Málfarið

Hátt uppi í háum skóla sat ég með háan kaffibolla í tíma þar sem ræddar voru háleitar hugmyndir um setningarliði og orðaröð. Í akademísku hléi brá ég mér útfyrir í stundarandakt með jafnvel hærri kaffibolla en áður og kveikti mér í sígarettu. Varð mér þá litið á skilti frá Íslenskum aðalverktökum, hverra gröfur og brjálsemdarmaskínur tröllríða nú öllu á háskólalóðinni við byggingu hinna tveggja háu þekkingarhofa. Á skiltinu stóð: Óviðkomandi aðgangur bannaður. Ætli stríðið sé þegar tapað?

Á biðstöðinni fyrir utan Félagsstofnun stúdenta má finna auglýsingu frá Glitnisbanka, hvar stendur: Fjármögnun atvinnuhúsnæða. Það er svo margt að þessu orðalagi. Nú, það er svosum hefð fyrir því að tala um fjármögnun, þótt ég sé kannski ekkert sérlega hrifinn af því. Nú er til dæmis KB-banki með slagorðið „Settu þér markmið og byrjaðu að spara!“. Fyrst þetta er hægt, þá væri kannski til fyrirmyndar ef Glitnir segði heldur: „Við fjármögnum atvinnuhúsnæðið“, ef bankinn á annað borð stundaði fjáröflun fyrir viðskiptavini sína. En það gera bankar ekki, þeir lána peninga, en þeir fjármagna ekki nokkurn skapaðan hlut. Kannski helst það væri Landsbankinn sem hefur fjármagnað t.a.m. ljóðabókaútgáfu og fleira í þeim dúr.

Nú, þetta er eitt, en hitt er svo annað, að ég er ekki einasta viss um hvort hugtakið atvinnuhúsnæði sé nógu tækt. Það finnst a.m.k. hvorki í Orðabók Háskólans né Íslenskri orðabók og hér gæti allt eins verið átt við hús sem er húsnæði að atvinnu (!) og hús undir atvinnustarfsemi. Þess vegna finnst mér að Glitnir hefði betur komið með eitthvað álíka banalt og „Alhliða húsnæðislán“. Ef áherslan þarf nauðsynlega að vera á húsnæði til atvinnustarfsemi mætti segja: Húsnæðislán undir atvinnurekstur. Eða eitthvað. Bara eitthvað annað en þetta óþolandi klisjukennda auglýsingamálfar, sem skilgreina mætti sem svo: Leiðindafrasar sem hitta eiga í mark en ENGUM dytti í hug að láta út úr sér í daglegu tali.

Bloggað úr vinnunni

Sem ég buðlast við að falla ekki í öngvit í gegndarlausri baráttu við hita og ógleði mæti ég í skóla og vinnu og þykist vera hress. Svitna viðstöðulaust í lófum og í andliti. Það veit ekki á gott.

Stend greinilega styrkum fótum í inngangskúrsinum að málfræði hjá henni Siggu Sig. Hef verið að fá góðar einkunnir og er vel kominn á leið með að koma mér í mjúkinn hjá henni líkt og hjá öðrum kennurum gegnum tíðina (mér er það einstaklega lagið). Í dag gaf hún mér nefnilega áritaða skýrslu með kveðju frá höfundum, um rannsókn sem hún lét gera á málnotkun gagnfræðaskólanema veturinn 1999-2000, og ég tók þátt í. Þessu komumst við að í fyrsta tímanum sem var kenndur. Gaman að því.

Í dag var farið í tíðir og horf. Get ekki annað en tekið undir með Höskuldi Þráinssyni að það eru bara tvær tíðir í íslensku. Hinar tíðirnar lýsa nefnilega mun fremur horfi en tíð.

Sprúðlandi

Í bókinni Rokland eftir Hallgrím Helgason má finna svartan og sprúðlandi húmorinn úr 101 Reykjavík, ef marka má bókarkápu. Sprúðlandi?

Af öllum þeim orðabókum sem ég fletti upp í, þ.m.t. Íslenskri orðabók og orðabanka Íslenskrar málstöðvar, fann ég þessa orðmynd aðeins í lýsingarhætti nútíðar sagnorðsins sprúðla í Orðabók Háskólans. En enga merkingu eða dæmi um notkun.

Jafnframt kemur í ljós í Orðabók Háskólans að elsta heimildin um þetta orð er Þórbergs-Edda, bls. 176 í frumútgáfu frá 1941. Leit í yngri útgáfum leiðir ekkert í ljós á þessu blaðsíðutali.

orðinu flett upp í Google finnst aðeins téður lh. nt. af þessari sögn. Þar sést það m.a. notað í sambandi við fólk, frásagnir, drykki og sköpun. Leitarniðurstöður eru 84 að meðtöldum tvítekningum.

Hamskiptingar og kynjadýr önnur

Ok litlu síðar tók hún sótt ok fæddi sveinbarn, þó nokkut með undarligum hætti. Þat var maðr upp, en elgr niðr frá nafla. Hann er nefndr Elg-Fróði. Annarr sveinn kemr þar til ok er kallaðr Þórir. Hundsfætr váru á honum frá rist ok því var hann kallaðr Þórir hundsfótr. Hann var maðr fríðastr sýnum fyrir annat. Inn þriði sveinn kom til, ok var sá allra vænstr. Sá er kallaðr Böðvarr, ok var honum ekki neitt til lýta. Böðvari ann hún mest.
-úr Hrólfs sögu kraka ok kappa hans (Böðvars þætti).

Frægar eru slíkar goðsögur af sveinburði undir óeðlilegum kringumstæðum, hér fæðast þrír. Þannig hafði borið til að faðirinn, Björn, var hamskiptingur fyrir álaga sakir. Á daginn tekur hann á sig bjarnarham og er nauðbeygður til að drepa fé fyrir konungi, föður sínum, en á næturna er hann maður. Það verður þess aftur valdandi að hann leggst í útlegð, en þó freistar hann þess að leita uppi ástmey sína, Beru Karlsdóttur, og fer hún á brott með honum þar að sem Björn hefur sest að í helli. Þá um nóttina kemur undir hjá henni. Þá verður Björn nokkurs áskynja:

Svá grunar mik, at banadagr minn muni vera á morgun ok munu þeir fá mik veiddan, enda þykkir mér ekki gaman at lífinu fyrir ósköpum þeim, sem á mér liggja, þó þat eina sé mér til yndis, sem vit erum bæði, en þó mun þvi nú bregða […] Þú munt sjá liðit á morgun, sem at mér sækir, ok þá ek er dauðr, farðu til konungsins, ok biddu hann at gefa þér þat, sem er undir bóg dýrsins vinstra megin, en hann mun því játa þér. Drottningu mun gruna þik, þá er þú ætlar í burt, ok mun hún gefa þér at eta af dýrsslátrinu, en þat skyldir þú eigi eta, því at þú ert kona eigi heil, sem þú veist, ok muntu fæða sveina þrjá, er vit munum eiga, ok á þeim mun þat sjá, ef þú etr af dýrsslátrinu, en drottning þessi er it mesta tröll.
-Sama rit.

Það var einmitt fyrir drottingar þessarar sakir að svo er ástatt fyrir Birni, hún lagði á hann álögin þegar hann neitaði að sænga hjá sér, vegna ástar sinnar á Beru. Sambærilegar hugmyndir um álög vegna ástríðu er algengt minni og má t.d. finna í Brennu-Njáls sögu, sbr. sambandsslit Gunnhildar drottningar og Hrúts Herjólfssonar:

Hún tók höndum um háls honum og kyssti hann og mælti: Ef eg á svo mikið vald á þér sem eg ætla þá legg eg það á við þig að þú megir engri munúð fram koma við þá konu er þú ætlar þér á Íslandi að eiga en fremja skalt þú mega við aðrar konur vilja þinn.
úr Brennu-Njáls sögu.

Eins og sést á fyrstu tilvitnun komst Bera ekki undan því að kyngja því, ásamt fleiru, að örlögin láta ekki að sér hæða. Hún fæddi þrjá sonu sem spáð var, en álagabundið kjötið hafði kyngimögnuð áhrif á líkamsbyggingu tveggja þeirra. Merkastur þeirra er ef til vill Elg-Fróði, vegna þeirrar skírskotunar sem nafn hans hefur haft síðar, þ.e. þess samheitis sem orðið elgfróði er orðið í íslensku máli yfir flestar furðuskepnur, sbr.:

Uppruni orðsins finngálkn er óviss samkvæmt Íslenskri Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal. Sumir vilja tengja fyrri hluta orðsins við svonefnt meyljón eða sfínx, eða þá hina fjölkunnugu Finna. Orðið elgfróði virðist stundum hafa verið notað yfir líkar skepnur. Í heilagra manna sögum segir:

„Þess háttar skrímsli kölluðu skáldin centaurum, það kalla sumir menn elgfróða“.
-Vísindavefurinn, svar við spurningu: „Hvað er finngálkn sem minnst er á í Njáls sögu?“

Kentár er skepna sem er maður að ofan og hross að neðan, oftast eru þeir bogfimir og vitrir (sbr. stjörnumerki bogmannsins, eða sagitarium). Umrætt finngálkn í Njáls sögu fær þó ekki neina sérstaka umfjöllun:

En fyrir austan Bálagarðssíðu átti Þorkell að sækja þeim vatn eitt kveld. Þá mætti hann finngálkni og varðist því lengi en svo lauk með þeim að hann drap finngálknið.
úr Brennu-Njáls sögu.

Strax í kjölfarið ferðast Þorkell austur í Aðalsýslu og vegur þar flugdreka. Ekki fer þó mikið fyrir útlitslýsingu á þessum kynjaverum, þótt mikið og hreystilegt afrek megi það teljast að vega tvö slík skrímsl í einni og sömu ferðinni.
Orðið finngálkn á við um, líkt og elgfróði, hinar ólíkustu samblöndur manna og eða dýra, sbr.:

Finngálkn er það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.
Bókasafn Reykjanesbæjar [Jón Árnason I 611].

og:

… furðusagnakvikindi sem er maður ofan en dýr að neðan. Kunnustu furðuskepnurnar af því tagi eru svonefndir kentárar sem voru menn að ofan en hestar að neðan […] finngálkn [eru] í mannslíki að ofan en líkjast dreka að neðan.
-Vísindavefurinn, svar við spurningu: „Hvað er finngálkn sem minnst er á í Njáls sögu?“.

Finngálknið er hér viss útúrdúr, en vel sambærilegt elgfróðanum að fyrrgreindu leyti. Eitt er þó ótalið, en það eru líkindi getnaðarsögu Elg-Fróða og Mínótaurosar hins mínóska menningarskeiðs Krítar. Sú furðuskepna, nautsbolur á mannsneðriparti, kom þannig undir að kona Mínosar konungs Krítar, Pasífe, varð ástfangin af sænauti fyrir vélar Póseidons og gat með því þennan óskapnað. Munurinn felst í að í Böðvars þætti er það björninn sem bundinn er álögum, sem leiðir til vansköpunar barnanna, en í sögunni af Mínótaurosi Krítar er það konan sem lögð eru álög á, svo hún nýtur ásta með yfirnáttúrlegu nauti. Hugmyndir um möguleikann á slíkum genasamsetningum er mögnuð. Þórbergur Þórðarson, gott ef ekki, notaði orðið elgfróði til að lýsa sama fyrirbæri.

Fleiri sögur af kynjaskepnum mætti lengi upp telja, svosem goðsögur norrænnar goðafræði aðlútandi Miðgarðsormi, Fenrisúlfi, Hel og áttfætta hestinum Sleipni, sem aftur á sér draugalegri hliðstæðu í nykri þjóðsagna Jóns Árnasonar, mannýgum vatnahesti hvers hófar snúa aftur. Ennfremur má í þjóðsögum Jóns finna sögur af skoffínum og skugga-böldrum, marbendlum og hafgýgrum. En þessi kykvendi verða að njóta síðari tíma umfjöllunar á þessum síðum.

Tveir pistlar

Þessi pistill er bæði lélegur og gjörsamlega tilgangslaus. Hann er samt fyndinn. Allar vangaveltur um hvernig það hefði nú verið hefði þessi eða hinn lifað lengur eru nefnilega í eðli sínu bæði lélegar og tilgangslausar, og enda þótt það geti verið fyndið að agnúast út í slíkar hugleiðingar er það alveg jafn lélegt og tilgangslaust, vegna þess að slíkar hugleiðingar eru tiltölulega saklausar svo lengi sem þeim er ekki fleygt fram sem staðreyndum eða raunverulegum líkindum.

Þessi pistill er hinsvegar hvorki lélegur né tilgangslaus. Sjálfur færist ég æ nær þeirri skoðun að tungutak fólks skipti ekki höfuðmáli svo lengi sem merkingin kemst til skila. Sumum þykir málið afar kynbundið og vilja afkynvæða það. Þetta er ekki hægt svo vel sé, og í raun fyllilega tilgangslaust. Kyn orða hafa nefnilega enga raunverulega skírskotun í kyn þess fólks sem um ræðir. Gott dæmi er das Mädchen í þýsku (stúlkið). Í raun er tungumálið fyrst kynvætt þegar tilraunir til afkynvæðingar eiga sér stað; þar sem kyn orða höfðu áður enga skírskotun til raunveruleikans veitist þeim hún með afkynvæðingunni. Þetta er hinsvegar kannski ekki neitt sérlega mikilvægt. Það sem er mikilvægt er að við þyrftum að finna nýjar leiðir til að orða sömu hluti og að „þýðing“ eldri setninga yfir á hina nýju málfarsstefnu gæti riðlað merkingu þeirra. Grunnpunkturinn er svo vitaskuld sá: Tungumálið þróast ekki vegna þess þú segir því að gera það. Þannig virkar það bara því miður ekki.

Möguleikar

Það er afar skrítið að standa skyndilega uppi með sýn til allra handa eftir ævilanga ferð eftir beinu brautinni, sjá alla möguleikana kringum sig og hvað gæti orðið. Þá veltir maður upp steinum allra þeirra mögulegu leiða sem maður hefði getað farið, fór ekki og veit því ekki hvað hefði orðið. En óhjákvæmilega leiðir maður jafnframt hugann að öllum þeim möguleikum sem spruttu upp gegnum tíðina sem maður taldi að gæti orðið en urðu aldrei. Þá hættir manni til að spyrja sig hvort maður eigi það til að ofmeta möguleika.

Hér er hugmynd: Hagfræðin hefur sem löngu er orðið ljóst skapað nýtt tungumál. Það er spurning hvort tungumál hagfræðinnar heimfært upp á móðurtunguna geti skapað nýja möguleika. Til dæmis er orðið vergur, sem þýðir að allt er tekið með í reikninginn, sbr. hugtakið verg landsframleiðsla. Gæti þetta orðið til þess að ný andstæða skapist við orðið dvergur og geri bókstafinn d á undan nafnorði þarmeð að smækkunarforskeyti? Gunnar B. er til dæmis nokkuð vergur náungi og drýrri en aðrir, en Sigurður Kári er dvergur.

Snilld dagsins en jafnframt skandal hvíslaði lítill Farfugl í eyra mér:

„Maður fær ekki alltaf það sem maður vill. Og þá verður maður að vinna úr því sem að maður þá fær í staðinn. Maður getur ekki alltaf farið með sætustu stelpuna heim af ballinu en stundum kannski eitthvað sem gerir sama gagn.“

-Geir Haarde, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðu um varnarmál í Valhöll 18. mars 2006. Sá möguleiki er fyrir hendi að hr. Haarde hafi í tilraun til hótfyndni misst út úr sér nokkuð sem alstaðar annarsstaðar í heiminum þættu alvarleg ummæli fyrir ráðherra.

Ljóð dagsins er 10. hluti Tímans og vatnsins eftir Stein Steinarr, en í því ljóði eru einmitt margskonar möguleikar. Ég las þetta um daginn og það sló mig, sló mig virkilega. Dag einn mun ég þó eflaust leggja allt aðra merkingu í það:

Frá vitund minni
til vara þinna
er veglaust haf.

En draumur minn glóði
í dulkvikri báru,
meðan djúpið svaf.

Og falin sorg mín
nær fundi þínum
eins og firðblátt haf.

Segjum það gott í bili!

Fasistar og tilvitnun

Það er óþolandi að hafa vitleysu eftir menntuðum málfarsfasistum, sér í lagi þegar hin meinta villa er eldri en það sem þeir töldu rétt. Hvers eigum vér ómenntaðir eiginlega að gjalda? Ómenntað fólk á nefnilega þann vanda til að hlusta á fasista.

Kári Páll Óskarsson er spes náungi. Svo spes raunar að ég ákvað að lesa gamlar bloggfærslur eftir hann. Þar fann ég tilvitnun dagsins:

Ég rölti í frosthörkunni og hlustaði á ókunnugt fólk sjúga uppí nefið, sem er fyrir mér alltaf mest heillandi af árstíðabundinni músík.

Segið svo lýríkin sé dauð!