Táningarnir í Fræðagerði*

Til heiðurs Þeofrastosi:

Ég þekki mann í fræðunum sem fer leynt með kynhneigð sína af ótta við að hún gæti komið niður á fræðaferli hans. Það versta er að sá ótti er ekki ástæðulaus í heimalandi hans.

Ég þekki mann í fræðunum sem er ofurgagnrýninn á flesta kollega sína, en gerir síðan sjálfur öll sömu mistök og hann ranglega sakar aðra um. Hann hlær að einhverjum og gerir síðan nákvæmlega það sama og hann, aðeins verr.

Ég þekki konu sem hætti í fræðunum af því hún fékk ekki af sér að fara fram á það við neinn að verða leiðbeinandi sinn.

Ég þekki mann í fræðunum sem enginn vill vita af. Hann var eitt sinn mjög efnilegur að sögn en hefur farið illa með sig. Hann er strandaglópur í námi, getur ekki útskrifast en ekki er hægt að loka hann úti heldur.

Ég þekki konu í fræðunum sem hefur svo miklar áhyggjur af að kennurum hennar og kollegum þyki hún vera fífl að hún þorir aldrei að tjá skoðanir sínar.

Ég þekki mann í fræðunum sem gerir ekki annað en tjá skoðanir sínar af lítilli þekkingu og enn minni reynslu. Kennurum hans og kollegum finnst hann vera fífl.

Ég þekki mann í fræðunum sem talar afar illa um fræðimenn sem heyra ekki til en smjaðrar svo fyrir þeim á ráðstefnum.

Ég þekki mann í fræðunum sem reynir stöðugt að þóknast leiðbeinendum sínum sem eru innbyrðis ósammála og hnakkrífast yfir tölvupóstinn svo hann sjái til. Hann skiptir um ritgerðarefni tvisvar í mánuði að meðaltali og veit varla sjálfur lengur hvað hann er að gera. Það sést á öllum umsóknum hans sem er hafnað hvert sem hann sendir þær.

Ég þekki mann í fræðunum sem heldur að námskeiðsritgerðir sem hann fékk bágt fyrir einu sinni hafi verið merkari fræði en öll samantekin ritaskrá kennara sinna.

–––––
* Þessi færsla heitir eftir barnaefni sem sýnt var í lok níunda áratugarins í íslensku sjónvarpi og nefndist Táningarnir í Hæðagerði. Þeir fjölluðu um ógeðslega rík forréttindabörn í Beverly Hills sem óku um á limmúsínum með sundlaug í stað skotts.

Á þessum mótum breytist lífið (agnarögn)

Í gær urðu ákveðin tímamót, sem mér síðan fipaðist við að koma í orð þess heldur sem tilefnið var meira. Ég ætla að gera aðra atlögu að því hér.

Haustið 2000 fylktu spenntir nýnemar í Menntaskólanum í Reykjavík liði úr skólasetningu í dómkirkjunni og dreifðust á stofur í hinum ýmsu byggingum skólans. Á stofu C-101 í Casa Nova var skipað ýmsu úrvalsfólki og þeirra á meðal voru þrjú töluvert lúðaleg ungmenni, gerólík um flesta hluti, sem náðu gríðarvel saman en í tveimur kippum þó: við Alli annars vegar, en Alli og Silja hins vegar.

Síðan féll ég um vorið og tók þriðja bekk aftur.

Ég kann ekki að skýra hvers vegna við Silja urðum ekki vinir fyrr en við lentum aftur saman í bekk haustið 2002 öðruvísi en svo að sennilega taldi hvort okkar hitt ekki hafa neinn áhuga á frekari kynnum. Dag einn bar það til að við tókum bæði fjarkann af Lækjartorgi og þá var ekki um annað að ræða en að ég settist hjá henni. Upp úr kafinu kom að bæði spiluðum við á hljóðfæri og þegar komið var fram í janúar höfðum við tekið upp lagið Permiscua musica í gervi hljómsveitarinnar Helþrymju með liðsinni Hallgríms Jóns Hallgrímssonar frænda míns og Smára tarfs. Það var eins og við hefðum aldrei ekki þekkst. Lagið má heyra hér.

 

 

Það var þennan vetur sem við fórum að hittast öll þrjú saman. Menntavegurinn hafði leitt Alla upp í Breiðholt og þegar voraði 2003 stóðum við Silja okkur nógu líkt á prófi að hvorugu okkar var lengur til setunnar boðið á þeim skólabekknum.

En þó að gamla miðbæjarskólanum hafi ekki haldist á okkur þá höfum við Silja og Alli alltaf haldist saman. Við höfum í öll þessi ár verið óbreytanlegur kjarni í misstórum vinahópum eftir tímabilum, en þessi síðustu ár hafa fundirnir verið færri og lengra á milli þeirra en við höfum haft vanda til. Svoleiðis kemur fyrir. En það er líka það eina sem hefur breyst. Einhvern veginn höfum við þessar ólíku manneskjur alltaf haldið tryggð hverjar við aðra; við höfum átt athvarf hvert í öðru andspænis erfiðleikum lífsins, leitinni að ástinni, og í því sem mestu máli skiptir í lífinu sem er að hafa það skemmtilegt.

Við grínuðumst stundum með það hvert okkar myndi gifta sig fyrst, og nú þegar við höfum öll gift okkur á rétt rúmu ári finn ég það sterkar en áður hvað við erum alltaf eitthvað svona samferða í þessu. Þegar ég gekk áleiðis heim í nótt eftir brúðkaup Silju og Dóra hennar leiddu fæturnir mig, á ef til vill lítt dularfullan hátt, inn á Þingholtsstræti þar sem ég staldraði við dularfulla byggingu sem lætur lítið yfir sér en geymir heilan heim sem mótaði mig, og við gluggann sem vísar inn að ganginum langa í Cösu Nova varð mér litið inn, þar sem eitt sinn gengu þrjú lúðaleg ungmenni og veltu fyrir sér undarlegustu hlutum sem aðeins ungu fólki kæmi í hug að hugsa um upphátt, Silja gestikúlerandi af innlifun og Alli flissandi í leðurjakka með einhverja græju í hönd og sígarettu bak við eyrað, ég frakkaklæddur og ofsmurður geli um hárið, bestu vinir sem nokkru sinni hafa verið til. Hvernig getur maður annað en velt því fyrir mér hvað í ósköpunum maður gerði til að eiga skilið að eiga svona minningar, hversu mikil heppni það var að við þrjú höfum einmitt ratað í þennan sama þriðja bekk B haustið 2000.

Það er það sem ég hugsa um núna á þessum tímamótum þegar Silja giftist síðust okkar (þvert á allar spár mínar varð ég fyrstur til) og flytur til Stokkhólms nú eftir helgi. Af okkur eru til ýmsar sögur misjafnlega viðeigandi endursagnar, og margar þeirra eru varðveittar á þessari bloggsíðu sem enn lifir frá þeim árum þegar við vorum í MR og hittumst daglega við okkar Stammtisch á Prikinu. Það er því við hæfi að setja punkt hérna í bili við ævintýrið af Silju, Alla og Agga hinum vammlausu, eins og við kölluðum okkur. Ævintýrin verða öðruvísi núna en sagan heldur áfram, enda eru vináttuböndin sterkari en svo að trosnað geti; þau hafa lifað af umbreytingu úr lúðalegum börnum í töluvert lúðalegt fullorðið fólk sem sjálft á börn. Við skiljum kannski ekkert hvað varð af árunum, en þau hafa að mestu verið góð.

Silju og Dóra bíður töluvert ævintýri í Svíþjóð, nýtt upphaf, og ég veit að lífið á eftir að leika við þau þar. Þeim sendi ég hamingjukveðjur og knús og loforð um að bresta ekki í grát í þetta skipti.

Húsin úti í auðninni

Ég á minningu, sennilega úr 5. bekk grunnskóla. Við fórum strax í fyrsta tíma úr skólanum með Fimmunni (nú gengur enginn strætó framhjá Laugarnesskóla) og „niður í bæ“. Ég kannaðist aðeins við mig, þarna var Þjóðminjasafnið dálítinn spotta frá. Nema nú gengum við niður bratta brekku sem ég hafði aldrei fyrr farið; í töluverðum snjóþunga, sem við strákarnir gerðum okkur að sjálfsögðu strax að leik að renna okkur niður í, rúlla okkur eða beinlínis hrinda hver öðrum; á milli einhverra þeirra dapurlegustu skrifstofubygginga sem ég man eftir að hafa séð. Þær stóðu þarna í jaðri snjóhvítrar auðnarinnar, einsog við borgarmörkin, og ljós skein hér og hvar út um glugga í morgunmyrkrinu en ég man ekki hvort sást til nokkurrar manneskju inni. Síðan héldum við smáspotta út í þessa auðn, út í hús sem stóð þar eitt sér af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, mitt úti í öllu þessu ekkerti sem engar götur virtust liggja að.

Þetta hús var að sjálfsögðu Norræna húsið. Í mörg ár var mér það hulið eða ég pældi ekkert í því, en dapurlegu skrifstofubyggingarnar eru víst fulltrúar Háskóla Íslands í þessari minningu. Þar sit ég einmitt á þessari stundu þennan morgun og sötra kaffið mitt, í grútljótri skrifstofubyggingu sem bæst hefur í safnið síðan. Ég man hvað mér fannst óhugsandi að fólk gæti unnið hérna. Og ég man hvað mér þótti leiðinlegt að fara í þetta asnalega Norræna hús að læra um öll þessi norrænu leiðindi. Núna er fátt sem er mér meira að skapi en þetta norræna, þótt stundum berist vondar og undarlegar fréttir hingað út einsog sigur hægriflokkanna í Noregi í gær.

Það hefur margt breyst í þessu norræna síðan ég var í 5. bekk.

Rauðar pöndur í rennibraut

Hljóðin af leikskólanum eru óviðjafnanleg þennan morguninn. Ein stúlkan hefur fundið upp víbrandi hljóð sem kalla mætti sonic burst ef finna ætti lýsandi heiti, og önnur tvö börn virðast ætla að skila raddböndunum aftur út í náttúruna þar sem þau munu samlagast íslenskum jarðlögum um aldur og ævi. Öll eru hljóðin þó með krúttröddum barna sem hefur svipuð áhrif á mig og að sjá myndband af rauðum pöndum að leika í rennibraut. Svo þetta er gott.

Ég er ennþá sigri hrósandi síðan í gær eftir að ég fékk góða dóma fyrir verk mín og álpaðist í kjölfarið til að lesa téð verk í fyrsta skipti síðan í apríl. Er eðlilegt að þykja ótrúlegt að maður hafi skrifað eitthvað? Ég er ekki að tala um síhangandi Damóklesarsverð impostorsyndrómsins, heldur að ég meðtek svo mikið af upplýsingum dag hvern að ég gleymi stórum hlutum úr eigin rannsóknum. Sennilega er allt þetta ferli þjálfun í að hugsa stórt. Ég er enn bara að læra. Eins gott líka að ég haldi áfram að læra. Ég er megamaskína núna samanborið við sjálfan mig fyrir ári. Þá þóttist ég vita allt og þykist þó vita helmingi minna núna.

Ætti ég endalausa peninga myndi ég kaupa mér fleiri Loebklassíkera (ég á þrjár bækur af 520). Mest langar mig í Evsebíus, Beda og Ágústínus og bíð í ofvæni eftir að fleiri komi út eftir Heródótos. Ætti ég endalausa peninga myndi ég raunar kaupa mér allt settið. Og hús í Kaliforníu. En í augnablikinu myndi ég alveg sætta mig við að eignast restina af Plíníusi og þá hina fyrrnefndu.

104

Það er hætt við að bloggið deyi ef maður passar sig ekki; til þess þarf maður að hætta að gera þessar endalausu kröfur til sjálfs sín og bara blogga um allt þetta sem aldrei verður ódauðlegt.

Bloggið um Reza Aslan var mest lesna færslan á þessu ári en ég hef ekki nennt að blogga framhaldið. Áhugasamir geta þó fengið álit fræðimanns á Jesúbókinni hans hér, í Huffington Post af öllum stöðum.

Við Eyja höfum étið töluvert í sumar fyrir öll gjafakortin sem við fengum í brúðkaupsgjöf utan eitt, og svo höfum við ferðast smáræði líka. Í vikunni sem leið vorum við í Borgarfirði, þeim íslenskasta hluta Íslands. Stelpurnar fóru í sund fyrsta daginn og á öðrum deginum spyr styttra barnið mig hvað eigi að gera þann daginn. Þar sem við vorum jú í Borgarfirði fékk hún tvo valkosti (og hvorugan góðan, kom í ljós): Annað hvort að skreppa í Reykholt að skoða Snorralaug, eða á Landnámssetrið í Borgarnesi.

Orð þurfti ekki til svars þar sem svipurinn réði úrslitum. Í stað menningarlegrar innrætingar hafði ég barnið með í búðarferð sem lyktaði með ístúr í fyrrum Hyrnuna, nú musteri ins helga Bjarna byskups ór Enneinum. Tókst þó að sýna henni haug Skalla-Gríms, minnst spennandi staðinn í samnefndum garði hvað hana snerti, og taka einn rúnt um Brákarey. Ég lagði nú ekki í að segja henni frá Brák. Kannski þegar hún er orðin aðeins stærri og/eða áhugasamari um þessa durga, forfeður okkar.

Dagarnir fara í pauf við skrifborð. En ég er glaður. Framundan eru svo flutningar í póstnúmer sem ég bjó síðast í 1990. Það er gott póstnúmer en austarlegar gæti ég ekki búið í þessari borg.

Ráðstefnur, rannsóknir og reik

Ráðstefnan í Leeds var meiriháttar. Ég myndi segja töluvert skemmtilegri en fornsagnaþingið sem haldið er á þriggja ára fresti, enda er þar ekki einblínt á Norðurlönd sérstaklega heldur á miðaldir einsog þær leggja sig. Auðvitað þurfa allir vísindamenn að sérhæfa sig en sérhæfingin er til einskis ef þeir átta sig ekki á heildinni. Og hvað mínar rannsóknir snertir þá er stærri ramminn áhugaverðari. Góður rómur var gerður að erindum okkar allra (mitt má nálgast hér), og ég var svo lánsamur að slammarinn mætti þegar ég talaði og kinkaði kolli sem óður væri.

Í kjölfarið sótti ég töluvert minni ráðstefnu í Oxford þar sem ramminn var auk þess afar þröngur og það getur verið afar gagnlegt líka að einblína á fáein skyld vandamál til að leita lausna á þeim. En til þess að finna þær lausnir þá þarf oft að leita út fyrir þrönga rammann. Og ég fékk það á tilfinninguna í Oxford að kannski fari fræðimenn nú að gera það í auknum mæli, fari að efast um viðteknar hugmyndir sem e.t.v. standa á brauðfótum. Við vitum að mörgum knýjandi spurningum um norrænar bókmenntir verður ekki svarað öðruvísi en með því að leita út fyrir þær, leita samhengisins. Ef við ætlum að rannsaka eddukvæði (svo dæmi sé nefnt) þá þurfum við fyrst að spyrja okkur að því hvað eddukvæði eru, því kannski er svarið ekki eins sjálfsagt og við viljum halda.

Í Oxford fór ég á báða barina sem Inklingarnir (óþýðandi sniðugheit í því heiti) sóttu; annars vegar The Eagle and Child, sem var upphaflegi fundarstaðurinn, en búið er að rústa fundarherbergið og sameina barinn veitingakeðjunni Nicholson’s svo mér fannst hann lítið sjarmerandi (auk þess er hann troðfullur af Tolkientúristum), hins vegar The Lamb and Flag sem er bara hinumegin við götuna og hefur ennþá yfirbragð alvöru vertshúss. Ef til vill ekki ósvipað Skindbuksen (fremur en Hviids Vinstue, þar sem þjónar eru farnir að snobba með þverslaufur).

Og nú er kannski ekki skrýtið þótt hugurinn hafi reikað til Kaupmannahafnar, því nú hefur mér hlotnast höfðinglegur styrkur frá Den Arnamagnæanske Kommission til handritarannsókna í Árnastofnun eftir áramót. Bréfið barst mér í morgun og af fenginni reynslu er húsnæðisleitin þegar hafin. Það verður gott að hitta alla vinina aftur og eignast þá fleiri. Á haustmisserinu sest ég hinsvegar á skólabekk og nem kennslufræði, sit lit-review námskeið hjá þeim Kolfinnu, Miriam og Þórdísi, og sjálfur mun ég sennilega grípa eitthvað í kennslu á misserinu líka.

En fyrst eru það önnur verkefni. Ég í sveitina með Eyju á morgun að sinna þeim. Og hvílast eitthvað í leiðinni. Brumm brumm.

Staðið við grunn íslenskra fræða

Ég átti leið framhjá Sögu, leit í leiðinni ofan í grunn íslenskra fræða sem ég hlakka til að sjá verða að húsi. Af mynd arkitektsins að dæma, sem raunar gæti verið af sumarbústað frá því fyrir fáeinum árum, á að hafa feikistórt síki umhverfis húsið. Það verður mikil vatnaparadís þarna á melunum, með vindubrúrkastalann utan um menningararfinn og fræðibönker utan um þjóðmenninguna þar við hliðina. Það er líka komið dálítið stöðuvatn við Þjóðminjasafnið og svo við Erfðagreininguna og Hörpu, einhver tíska.

Ég skil að vísu ekki alveg af hverju Landspítalinn endurspeglast í húsinu eða hvers vegna það virðist standa eitt sér. Kannski felur myndin í sér fyrirheit um að þótt Reykjavík farist muni Hús íslenskra fræða standa af sér allan mótbyr; íslenska þjóðin, eða í öllu falli íslenskufræðingar, víki aldrei. Þeir muni sitja úti á palli í vatni að drekka bjór sama hvað um aðra verður.

Annað sem sennilega hefur farið fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum er að húsið verður alltaf hluti af íslenskri knattspyrnusögu. Enn eru til þeir sem eru haldnir slíkri nostalgíu að þeir vildu fá aftur Melavöllinn gamla svo veðurbarið fólk geti spilað þar fótbolta í óviðjafnanlegu roki. Nú þegar það er of seint að endurheimta melana geta þeir þó huggað sig við að Hús íslenskra fræða verður ekki einasta á sama reit heldur verður það líka sporöskjulega einsog Melavöllur. Það er sannarlega ein leið til að „viðhalda götumyndinni“, altént úr lofti séð.

Ráðstefnur

Á mánudaginn held ég til hins mikla útlands á ráðstefnu, eða reyndar tvær ráðstefnur. Það er fátt sem fær mann til að þykja maður sjálfur jafn merkilegur og ráðstefnuferðir með sínum hótelum, faglegu umræðum og hálfdrukknu kollegum. Maður situr meiraðsegja öðruvísi í flugvélum þegar maður heldur utan á ráðstefnu en þegar maður fer í frí. Maður er einbeittari, betur til hafður, samt kankvíslegur. Í DV um daginn var frétt um að stór skrifborð ykju siðleysi fyrirtækjastjórnenda. Mér finnst ekki ósennilegt að ráðstefnur hafi svipuð áhrif á sjálfsmynd fræðimanna, að minnsta kosti þangað til þeim er slátrað uppi í pontu fyrir að segja steypu.

Kannski er það bara hótelið. Það skiptir engu máli hvað hótelherbergi kostar, manni líður alltaf einsog ventúrkapítalista þegar inn er komið, og fólkið á götunni niðri er einsog iðandi maurar hvort heldur sem herbergið er á tólftu hæð eða þeirri næstu ofan við anddyrið. Míníbarinn æpir: „Tæmdu mig! Þú hefur ráð á því.“ Tekst alltaf að telja einhverjum trú um að það sé satt. Svo er skrifað blindandi undir reikninginn síðar.

Því fleiri ráðstefnur sem maður sækir því kunnugri er maður þeim týpum sem þar lifa og hrærast. Til dæmis er náunginn sem kinkar kolli af offorsi undir fyrirlestrum líkt og salurinn megi ekki án hans samþykkis vera. Það er líkast slammi á rokktónleikum. Maður býst hálft í hvoru við að höfuðið losni af og rúlli að púltinu. Oft glósar slammarinn af græðgi en reynist þegar öllu er á botninn hvolft vera manna krítískastur í fyrirspurnatímanum. Nær undantekningalaust Bandaríkjamaður.

Önnur týpa er þýski doktorsneminn. Hann hefur aldrei rangt fyrir sér af því hann fjallar aðeins um grundvallaratriði, en gerir það raunar ítarlega. Talar af staðfestu og fullvissu og hefur lærdómstitilinn M.A. á undan nafninu sínu í neðra vinstra horninu á glærunum. Fer í kerfi ef einhver spyr spurningar út fyrir kjarna efnisins. Svo er gamli jaxlinn sem lætur engan segja sér hversu lengi hann má tala og talar langt umfram tímann í óþökk allra, en hann er raunar sjaldséður orðinn. Leiðinlegastur þykir mér lykilræðumaðurinn sem hlotnast sá heiður að halda þriggja kortéra ræðu um ekkert og gerir sitt ítrasta til að beina málinu að sjálfum sér.

Ég mun að sjálfsögðu hafa uppi mína þeófrastísku týpubók og haka við þær týpur sem bregður fyrir, jafnvel mun ég blogga um einhverjar þeirra ef ég þreytist á að fylgjast með maurunum út um gluggann á reyklausa hótelherberginu mínu. Þetta verða tvær ráðstefnur í jafnmörgum borgum og því mikillar spennu að vænta á blogginu.

Af dönsku, ást og jaðrakan

Það er svo margt sem lítið mál væri að bregðast við og hafa skoðun á, en þegar það hefur safnast saman fellur mér allur ketill í eld.

En eitt dæmi: Af hverju gera Íslendingar alltaf ráð fyrir að danska eigi að vera þeim eitthvað skiljanlegri en önnur mál sem þeir hafa ekki lagt metnað sinn í að læra? Það virðist aldrei vera þannig að skilningi þeirra á dönsku sé ábótavant, heldur séu það Danirnir sem tali með einhverjum fáránlegum framburði. Svo halda hrokafullir ráðherrar út í heim og hrósa öðrum ráðherrum fyrir skýran framburð á dönsku (og það á ensku með þykkum íslenskum hreim), en þótt ótrúlegt megi virðast skiptir engu máli hvernig það er meint því það er alltaf háð þegar útlendingur hrósar manneskju fyrir að kunna móðurmál sitt.

Annars er stemningin í Vatnsmýrinni dálítið í anda The Birds nú um stundir þegar varpið stendur sem hæst: kríur halda uppi ógnandi jaðarvörnum og aðrir fuglar (ég held ég hafi séð jaðrakan þeirra á meðal) hafa dreift sér strategískt hér og hvar og senda skilaboð sín á milli um mannaferðir (ef einhver skilur ekki af hverju brýrnar vantar milli Hringbrautar og Norræna hússins þá er það semsé til að vernda varpið fyrir fólki og fólk frá því að fá kríu í hausinn). Og þetta minnir mig allt í einu á ástarljóðasafnið Ást æða varps sem svo oft fékkst gefins með ólíklegustu hlutum að sennilega eignaðist ég í heildina fimm eintök (fyrir utan þau sem ég fann tilefni til að gefa), en nú veit ég ekki hvað orðið hefur um eitt einasta þeirra. Mig minnir þó að í bókinni hafi verið rómantískt ljóð eftir Óttar Norðfjörð um hnefa og rassgat. Það væri nú ekki ónýtt að finna þetta aftur til að rifja upp herlegheitin.

Þegar Sæmundur lærði tamíl

Það verður ekki af honum Helga Guðmunds tekið að hann heldur manni svoleiðis á snakki að kaffið kólnar í hitabrúsanum á meðan. Ég þekki engan annan sem hefur slíkan samræðumátt að ég gleymi kaffibolla. Hann er einnig þeirri gáfu gæddur að ef hann þarf að mæla á eitthvert annað tungumál þá segir hann „þú skilur þetta“ og þá einsog fyrir galdur skilur maður allt, og þó það væri á tamíl.

Svo tekur alvaran við á kontórnum. Jökulkalt kaffi úr hitabrúsanum og kontóristinn sem er það skyni skroppinn að hann hefur skattstjóralegasta mögulega hringitón, sem málning flagnar undan, á farsímanum sem hann skildi eftir og hringdi auðvitað linnulaust meðan hann gekk örna sinna í lengri tíma. Hinsvegar hringir aldrei neinn í hann í þau fáu skipti sem hann er viðlátinn til að ansa.

Þetta er ekki til að auka á ánægjuna, en til allrar hamingju eru flúrljósin þæg sem stendur svo þetta er ekki sem verst. Dagsverkin vildi ég að gætu orðið drýgri en raunhæft er en þannig er það líka þegar maður vinnur að sjö hlutum í einu meðan hugurinn stefnir í áttundu átt. Sennilega þarf ég bara kaffibolla til en þá á ég á hættu að ramba aftur á Helga og glata þannig restinni af vinnudeginum í Anjou og Sæmund fróða — og kannski smá tamíl í leiðinni.