Heimspeki eymdarinnar: tilvistarkreppa og jaðarsetning í Bláu könnunni

Síðast tók ég fyrir Græna hattinn, sem í raun er sjálfstætt framhald á fyrri bók Alice Williamson um Bláu könnuna. Eins skelfileg og Græni hatturinnn er, þá er ljóst að Williamson hefur þurft að draga af sér þar enda hefur fyrri bók hennar þótt einum of óhugnanleg. Í lok Græna hattsins hefur lesandanum verið fengin óljós von, en vonleysi einkennir Bláu könnuna.

Í upphafi sögu er lesandi ávarpaður, „Hér sjáið þið litlu, bláu könnuna,“ svo veggurinn milli söguheims og lesanda er rofinn og lesandi gerður þátttakandi í framvindunni, hann er beinlínis gerður ábyrgur því hann situr undir atburðarásinni og aðhefst ekkert: „Hún stendur uppi á hillu. Henni leiddist og langaði niður.“ Hér er tíma verksins sömuleiðis breytt; fyrst er lesanda talin trú um að atburðir sögunnar eigi sér stað frammi fyrir augum hans, en svo er hann sviptur þeirri falsvon þegar ljóstrað er upp um að atburðir sögunnar hafa þegar gerst. Raunar er einkennandi fyrir verkið hvernig umbroti þess er markvisst beitt til að ýta undir falska von lesandans um úrlausn á vanda könnunnar en brjóta hana jafnharðan niður aftur, á meðan crescendo væntinganna ýfir upp spennu textans uns allt hrynur að lokum.

Sjáið bara! Sjáið þessa könnu hvað hún er leið! Hún hefði betur bara sætt sig við tilveruna!
Sjáið bara! Sjáið þessa könnu hvað hún er leið! Hún hefði betur bara sætt sig við tilveruna!

Þannig er lesandi tældur áfram til þátttöku og fyrr en varir hefur hann gerst meðsekur í hatursglæp. Það er erfitt að segjast ekki hafa tekið þátt í raun heldur aðeins unnið þarna þegar öskunni úr ofnunum rignir yfir þig, svo þegar kannan liggur brotin að leikslokum er ansi billegt að segjast ekki hafa vitað í hvað stefndi. Allt í bókinni stefnir að þessu lokamarki, bæði fyrir atbeina könnunnar og annarra. Heimspeki eymdarinnar í verkinu er þessi: Þér líkar ef til vill ekki staða þín í lífinu, en hún getur aðeins versnað því meir sem þú reynir að bæta hana.

Aðrar persónur sögunnar eru ekki kynntar, þær bara eru og þær eru sjálfsagðar, og þær birtast hver á fætur annarri á einhverjum óljósum stað þar sem er hilla og blá kanna. Gerist sagan í verslun? Við vitum það ekki. Það eina sem við vitum er að hillan er notuð sem mise-en-scène fyrir heiminn; hvað liggur handan hillunnar er ekkert nema óskilgreind von, innantóm hugmynd um ytri veröld.

Von byggist upp:

Litla bláa kannan sagði við litla, gamla manninn: „Ég er lítil, blá kanna og mér leiðist svo mikið hérna uppi á hillunni. Viltu vera svo góður að taka mig niður, því annars hoppa ég sjálf niður á gólf?“

Það er svo margt sem gerist hér í einni sviphendingu og kemur lesandanum að óvörum: kannan getur talað! Frá fyrstu síðu vissum við að hún væri tilfinningavera sem byggi yfir hugsun. Þetta er kanna með andlit, en að vísu þarf það ekki að þýða neitt; amma mín á blómavasa með auga en þó vitum við ekki til þess að vasinn geti séð. En nú tekur kannan af allan vafa og talar við „litla, gamla manninn“ eins og við eigum að vita hver það er. Kannan finnur sig knúna til að skilgreina sjálfa sig innan tilveru sögunnar: hún er lítil, blá kanna. Þetta ætti litli, gamli maðurinn að geta sagt sér sjálfur, en ítrekaðar tilraunir könnunnar til að skilgreina stöðu sína í heiminum benda einmitt til þess að þær séu mikilvægar: staða hennar er ekki viðurkennd, tilvist hennar er hafnað. Ennfremur birtist afleiðing þessarar jaðarsetningar könnunnar í hótun hennar um að fremja sjálfsvíg á staðnum ef litli, gamli maðurinn hjálpar henni ekki niður þangað sem henni virðist tilveran grænni. Óhugnaðurinn rífur í lesandann frá fyrstu sitúasjón. Upplausn er í vændum, ógnin er komin í spilið.

Litli, gamli maðurinn veitir könnunni falsvon.
Litli, gamli maðurinn veitir könnunni falsvon.

„Nei,“ sagði litli, gamli maðurinn.
„Ég vil ekki hjálpa þér niður, litla bláa kanna.“

NEI? Hvað er að? Kannan hótaði rétt í þessu að svipta sig lífi og litli, gamli maðurinn lætur eins og það að rétta fram litla fingur sé til merkis um meðvirkni. Hann vill ekki hjálpa henni. Hann hafnar könnunni um þátttöku í heiminum. Heimur könnunnar er hilla, og verður hilla, og fyrr má kannan deyja á gólfinu en að hann hjálpi henni. Hann reynir að firra sjálfan sig ábyrgð, en er í raun ábyrgur með aðgerðaleysi sínu, rétt eins og lesandinn: eins og við öll sem skellum skollaeyrum við þegar jaðarsetning fólks á sér stað frammi fyrir augum okkar. Þessi kanna talaði við hann, en hann viðurkennir ekki að hún sé fólk, hann sér aðeins könnu.

Og svona gengur sagan með risi og hnigi á víxl, þar sem ein opna birtir von um úrlausn en sú næsta kæfir niður vonina: Litla, gamla konan er beðin um aðstoð, en hún neitar að hjálpa könnunni. Litli drengurinn er beðinn um aðstoð, en hann neitar að hjálpa könnunni. Litla stúlkan er beðin um aðstoð, og allir sem hafa áður lesið Græna hattinn fyllast nú von því það var litla stúlkan sem keypti hann, en nei: litla stúlkan neitar að hjálpa bláu könnunni.

Næst birtist litli svarti kötturinn, sem er einnig persóna í sjálfstæðu verki eftir Alice Williamson, Svörtu kisu.

„Mjá, mjá,“ sagði litli svarti kötturinn.
„Ég skal hjálpa þér niður, litla, bláa kanna.“

Kannan er ómenntuð og hefur ekki áttað sig á því að kettir hafa ekki þumla, svo það er ógjörningur fyrir svörtu kisu að hjálpa könnunni niður. Hvort er hún samt öll af vilja gerð, eða hreinlega full af illsku og hatri í garð myndhverfðra jaðarhópa? Það er óvíst. Þó má draga vísbendingar af hræðilegum svip kattarins, rauðglóandi glyrnum hans, þegar hann hrindir könnunni fram af hillunni.

Svarta kisa myrðir bláu könnuna
Svarta kisa myrðir bláu könnuna

Svo litla, bláa kannan féll niður á gólf.
Hún brotnaði í þúsund mola.

Og gólfið niðri er alveg eins og hillan: glóandi rautt, rautt eins og blóð könnunnar; í senn tákn um að dauðinn er ekki aðeins óhjákvæmilegur nú, heldur að hann hafi alltaf verið í nánd, jafnvel uppi á hillunni; táknrænt sömuleiðis fyrir það að tilveran var eftir allt saman engu skárri þegar af hillunni var komið. Hún var eins. Allt er eins. Eins og það á að vera. Kannan hefði betur sætt sig við það.

„Og þar með endar sagan af litlu, bláu könnunni.“
„Og þar með endar sagan af litlu, bláu könnunni.“

Eða svo segir sagan, en bókin heldur samt áfram á þrem öðrum tölusettum blaðsíðum. Á síðu 29 er bláa kannan brotin, en á næstu síðu er hún heil!

22264663_10155839864441584_308765065_n

Hér er freistandi að túlka könnuna sem eins konar kristsmynd: fyrst er boðskap hennar tekið fálega meðal þeirra sem valdið hafa til að breyta heiminum (sem í þessu tilviki er hilla), síðan er kannan svikin og tekin af lífi, loks rís kannan aftur upp frá dauðum. Á næstu síðu hefur kannan verið hrifin upp til æðri tilveru:

22264606_10155839864796584_1092579487_n

Og við erum skilin eftir ein í tilverunni:

22291930_10155839864991584_934266636_n

Hins vegar er öllu sennilegri túlkun að þetta séu hinstu hugrenningar hinnar deyjandi bláu könnu, þar sem hún óskar sér burt á einhvern annan og betri stað. Sennilega hefur Terry Gilliam haft þessi endalok Bláu könnunnar í huga þegar hann aðlagaði söguna í kvikmyndina Brazil. Tómhyggja sögunnar bendir til þess að hér sé á ferðinni enn ein falsvonin um einhvers konar upprisu, en tómu síðurnar í lokin sýna lesandanum að í heimi sögunnar er ekki smæsta tangarhald hafandi á voninni: speranza del mondo sögunnar er að allir haldi sig við þá hillu sem þeim hefur verið úthlutað, ellegar fari illa fyrir þeim. Dantelögmálið og Jantelögmálið sameinast í eitt: látið af allri von þegar í stað, því þið eruð ekki neitt. Hvítu síðurnar eru tómið og dauðinn. Litla, bláa kannan er ei meir og verður aldrei aftur. Við drápum hana.

Hvenær drepur maður ekki mann? American Psycho og framhald hennar

Ég fór mjög geist í lokasprettinum á doktorsritgerðarskrifunum svo ég hef ekki haft mikla orku til menningarrýni síðan í apríl. Núna langar mig að bæta úr þessu og fjalla sömuleiðis meira um bækur. Hingað til hef ég helst nennt að blogga um kvikmyndir og það verður sömuleiðis gert hér þótt efniviður myndanna sem skoða skyldi sé skáldsaga Brets Easton Ellis, American Psycho, sem ég hef ekki lesið.

Titill sögunnar er afar lýsandi fyrir efniviðinn. Hún gerist í New York á níunda áratugnum og fjallar um uppa innan við þrítugt, Patrick Bateman, sem vinnur við eitthvað óljóst — sennilega viðskipti. Hann hefur ekki unnið sér inn fyrir starfinu, heldur hefur hann fæðst til þess. Hið sama gildir um alla kollega hans. Í raun og veru gerir hann ekkert í vinnunni. Vinnan felst í að sitja við skrifborð í klæðskerasniðnum jakkafötum og þykjast vera mikilvægur. Áhorfandinn fær þegar að vita að honum þykir þetta allt innantómt. Allir í kringum hann eru nákvæmlega eins og hann, fullir af yfirborðshluttekningu hver með öðrum, svo snobbaðir að lífið snýst um hver fær borð á hvaða veitingastað og hver á flottasta nafnspjaldið.

Það sem er einna helst áberandi er fullkomið sinnuleysi allra í garð hver annars. Allir þykjast þekkjast, en persónur myndarinnar fara tíðum mannavillt af því þeir þekkja hver annan ekki í sjón. Þannig nær Bateman færi á vinnufélaga sínum Paul Allen sem heldur að hann sé annar vinnufélagi sinn, Halberstram. Bateman myrðir Allen, að því er virðist af öfund, og það sem eftir lifir myndar myrðir hann enn fleiri. Í lokin játar hann allt saman en vinnufélagarnir hlæja að honum. Þegar Bateman segist hafa myrt Paul Allen segir annar vinnufélagi að það geti ekki verið því hann hafi borðað með Allen í London nokkrum dögum fyrr.

Hérna liggur galdurinn. Í myndinni er nefnilega alveg óljóst hvort Bateman hefur yfirleitt drepið nokkurn og það má skilja myndina á hvorn veginn sem er. Sá kvittur barst mér í eyru eftir að ég hafði séð myndina í bíó á sínum tíma að í bókinni væri alveg ljóst að Bateman hefði engan myrt, þetta hefði allt verið ímyndun. Og flestir vinir mínir hafa viljað túlka myndina þannig sömuleiðis. Mér finnst það bara ekkert skemmtileg túlkun svo ég fór að kanna málið og það kemur í ljós að þessi endalok eru sömuleiðis opin í bókinni. Þá hefur Ellis skrifað fleiri bækur þar sem Bateman kemur við sögu þar sem sömuleiðis er gefið í skyn að hann sé fjöldamorðingi. Og er þetta ekki fullkominn endir? Bateman myrðir Paul Allen en það er ekki tekið mark á því, af því einhver sem þekkir heldur ekki vinnufélaga sína í sundur heldur sig hafa borðað með honum í London. Að lokum skipta örlög Allens engu máli, því þessir menn sinna engum raunverulegum skyldum öðrum en að troða í sig mat og áfengi, bera saman nafnspjöld og þykjast þekkja hverjir aðra. Þannig eru þeir allir amerískir sýkópatar, allir jafn siðblindir og veruleikafirrtir.

Svo kom reyndar út kvikmynd, sem hægt er að taka mark á eða ekki eftir behag, sem gjörbreytir söguheimi myndarinnar. Hægt væri að hafna alveg gildi American Psycho 2 fyrir fyrri myndina. Það hafa bæði Bret Easton Ellis gert og aðalleikkonan Mila Kunis, sem segir að upphaflega hafi þetta átt að vera allt önnur mynd en svo hafi handritinu verið breytt í miðjum tökum. Það sést líka langar leiðir að myndirnar eru fullkomlega óskyldar fyrir utan viðbótina um Patrick Bateman. American Psycho 2 er nefnilega hefðbundin unglingaslógmynd í anda Urban Legend og annarra slíkra mynda sem einkum fjalla um kynlíf og slægða unglinga, en fyrri myndin er töluvert langt frá þeirri stemningu. Sjálfur hef ég nú samt sem áður það prinsíp að sé William Shatner í kvikmynd, þá sé hún kanóna. Svo er leikstjóri myndarinnar Morgan J. Freeman, sem hljómar næstum því eins og annar fremur virðulegur náungi, svo það gefur myndinni aukið gravitas. Svo við skulum taka mark á myndinni.

Í American Psycho 2 er það ljóst frá upphafi að Patrick Bateman er einn þekktasti fjöldamorðingi sögunnar og að aðalpersónan, Rachael Newman, var eitt verðandi fórnarlamba hans þar til hún tók málin í eigin hendur og drap hann. Í kjölfarið ákveður hún að gerast fjöldamorðingjamorðingi og að besti farvegur þeirrar lífsköllunar sé hjá FBI. Við fyrstu sýn eru margir gallar á þessari ráðagerð, en myndinni er alveg sama. Rachael sækir nám í Western Washington University þar sem fyrrum FBI-kempan William Shatner kennir handahófskenndar upplýsingar um fjöldamorðingja. Allir nemendur hans vilja fá að verða aðstoðarkennari hans næsta misseri, því það að verða aðstoðarkennari Williams Shatner jafngildir því að fá að fara í FBI-skólann í Quantico (allir sem þekkja til háskóla vita hverslags þvæla það er, og persóna Shatners í myndinni furðar sig einmitt á því að nemendur haldi að það að vera aðstoðarkennari sinn komi þeim á einhverja framabraut). Rachael drepur því helstu keppinauta sína um hina eftirsóttu stöðu. Einn þeirra kyrkir hún með smokki eftir að hafa ginnt hann í herbergi sitt undir yfirskini um öllu hefðbundnari notkun getnaðarvarna.

Þetta er auðvitað hlaðið alls konar merkingu. Það sem hefði farið utan um harðan lim hans er hið lina sem drepur hann, svo stungið er upp á táknrænni vönun; hann fær heldur ekki hin holdlegu kynni sem hann sóttist eftir. Þá er þetta ábending um að myndin sé meðvituð um stöðu sína meðal slógmynda sem mjög eru uppteknar af kynlífi og vönun. Aðra karla drepur hún með penetrasjón: samnemanda með ísnál í hnakkann (rétt eins og Bateman), ræstingakarl myrðir hún með kústskafti upp í munn og út um hnakka, sem er ekki smuga að framkvæma í alvörunni. Og undir öllum þessum morðum er svo kankvís og glaðleg tónlist að það verður óbærilegt. Er þetta gamanmynd? Ég hallast að því.

Síðan drepur hún William Shatner ooog … hérna virðist ráðagerðin öll vera farin út um gluggann, bókstaflega, því William Shatner dettur út um glugga. William Shatner virðist með öllu ófært að deyja virðulega í kvikmyndum. Hann hafði lifað ótal Star Trek myndir áður en hann varð undir stillansa. Hvað um það, Rachael drepur svo bara aðstoðarkennarann hans og þykist vera hún. Og kemst upp með það. Og fer til Quantico. Myndin búin. Ég hef ekki haft fyrir því að nefna sálfræðinginn einu sinni, því ef hann er klipptur úr myndinni þá breytist framvinda hennar ekki neitt.

Það er engin fágun yfir þessu. Öllu er slengt framan í áhorfandann eins og dauðum skunki og hin óvæntu sögulok eru hvorki óvænt né sögulok. Það er engin saga. American Psycho 2 virðist helst tjá þá hugmynd að of efnaðir háskólanemar séu óttalegt pakk (má e.t.v. til sanns vegar færa) og að fjöldamorðingjum sé ekki treystandi til að myrða eingöngu til góðs. American Psycho er á hinn bóginn afskaplega fáguð athugun á ýmsum sviðum mannlegs samfélags. Hún fjallar um stéttskiptingu, firringu hinna efnaðri, ójöfn valdahlutföll þar sem hinir útvöldu geta framið hvers konar myrkraverk án afleiðinga í krafti stöðu sinnar, en þótt hún sýni þann heim frá sjónarhóli innherja þá er myndin sem dregin er upp svo framandi áhorfandanum að sjónarhornið er samt sem áður upp og utan frá. Þannig dregur hún áhorfandann inn í óhugnanlegan heim þar sem fólki er meira annt um nafnspjöld en annað fólk, veit ekki hvað annað fólk heitir, skilur ekki mannleg samskipti. Hin ráðandi stétt er afmennskuð á sama tíma og fulltrúi hennar, Bateman, afmennskar þá sem eru undir hann settir og ryður öðrum úr vegi — án nokkurra afleiðinga.

Athafnir Batemans eru táknrænar fyrir þá viðskiptahætti sem hann myndi stunda ef hann raunverulega sinnti starfinu sínu. Ef hann væri ekki bókstaflegur morðingi, þá væri hann það óbeint. Hvenær myrðir þá Bateman mann og hvenær ekki? Það er hvers og eins að svara. En forðumst fyrir alla muni þá hugmynd að aðeins sé eitt svar við þeirri spurningu.

Galdrafár og djöfulótti

Nýja England er draumasvæði fyrir áhugafólk um hið yfirskilvitlega. Hér eru heimaslóðir Edgars Allans Poe í Boston. Og Providence, þar sem Lovecraft óf sínar sögur, er þriðja stærsta borgin í Nýja Englandi. Það er kannski ekki að undra þótt þessir tveir rithöfundar, sem sitthvað áttu sameiginlegt, skuli koma fram á þessu svæði sem numið var af púritönum á fyrsta fjórðungi sautjándu aldar.

Undir lok sömu aldar átti sér stað eitt hræðilegasta tilfelli af múgsefjun sem um getur í sögunni milli febrúar 1692 og maí 1693, nornafárið í Salem sem náði til Salem Village (Danvers), Salem Town (Salem og Beverly), Ipswich og Andover. Tuttugu voru teknir af lífi, þar af fjórtán konur, allir hengdir utan einn sem kraminn var til dauða.

Ég hef þegar keypt þrjár bækur um málið og á áreiðanlega eftir að kaupa fleiri. Ein þeirra er ritgerð samtímamannsins, séra Johns Hale, sem ber hinn skorinorða titil A modest enquiry into the nature of witchcraft, and how persons guilty of that crime may be convicted: and the means used for their discovery discussed, both negatively and affimatively, according to Scripture and experience. Hale sér eftir þátttöku sinni í réttarhöldum yfir nornum og rökstyður í gegnum alla bókina að í raun hafi nornirnar ekki gert neitt með vilja, heldur hafi djöfullinn stýrt gerðum þeirra.

 

Myndverk sem sýnir sögu Ipswich, MA. Aðrir hlutar af verkinu sjást ekki á myndinni.
Myndverk sem sýnir sögu Ipswich, MA. Aðrir hlutar af verkinu sjást ekki á myndinni.

 

Það er mikið mál að vinda ofan af allri þessari sögu fyrir mig og það þótt ég búi í Ipswich. Ég á áreiðanlega eftir að fara ítarlega ofan í saumana á þessu við tækifæri og birta eitthvað þar að lútandi. Það vakti þó athygli mína nýskeð að ég rambaði á veggmynd við ána ofan í bænum. Hún sýnir sögu bæjarins í blíðu og stríðu, sem er heilmikil, en mér fannst undarlegt að djöfullinn væri sýndur í turnspíru First Church in Ipswich. Það hlaut að búa þjóðsaga þar að baki og ég var fljótur að finna hana.

 

Djöfullinn í turnspíru First Church in Ipswich
Djöfullinn í turnspíru First Church in Ipswich

 

Sagan segir að enski presturinn George Whitefield hafi árið 1740 verið á túr um Nýja England (þú last það rétt, hann var eins og Justin Bieber með prestskraga) og kom við í Ipswich. Þar hélt hann þvílíka stólræðu að djöfullinn sjálfur – sem sagan segir að hafi á sunnudögum falið sig bak við spegil sem stóð að stólbaki – hafi hrökklast úr fylgsni sínu og átt í handalögmálum við prestinn, allt þar til hann flýði upp í turnspíruna hvaðan prestur loks hrinti kölska sem lenti á öðrum fæti á berginu neðan við kirkjuna. Síðan þá hefur skrattinn víst ekki látið sjá sig í bænum en spor hans er enn í berginu, og það fór ég að skoða áðan.

14331547_10154572378761584_521064599_n
Fótspor djöfulsins í Ipswich, MA.

 

Við fótspor djöfulsins að chilla á góðri stundu.
Við fótspor djöfulsins að chilla á góðri stundu.

 

Því miður hefur kirkjan ekki lifað af aldirnar; sú kirkja sem nú stendur á berginu er sú fimmta í röðinni (sú síðasta brann árið 1965 þegar elding laust hana), og turn hennar er ekki þannig staðsettur nú að hægt væri að stökkva úr honum og lenda í spori skrattans. En það vantar að minnsta kosti ekki spennandi hluti til að skoða hérna.

First Church in Ipswich. Spor djöfulsins er í berginu í forgrunni myndarinnar.
First Church in Ipswich. Spor djöfulsins er í berginu í forgrunni myndarinnar.

Gullöldin var aldrei til

Ég heyri reglulega talað um það sem ekki er kennt í íslenskum skólum. Það er mun sjaldnar að mér hlotnast nokkur innsýn í það hvað sannarlega er kennt í íslenskum skólum. En það sem vantar er jafnan það sama: börn í dag þekkja ekki sögu landsins, enda er hún ekki kennd í skólum. Börn núorðið kunna ekki nægileg skil á beygingu sterkra sagna, þau þjást af þágufallssýki, mál þeirra er gegnsýrt af undarlegu slangri. Það er á ábyrgð skólanna að ráða bót á þessu. Allt yrði betra ef Björn Guðfinnsson gengi aftur og ef Íslandssaga Jónasar frá Hriflu yrði kennd á nýjan leik. Börn hér kunna ekki stærðfræði, og skýrir það að nokkru leyti tilurð íslenska hagkerfisins. Þau þurfa að nema við fótskör kínverskra talnaspekinga. Lestrarkunnátta íslenskra barna er svo hrikaleg að færustu sérfræðingar efast um að þau einu sinni kunni að fletta, og Barnaverndarnefnd OECD berjandi utan dyrnar eins og skessa. Raungreinalæsi er sömuleiðis ekkert meðal íslenskra barna, enda er námsefninu stýrt af ráðherra sem heldur að leysa megi öll vandamál með álbræðslum og uppistöðulónum síðan hann sjálfur var forheimskaður í skóla.

Svona hefur þetta raunar alltaf verið. Hverjum þykir sinn fugl snoturri en næsta manns illfygli.

Ég held að tvennt liggi hér að baki sem hefur minna með menntakerfið sjálft að gera en ráða mætti af umræðunni: annars vegar eru það áhugamál þeirra sem kvarta undan áherslum í menntakerfinu, hins vegar eru það áhugaefni nemendanna sjálfra. Ef við könnum fyrra atriðið þá kemur í ljós að flestum finnst halla á þann hlut menntunar sem þeim sjálfum er hvað helst hugleikinn. Margur heldur mig sig eins og sagt er og sést það best á því hvað fólk er gjarnt á að kvarta undan því að nemendur nútildags kunni ekki skil á sömu hlutum og það sjálft hafði á takteinum á sama aldri – sem það hafði á takteinum sakir áhuga á efninu, ekki vegna þess eins að téðu efni og öllum heimsins vísindum öðrum var haldið að því í skóla. Þeir sem kvarta undan skorti á sögukunnáttu hafa sjálfir haft áhuga á sögu í barnæsku og jafnvel lesið sér til utan skóla alls kyns fróðleik til viðbótar við formlega námið. Þeim sem gekk vel í tilteknu fagi eiga kannski erfiðast með að skilja hvers vegna öðrum gengur verr í því.

Þar komum við einmitt að áhuga einstakra nemenda. Ég var svona nemandi sem þreifst á sögulegum fróðleik og kemur það væntanlega engum á óvart sem þekkir mig núna. Þær kennslubækur sem ég hafði hafa ekki yfir sér sama dýrðarljóma og Íslandssaga Jónasar frá Hriflu, en þær höfðuðu til þess áhuga sem ég þegar hafði. Í skóla las ég Íslandssögu Gunnars Karlssonar frá landnámi og eitthvað fram um stórubólu. Þegar ég lærði um Sturlungaöldina í grunnskóla teiknaði ég umfangsmikla teiknimyndaseríu um atburði hennar, og fór að vísu nokkuð frjálslega með efnið. Ég lærði um sjálfstæðisbaráttuna, lýðveldisstofnunina og um þrískiptingu valdsins í fjórða bekk. Þegar ég lærði um eitthvað áhugavert í samfélagsfræði leitaði ég mér aukaupplýsinga í þeim bókum sem til voru heima (með umbeðinni aðstoð foreldra minna, að sjálfsögðu). Sama þegar kennarinn minn í þriðja bekk sagði okkur af djáknanum á Myrká. Þá spurði ég heima hvort við ættum þjóðsögur á bók. Sjálfur átti ég alfræðibækur fyrir börn sem hétu Heimur í hnotskurn, Heimur vísindanna, og sú allra besta hét því lýsandi heiti Hvers vegna, hvenær, hvernig, hvar? Aðra átti ég um sjö undur veraldar. Þetta var það sem höfðaði til mín.

Málfræði og réttritun þurfti ég ekki að hafa fyrir vegna þess að ég hafði heilmikið sjónminni og vissi einfaldlega hvernig rétt mál ætti að líta út, ég fann það á mér. Þess vegna gekk mér vel í íslensku, en það að hafa ekki lagt á mig neinn formlegan málfræðilærdóm fyrr en í framhaldsskóla hefur aftur á móti háð mér síðan; ég hef verið seinn að tileinka mér málfræðihugtök og beita þeim. Það er kannski að hluta vegna þess að ég skildi ekki tilganginn með málfræðireglum sem barn, að allir gætu ekki bara séð þetta í hendi sér, alveg eins og stærðfræðiséníin skildu ekki hvert vandamál annarra var. Allt skýrist þetta af upplagi og áhuga.

Það eiga ekki öll börn jafnauðvelt með málið og ég átti, alveg eins og það eiga ekki öll börn eins auðvelt með að læra stærðfræði. Þannig er það bara. Þeirra áhugasvið liggja þá annars staðar en í bóklestri. Sum þeirra gætu eins verið efni í stærðfræðinga, sem er fag sem mér tókst aldrei að skilja. Sjálfur lærði ég það sem ég hafði áhuga á af brennandi ástríðu en öðru tók ég sem hverju öðru hundsbiti og böðlaðist gegnum það, og þetta sama hef ég séð einnig í öllum börnum sem ég hef nokkru sinni haft kynni af, þótt það kunni að vera aðrir hlutir sem þau hafa áhuga á en ég. Það er nefnilega þannig að börn eiga það til að þrjóskast á móti því að læra það sem þeim þykir lítið spennandi, og það verður erfiðara að tileinka sér efni sem manni þykir leiðinlegt því meira sem maður er ákveðinn í að það höfði ekki til manns. Ég féll í stærðfræði níu ár í röð, frá áttunda bekk og öll mín sex ár í menntaskóla, eftir að hafa staðið mig í meðallagi fyrstu sjö ár skólagöngunnar. Kannski er skólakerfinu um að kenna að einhverju leyti – það hefur að vísu aldrei neinn Hriflu-Jónas samið goðsagnakennda stærðfræðibók – en gleymum því ekki að langflestir stóðu sig ágætlega. Ég hafði bara ekki áhuga.

Og ég var heldur ekkert sítalandi um það sem ég þó hafði áhuga á, af því ég hafði áhuga á óteljandi öðrum hlutum. Ég var sérviturt barn sem gat vitnað í Grettis sögu og kunni skil á örlögum Reynistaðabræðra en ég gekk ekki um gólf talandi um þetta, eða pínlegan dauða Snorra Sturlusonar sem hefur alla ævi verið mér hugleikinn. Ég dáði líka Davíð Stefánsson frá Fagraskógi og langaði að geta ort eins og hann. Mig grunar að nær enginn hafi vitað af þessum áhuga mínum. Ég var nefnilega eins og aðrir krakkar og talaði um tölvuleiki og bíómyndir, æfði handbolta og var í skátunum, átti mér annað heimili í Vatnaskógi og í Húsdýragarðinum á sumrin, safnaði körfuboltamyndum og pogsi, ég eyddi dögunum kubbandi úr Legó og teiknandi myndasögur, allir héldu að ég yrði arkitekt eða listamaður. Svo varð ég bókmennta- og miðaldafræðingur, þjóðfræðiáhugamaður og ljóðskáld öllum að óvörum nema sjálfum mér.

Er endilega víst að Íslandssagan sé ekki nægilega vel kennd lengur? Er það þess vegna sem „börn vita ekki einu sinni hver Jón Sigurðsson var“? Gleymum í bili sjálfsögðum breytum eins og fjölbreyttara úrvali námsgreina, fjölbreyttara úrvali afþreyingarefnis, gjörbreyttum heimilisaðstæðum, fjölda grunnskólabarna sem hefur margfaldast með ósköpum síðan á miðri síðustu öld, óteljandi framfarir í menntunarfræðum: Hefur sá sem þannig spyr spurt börn upp til hópa, eða aðeins eitt barn, eða fáein, hvort það viti hver Jón Sigurðsson var? Veist þú hver Adele er?

Er íslenskukennslu um að kenna þótt börn tali öðruvísi en Jónas frá Hriflu, eða hefur ekki internetið sýnt að fólk af öllum kynslóðum skrifar misjafnlega, og mun það ekki ætíð hafa verið þannig meðal þeirra sem á annað borð gátu skrifað? Við útrýmdum ólæsi og kvörtum svo undan því að fólk skuli skrifa, en ég verð að játa að ég átta mig ekki alveg á vandamálinu. Hvernig er það, vita börn ekki skil á kjarna, möttli og jarðskorpu eða kunna þau ekki mun á flóði og fjöru vegna þess að þetta er ekki kennt, eða gleymdist kannski að spyrja þau? Er tilhneigingin kannski helst sú að alhæfa um skólakerfið út frá fáum samræðum við börn sem auk þess var stjórnað af manneskju með tiltekin áhugamál, sem vill forvitnast um framgang þessara áhugamála í skólakerfinu?

Það held ég að sé skýringin á því að sumum finnst börn ekki vita rass um skreiðarútflutning, um spánsku veikina, um muninn á togi og þeli, um framræslu votlendis, lotukerfið og hæð Hvannadalshnjúks (sem ég hef aldrei getað munað, fyrir eða eftir breytingu). Ástæðan er einfaldlega sú að börn hafa ekki endilega áhuga á því sama og nostalgískir foreldrar þeirra, og menntakerfið virkar ekki þannig að það dæli upplýsingum í heilabú barna sem upp frá því hafi brennandi áhuga á landi, sögu og þjóð, máli og samfélagi, virkni jarðskorpunnar og gangi himintunglanna. Samhengi allra þessara hluta verður fyrst ljóst með aldri og reynslu.

Ef þú aftur á móti spyrð börn hvað þau lærðu skemmtilegt í skólanum í dag, þá kannski kemstu að raun um hvað er kennt í skólanum. Allt hitt sem þú vilt að barnið þitt kunni skil á er sennilega kennt líka. Það hefur bara ekki sérstakan áhuga á því. Barnið þitt er barn en ekki vél. Að hneykslast á því að barnið þitt sé ekki símalandi um skútuöldina eins og þegar þú varst hnokki dragandi marhnúta á eyrinni er eins og að tuða undan því að dóttir þín hafi meiri áhuga á Monster High en Hjaltabókunum. Kynslóðir eru ólíkar, þannig er það bara, og allt þetta sem sumir halda að skólar kenni ekki lengur, það er víst kennt og lærist samt. Vandinn er ekki skólakerfið heldur þessi ímyndaða gullöld íslensks skólakerfis sem aldrei var til frekar en gullöld íslenskrar menningar. Menningin er síbreytileg og fólk þarf bara að læra að díla við það.

Maðurinn sem ég forðast

Það er náungi sem vinnur í Háskólanum, í sömu byggingu og ég, sem ég forðast eins og ég get. Þegar ég byrjaði að vinna í Gimli mætti ég honum dag einn á ganginum og við heilsuðumst. Við könnuðumst hvor við annan síðan í MR forðum daga. En ég mundi engan veginn hvað hann heitir, var ekki viss hvort ég hefði nokkru sinni vitað það; né gat ég rifjað upp fyrir sjálfum mér hvernig við höfðum verið kynntir eða í gegnum hvern.

Ljóst var að við hefðum aldrei verið vinir, en nú í haust eru liðin fimmtán ár síðan við urðum hæ-félagar, það er að segja: menn sem heilsast á förnum vegi en segja aldrei neitt meira. Það er ekki alltaf slæmt að eiga sér hæ-félaga þótt það sé auðvitað ekkert fyrirmyndarform af kunningsskap. Maður verður líka að gæta sín að brjóta ekki reglurnar með því að brydda upp á einhverju umræðuefni. Þess vegna forðast ég hann.

Það rann nefnilega fljótlega upp fyrir mér eftir að ég hóf störf að það voru mistök að endurnýja hæ-félagsskap okkar á þessum nýja vettvangi. Hann hefði átt að leysast upp smátt og smátt eftir því sem menntaskólaárin hurfu í mistur fortíðarinnar, en þess í stað heilsuðumst við. Við fundum það ekki strax, en uppvakinn félagsskapur okkar átti eftir að umturnast í ófreskju, óskapnað, eins og aðrar siðlausar mannlegar tilraunir sem best hefðu áfram verið óreyndar.

Við fundumst dag hvern á göngunum, oftar en þrisvar og oftar en fimm sinnum suma daga, og stirðnuð bros okkar urðu innspýting beiskju í sálir okkar. Suma daga þóttumst við ekki sjá hvor annan, jafnvel þótt við vissum báðir að augu okkar höfðu mæst á ganginum litum við hvor í hina áttina eins og gripnir skyndilegri andakt. Mörg urðu slík Evrekumóment á göngum Háskólans. „Þarna er helvítis fíflið. Evreka!“ og litið upp í loftið. Eitt sinn gekk hann óvart inn í lesstofu grunnnema til að forðast mig. Ég hló nöturlega að mistökum hans.

Nú þegar kveðjuhót okkar eru dauð getum við umfram allt ekki talast við. Ég bölvaði honum í sand og ösku þegar hann tók lyftuna í dag, upp á næstu hæð! Ég þurfti lengra upp en hann, en sakir þess að hann náði lyftunni fyrst gat ég ómögulega hætt á þær félagslegu hamfarir sem það hefði haft í för með sér að verða honum samferða. Hvernig tekur maður lyftu með manni sem ekki má ná augnsambandi við? Ég klöngraðist upp stigann, og aðeins fullvissan um að dag einn næði ég lyftunni á undan honum fékk sefað beiskjuna í hjarta mér. Dag einn!

Með tímanum höfum við tekið að njóta þess svo mjög að viðurkenna ekki tilvist hvors annars að við óskum þess næstum því að við gætum spjallað um það í lyftunni. Næstum því.

Upp úr tóminu reis … bloggið

Ég byrjaði að blogga árið 2003 í þá daga þegar Bloggari dauðans var og hét, Beta rokk gaf út „bloggbók“ og Stefán Pálsson var „frægasti og besti bloggari Íslands“. Bloggið var fyrirlitinn miðill fyrst um sinn, ekkert nema sjálfhverf fífl að fjalla um eigin tær og sveppinn í baðkerinu heima. Svo ég hálfskammaðist mín fyrir að byrja á þessu líka.

Bloggið hefur breyst síðan; ekki miðillinn, heldur innihaldið. Maðurinn sem áður stærði sig af því að hafa „skrifað á netið síðan löngu áður en bloggið var fundið upp“ og þó aldrei verið bloggari, enda væri auvirðileg iðja að blogga, hann er núna frægasti (en ekki besti) bloggari Íslands.

Innihaldið hefur að því leytinu breyst að núna þurfa blogg helst að „fjalla um eitthvað“. Það dugar ekki lengur að búa í litlu múmínhúsi í vesturbænum og hjóla í vinnuna til að hægt sé að blogga um það. Blogg voru svosem alltaf pólitísk, en nú eru þau orðin vettvangur pólitískra greinaskrifa fremur en styttri athugasemda. Þar kemur tvennt til: annars vegar nýting dagblaðanna á bloggsíðum til að koma í stað hinna hefðbundnu viðhorfspistla, hins vegar Facebook sem orðinn er aðalvettvangur þessara styttri athugana. Ef ég fyrir tíu árum bloggaði um að George Bush væri stríðsglæpamaður þá gátu umræðurnar tekið marga daga og innleggin skipt tugum. Núna skrifar maður bara status og flestir læka til að „kvitta fyrir lesturinn“ (frasi af Moggablogginu gamla) frekar en að tjá sig.

Blogg verða auðvitað miklu minna spontant ef maður á allt í einu að byggja þau upp einsog fimm paragrafa esseiur. Þess vegna hefur gengið illa að halda Blogginu um veginn við. Stundum langar mig kannski að varpa einhverju fram í hálfkæringi um það sem ég vinn við, rannsóknir á miðaldatextum. En þegar til kemur þá ræð ég ekki við það. Hálfkæringurinn og nákvæmnisáráttan eiga í stöðugum erjum og á meðan er ekkert bloggað nema kannski um hversu erfitt er að blogga á Facebooköld. Einsog þessi færsla er.

Nú er að sjá hvað gerist með nýju upphafi. Ég byrjaði að blogga hjá Blogger og flutti mig svo yfir til Kaninkunnar 2005. Um líkt leyti flutti Óli Gneisti sig þaðan og stofnaði Truflun. Kaninkunni var einhverju sinni þannig lýst á spjallþræði að hún væri „vinstri bloggorgía“. Þar bloggaði enda mikið til það sama fólk og stofnaði og skrifaði á Múrinn meðan hann var og hét. Þótt ég kæmi seint inn var ánægjulegt að tilheyra þeim góða hópi.

En nú er langt um liðið. Múrinn hætti 2006 eða 2007 og nú er Kaninka að renna sitt skeið á enda. Sjálfur er ég fluttur á Truflun, sem sjá má. Og nú er bara að sjá hvað verður úr. Kannski mér takist að yfirstíga vandvirknina og leiðindaham pólitískra dálkaskrifa til að skrifa um eitthvað annað en þetta eilífa argaþras. Til að nálgast aftur það sem bloggið var án þess samt að það fari út í heimilisstörf og tannlæknatíma. Þetta blogg er fyrir alla og engan, einsog segir í undirtitli bókar einnar sem aldrei hættir að koma mér á óvart að hafi verið skrifuð fyrir nokkurn. Sennilega munu margir undrast á líkan hátt um þau skrif sem hér verða og þegar eru: ellefu og hálft ár af engu sérstöku.

Í minningu

Skrifað þann 22. ágúst
Hvaða klisja er yndislegri en hrifnæmi háskólastúdentinn sem situr við fjórtánda kaffibollann að kvöldi til og les Nietzsche? Hann þarf ekki kaffið, það bara tilheyrir. Nietzsche á ekki að lesa fyrir fíluna fyrr en í nóvember, en hver getur beðið þegar hægt er að setjast á eintal við eilífðina N Ú N A ?
Ég var þessi karakter fyrsta haustið mitt í Háskóla Íslands, þessi sem mætti fyrstur í fíluna, las allt ítarefni (Nietzsche fyrstan), notaði frasa á við a priori alltaf þegar ég gat og gagnrýndi veðmál Pascals einsog ég væri eini maðurinn sem nokkru sinni hefði séð í gegnum það. Hefði íslenskan ekki heillað mest hefði heimspeki orðið fyrir valinu; þegar ég var ekki að kynna mér Clifford og James sat ég inni á Þjóðarbókhlöðu og lúslas Handbók um íslenskan framburð uns ég kunni hana utanbókar (og varði svo næstu árum í að leiðrétta framburð fólks).
Þetta er veiki sem heltekur mann og sleppir ekki svo glatt; hún hefst með þekkingarþrá en er fyrr en varir orðin að lífsstíl, sér í lagi fari maður að njóta einkennanna jafnmikið og sjúkdómsins (einkenni geta verið: leti við rakstur, aukin kaffidrykkja, langar ræður um póstmódernisma, tilgerðarlegar tilvitnanir í spekinga: „sagði ekki Spinoza, að …“). Ég hef gerst sekur um flest þetta og það verður partur af gamaninu að lifa sig inn í hlutverkið. Það er líka nauðsynlegt að hafa húmor fyrir náminu og sjálfum sér því umfram allt er þetta drulluerfitt. B.A.-nám er ógeðslega erfitt. Framhaldsnám ekki síður. Það þarf seiglu til að halda áfram hvað sem tautar og raular. Maður gerir það af því að maður elskar það. Það sem fæst að launum er líka ómetanlegt (sem er líka eins gott því ekki fær maður neina vinnu út á menntunina).
Ég ætla ekki að eigna honum einn eða nokkurn þessara eiginleika, manninum sem mig langar að minnast. Hann þekkti ég ekki svo vel. Því finnst mér ég varla eiga rétt á því hvað ég hef verið dapur síðan ég frétti að hann væri dáinn, þó að ég geti vitanlega ekkert gert í því þótt mér líði þannig.
En, hann kom mér fyrir sjónir sem félagi í þekkingarmaníunni: annað eintak sem heldur áfram sama hvað, jafnaldri minn og samstúdent sem haldinn var sömu veikinni. Hann var raunar alvarlega veikur á annan hátt, en hann virtist ekki ætla að láta það stöðva sig þótt veikindin hömluðu honum allverulega. Leiðir okkar lágu sífellt oftar saman eftir því sem á leið veturinn og – ef til vill ekki að furða í fámenninu – hittumst við nálega daglega niðri í Háskóla í sumar. Alltaf settist hann á spjall við mig ef hann fann mig í Stúdentakjallaranum eða á Háskólatorgi. Ég viðurkenni að mér þótti erfitt að tala við hann, það gerðu veikindi hans, en mér líkaði fjarska vel við hann. Hann var góður strákur.
Ég hef stundum velt því fyrir mér, fengi ég að loknu lífinu að velja eitt af tvennu: að fá þegar að komast í allan sannleika um alla hluti, eða hafa eilífðina til rannsókna en aldrei fá úr neinu endanlega skorið, þá veldi ég síðari kostinn. Ég hef líka hugsað með mér að hvernig sem annars um mig fer, þá vilji ég fá að halda áfram þekkingarleitinni til síðasta dags. Kannski er það einmitt þetta sem fær mest á mig þegar ég hugsa um kunningja minn úr Háskólanum: hann vissi að hver dagur gæti orðið sinn síðasti, og hvernig sem honum annars farnaðist þá bar viðleitnin hann samt hvern einasta dag út í Háskóla. Þar sá ég hann fyrst og þar sá ég hann síðast. Og ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við mig nú þegar ég veit að ég mun aldrei sjá hann aftur, en á samt alltaf von á því að hann komi og setjist hjá mér. Hitt veit ég að ég er glaður að hafa þekkt hann, þótt ekki hafi ég þekkt hann vel, og svo mikið er víst að mér finnst heimurinn fátækari fyrir það að hann er horfinn.
Ég þarf ekki að vona, því ég veit í allri einlægni að heimspekingsins Gunnars Júlíusar Guðmundssonar verður lengi minnst.

Játning

• Mér finnst heimskulegt að tala um „skóla lífsins“.

• Stundum er það sama fólk sem vegsamar „skóla lífsins“ og er stolt af því að vera „af gamla skólanum“ (áður en allar þessar andskotans framfarir urðu).

• Ef til vill er þetta sama fólk og heldur að non scholae sed vitae discimus merki „við lærum ekki af skólanum heldur lífinu“. Að minnsta kosti halda margir þeir sömu að raunveruleg merking þessa frasa sé ómöguleg því nám hafi ekkert hagnýtt gildi. Að vera andvígur menntun er líka tegund af menntasnobbi.

• Mér finnst þetta blaður um „skóla lífsins“ vera álíka spennandi og „glíman við Bakkus“. Ég veit ekki af hverju sumir finna sig knúna til að upphefja eins hversdagslega hluti. Það eru margir sem vinna frá 14 ára aldri eða hætta í skóla og það eru margir sem glíma við ýmiss konar fíkn. Það eru að sama skapi margir sem eru langskólagengnir og svo eru margir sem aldrei þurfa að glíma við fíkn. Ekkert af þessu er merkilegt í sjálfu sér.

• Niðurstaðan er að við lærum öll af lífinu á einn eða annan hátt, og svo lifum við lífinu hvert með sínu laginu. Það er ef til vill ekki sérlega merkileg niðurstaða en mér virðist sem hún sé ekki öllum jafn augljós. Fyrst og fremst erum við öll mannfólk og þurfum ekki að hafa ímugust hvert á öðru fyrir að lifa lífinu öðruvísi en við sjálf teljum réttast.

• Ef einhverjum finnst örla á menntasnobbi í þessu bloggi hefur viðkomandi ekki lesið það rétt.

Svör við algengum spurningum

Stundum fæ ég fólk inn á síðuna mína í leit að svörum við áleitnum spurningum sem brenna á þeim. Ég hef nú ákveðið að svara sumum þessara spurninga svo næsta manneskja sem leitar hins sama grípi ekki í tómt:

Hvað er hryðjuverkasamtök?
Samtök fábjána með óljós en ofbeldisfull markmið. Sem dæmi má nefna Samtök atvinnulífsins og Landssamband íslenskra útvegsmanna.

Kosningaseðill forsetakosningar?
Þú finnur hann á kjörstað. Kosið verður í júní. Gangi þér vel að merkja á seðilinn.

Blóðflokkar á Íslandi?
Þeir sömu og annarsstaðar í heiminum. Nánari upplýsingar um ABO- og rhesuskerfin má finna hér.

Verðlistinn Laugalæk?
Já, hann er við Laugalæk. Þessa dagana er líka sérstök útsala við Grensásveg þar sem HP-húsgögn voru áður (en þú fæddist).