Fögur er hlíðin

Mig langar til að birta hérna umfjöllun um open mic kvöldið Blame Canada, sem haldið var til heiðurs Angelu Rawlings – fundna hjá Angelu Rawlings, skrifaða af Pétri Blöndal:

Miðnætti á fimmtudegi í miðborginni.
„Þetta er að lognast út af, held ég,“ segir Steinar Bragi.

Nokkrar skáldspírur standa í hnapp fyrir utan Næsta bar, sjálfselskandi ljóðskáld eins og þau kalla sig. Þetta kvöld er Nýhil með „open mic“, þar sem hljóðneminn er opinn öllum. Tilefnið er burtför kanadíska ljóðsprundsins Angelu Rawlings, sem kallar sig a.rawlings á skáldamótum. Hún sérhæfir sig í hljóðljóðum.

– Hvernig eru þau? spyr blaðamaður í einfeldni sinni.

Og svar hennar er óvænt:

„Maður gefur frá sér hljóð.“

– Í bland við ljóð eða hugsanir? spyr blaðamaður forviða.

„Stundum.“

Blaðamaður mjakar sér inn fyrir, rétt í tæka tíð til að heyra síðasta atriði kvöldsins, þar sem fullorðinn karlmaður stendur á miðju gólfi, hefur tekið hljóðnemann traustataki og syngur gamlan smell. Ekki stendur á viðbrögðum. Vinur hans hleypur til hans, faðmar hann og segir: „Ó, þetta var geðveikt!“

a.rawlings flutti ljóð fyrr um kvöldið, þar sem hún var með frönsk tarotspil, hvaða þýðingu sem framandi uppruni spilanna hafði – kannski þá, að hún skildi ekki örlög sín. En hún miðlaði engu að síður tilfinningum sínum yfir misskildum örlögum með hljóðrænum tilþrifum. Kannski var Parísarskáld í salnum, sem skildi frönsk tarotspil, og náði hljóðljóðinu í allri sinni dýpt.

Barþjónarnir hafa hlustað á ljóð allt kvöldið, og einn þeirra er farinn að tala í hljóðum, sem laus eru við ljóð, og hljóða einhvern veginn á þennan veg: „Sjáðu verðið!“

Hann bendir á stórar verðmerkingar á barnum.

„Allt special price!“

En leikskólamærin, sem nú vinnur á barnum, segir að ljóð kvöldsins hafi verið misjöfn. „Sum voru ögrandi,“ bætir hún við. „Eitt var um að nauðga ungbarni.“

A.rawlings gerir sig líklega til að hverfa af vettvangi og morguninn eftir fer hún af landi brott, en hún hefur verið á Íslandi í þrjá mánuði á styrk frá kanadískum stjórnvöldum. Enda er yfirskrift kvöldsins „Blame Canada“. En hún ætlar sér að snúa aftur næsta vor og vera allt sumarið, ganga Fimmvörðuhálsinn og um Þórsmörk, svona meðfram bókarskrifum. Og hún á til orð yfir Íslendinga:

„Þeir eru hráir, ástríðufullir og áfram um að segja sögur, fallegar og furðulegar sögur, sem gefa manni þrótt; þeir eru opnastir allra í heiminum og hér er besta augnsambandið.“

Hún segist ekki vilja fara „heim“ aftur og gerir táknrænar gæsalappir með fingrunum utan um heim. Svo arkar hún af stað tregafullum skrefum, horfir upp Ingólfsstrætið og tautar eflaust fyrir munni sér: „Fögur er hlíðin.“

pebl@mbl.is

Já, þetta var gott kvöld.