Táningarnir í Fræðagerði*

Til heiðurs Þeofrastosi:

Ég þekki mann í fræðunum sem fer leynt með kynhneigð sína af ótta við að hún gæti komið niður á fræðaferli hans. Það versta er að sá ótti er ekki ástæðulaus í heimalandi hans.

Ég þekki mann í fræðunum sem er ofurgagnrýninn á flesta kollega sína, en gerir síðan sjálfur öll sömu mistök og hann ranglega sakar aðra um. Hann hlær að einhverjum og gerir síðan nákvæmlega það sama og hann, aðeins verr.

Ég þekki konu sem hætti í fræðunum af því hún fékk ekki af sér að fara fram á það við neinn að verða leiðbeinandi sinn.

Ég þekki mann í fræðunum sem enginn vill vita af. Hann var eitt sinn mjög efnilegur að sögn en hefur farið illa með sig. Hann er strandaglópur í námi, getur ekki útskrifast en ekki er hægt að loka hann úti heldur.

Ég þekki konu í fræðunum sem hefur svo miklar áhyggjur af að kennurum hennar og kollegum þyki hún vera fífl að hún þorir aldrei að tjá skoðanir sínar.

Ég þekki mann í fræðunum sem gerir ekki annað en tjá skoðanir sínar af lítilli þekkingu og enn minni reynslu. Kennurum hans og kollegum finnst hann vera fífl.

Ég þekki mann í fræðunum sem talar afar illa um fræðimenn sem heyra ekki til en smjaðrar svo fyrir þeim á ráðstefnum.

Ég þekki mann í fræðunum sem reynir stöðugt að þóknast leiðbeinendum sínum sem eru innbyrðis ósammála og hnakkrífast yfir tölvupóstinn svo hann sjái til. Hann skiptir um ritgerðarefni tvisvar í mánuði að meðaltali og veit varla sjálfur lengur hvað hann er að gera. Það sést á öllum umsóknum hans sem er hafnað hvert sem hann sendir þær.

Ég þekki mann í fræðunum sem heldur að námskeiðsritgerðir sem hann fékk bágt fyrir einu sinni hafi verið merkari fræði en öll samantekin ritaskrá kennara sinna.

–––––
* Þessi færsla heitir eftir barnaefni sem sýnt var í lok níunda áratugarins í íslensku sjónvarpi og nefndist Táningarnir í Hæðagerði. Þeir fjölluðu um ógeðslega rík forréttindabörn í Beverly Hills sem óku um á limmúsínum með sundlaug í stað skotts.

Skráningarörðugleikar II

Eftir allt umstangið við að koma mér inn í skráningarkerfi Háskólans í Árósum fékk ég bréf í dag þar sem mér var tilkynnt að erlendir stúdentar þyrftu að sækja um bréflega.

Svarið við öllum umleitunum mínum var semsé fólgið í tveggja blaðsíðna umsóknareyðublaði sem einni manneskju af þeim níu sem ég talaði við á fimm dögum loksins hugkvæmdist að senda mér slóðina á.

Skyndilega þykir mér Háskóli Íslands eiga aðdáun skilið fyrir skilvirkni …

Skráningarörðugleikar

Á sama hátt og mér leiðist þegar fólk spyr spurninga sem það hefði getað fundið svar við sjálft hefði það kynnt sér málin leiðist mér þegar ég spyr einfaldrar spurningar og er vísað á heimasíðu, einsog ég hafi ekki leitað af mér allan grun á sömu heimasíðu.

Til að gera langa sögu stutta tók það mig tvo daga að fá úr því skorið hvernig ég gæti sent inn umsókn í Árósaháskóla; þegar það var komið í ljós virkaði skráningarkerfið ekki. Það tók annan dag að kippa því í liðinn og þá er ekki boðið uppá umsókn í meistaranám, bara eitthvað skiptinám, diplómanám eða doktorsnám, og ég get ekki klárað umsóknina nema fara gegnum stofnun á borð við Nordplus eða Erasmus – sem ég hef engan áhuga á að gera. Svo það er útlit fyrir að það taki minnst einn dag í viðbót að finna útúr þessu. Þetta hefur kostað mig talsverðan tíma, símtal til Danmerkur og ýmislegar dönskuæfingar. Ef ég væri ekki staðráðinn í að fara væri ég búinn að gefast upp.

Varðandi nýja bloggið þá hef ég núna uppfært wordpresskerfið mitt svo síðan er ýmsum kostum búin. Allar myndir sem verða birtar á síðunni héreftir virka þannig að hægt er að smella á þær til að sjá þær stærri. Prufið myndina hér að ofan, hún er af campusnum og háskólagarðinum í Árósum. Hægramegin við gatnamótin ofanvið er Norrænudeildin til húsa. Skáhallt á móti er aðalbyggingin og útibú Landsbókasafnsins. Hinumegin götunnar eilítið til vinstri má finna bóksölu stúdenta og stúdentabarinn þarsem ég hlakka til að drekka á ný í framtíðinni.

TOEFL-próf

Einsog lesendum Bloggsins um veginn ætti að vera kunnugt er ég á leiðinni til Árósa í framhaldsnám næsta haust. Umsókn um háskólavist erlendis fylgir einsog við mátti búast óhemjumikið pappírsflóð sem þarf tiltekið marga hornrétta stimpla ofaná undirskriftir kontórmeistara og handhafa réttra prókúra auk ýmissra annarra skilyrða og formsatriða sem uppfylla þarf.

Eitt af þessum skilyrðum er viss lágmarkseinkunn í TOEFL eða sambærilegu stöðluðu, samræmdu enskuprófi. Vegna gengisskráningar krónunnar kostar orðið 20 þúsund að taka svona próf og það er aðeins hægt á tilteknum tíma, alltaf með eitthvað um þriggja til fjögurra mánaða millibili. Auðvitað vill helst enginn þurfa að borga fyrir svona leiðindaprógramm.

Sem er einmitt nokkuð sem kom á daginn þegar ég fór að skoða þetta aðeins betur. Heimild til undanþágu við Árósaháskóla er veitt stúdentum með enskukunnáttu á svokölluðu B-stigi hafi þeir tímasókn uppá að minnsta kosti 210 klukkustundir – ekki kennslustundir. Svo ég hafði samband við gamla framhaldsskólann minn sem reiknaði út fyrir mig að þær 15 einingar sem ég kláraði jafngilda 260 klukkustundum af kennslu, og með einkunn yfir lágmarksviðmiði ÅU er ég undanþeginn prófið.

Ástæða þess samt að mér finnst taka því að skrifa um þetta hér er sú að nú eru ótal stúdentar á hverju ári sem taka TOEFL-prófið vegna þess að þeim er sagt að þeir þurfi þess. Nú er prófið nokkurnveginn alveg eins uppbyggt og venjulegt stúdentspróf, og miðað við hversu margar einingar íslenskir stúdentar taka í ensku fór ég hreinlega að velta því fyrir mér hvort stúdentsprófið eitt og sér komi fólki ekki bara helvíti langt.

Í það minnsta myndi ég hvetja fólk til spyrjast fyrir um hvort það raunverulega þurfi að taka TOEFL-próf áður en það eyðir formúgu fjár í eitthvað sem það hefði ef til vill getað verið án.

Stóra planið

Stundum fellur lausnin einsog af himnum ofan. Ég hef haft áhyggjur af því að undanförnu hvernig ég komi til með að geta lifað fyrstu önnina í meistaranámi án þess að taka bankalán eða vinna einsog skepna, af því LÍN lánar ekki fyrirfram hvort sem maður nemur hérlendis eða þarlendis. Lausnin reyndist æði einföld. Nú er ég kominn með lævíslega gott plan til að fylgja.

Það er þá atriði eitt sem ég get strikað af vandamálalistanum við að flytja úr landi. Vandamál tvö er ekki á mínu valdi, en það er lengd biðlista eftir stúdentaíbúð. Ef atriði eitt gengur eftir einsog ég ráðgeri þá ætti ég að vísu að hafa efni á að leigja herbergi í einhverri rottuholunni uns röðin kemur að mér.

Vandamál þrjú felst í að útskrifast í vor. Til þess þarf ég aldeilis að nema málþróunina sem varð úr frumnorrænu til forníslensku: *herðijaR missir viðskeytið -ja við stóra brottfall > *herðiR sem veldur i-hljóðvarpi (e > i) + R samlagast r > hirðir. Ef ég skildi það rétt.

Hvað maður leggur ekki á sig til að flytja til Danmerkur.

Eðli tungumálsins

Sumum bókmenntafræðingum er mjög tamt að tala um „eðli tungumálsins“ í víðum skilningi, hvað felist í eðli þess og hvaða áhrif það hefur útfyrir sig – sem er í sjálfu sér merkilegt því samkvæmt fræðum þeirra sjálfra felst ekkert utan tungumálsins – á málhafa gegnum texta eða sambærilega miðla sem einnig eru nefndir textar.

Samt hafa fæstir þeirra lagt stund á málvísindi. Hvernig skyldi nú standa á því?

Ágæt þumalputtaregla þegar lesnar eru greinar eftir yfirlýsta póstmódernista: skoða heimildaskrá þeirra greina þarsem talað er um eðli tungumálsins. Bakhtín og Jacobson hef ég séð, en aldrei Chomsky. Hvað þá heldur neitt nýlegra. Það er einsog eftir 1957 hafi ekkert gerst í málfræði. Hvað skyldi það segja okkur um eðli tungumálsins? Hvers vegna er afbygging póststrúktúralismans svona höll undir strúktúralisma?

Kannski af sömu ástæðu og þeir sem mesta áherslu leggja á málrækt hafa enga málfræði lesið, samanber ónefndur málræktarklúbbur: þeim mun minna sem þú veist, þeim mun meira þvaðrarðu, vitandi kannski innst inni að hvað sem þú segir hefur það ekkert með málfræði að gera. Eðli tungumálsins hafnar afbyggingu. Í heimi afbyggingar væri texti ekki til.

Íslendingasögur á íslensku

Ég hef alltaf jafn gaman að því þegar menntskælingar koma á bókasafnið og biðja um Íslendingasögur á nútímaíslensku. Skelfingarsvipurinn á þeim þegar ég segi þeim að þetta sé nútímaútgáfan.

Ég held það sé of mikið gert úr því að það sé á færi Íslendinga að lesa handritin. Það er það bara almennt ekki. Samt er talað um þetta einsog það sé sambærilegt við að lesa Guðrúnu frá Lundi.

Annars væri skemmtilegt að prufa að láta krakka lesa stafrétta texta. Bara til að prufa.

Kenningar Einars Pálssonar

Ég hef oft staldrað við bækur Einars Pálssonar um íslenskt þjóðveldi og goðafræði á bókasafninu, velt fyrir mér hvers vegna enginn talaði um þær í íslenskuskor en aldrei árætt að lesa neina þeirra. Þær eru svo margar, efni þeirra svo fjölbreytt (að því er virtist) og titlarnir gáfu ekki beinlínis miklar vísbendingar um innihaldið.

Svo í dag rakst ég á wikipediugrein um Einar Pálsson og sé núna hvers vegna þessar ellefu eða svo bækur eru ekki lesnar spjaldanna á milli við íslenskuskor.

Íslenska goðaveldið í heiðni (930-1000) var hugsað sem endurspeglun himneskrar reglu. Þannig mátti líta á goðana 36 sem fulltrúa himinhrings, og til samans jafngiltu þeir konungi í goðfræðilegum skilningi. Einar taldi að goðarnir hefðu búið yfir hinni goðfræðilegu þekkingu sem fylgdi goðsagnalandslaginu. Einar gerði ennfremur ráð fyrir að germönsk heiðni hefði, líkt og önnur nálæg trúarbrögð, orðið fyrir áhrifum af speki pýþagóringa og platonista um að eðli heimsins, og þar með hins goðlæga hluta hans, væri fólgið í tölum og hlutföllum. Hann hélt því fram að þessi speki hefði legið að baki íslenska goðaveldinu og konungdæmum grannlandanna.

Gallinn við öll svona samanburðarfræði ætti flestum að vera augljós: ef íslenska goðaveldið var hugsað svona, hvar eru þá íslensku heimildirnar fyrir því? Þær eru nefnilega ekki til. Einar gaf sér einfaldlega, útfrá samanburði við samgermanskan menningararf og reyndar allt til Grikklands, að tilteknar hugmyndir – tiltekin heimsmynd – hefði erfst svo að segja óbreytt gegnum aldirnar þjóða á milli. Skoðum þetta nánar:

Mælingakenning Einars var tilraun hans til að sameina (a) það sem vitað er um norræna heiðni; (b) það sem álykta má af sambærilegum heimildum um forn trúarbrögð indó-evrópskra manna; (c) það sem vitað er um stjarnfræðikunnáttu fornþjóða og (d) þá innsýn í norræna goðafræði sem fæst með því að horfa á Íslendingasögurnar sem goðsagnir.

Atriði a) er einmitt það sem við skoðum sérstaklega við íslenskuskor – þær varðveittu heimildir sem til eru um norræna heiðni og hvað þær segja okkur. Rannsóknir á því sviði eru margvíslegar og fjölbreyttar. Atriði b) er svo eitthvað sem mér liggur við að segja að sé út í hött að bera saman við atriði a) til þess að öðlast betri skilning á því síðarnefnda. Það skiptir engu máli fyrir norræna goðafræði hverju var trúað austan við Kákasus fyrir meira en 5000 árum. Ekki frekar en Gilgameskviða segir okkur nokkuð um Snorra-Eddu. Það væri eðlilegt fyrir strúktúralíska rannsókn að setja upp töflu yfir lögmál goðsagna – einsog hefur verið gert – til að benda á að allar goðsagnir fylgi svipuðu mynstri, búi við svipaðar reglur og eigi sér jafnvel einhverja grunnfyrirmynd sem nú er glötuð. En það segir ekki endilega mikið um trú fólks á Íslandi á landnámsöld.

Sama gildir um atriði c), það einfaldlega gagnast okkur takmarkað að velta fyrir okkur stjarnfræðiþekkingu Súmera, Grikkja eða Rómverja í fornöld í því augamiði að varpa ljósi á íslenska menningu á miðöldum. Þar sem vantar heimildir má gera ráð fyrir ýmsu, það má til dæmis gera ráð fyrir að Snorri Sturluson hafi þekkt Gesta Danorum eftir Saxo Grammaticus þótt það standi hvergi. En við getum fjandakornið ekki haldið því fram að vegna stjarnfræðiþekkingar fornþjóða hafi sögusvið Íslendingasagna átt að:

endurspegla himneska reglu og vera jafnframt tímakvarði. Einfaldasta leiðin til þess er að hugsa sér miðju og taka þaðan mið af stjarnfræðilega marktækum punktum á sjóndeildarhring, s.s. höfuðáttum og sólarupprás og sólarlagi um sólstöður. Kennileiti á jörðu niðri sem tengjast þessum stefnum fá þannig goðfræðilega merkingu. Einar gerði ekki aðeins ráð fyrir goðsagnalandslagi af þessu tagi, heldur áleit að stærð þess hafi verið nákvæmlega skilgreind og útmæld. Hann áleit að fornmenn hafi hugsað sér það sem hring sem endurspeglaði sjóndeildarhring og himinhring (dýrahringinn). Þvermál hringsins skipti máli og átti að hafa verið 216.000 fet (um 64 km)

Hvað atriði d) varðar þá sé ég ekki samhengið milli þess að líta á Íslendingasagnir sem goðsagnir – sem þær klárlega eru – og að það segi okkur eitthvað um aðra texta sem bera í sér lítinn skyldleika við hina.

Ég tek fram að ég hef ekki lesið bækur Einars Pálssonar og að það er áreiðanlega margt áhugavert í þeim sem jafnvel gæti skipt máli fyrir íslensk og norræn fræði. En miðað við þessa litlu stikkprufu þá virðist mér afskaplega lítið vera af haldbærum gögnum rökstuddum viðunandi heimildum. Þetta eru bara hugmyndir einsog hver sem er gæti fengið og erfitt eða ómögulegt er að sanna eða afsanna. Og slíkar kenningar bera í sér lítið fræðilegt gildi.