Almennilegt

Veðrið í gær var stórmagnað. Það hefur raunar sína ókosti að sækja nám til Reykjavíkur ef maður býr í Hafnarfirði. Ekki síst ef maður hefur hangið yfir kaffibolla til lokunar kaffistofu Árnagarðs, gerir svo tilraun til að skafa af sumardekkjuðum bílnum þótt það þýði lítið í ofankomunni, og uppgötvar eigi fyrr en í miðri ösinni að maður lagði af stað á versta mögulega tíma, einmitt þegar allir reykvíkingar virðast halda að þeir búi í Hafnarfirði.

Umferðin var furðugreið raunar, síðustu tuttugu mínúturnar af rúmlega klukkutíma langri bílferðinni frá Háskóla suður í fjörðinn. Syðsti endi Reykjavíkurvegarins var líkastur skíðabrekku og samúðarblandnar hláturviprur munnvika sendi ég þeim sem sátu fastir eftir endilangri Strandgötu upp hálfa brekkuna í hina áttina vegna áreksturs ofarlega. Leikurinn var víst ekki búinn því lögreglan stýrði umferðinni síðustu gatnamótin eftir hringtorgið við Hvaleyrarbrautina, en gleymdi víst íbúum holtsins sem sátu fastir í bílaröð næstu tuttugu mínúturnar eftir að ég kom heim, ef ekki lengur. Annars nýt ég þess að hafa svona mikinn snjó, mér finnst það algert æði. Bara hí á þá sem fara í fýlu.

Að þessu sögðu langar mig að kynna sambland nýyrðis og tökuorðs. Það hefur löngum farið í taugarnar á mér þegar litli bróðir minn sýnir mér blingrið sitt og kallar það bling bling. Þess vegna mælist ég til að við köllum þetta bara blingur, beygist eins og glingur.

Að vera andsofa

Það er kannski rétt að geta heimilda við síðustu færslu, en vel ríflega þær upplýsingar sem þar er að finna fékk ég í Símenntunarstöð Háskóla Íslands, það er að segja, kaffistofunni í Árnagarði.

Auðvitað hlaut ég að vakna klukkan fjögur á laugardegi þegar ég gæti ekki innt þann gjörning til að leysa höfuð mitt að mæta á réttum tíma í skólann. Ekki hef ég látið eins og prófessor hálfa menntaskólagönguna til að láta spyrjast út að ég sinni háskólanáminu.

Er það annars bara ég eða leiddist Jóhannesi Gísla svona herfilega í orðmyndunarfræðinni í dag? Segjum tveir þá. En það gengur náttúrlega ekki að kennarinn virðist ósannfærður sjálfur. Ef hann reynir ekki að sannfæra nemendur sína um að sitt fag sé langflottast eignast hann aldrei lítil vinnudýr til að stimpla inn hrágögn fyrir sig. Ég skora því á Jóhannes Gísla fyrir næsta tíma að finna sannfærandi rök fyrir því að stofnhljóðavíxlin Akranes – akurnesingur séu svalari en Bruce Willis (já, ég veit þú lest þetta).

Annars heldur vígbúnaðarkapphlaup bókmenntanna og málfræðinnar ávallt áfram. Sé kennarinn góður, sem oftast er, á ég til að ganga úr bókmenntakúrs í málfræðikúrs sannfærður um að þar liggi framtíðin, aðeins til að skipta um skoðun á fyrstu tíu mínútunum. Svo snýst dæmið við. Líklega er eina leiðin til að útkljá þetta að Mímisliðar kjósi tvo fulltrúa af hvoru slekti til að gera út um málið í karlmannlegri leðjuglímu. Tek við atkvæðum hér í athugasemdirnar.

Að því sögðu ætla ég í bakaríið, meðan ég reyni að afmá myndina sem þessar síðustu hugleiðingar framkölluðu í höfðinu á mér.

Nördismi dagsins

Til er sterkbeygða sögnin þysja í íslensku máli sem eingöngu hefur varðveist í þátíð, þusti. Sögninni skylt er karlkyns nafnorðið þys, sem nær eingöngu þekkist með orðasambandinu ys og þys.

Nútíð sagnarinnar hefur verið endurupptekin í íslensku ásamt veikbeygðri þátíð, þysjaði, og merkir aðdrátt (zoom á ensku). Einnig eru til svonefndar þysjuvélar, til dæmis Þjóðarbókhlöðunni, sem notaðar eru til að skoða gömul ljósprentuð dagblöð.

Annað kvöld þysja ég máske í reisugilli. Það er annað orð sem tekið hefur breytingum en þó ekki nærri jafn miklum, en lesendur geta fundið út sjálfir hvaða breytingar það eru og í hvorri merkingunni ég mun þysja.

Kjezlan hérna megin er þokkó hressó

Þessa fegurð fékk ég senda nú í morgun. Finnst ég betri maður eftir á.

Afsakið annars allt málfræðibrjálæðið síðustu daga. Merkilegt samt hvernig allir virðast hafa áhuga á málfari en færri á málfræði. Held að fólk hafi almennt meiri áhuga á að stýra hvernig fólk talar en að vita af hverju það talar eins og það gerir.

Þolmyndarflótti

Setning: Það var hringt í mig.
Svar: Ég myndi frekar segja t.d. ég fékk símtal.

Viðbót
Af hverju myndi nemandi á framhaldsskólastigi svara svona í könnun?

Fyrir sjö árum rannsakaði Sigríður Sigurjóns málnotkun gagnfræðaskólanema um allt land í leit að nokkru sem kallað hefur verið nýja þolmyndin (dæmi: það var bara hrint mér á leiðinni í skólann). Niðurstöðurnar birtust í Íslensku máli og almennri málfræði 2002 og svo virðist vera sem ýmsum hafi runnið kalt vatn milli skinns og hörunds því markvisst var tekið til við að útrýma þessari málvenju. Það árið voru krakkar fæddir 1988 að byrja í áttunda bekk.

Kannanir okkar sem að spurningalistanum stöndum taka ekki til nýju þolmyndarinnar þótt þar sé spurt um hana. Þar má finna setningar eins og það var lamið e-n, það var hrint e-m o.s.frv., þar sem notað er óákveðna frumlagið það svo þolandi verði í andlagssæti. Þolmyndin er „ný“ af því einfaldari setningar á borð við ég var laminn eða mér var hrint, eins og hefð er fyrir að segja, standa einnig í þolmynd. Setningin það var hringt í mig telst hins vegar ekki til nýrrar þolmyndar, þess vegna slæddist hún með á spurningalistann, bara í gamni. Það er ekki hægt að segja ég var hringdur í merkingunni það var hringt í mig.

Krakkar fæddir 1988 eru á síðasta ári í framhaldsskóla núna. Ég er með 189 útfyllt svarblöð frá krökkum fæddum 1992 til 1988. Og ég þori varla að kíkja eftir þessu.

Sakn

Ég sakna ályktandi tölfræði. Slíkt gæfi miður litlar upplýsingar í minni rannsókn. Hvernig stendur eiginlega á því að fólk virðist margt hvert hafa gagnverkandi reglur í málvitund sinni? Er verið að krukka of mikið í skólakrökkum? Er fólk hætt að tala af ótta við að vera leiðrétt?

Hvað er ég að gera spyrjiði?

Til að svara þessari spurningu án þess ég þurfi að útskýra það fyrir ólíku fólki oft á dag þá er ég að lesa greinar eins og þessa til að auka skilning minn á viðfangsefni daganna:

„Ef unnt er að greina eitthvert mynstur sem talist getur einkennandi fyrir eintölubeygingu íslenskra sagna í germynd ætti það samkvæmt kenningu Wurzels að teljast grunnmynstur eintölubeygingarinnar í germynd. Eðlileiki annarra mynstra ræðst svo af því hve vel þau samræmast grunnmynstrinu; það er hið svokallaða kerfissamræmi. Eftir því sem tiltekið mynstur í eintölubeygingunni er líkara grunnmynstrinu þeim mun eðlilegra telst það og að sama skapi líklegra til að varðveitast í beygingarkerfinu. Á hinn bóginn er hætt við að eintölumynstur sem illa samræmist grunnmynstrinu taki breytingum og verði smám saman líkara grunnmynstrinu eða samhljóma því. þannig má segja að í beygingarkerfinu sé stöðug tilhneiging til að viðhalda kerfissamræmi. Þess væri þá að vænta miðað við þessa kenningu Wurzels að umræddar breytingar á eintölubeygingu sagnarinnar vilja væru ekki einföldun beygingarinnar einungis einföldunarinnar vegna, heldur breytingar sem færðu beyginguna í eðlilegra mynstur; slík breyting gæti vitaskuld falið í sér einföldun þó að hún þyrfti ekki að gera það.“

– Haraldur Bernharðsson. Ég er, ég vill og ég fær, bls. 74. Íslenskt mál og almenn málfræði, 27. árg. Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík, 2005.

Ef ykkur fannst þetta ekki áhugavert getiði semsé sleppt því að spyrja í framtíðinni. Ef ykkur á hinn bóginn fannst þetta áhugavert er ykkur líklega ekki viðbjargandi. Eina ráðið við því er að skrá sig í íslenskunám.