merki tiltekna hluti, og þar með komið fyrir túlkun á veruleikanum fyrir innan hugtakakerfis sem aftur er í mismiklum mæli breytilegt ekki aðeins á milli þjóða, heldur jafnvel á milli einstakra málhafa (Saussure, fo sure). Þar að auki erum við sem rannsökum forna texta jafnan félagslega, þjóðfélagslega, trúarlega og hugmyndafræðilega aðskilin frá höfundi textans og hugsun hans, fyrir utan svo allar aldirnar sem skilja okkur að einnig: við erum í reynd að rannsaka framandi menningarheima. Til þess að skilja texta þarf því fyrst að skilja samfélagið sem textinn sprettur upp úr, og það verður ekki gert nema með áralöngum rannsóknum þar sem við gerum okkar ítrasta til að skilja ekki veruleikann nema á forsendum þeirra texta sem til umfjöllunar eru.

Ég ætla ekki að halda því fram að það sé auðvelt, en krafan verður þar af leiðandi sú að við reynum að leggja okkur sjálf til hliðar svo sem okkur framast er unnt þegar við rannsökum (í þessu tilviki) forna texta; að við reynum að túlka þá ekki í ljósi allrar þeirrar sögu og vitneskju sem orðið hefur til síðan þeir litu dagsins ljós. Við viljum komast nálægt heimsmynd þeirra sem rituðu textana, hugmyndafræði þeirra og trúarlífi. Aðalmálið er að ég held að Reza Aslan sé bæði fullvel meðvitaður um að sú krafa er gerð til hans, og að í einhverjum tilvikum þá mistakist honum að halda sjálfum sér frá þeim heimildum sem hann er að rannsaka. Slíkt gerist og fyrir það eru fræðimenn gagnrýndir. Enginn hefur hinsvegar gagnrýnt hann fyrir það, heldur hefur hann verið gagnrýndur vegna möguleikans á því að hann hafi vegna trúar sinnar fokkað upp verkinu því sem múslimi sé hann haldinn fordómum í garð kristni. Þessi gagnrýni kemur fyrst og fremst frá bókstafstrúarfólki.

Hvað hugmyndafræðina áhrærir þá er ég ekki viss um hvernig ég geti svarað því. Ég trúi ekki á máttarvöld, æðri eða lægri, en þó er ég afar áhugasamur um trúarbrögð. Það er að segja: ég er áhugasamur um virkni trúarbragða. Með virkni þá meina ég það hvernig fólk upplifir lífið í trúnni og heiminn umhverfis sig. Og til þess að geta rannsakað trúarlíf fólks á miðöldum þá þarf ég að bera fyrir því virðingu, og með því að lesa sem flesta trúartexta (og aðra texta) frá miðöldum þá kemst ég nær skilningi á því hvaða hugmyndafræði mótaði líf fólks á því tímaskeiði sem rannsókn mín nær til.

Þegar ég fjalla um sköpunarsöguna þá skiptir mig ekki máli hvernig mér lærðist hún í barnaskóla, heldur hvernig hún birtist mér í Veraldarsögu, í Hauksbók, í Stjórn, í Elucidarius, í annálum; ég reyni að rannsaka sameiginleg þemu en þó sérstaklega það sem út af stendur svo ég hafi sem fjölbreyttasta mynd af þeim trúarhugmyndum sem voru í umferð á Íslandi. Ef einhver telur mig verri rannsakanda fyrir það að ég trúi ekki á téða sköpunarsögu þá áttar viðkomandi sig kannski ekki á því hvað sú sköpunarsaga er þýðingarmikil í sögu vestrænnar menningar – það skiptir mig ekki máli hvort hún er sönn eða ekki, ég get rannsakað ólíkar gerðir hennar fyrir því og borið virðingu fyrir því fólki sem lagði líf sitt í hendur ókunnum krafti sem það nefndi Guð.

Ég rek ekki söguna aftur á bak og ég legg mikið upp úr því að þvinga ekki hugmyndafræðilegar stærðir upp á menningarheim sem sjálfur hefði ekki skilið þær. Það kemur m.ö.o. ekki til greina, fyrir mig (og veit ég að margir eru mér afar ósammála), að ég retróaktíft troði Freud, Marx, eða öðrum þvílíkum kenningakerfum upp á heim miðaldafólks. Ég segi ekki að það sé rangt að gera það, heldur að ég vilji komast sem næst því að skilja miðaldafólk á þess eigin forsendum. Miðaldirnar reyni ég því – eftir fremsta megni – að nálgast út frá ríkjandi skilningi þess tíma. Raunar snýst rannsóknarefni mitt að hluta til um það að sjá að hversu miklu leyti ríkjandi skilningur í Evrópu náði til Íslands.

Það geri ég auðvitað ekki fordómalaust – það getur enginn. Og nú veit ég ekki hvernig Aslan vinnur sína bók en ég hygg miðað við hans feril hingað til að hann hafi aldrei orðið fyrir eins alvarlegum ákúrum einsog núna. Sem hann verður fyrir vegna þess að hann er múslimi. Það eru ábyggilega hundrað atriði í bókinni hans sem ég tæki ekki undir og þættu ekki tíðindi til næstu hugvísindadeildar.

Ég held að við séum öll meðvituð um að við stýrumst í okkar rannsóknum af einhverjum hvötum – og af miklum ákafa, því annars hefðum við aldrei enst í þessu – og rannsóknir gefa nú til kynna að fordómar okkar stjórna hugsunum okkar á enn dýpra borði en okkur hafði órað fyrir. Mér finnst það þó ekki réttlæta gagnrýnina. Hefði Lauren Green hafið viðtalið á því að spyrja Reza Aslan um þá gagnrýni sem hafi verið sett fram, að hann sem múslimi væri ef til vill ekki besti aðilinn til að skrifa um Jesú, og látið þar við sitja eftir að svarið var komið, þá hefði það verið spurning í lagi. En það eina sem hún gerir í gegnum allt viðtalið er að vitna aftur og aftur í nýjan og nýjan karl sem fæstir hljóma einsog þeir hafi lesið bókina og spyrja hvernig hann bregðist við þessu. Hún hafði ekki lesið bókina og hún hafði engar aðrar spurningar; hún hafði einfaldlega ekki áhuga á öðru en að reyna að koma höggi á hann, og það mistókst.

Og upp úr þessu spretta í reynd tvær umræður: Ef líkur eru á að Aslan hafi annað hvort viljandi reynt að koma höggi á kristni með bókinni, eða á hinn bóginn stjórnast af fordómum, þá er sennilega besta leiðin til að afhjúpa hann að lesa bókina. Það hefur hinsvegar enginn gert og því veit ég ekki hvort við komumst neitt lengra áfram með þá umræðu í bili. Hin umræðan sem mér þykir áhugaverðari og mikilsverðari fjallar um það hvernig við sem rannsökum trúarbrögð getum gætt hlutleysis í okkar skrifum. Það getum við einfaldlega ekki nema að takmörkuðu leyti og því tek ég að sjálfsögðu undir það að við þurfum öll að vera meðvituð – ekki endilega um fordóma okkar – heldur um það að við höfum fordóma.

Þó að Aslan gremjist (að mínu viti skiljanlega) að vera spurður svona, og þvertaki fyrir það í vörn fyrir starfsheiður sinn, þá efast ég ekki um það að hann sé þess alveg meðvitaður að hann búi yfir fordómum rétt einsog aðrir, alveg einsog ég og alveg einsog rétttrúaði gyðingurinn sem rannsakar gyðingdóm á miðöldum. Þannig sýnist mér umræðan um fordóma fræðimanna yfirleitt benda í þá átt að umræðan um fordóma Aslans sérstaklega hafi verið ósanngjörn, því hver svo sem trúarleg afstaða fræðimannsins er þá erum við öll sem rannsökum trúarbrögð undir sömu sökina seld: við erum öll jafn ótrúverðug og Aslan, á alveg sama hátt og rannsakendur einkum og sér í lagi í félags- og hugvísindum gætu látið hugsjónir sínar og pólitík hafa áhrif á rannsóknir sínar.

Og það er fullkomlega valid umræða, að fræðimenn geti verið litaðir af lífsviðhorfum þó að þeir eigi eftir fremsta megni að forðast að vera það. En við getum ekki gengið að því a priori að allir vísindamenn með skoðanir láti stjórnast af þeim og það er það sem mér fannst umræðan fyrst og fremst snúast um, eða þangað til mér varð ljóst að hún hafði klofnað svona rækilega í tvennt. Þetta er ekki málsvörn fyrir Reza Aslan heldur fyrir sjálfan mig og okkur öll, og ef til vill mætti draga saman niðurstöður minna hugleiðinga um efnið svona:

1. Við lifum á tímum þegar rannsóknir fræðimanna eru iðulega dregnar í efa og gerðar tortryggilegar í pólitískum tilgangi sökum ætlaðra annarlegra hvata þeirra. Þetta er ekki síst algengt í íslenskri umræðu eftirhrunsáranna.

2. Sú bylgja reis hæst það ég hef séð þegar órökstuddar blammeringar voru látnar dynja á Reza Aslan í sjónvarpinu. Ekki fyrir að hafa skrifað tortryggilegt rannsóknarverk, heldur fyrir það að vera múslimi. Þessa taktík mætti kalla skip the middle man: það er óþarft að tortryggja verkið þegar höfundurinn er sjálfur tortryggilegur.

3. Ef við hinsvegar föllumst á að þessar blammeringar hafi verið réttmætar, þá þurfum við að líta í eigin barm og átta okkur á því að allar réttmætar ástæður þess að stilla Reza Aslan svona upp við vegg hljóta að eiga við alla fræðimenn, alstaðar og á öllum tímum. Þó að umræðan geti ef til vill skilað okkur eitthvert áfram er ég ekki reiðubúinn að fallast á slíka niðurstöðu.

Af dönsku, ást og jaðrakan

Það er svo margt sem lítið mál væri að bregðast við og hafa skoðun á, en þegar það hefur safnast saman fellur mér allur ketill í eld.

En eitt dæmi: Af hverju gera Íslendingar alltaf ráð fyrir að danska eigi að vera þeim eitthvað skiljanlegri en önnur mál sem þeir hafa ekki lagt metnað sinn í að læra? Það virðist aldrei vera þannig að skilningi þeirra á dönsku sé ábótavant, heldur séu það Danirnir sem tali með einhverjum fáránlegum framburði. Svo halda hrokafullir ráðherrar út í heim og hrósa öðrum ráðherrum fyrir skýran framburð á dönsku (og það á ensku með þykkum íslenskum hreim), en þótt ótrúlegt megi virðast skiptir engu máli hvernig það er meint því það er alltaf háð þegar útlendingur hrósar manneskju fyrir að kunna móðurmál sitt.

Annars er stemningin í Vatnsmýrinni dálítið í anda The Birds nú um stundir þegar varpið stendur sem hæst: kríur halda uppi ógnandi jaðarvörnum og aðrir fuglar (ég held ég hafi séð jaðrakan þeirra á meðal) hafa dreift sér strategískt hér og hvar og senda skilaboð sín á milli um mannaferðir (ef einhver skilur ekki af hverju brýrnar vantar milli Hringbrautar og Norræna hússins þá er það semsé til að vernda varpið fyrir fólki og fólk frá því að fá kríu í hausinn). Og þetta minnir mig allt í einu á ástarljóðasafnið Ást æða varps sem svo oft fékkst gefins með ólíklegustu hlutum að sennilega eignaðist ég í heildina fimm eintök (fyrir utan þau sem ég fann tilefni til að gefa), en nú veit ég ekki hvað orðið hefur um eitt einasta þeirra. Mig minnir þó að í bókinni hafi verið rómantískt ljóð eftir Óttar Norðfjörð um hnefa og rassgat. Það væri nú ekki ónýtt að finna þetta aftur til að rifja upp herlegheitin.

Ojróvisjon

Fólk pirrar sig stundum á því þegar annað fólk (oft þulir Ríkisútvarpsins) tala um Evróvision. Hvers vegna að þýða aðeins fyrri partinn en ekki þann seinni? Annaðhvort skal það vera Evrópusýn eða Eurovision og engar refjar!

Ef við tökum hefðarrökin þá er sannarlega hefð fyrir því í íslensku að setja inn v í stað u í sérhljóðaklasanum eu, þar sem ekki finnst sambærileg stafsetning í íslensku. Í ensku er eu borið fram (eða jeú) og í þýsku er borið fram (gríðarfallegt) oj, sem margir Íslendingar hafa tekið upp á arma sína (sbr. sjónvarpsauglýsingar um nojtralsjampó).

En hefðin kallar á v. Á íslensku er skrifað um Evsebíus þar sem annarsstaðar er talað um Eusebius (Júsebíus). Í íslensku er einnig talað um Evridís en Euridice (Júridisí) í ensku. Seinniparturinn á sér annarskonar hefð í íslensku. Við höfum t.a.m. í meira en 30 ár talað um vídeó (úr latínu: ég sé), enda liggur það beint við, og þá er ekkert svo galið að tala um visíó (úr latínu: sýn) heldur. Það er okkur ekki framandi hugmynd að i sé oft borið fram einsog j (í orðinu video er það nálægð e-sins við tannhljóð sem gerir það að i/j-hljóði), en sérhljóðaklasinn eu þekkist ekki í íslensku. Þess vegna er þetta v sett inn í staðinn (svo má alltaf nefna það að u og v eru sögulega sama hljóðið í latínu).

Það þýðir hinsvegar ekki að réttur framburður á því orði sé evróvision! Það er málvöndun. Stafsetning og framburður njóta ekki nema vafasamra tengsla til að byrja með og því vil ég heldur leggja til við fólk að það tali annaðhvort um Júróvisjon eða Ojróvisjon, jafnvel þótt það skrifi evróvision. Það er ekkert rúm fyrir þetta evró í framburði samsetts tökuorðs, ekki nema það sé Bogi Ágústsson sem talar.

Að því sögðu eru sjálfsagt til faglegri útskýringar á fyrirbrigðinu. Ég er bara að hugsa upphátt (eða í letri fyrir pjúristana). Og vissulega tölum við um Evrópu og evrur, en mér finnst annað prinsíp vera að verki þar.

Eikin og eplið

Það hefur stundum orðið vart við undrun fólks yfir orðatiltækinu að sjaldan falli eplið langt frá eikinni, því auðvitað vaxi ekki epli á eikartrjám. Iðulega er bent á að í íslensku sé þetta einfaldlega látið stuðla sem títt er hér á landi, sem ekki er gert í t.d. ensku þar sem sams konar hugsunarvilla kemur þ.a.l. ekki fram: „The apple doesn’t fall far from the tree.“

En til er önnur skýring ólíkt skemmtilegri, þótt sennilega þyki mörgum sú fyrri duga. Í Völsunga sögu (kap. 3) koma fyrir ótal orð yfir eitt og sama tréð:

Svo er sagt að Völsungur konungur lét gera höll eina ágæta og með þeim hætti að ein eik mikil stóð í höllinni og limar trésins með fögrum blómum stóðu út um ræfur hallarinnar en leggurinn stóð niður í höllina og kölluðu þeir það barnstokk. […] Svo er sagt að þar voru miklir eldar gerðir eftir endilangri höllinni, en nú stendur sjá hinn mikli apaldur í miðri höllinni sem fyrr var nefndur.

Apaldur er forníslenskt orð yfir eplatré, getur raunar staðið fyrir hvers konar tré sem ber ávöxt, enda þætti það nú sennilega konunglegri eign að hafa í höllinni en eitthvert eikartré. Hvað segir þá orðabók Fritzners um það að sama tré skyldi vera kallað eik?

Ordet [eik] synes […] at være brugt om større Træer i Almindelighed […] Især har det dog været brugt om frugt- bærende Træer (se under apaldr 2, aldin, epli, jvf gsv. bærandz træ se Gloss. til Schlyters Udg. af Östgöta- lagen og M. Erikssons Landslag), idet eik og apaldr uden Forskjel betegnede ethvert Træ der har epli eller aldin Flat. I, 10210; Herv. 3307; ligesom apaldr og eik Völs. 877.

Og þar höfum við það. Hefðin fyrir því að rugla saman eikartrjám og eplatrjám er að minnsta kosti jafngömul Völsunga sögu, áreiðanlega talsvert eldri. Ef einhver leiðréttir ykkur um eikina og eplið þá getið þið bent viðkomandi á þetta.

Blæbrigði málanna

Eftir að ég fór að ferðast mikið um Norðurlöndin hef ég skemmt mér því meira yfir þeim orðum sem hafa ólíka merkingu á milli landa. Það sem er sjovt á dönsku er til dæmis gøy á norsku, sem er sama orðið og gay í ensku og hýr í íslensku. Ólíkt seinni tveim málunum er það enn notað í upphaflegri merkingu í norsku.

Uppáhaldið mitt er samt roligt í sænsku. Það tók mig tíma að átta mig á því hvers vegna Svíum þætti svona rólegt að kynnast mér og hvernig það gæti passað að metaltónleikar hefðu verið „djöfull rólegir“. Svo komst ég náttúrlega að því að það sem Svíum finnst vera roligt er það sem Íslendingum þykir skemmtilegt eða gaman, og hefur því svipaða merkingu og sjovt, sem getur hvorutveggja verið fyndið eða skemmtilegt, eða gøy, sem er það sem er hýrt eða skemmtilegt.

Semsé rólegt, skemmtilegt, fyndið og hýrt þegar grunnmerkingar fjögurra tungumála eru teknar saman. Hljómar það ekki einsog staðalmynd um einhvern þjóðfélagshóp?

Minni kvenna – árshátíð Mímis 2007

Á hverri árshátíð Mímis, félags stúdenta í íslenskum fræðum, eru flutt minni bæði karla og kvenna. Fyrsta veturinn minn í íslenskunni var ég beðinn að flytja minni kvenna. Oft hefur fólk rifjað þetta upp við mig í samræðum og hvatt mig til að birta ræðuna sem fræg sé að endemum, einhverra hluta vegna. Og nú loks við að hreinsa út pósthólfið mitt fann ég minni kvenna af árshátíð Mímis 2007 og er ekki frá því að pistillinn hafi bara elst nokkuð vel. Gjörið svo vel:

Án kvenfólks væri ég ekki til. Þótt ekki væru fleiri ástæður til ber ég þónokkrar taugar til kvenna. Fyrir svo hátíðlegt tilefni sem árshátíð Mímis er fannst mér þó tilfinningarökin hrökkva skammt til, svo ég ákvað að leggja á mig eilitla rannsóknarvinnu. Því stendur til efnda að sýna fram á mikilvægi kvenna með vísindalegum hætti – með tilvísunum og öllu. Í því augamiði verður helst stuðst við rannsóknir fræðimanna af Elmtarydskólanum á sviði þverfaglegra samanburðar-fræða.

Eðlilegt hlýtur að teljast að hefja slíka umfjöllun á Íslandi, og þá ekki síst á þeim íslensku handritum sem einu nafni eru nefndar Íslendingasögur. Margan fróðleik má í þeim finna en eitt stendur þar upp úr sem vakti sérstaka athygli mína: Í Íslendingasögum eru konur reglulega nefndar drengir.

Feminískir norrænufræðingar, svo sem Torben Isaksen, líta svo á að þær konur sem töldust til skörunga hafi einar þótt viðurkenningar feðraveldisins verðar, og því nefndar drengir til að varpa ljósi á karllegt eðli þeirra, til aðgreiningar frá teprunum (Isaksen, 1971). Hins vegar er það eindregin skoðun undirritaðs að ekki einungis sé það helber misskilningur, heldur hafi því beinlínis verið öfugt farið; nefnilega að það hafi verið svo eftirsóknarvert að vera kvenmaður á Íslandi, að karlmenn yfirfærðu hið karllæga yfir á kvenkynið í því augamiði að geta sjálfir að nokkru leyti öðlast kvenleika. Þetta fyrirbæri nefnist afturbeygð yfirsjálfsfærsla og er klassískt minni meðal póstfreudískra bókmenntafræðinga (Süskind, Stockmann og Häuser, 1988).

Þar að auki, með agnarlítilli etymólógískri staðreyndatilfærslu, má færa rök fyrir að orðið ‘drengur’ sé dregið af frumforngelíska nafnorðinu ‘drangloch’, sem merkir stúlka. Að samanlögðu þessu tvennu eru konur ekki menn en drengi gæti eðlilega dreymt um að verða stúlkur.

Á tímum mýkeneumenningarinnar á Krít þótti einnig eftirsóknarvert að vera kona, svo lítið sé sagt. Af freskum konungshallarinnar Knossos má sjá að karlmenn gengu um í pilsum og létu hár sitt vaxa sítt. Mýkenar fundu ennfremur upp vatnssalernið til að gæta fyllsta hreinlætis kringum sig, og hefur kynjafræðingurinn Susan Samstag gert því skóna að hönnun þess beri merki kvenlegs hugvits. Ennfremur hafa rannsóknir hennar bent til að konur hafi í raun drottnað yfir karlmönnum ekki einasta á Krít, heldur um gjörvallt Eyjahafið (Samstag, 1931). Fræðimenn á sviði fagurfræða hafa tekið undir þetta sjónarmið og m.a. bent á að konur eru langtum fallegri en menn, og því sé það alls ekki ólíklegt (Richards og Merryweather, 1958). Auk þess er almennt viðurkennt innan sagn- og stjórnmálafræði, að lýðræðishefðin eigi ekki einungis uppruna sinn að rekja til Grikklands, heldur til niðja forngrísku kvennanna beinlínis (Frederiksen, 1941; d’Montagnan, 1975).

Arfleifð Grikkja og Íslendinga eru þannig að nokkru samtvinnuð. Í Völuspá leitar vitrasti karl allra karla ráða hjá kvenmanni, í Þrymskviðu klæðir Þór sig í kvenmannsföt til að endurheimta sjálfsmynd sína – klassískt dæmi um afturbeygða yfirsjálfsfærslu – og í Snorra-Eddu er það kona sem ræður úrslitum um hvort sjálfur guðinn Baldur fær að lifa. Í grískri goðafræði sést það þó ef til vill gleggst hversu mikilvægar konur eru, á því að guðirnir heillast af konum, en fyrirlíta karla svo mjög að þeir láta erni kroppa úr þeim innyflin. Gáfuðustu, fegurstu og sterkustu grísku guðirnir eru jafnframt konur, og allt frá árdögum hefur karlmenn dreymt um að komast til viðlíka paradísar og kvenríkisins Lesbos.

Að ofanfengnum niðurstöðum dregnum saman má komast að þeirri heildarniðurstöðu að konur séu rót sjálfrar siðmenningarinnar; þær eru alltumlykjandi í mannkynssögunni, þær skapa hugræn og lífeðlisfræðileg skilyrði fyrir jafnt getnaði og þrifnaði karlmanna, og síðast en ekki síst eru konur þekkt trúar- og bókmenntaminni. Af nógu er að taka.

Það er því eindregin niðurstaða mín, í samræmi við samantekt á rannsóknum víðsvegar um heiminn, að konum verði aldrei sýndur nægur sómi, að sér lifandi eða látnum, og legg ég til að viðstaddur karlpeningur lyfti glösum sínum hátt á loft, til heiðurs hinum undurfögru og fullkomnu kvenbetrungum vorum. Skál!

Á íslensku má alltaf finna orð

Stelpurnar kölluðu á athygli mína rétt í þessu. Þegar hún var fengin spurði sú yngri þá eldri hvort hún vildi kynnast sér. Sú eldri játti því og þær nudduðu kinnunum saman, eða „gerðu a“ einsog það hét víst eitt sinn.

Á sunnudaginn heyrði ég svo hið frábæra orð pomsur í fyrsta sinn. Pomsur eru hraðahindranir, nefndar svo af því maður „pomsar svona niður“.

Þrjár breytingar á orðnotkun

1. Að vera sáttur við eitthvað. Í mínum huga merkti þetta alltaf að hafa sætt sig við að eitthvað væri kannski ekki eins gott og við væri að búast, t.d. „nýjasta GusGus platan er ekki eins góð og allir sögðu, en ég er sáttur við hana.“ Árið 2001 heyrði ég þetta fyrst notað með öfugum formerkjum. Þá hafði vinur minn fundið gamlan leðurjakka sem hann var „heavy sáttur með“, í merkingunni að hann var stóránægður. Síðan þá hef ég rekist á þetta víða, og mér sýnist meginreglan vera sú að sé atviksorði skotið framan við þá það mjög jákvæða merkingu að vera sáttur. Ég hef þó líka heyrt þessu fleygt á gamla mátann með nýju merkingunni, en þá er viðkomandi jafnan sáttur með eitthvað en ekki við.

2. Eitthvað er snilld. Held ég hafi fyrst heyrt þetta kringum 1997 á X-inu 9.77. Þá var sagt að eitthvað lag væri „gargandi snilld“. Þetta er orðið rótgróið núna, og eldri kynslóðir eru farnar að segja þetta, en ég man að þetta kom mér á óvart. Áður var snilld einhvers fólgin í hluta einhvers, en ekki heild þess, t.d. „snilldin við Strawberry Fields felst í skiptingunni milli tóntegunda frá intróinu yfir í viðlagið“. Núorðið er jafn algengt að það sé heildin sem er snilld.

3. Að kunna að meta eitthvað. Þetta læt ég fylgja með að gamni af því það náði aldrei fótfestu, svo ég viti. Þá höfðu nokkrir vinir mínir tekið upp á því að nota þetta orðalag yfir allt sem þeim fannst frábært. „Ég kann að meta þá mynd“ merkti „þessi mynd er frábær“. Fyrir mér fól orðalagið þó alltaf í sér niðrun gagnvart viðmælandanum, einsog hann kynni ekki að meta myndina líka – sem er einmitt upphafleg merking. Sá sem ekki kann gott að meta veit einfaldlega ekki betur. Upphafleg merking getur líka borið með sér þakklæti, „ég kann að meta hjálp þína“, en það er sjaldgæft og getur virst hálfafsakandi.

Þetta er auðvitað aðeins mín túlkun. Það væri gaman að heyra frá lesendum (ef einhverjir eru) hvað þeim finnst.

Íslensk tunga og börn hennar

Sem íslenskufræðingi þykja mér athyglisverð tvö þingmál sem Árni Johnsen hefur verið í forsvari fyrir undanfarnar sex vikur. Hið fyrra er þingsályktunartillaga lögð fram af fulltrúum allra flokka skömmu fyrir miðjan desember, með Árna að frummælanda,sem snýst um að stofnað verði prófessorsembætti við Háskóla Íslands kennt við Jónas Hallgrímsson „með vörn og sókn fyrir íslenska tungu að meginmarkmiði.“ Í greinargerð með tillögunni sagði Árni að „íslensk tunga sé ankeri íslensku þjóðarinnar, lykillinn að sjálfstæðri menningu og þjóðerni.“ Þar segir ennfremur:

Enn andar suðrið sæla af tungutaki Jónasar og það er mikilvægt að virkja þessa auðlind inn í hjartslátt þjóðarinnar í starfi og leik. Einn af mörgum möguleikum er sá spennandi kostur að Háskóli Íslands skapi rúm um borð í móðurskipinu fyrir prófessorsembætti tengt nafni Jónasar Hallgrímssonar, prófessorsembætti sem hefði það markmið að fylgja íslenskunni áfram með reisn og styrkja íslenska ljóðrækt.

Það sem stendur upp úr hér er ekki að mínu viti kreddufullur þjóðernisrembingurinn, oflátungsfullt orðalag Árna eða fábjánalega banal tilvísun í Ég bið að heilsa, heldur það að Árni virðist ekki gera sér grein fyrir viðfangsefnum málfræði. Málfræði er sú vísindagrein sem gerir samanburð á málfræði skyldra tungumála, rannsakar sögulegar málbreytingar, málfræði og málnotkun nútímamáls, sem einmitt að stærstum hluta snýst um þær málbreytingar sem við sjáum á tungumálinu á líðandi stund. Prófessorsembætti sem stuðla ætti að vernd íslenskrar tungu væri þar með embætti sem gengi gegn öllum vísindalegum vinnubrögðum og væri þ.a.l. ekki akademískt. Ennfremur er óskiljanlegt hvernig sérstakur prófessor ætti að geta styrkt íslenska ljóðrækt. Orðið sjálft, ljóðrækt, hljómar einsog týpískt rómantískt og nasjónalískt þvarg um snilli skáldsins, bara einsog flest það sem hefur verið skrifað um Jónas Hallgrímsson raunar.
Prófessorar hafa hinsvegar akademískum skyldum að gegna, sem og kennsluskyldu, og það bryti gjörsamlega í bága við faglegan heiður íslenskuskorar að hleypa einhverjum Eiði Svanberg inn í kennslustofur til að bulla sinn fasisma um að eitt megi en annað ekki. Hverslags vísindaleg vinnubrögð stúdentar ættu að læra af fordæmingu nýja þolfallsins eða „þágufallssýki“ virðist ekki skipta Árna neinu máli, og öll framtíðarþróun tungumálsins er sett til hliðar. Ég gef honum þó að slíkt embætti væri vel nefnt eftir Jónasi Hallgrímssyni og öðrum forkólfum uppvakningar þeirrar gullaldaríslensku sem einmitt var ekki töluð á 19. öld – heldur skrifuð, en aldrei töluð, á 12. öld. Hans helsti samverkamaður í þeim geira var Konráð Gíslason, og hvet ég alla sem líta upp til þeirra kumpána til að prufa að lesa bréf Konráðs til Jónasar. Þau eru fullkomlega óskiljanleg þeim sem ekki þekkir 19. aldar íslensku, latínu og dönsku. Meiri málverndin á þeim bænum.
Þá að hinu atriðinu, sem er frumvarp Árna og Sigmundar Ernis Rúnarssonar þess efnis að Madina Salamova, sem til stendur að vísa frá Noregi, verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Hluti af rökstuðningnum er sá að Madina tali svo ægilega góða norsku þrátt fyrir að vera útlendingur – enda þótt fram komi í sama þingskjali að hún hafi búið í Noregi frá blautu barnsbeini – og að hún hafi „mótast fyrst og fremst af siðum norræns samfélags“, sem væntanlega þýðir að hún er ekki einhver grábölvaður múslimi heldur siðmenntuð manneskja með öll þau reiðinnar býsn af kristnum og norrænum gildum í farteskinu sem Árna eru svo hugleikin. Þá segir:

Íslendingar leggja höfuðáherslu á að verja jafnt sjálfstæði einstaklinga sem þjóða og það er mikið kappsmál fyrir Íslendinga að verja norræna samfélagið, menningu þess, tungu, drifkraft og kærleika. Mál Marie Amelie, eins og hún kallar sig, er sérstakt ef ekki einstakt og þarf að meðhöndlast sem slíkt. Hún talar einstaklega fagra norska tungu af útlendingi að vera. Íslendingar vilja leggja sérstaka áherslu á að verja norska tungu sem barn íslenskrar tungu. Íslenska tungan hefur haft þrek til að standa af sér alvarleg áhrif annarra tungumála á síðustu 1000 árum á sama tíma og önnur norræn tungumál hafa tekið stakkaskiptum.

Ég veit ekki hvað þetta segir um mig sem Íslending þar sem ég legg enga sérstaka höfuðáherslu á þessi miklu kappsmál, en fyrir utan óþolandi þjóðrembuna sem þarna kemur fram, kemur Árni, auk Sigmundar Ernis, aftur upp um vanþekkingu sína á málvísindum. í fyrsta lagi er íslenska ekki norrænt móðurtungumál, það tungumál er frumnorræna og hún er fyrst og fremst varðveitt í rúnaristum. Hér er smá stikkprufa af Gallehushorninu frá því um 400 e.Kr.:

ek hlewagastir holtijaR horna tawido

Svo lík er nú sú fortunga. Á 9. öld, eftir að frumnorræna hafði þróast út í það sem Íslendingar í hroka sínum gjarnan kalla forníslensku en aðrar norrænar þjóðir kalla fornnorrænu, fluttu margir Norðmenn, auk að einhverju leyti Svía og Dana, búferlum og settust að á Englandi, Írlandi, Hjaltlandseyjum, Færeyjum, Íslandi og víðar. Þannig greindust vestnorrænu málin að og blönduðust misjafnlega mikið tungum annarra þjóðabrota, og enda þótt íslenska hafi breyst minnst allra þessara mála síðan á þjóðflutningatímunum, að talið er, þá gerir það hana ekki fremur en færeysku að neinni formóður norrænna mála. Ritöld hefst á 12. öld og má segja að málin séu enn innbyrðis læsileg um það leyti (þótt ekki þori ég að fullyrða um framburð að svo stöddu), en þegar á 13. öld hafa austnorrænu málin tekið miklum stakkaskiptum:

Úr lögum Vestgota (fornsænska):
Varþær lekære barþær, þæt skal e ugilt varæ. Varþær lekari sargaþær, þen sum með gighu gangar æller meþ fiþlu far æller bambu, þa skal kvighu taka otamæ ok fytiæ up a bæsing. Þa skal alt har af roppo rakæ ok siþæn smyria. Þa skal hanum fa sko nysmurþæ. Þa skal lekærin takæ quighuna um roppo, maþær skal til huggæ mæþ hvassi gesl. Giter han haldit, þa skal han havæ þan goþa grip ok niutæ sum hundær græs. Gitær han eigh haldit, havi ok þole þæt sum han fek, skam ok skaþæ. Bidi aldrigh hældær ræt æn huskonæ hudstrukin.
Úr skánskum lögum (forndanska):
Far man kunu ok dør han, før en hun far barn, ok sighir hun ok hænne frænder at hun ær mæþ barne, þa skal hun sitta i egen bægia þerre uskiftø tiughu uku ok til se mæþ sinum ueriændæ, ær hun æi mæþ barne ok ær þær godre kuina uitnæ til, þa skiftis egn þerræ, hus ok bolfæ ok køpe iorþ, annur iorþ gangæ til rætræ arua.

Forníslenskan sjálf er svo aftur ekki nándar nærri það lík nútímaíslensku að ekki séu lagðir undir hana tveir viðamiklir áfangar á BA stigi við íslenskuskor og annað eins á MA stigi. Enda geta Íslendingar ekki lesið handritin, einsog gjarnan er sagt – ekki án þjálfunar.
Það liggur því fyrir að norska er ekkert barn íslensku heldur öfugt ef eitthvað er, né sé ég að Íslendingar sjái sér nokkra hagsmuni í að vernda hana, enda til hvers að vernda það sem sér um sig sjálft? Íslenska hefur ennfremur ekki haft „þrek til að standa af sér alvarleg áhrif annarra tungumála á síðustu 1000 árum á sama tíma og önnur norræn tungumál hafa tekið stakkaskiptum“, einsog Árni og Sigmundur halda fram, heldur þvert á móti. Örustu breytingarskeið íslensku í seinni tíð voru 19. og 20. öld og allar líkur eru á því að sú 21. verði þeirra skæðust – rannsóknarniðurstöður félaga míns úr íslenskunni, Antons Karls Ingasonar, leiða raunar í ljós að þolfallið muni að líkindum hverfa úr íslensku á næstu 30 árum.
Því tungumáli sem talað var á Íslandi á 19. öld var aftur breytt með beinum aðgerðum og málvernd sem leitaði í klassískan uppruna ritaðrar íslensku, 12. aldar sagnir, og augljóst er með fyrrnefndri þingsályktunartillögu Árna hvað það er sem honum gengur til með þessu. Hvað varðar erlend áhrif á íslensku þarf ekki að leita lengi fanga áður en við stöndum uppi með fangið fullt. Forsendur Árna fyrir vernd íslensku jafnt sem norsku eru því algjörlega út í hött. Tungumálið er það sem fólkið talar, ekki það sem Árni vill að það tali, og tungumál taka breytingum. Þau tungumál sem ekki taka breytingum eru dauð tungumál. Ekki tala Grikkir forngrísku, eða hvað?
Að íslensk tunga sé „ankeri íslensku þjóðarinnar, lykillinn að sjálfstæðri menningu og þjóðerni“ er kannski rétt að takmörkuðu leyti, en aðeins upp að því marki sem tungumálið er frjálst, en ekki bundið í klafa einhverrar forræðishyggju sem heimtar að segja fólki til um hvernig það á að tala. Árna til ennfrekari upplýsingar má benda á að stafsetning var ekki samræmd á Íslandi fyrr en árið 1918, og langt fram eftir 20. öld skrifaði hver maður einsog honum sýndist – og það sama á við um Jónas Hallgrímsson. Það gæti Árni sjálfur séð ef hann liti við á Handritadeild Landsbókasafnsins. „Reglur“ íslenskunnar eru líka alltaf að breytast, t.a.m. þegar z var aflögð í íslensku árið 1973, nokkuð sem félagar hans á Morgunblaðinu virðast ekki fremur hafa tekið eftir en Árni.
Að því sögðu er mér ekki stætt á öðru en að tækla þessa ömurlegu þjóðernishyggju sem skín í gegnum málflutning Árna Johnsen. Þeir Sigmundur Ernir bera það upp á Norðmenn að þeim sé hjartahlýja í blóð borin, sem er eins fráleitt og móðgandi og því var ætlað að vera hrós. Þrátt fyrir meðfædda hjartahlýju eru Norðmenn þó ómanneskjulegir og ónútímalegir að vilja víkja Madinu úr landi – undir þann part get ég þó tekið. Þessi mótsagnakenndi þjóðernisstimpill fær svo yfirhalningu í lok tillögunnar þegar gefið er í skyn að Íslendingar séu betri en Norðmenn, og þeim beri að taka við Madinu, vegna þess að allar aðrar þjóðir skorti skilning á orðinu vinarþel!
Það er nú meiri bannsettur hrokinn sem vellur þarna upp, og kannski ekki skrýtið að menn líti með svo miklum yfirburðum á sjálfa sig þegar öll þeirra sjálfsmynd byggist á rangtúlkunum, misskilningi og þeirri þjóðrembu sem Fjölnismenn börðust svo heitt fyrir að heilaþvo Íslendinga með. Það skýtur skökku við að kalla aðra ónútímalega þegar maður sjálfur er geirnegldur með heilann á miðöldum sveiflandi rassgatinu í núinu.
Þá legg ég heldur til að Árni Johnsen og Sigmundur Ernir setjist aftur á skólabekk með það fyrir augum að læra málfræðina upp á nýtt. Fyrst þeim er svo tíðrætt um „íslenska tungu“ geta þeir félagar byrjað á Íslenskri tungu, fyrsta bindi af þrem. Þar kemur sitthvað fram um forsögu íslensku sem þeim, og sér í lagi Árna, virðist einstaklega illa tamt að tileinka sér. Það sakaði kannski heldur ekki ef Árni kynnti sér Íslandssöguna sjálfa upp á nýtt, svo hann sæi nú endanlega að fortíðarljóminn er eftir allt saman kannski ekkert svo glæsilegur þegar nánar er að gætt, og að Ísland er sannarlega ekki best í heimi.
– Birtist fyrst á Smugunni þann 3. febrúar 2011.

Ögn um málfar

Í Morgunblaðinu í dag birtist pistill eftir Guðmund Egil Árnason sem ber heitið Misskilningur í íslenskri menningu, sem er einmitt sérstakt áhugamál hjá mér. Að mörgu leyti er pistillinn ágætis áminning um þann tvískinnung sem felst í óhóflegri málvernd, einsog þeirri sem stunduð er af „íslenskum menningarstofnunum“, einsog hann kemst að orði. Þar nefnir hann sérstaklega Mannanafnanefnd og raunar menntakerfið í heild sinni, sem er kannski eilítið bratt hjá honum.

Tvennt hnaut ég sérstaklega um í pistlinum. Guðmundur Egill segir á einum stað:

Mjög fáir Íslendingar gera sér grein fyrir því að íslenska er hvað skilning varðar (for all cognitive purposes) jafnólík forn-íslensku og sænska. Sama stafróf var ekki notað og gjörsamlega allt annað hljóðkerfi. Ördæmi: Í íslensku voru tvö æ, sem voru löng sérhljóð í stað tvíhljóðans sem við notum í dag, tvö ö, sem að vísu voru önghljóð en hljómuðu eins og o annars vegar og danskt Ø hins vegar og svona mætti lengi telja án þess að lesendur skildu nokkuð. Né skildu lesendur nokkuð ef þeir læsu alvöru-forníslensku eða hlustuðu á forníslenska hljóðbók en ekki námsbækur skólanna. Þær gefa mjög blekkjandi mynd af fornri íslensku.

Ég hefði haldið að útgáfa fornrita hefði það einmitt að markmiði að færa þau nær nútímalesendum, ekki að gefa neina sérstaka mynd af forníslensku. Að sama skapi þykir mér hæpin ályktun að íslenska sé jafn ólík forníslensku og sænska. Það þýddi að í íslensku og sænsku hefðu sömu eða hliðstæðar hljóðbreytingar átt sér stað þegar staðreyndin er sú að í íslensku voru breytingarnar ekki nærri eins róttækar. En ég vil aðallega ræða þá fullyrðingu að venjulegur lesandi geti ekki skilið skrifaða forníslensku.

Sjálfum þykir mér ýmist of mikið eða of lítið gert úr þeim mun sem Guðmundur Egill talar um. Því er stundum haldið fram að Íslendingar geti lesið handritin, sem er satt upp að því marki að til eru Íslendingar sem geta það, enginn þó án þjálfunar svo ég viti. Þá er hinum öfgunum stundum haldið fram að tungumál handritanna sé það ólíkt nútímaíslensku að í raun sé það ekki sama tungumál. Það er hárrétt hjá Guðmundi Agli að að forníslenska er gjörólík nútímaíslensku að framburði og að stafsetningin var um margt ólík, en vandamálið er ekki alfarið bundið við málfar.

Ein helsta ástæða þess hversu torsótt það getur verið að lesa handritin er að þau eru illlæsileg sökum aldurs og meðferðar. Þá eru þau uppfull af torskildum skammstöfunum sem var beitt til að spara pláss á bókfellinu. Málfar og stafsetning verður fyrst helsti múrinn þegar handritið hefur verið gefið út stafrétt, en jafnvel það ætti ekki að vera neinum neinn óyfirstíganlegur múr þótt margt hafi breyst. Sjálfum þætti mér réttara að segja að munurinn á forníslensku og nútímaíslensku sé umtalsverður, en engan veginn eins afgerandi og Guðmundur gefur í skyn.

Þá segir hann strax í kjölfarið:

Þegar ný orð koma úr ensku eða mönnum dettur sjálfum eitthvert orð í hug þurfa þeir að bíða eftir næstu orðabók frá Merði Árnasyni til þess að hann geti sagt okkur hvort orðið sé nothæft eða ekki í blöðum landsins. Það er eins gott að maður stelist fyrir aftan hann í bíó þá og hvísli því að honum, ef maður vill fá leyfi til að nota það á opinberum vettvangi

Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Fólk hefur vissulega einhverja undarlega tröllatrú á orðabókum, en Íslensk orðabók er ekki kanóna einnar eða annarrar stofnunar, nema veri það ritstjórans sjálfs. Orðabækur eru ekki fræðirit heldur eru þær háðar duttlungum ritstjóra hverju sinni. Í íslenskudeildinni var gefið dæmi af ritstjóra Íslenskrar orðabókar sem fjarlægði orðið ‘valsari’ frá fyrri útgáfu en bætti inn ‘kr-ingur’ í staðinn. Þó að Mörður hafi viljað hafa ‘sjitt’ í orðabókinni sinni þýðir það ekki að það sé skyndilega orðin íslenska, og það þótt hann hefði sleppt því þýddi það ekki heldur að það væri það ekki. Ekki frekar en valsari hætti að vera íslenska þegar það var fjarlægt úr orðabókinni.

Tungumálið er það sem fólk talar og það er það lengsta sem nokkur kanóna nær. Mörður ræður ekki hvernig fólk talar, það gerir fólk sjálft, enda þótt til sé einstaka fasisti sem heldur öðru fram. Þess vegna býðst Guðmundi Agli að beita hvaða slangri sem hann vill án þess það sé neitt óíslenskara en hvað annað. Enda ef fólk sletti ekki þyrfti enga Merði til að skemma daginn fyrir Eiði Guðnasyni og hans nótum. Útgefnum skoðunum Marðar á því hvað sé íslenska þarf á hinn bóginn ekki að taka neitt alvarlegar en manni sjálfum sýnist.