Ráðstefnur, rannsóknir og reik

Ráðstefnan í Leeds var meiriháttar. Ég myndi segja töluvert skemmtilegri en fornsagnaþingið sem haldið er á þriggja ára fresti, enda er þar ekki einblínt á Norðurlönd sérstaklega heldur á miðaldir einsog þær leggja sig. Auðvitað þurfa allir vísindamenn að sérhæfa sig en sérhæfingin er til einskis ef þeir átta sig ekki á heildinni. Og hvað mínar rannsóknir snertir þá er stærri ramminn áhugaverðari. Góður rómur var gerður að erindum okkar allra (mitt má nálgast hér), og ég var svo lánsamur að slammarinn mætti þegar ég talaði og kinkaði kolli sem óður væri.

Í kjölfarið sótti ég töluvert minni ráðstefnu í Oxford þar sem ramminn var auk þess afar þröngur og það getur verið afar gagnlegt líka að einblína á fáein skyld vandamál til að leita lausna á þeim. En til þess að finna þær lausnir þá þarf oft að leita út fyrir þrönga rammann. Og ég fékk það á tilfinninguna í Oxford að kannski fari fræðimenn nú að gera það í auknum mæli, fari að efast um viðteknar hugmyndir sem e.t.v. standa á brauðfótum. Við vitum að mörgum knýjandi spurningum um norrænar bókmenntir verður ekki svarað öðruvísi en með því að leita út fyrir þær, leita samhengisins. Ef við ætlum að rannsaka eddukvæði (svo dæmi sé nefnt) þá þurfum við fyrst að spyrja okkur að því hvað eddukvæði eru, því kannski er svarið ekki eins sjálfsagt og við viljum halda.

Í Oxford fór ég á báða barina sem Inklingarnir (óþýðandi sniðugheit í því heiti) sóttu; annars vegar The Eagle and Child, sem var upphaflegi fundarstaðurinn, en búið er að rústa fundarherbergið og sameina barinn veitingakeðjunni Nicholson’s svo mér fannst hann lítið sjarmerandi (auk þess er hann troðfullur af Tolkientúristum), hins vegar The Lamb and Flag sem er bara hinumegin við götuna og hefur ennþá yfirbragð alvöru vertshúss. Ef til vill ekki ósvipað Skindbuksen (fremur en Hviids Vinstue, þar sem þjónar eru farnir að snobba með þverslaufur).

Og nú er kannski ekki skrýtið þótt hugurinn hafi reikað til Kaupmannahafnar, því nú hefur mér hlotnast höfðinglegur styrkur frá Den Arnamagnæanske Kommission til handritarannsókna í Árnastofnun eftir áramót. Bréfið barst mér í morgun og af fenginni reynslu er húsnæðisleitin þegar hafin. Það verður gott að hitta alla vinina aftur og eignast þá fleiri. Á haustmisserinu sest ég hinsvegar á skólabekk og nem kennslufræði, sit lit-review námskeið hjá þeim Kolfinnu, Miriam og Þórdísi, og sjálfur mun ég sennilega grípa eitthvað í kennslu á misserinu líka.

En fyrst eru það önnur verkefni. Ég í sveitina með Eyju á morgun að sinna þeim. Og hvílast eitthvað í leiðinni. Brumm brumm.

Ráðstefnur

Á mánudaginn held ég til hins mikla útlands á ráðstefnu, eða reyndar tvær ráðstefnur. Það er fátt sem fær mann til að þykja maður sjálfur jafn merkilegur og ráðstefnuferðir með sínum hótelum, faglegu umræðum og hálfdrukknu kollegum. Maður situr meiraðsegja öðruvísi í flugvélum þegar maður heldur utan á ráðstefnu en þegar maður fer í frí. Maður er einbeittari, betur til hafður, samt kankvíslegur. Í DV um daginn var frétt um að stór skrifborð ykju siðleysi fyrirtækjastjórnenda. Mér finnst ekki ósennilegt að ráðstefnur hafi svipuð áhrif á sjálfsmynd fræðimanna, að minnsta kosti þangað til þeim er slátrað uppi í pontu fyrir að segja steypu.

Kannski er það bara hótelið. Það skiptir engu máli hvað hótelherbergi kostar, manni líður alltaf einsog ventúrkapítalista þegar inn er komið, og fólkið á götunni niðri er einsog iðandi maurar hvort heldur sem herbergið er á tólftu hæð eða þeirri næstu ofan við anddyrið. Míníbarinn æpir: „Tæmdu mig! Þú hefur ráð á því.“ Tekst alltaf að telja einhverjum trú um að það sé satt. Svo er skrifað blindandi undir reikninginn síðar.

Því fleiri ráðstefnur sem maður sækir því kunnugri er maður þeim týpum sem þar lifa og hrærast. Til dæmis er náunginn sem kinkar kolli af offorsi undir fyrirlestrum líkt og salurinn megi ekki án hans samþykkis vera. Það er líkast slammi á rokktónleikum. Maður býst hálft í hvoru við að höfuðið losni af og rúlli að púltinu. Oft glósar slammarinn af græðgi en reynist þegar öllu er á botninn hvolft vera manna krítískastur í fyrirspurnatímanum. Nær undantekningalaust Bandaríkjamaður.

Önnur týpa er þýski doktorsneminn. Hann hefur aldrei rangt fyrir sér af því hann fjallar aðeins um grundvallaratriði, en gerir það raunar ítarlega. Talar af staðfestu og fullvissu og hefur lærdómstitilinn M.A. á undan nafninu sínu í neðra vinstra horninu á glærunum. Fer í kerfi ef einhver spyr spurningar út fyrir kjarna efnisins. Svo er gamli jaxlinn sem lætur engan segja sér hversu lengi hann má tala og talar langt umfram tímann í óþökk allra, en hann er raunar sjaldséður orðinn. Leiðinlegastur þykir mér lykilræðumaðurinn sem hlotnast sá heiður að halda þriggja kortéra ræðu um ekkert og gerir sitt ítrasta til að beina málinu að sjálfum sér.

Ég mun að sjálfsögðu hafa uppi mína þeófrastísku týpubók og haka við þær týpur sem bregður fyrir, jafnvel mun ég blogga um einhverjar þeirra ef ég þreytist á að fylgjast með maurunum út um gluggann á reyklausa hótelherberginu mínu. Þetta verða tvær ráðstefnur í jafnmörgum borgum og því mikillar spennu að vænta á blogginu.

Að stinga ofan í skúffu

Að stinga einhverju ofan í skúffu getur haft mjög neikvæða merkingu. Í dag stakk ég 22 prófritgerðum í námskeiði í miðaldabókmenntum ofan í skúffu. Svo þær lægju ekki á glámbekk. Þar með breyttist merkingin. Ég er þó ekki frá því að það sé jafnvel neikvæðara að stinga einhverju undir stól, hvernig svo sem það er hugsað; a.m.k. sting ég engu undir skrifborðsstólinn minn sem ég vil ekki að ræstinga- eða samstarfsfólk finni samdægurs. En það þarf raunar ekki til þar sem háskólafólk skilur sín viðkvæmustu gögn eftir í prentaranum (en nemendur í Skemmunni; sem raunar stundum eru sömu gögnin).

Á móti er ástæða fyrir því að samtök á borð við Wikileaks sitja ekki um ljósritunarherbergi háskólanna, og hún er sú að háskólafólk skrifar ekki texta sem fólk hefur áhuga á að lesa. Ef hugmynd verður til í einum háskóla er næsta víst að hún dagar þar uppi eða verður kennd við nokkra fleiri háskóla þar sem hún að lokum dagar uppi. Ég var að lesa grein um nýja ævisögu Derrida sem mér finnst undirstrika þessa tilfinningu mína. Í bókmenntafræði í HÍ er kennt sitthvað óljóst um Derrida en hann er sjálfur ekki lesinn (ég fékk meiraðsegja rangt fyrir prófspurningu forðum þegar ég var grunnnemi; hún snerist um að greina texta með aðferð Derrida en ég vitnaði í Derrida sjálfan og sagði „afbygging er ekki aðferð“, en nú er svosem þekkt að derrídaistar eru ekkert nauðsynlega sammála Derrida um eitt eða neitt). Derrida hefur haft mikil áhrif innan hugvísinda en hann er þó á engan hátt nauðsynlegur. Það er semsé ekki þannig að ekki sé lengur hægt að fjalla um t.d. bókmenntir án þess að taka tillit til Derrida, nema þá að tillit sé líka fólgið í að hunsa. Og hver hefur svosem áhuga á Derrida nema háskólafólk? Enginn. Samt er hann meðal áhrifamestu kenningasmiða (kenningar sem hann sjálfur segir að sé ekki kenning) hugvísinda á 20. öld. Þannig að nemendur þurfa ekki að hafa áhyggjur af því þótt einhver gleymi ritgerðinni þeirra í prentaranum. Það mun enginn lesa hana.

Í háskólunum er heldur enginn að leita að séníi, enda er enginn hörgull á þeim ef miða á við álit þeirra sjálfra; þvert á móti reyna flestir bara að þrauka daginn, gæta þess að kaffibletturinn í handarkrikanum verði ekki of stór áður en haldið er í kennslustofuna að kenna 50 ára gamla hugmynd um eitthvert atriði sem ekki skiptir neinu tilteknu máli í stærra samhengi hlutanna, einsog hvort köflótti jakkinn fáist úr hreinsun í dag eða hvort töf verði á því einsog vanalega. Og stafli af ritgerðum er það síðasta sem háskólafólk sækist í að skoða; það eitt að hafa slíkan stafla á borðinu sínu hefur álíka áhrif og gaddavírsgirðing og vélbyssuhreiður myndu gera, og einn þekktan heimspekiprófessor sá ég í dag snúast við á hæli í svitakasti þegar hann eygði staflann á mínu borði. En jafnvel þótt háskólafólk væri í eðli sínu hnýsnara um ritgerðir en raunin er þá þyrftu mínir nemendur ekki að örvænta, því ég sting ritgerðum ofan í skúffu, en ekki undir stól.

Af starfi og skóla

Vatnsskarð í gærkvöld
Kom heim frá Akureyri í nótt. Við Eyja urðum veðurteppt en ákváðum þegar snjóa leysti uppi á heiðum í gærkvöld að bruna í bæinn meðan við gátum. Hef ekki gáð að því hvort fennt hafi í förin okkar aftur. Ég var svo óábyrgur að smella af mynd undir stýri svo dyggir lesendur fengju að sjá hvernig var í Vatnsskarði í gær.

Fyrir norðan fékk ég þær fréttir að ég yrði ráðinn í sumarvinnu. Sama dag bauðst mér starf hjá Rannsóknastofnun Háskóla Íslands á norðurlandi vestra, og núna í dag bauðst mér starf á Þjóðskjalasafni Íslands. Eins spennandi og það hefði verið að prófa eitthvað nýtt þá frá og með 1. júní sný ég aftur á Borgarbókasafn Reykjavíkur.

Ég læt af störfum á bókasafninu í ágústbyrjun og held á ráðstefnu í Árósum. Lungann úr ágúst hef ég til eigin þarfa og svo byrjar skólinn í september. Í dag fékk ég nefnilega líka að vita að umsókn mín um doktorsnám í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands hefði verið samþykkt. Bara allt að verða vitlaust! Svo hefur raunar enn fleira gott átt sér stað í blessuðu lífinu mínu nýverið, en meira um það síðar.

Lífið er gott.

Mín ýmsa framtíðarsýn

Markmið eru misjöfn
Það hvarflar stundum að mér að ég sé hvorutveggja áhrifagjarn og sveimhugi, sem birtist meðal annars í því ýmsa sem ég hef verið staðráðinn í að taka mér fyrir hendur í lífinu.

Eitt sinn fundust mér til dæmis engin örlög merkilegri en þau að verða íslenskukennari í framhaldsskóla, svo ég reri öllum árum að því að klára stúdent svo ég gæti skráð mig í íslensku í HÍ. Um skeið hvarf sá draumur ofaní löngun til að verða leikari, og þá lék ég í nokkrum stuttmyndum sem vinir mínir gerðu auk þriggja smávaxinna hlutverka í uppfærslu Herranætur á Hundshjarta eftir Búlgakov.

Nokkru áður átti ég þann draum æðstan að verða frægur gítarleikari og söngvari í hljómsveit. Ég hef ekki tölu á því hversu margar hljómsveitir ég stofnaði sem þó aldrei komu saman til að spila, né hversu mörg lög ég hef samið. Ég spilaði á gítarinn að jafnaði 10 tíma á dag. Ég keypti mér bæði The Musician’s Bible, sem að sönnu hafði ýmsar praktískar ráðleggingar, og handbók um gítarsmíði – af því þá hafði ég bitið það í mig að fátt væri meira töff en að smíða sinn eigin gítar úr tilfallandi viði. Ég las hana alla, en vitandi að ég er með öllu hæfileikalaus til handíða þorði ég aldrei að prufa. Ég hef hlotið ein verðlaun fyrir frumsamda rómönsu á klassískan gítar, en þá var ég eftir sem áður búinn að gefa drauminn upp á bátinn.

Ef við skautum yfir þann stutta hluta ævi minnar þegar ég hafði ambisjónir til pólitískra metorða (það entist í u.þ.b. þrjá mánuði), þá hef ég haft ævilangan metnað til myndlistar og ritstarfa. Ég byrjaði að semja myndasögur sem barn og hélt áfram að teikna allt til 2004 eða þar um bil, en gafst þá upp. Það síðasta sem ég teiknaði að mig minnir er geimskip fyrir tölvuleik sem enn er á hugmyndastigi. Sjálfsagt er tölvuteikningin sem gerð var eftir hönnuninni ennþá til einhversstaðar.

Eftir stúdent fór ég í íslensku í HÍ, einsog ég stefndi upphaflega að, og hóf störf á Borgarbókasafni samhliða. Námsleiði gerði vart við sig á fjórða misseri og ég fór að gæla við þá hugmynd að vera bókavörður til æviloka, eftir að ég hefði klárað grunnnámið. Einhverntíma á þeim starfsferli íhugaði ég í léttu rúmi að flytja til Finnlands og sjá til með bókavarðarstöðu þar. Að grunnnámi loknu sagði ég hinsvegar upp stöðunni og flutti til Árósa í framhaldsnám sem ég hef enn ekki lokið.

Framtíðarsýn dagsins í dag er sú sama og ég lagði upp með þegar ég flutti utan: að ljúka doktorsprófi í norrænum miðaldabókmenntum. Kannski liggur leið mín þaðan í framhaldsskólakennarann sem mér eitt sinn fannst að hlyti að vera toppurinn á tilverunni, kannski hlotnast mér einhver önnur staða. Framtíðin er í öllu falli óskrifað blað, og ef maður ætti sér enga kjánalega drauma til að elta inni á milli yrði lífið örugglega fljótt svolítið leiðinlegra.

Leiðarvísir um Borgarbókasafn

Í rúm fjögur ár hef ég starfað á Borgarbókasafni og allan þann tíma hef ég ítrekað hjálpað sama fólki sem virðist fyrirmunað að læra jafn einfaldan hlut og að finna safngögn. Þess vegna langar mig til að skýra flokkunarkerfi Borgarbókasafns í fáum orðum. Það er hið svokallaða danska Deweykerfi.

Fyrsta reglan er að það þarf ekki að læra á flokkunarkerfið sjálft, aðeins hvernig bókunum er raðað. Það þarf semsé ekki að muna að 850 eru fornsögurnar og að 136-168 er kukl/sjálfshjálp. Það þarf bara að muna númerið og finna það. Önnur reglan er að kerfið er til staðar til að einfalda þér leitina, ekki til að flækja hana.

Með þetta í huga má hefjast handa við að skýra kerfið en það er tvíþætt – í Sólheimasafni er það að vísu þríþætt. Fyrst er það flokkurinn, þriggja stafa tala frá 000 upp í 999. Flokkum er raðað í talnaröð frá öðrum enda safnsins til hins. Þá er það höfundur og titill. Höfundum er raðað innan flokkanna eftir stafrófsröð og titlum er raðað í stafrófsröð eftir höfundum. Þannig kemur 994 Þór Ísl (Íslenzkur aðall) á undan 994 Þór Ofv (Ofvitinn), og 994 Þór Ásg (Þórður Kakali eftir Ásgeir Jakobsson) kemur þar á eftir, af því stafrófsröð efri línu yfirskipar þá neðri. Og nei, bókum er aldrei raðað í útgáfuröð.

Þriðji þátturinn sem er einskorðaður við Sólheimasafn er ef bækur eru merktar 4to eða 4° (lesist: kvartó). Það merkir að bækurnar eru af tilteknum stærðarflokki sem hentar ekki venjulegum hillum og því eru þær hafðar sér.

Utan kerfis standa svo skáldverk á íslensku – bæði þýdd og frumsamin. Þeim er aðeins raðað eftir stafrófi. Um stafrófsröð höfunda gildir almennt sú regla að íslenskum höfundum er raðað eftir fornafni en erlendum eftir eftirnafni (þá ber að hafa í huga að Kínverjar bera flestir en þó ekki allir ættarnafn sitt á undan eiginnafni). Skáldsögum á erlendum málum er hinsvegar raðað eftir flokki á undan stafrófi (sem er flokkur fyrir viðkomandi tungumál, t.d. 830 fyrir bækur á ensku, og sama gildir um mynddiska). Þær eru þó oft hafðar í sérhillu utan hefðbundinnar röðunar, t.d. á eftir íslenskum skáldsögum.

Þetta er nú allur galdurinn. Eina sem maður þarf er að kunna að telja og þekkja stafrófið. Flokkarnir byrja á einum enda safnsins og enda hinumegin, og ýmist á undan eða eftir flokkunum eru skáldritin geymd. Þá eru mynddiskar einnig hafðir sér og um röðun þeirra gildir sama og um röðun flokkabóka (þ.e.a.s. bókin The Secret hefur sama flokkunarnúmer og mynddiskurinn og sama gildir um bækur og myndir Davids Attenborough). Eina sem þarf að gera ef manni líst ekki á að leita blindandi í (yfirleitt) litlum myndbandadeildum safnanna er að slá upp viðkomandi titli í leitartölvu og finna númerið. Rest ætti alveg að koma af sjálfu sér.

Það er ekkert að því að biðja um hjálp, ég segi það ekki. En mér finnst alveg sjálfsagt mál að daglegir gestir á bókasöfnin læri þó inn á þetta tiltölulega einfalda kerfi. Önnur kerfi, t.d. það á Landsbókasafni, er hefðbundið Deweykerfi þar sem allt er merkt eftir flokkum. Bæði kerfi hafa sína kosti og galla en okkar kerfi er í það allra minnsta nógu einfalt til að hver sem er ætti að geta lært að nota það á kortéri. Þjálfunin sem nýir bókaverðir fá er altént ekki meiri en sú sem þú fengir ef þú gengir upp að næsta starfsmanni og bæðir um aðstoð við að læra á flokkunarkerfið.

Vinnuvikan

Ég kemst alltaf nær þeirri skoðun að 40 stunda vinnuvikan sé barn síns tíma. Nær væri að miða við 30 stunda vinnuviku og í raun er hærra viðmið ómanneskjulegt miðað við nútímalegar þarfir.

Reykjavíkurborg hefur að vísu náð að lempa þetta niður í 35 stundir með því að selja kaffi- og matartímana en mér finnst það rangsnúin mannúð. Það þýðir í raun að starfsfólk fær ekki greitt lengur í pásum en hefur þann valkost í staðinn að sleppa þeim til að fá að fara úr vinnu klukkutíma fyrr. En undir öllum eðlilegum kringumstæðum eyðir fólk eftir sem áður jafnmörgum klukkutímum í vinnunni á dag.

Þið megið kalla það óskhyggju en ég vildi gjarnan sjá þær breytingar að vinnuvikan verði stytt niður í 30 stundir án þess það rýri tekjur fólks. Kjarasamninga má þá endurgera með tilliti til hins nýja fyrirkomulags. Ég held það sé nokkuð sem vert er að hugsa um á tímum þegar vinnuveitendur gera sitt ítrasta til að notfæra sér ástandið til að skera niður í starfsmannahaldi og kreista á sama tíma meiri vinnu útúr fólki vitandi að það getur ekki sagt nei. Gildir þar hið fornkveðna: flestum vinnuveitendum stendur á sama um þig.

Íslendingasögur á íslensku

Ég hef alltaf jafn gaman að því þegar menntskælingar koma á bókasafnið og biðja um Íslendingasögur á nútímaíslensku. Skelfingarsvipurinn á þeim þegar ég segi þeim að þetta sé nútímaútgáfan.

Ég held það sé of mikið gert úr því að það sé á færi Íslendinga að lesa handritin. Það er það bara almennt ekki. Samt er talað um þetta einsog það sé sambærilegt við að lesa Guðrúnu frá Lundi.

Annars væri skemmtilegt að prufa að láta krakka lesa stafrétta texta. Bara til að prufa.

Húmor og amor

Allir skulu stilla inn á síðdegisútvarp Rásar2 á morgun milli 16 og 18. Þar má heyra viðtal sem tekið var við okkur Kristínu Vilhjálmsdóttur í sambandi við prógram Borgarbókasafns, Húmor og amor.

Á sunnudaginn kemur hefst dagskráin með pompi og prakt og má finna undirritaðan þar, nánari upplýsingar hér. Verkefnið varir svo út árið með reglulegu bili milli viðburða.

Áhrif kreppunnar á bókasöfnin

Við sem vinnum við þjónustustörf þurfum að venjast því að endurtaka okkur oft yfir daginn. Frá því við færðum afgreiðsluaðstöðuna okkar um daginn hefur annar hver lánþegi – ég ýki ekki – sagt: Hva, bara alltaf verið að breyta!

Sum okkar hafa kosið að tala um hagræðingu, ég á hinn bóginn vil ekki heyra það orð í mín eyru og segi fólki að í næstu viku verði borðið komið í hitt hornið. Einum lánþega sagði ég að þetta væri félagsfræðitilraun til gamans gerð.

Á meðan eykst alltaf aðsóknin og metið í nýskráningum skírteina er slegið dag hvern. Í dag komu 400 manns á bókasafnið. Það er með ólíkindum fyrir lítið hverfissafn sem aðeins er opið í níu tíma á dag. Miðvikudagar eiga að heita rólegustu dagarnir.

Undantekningalítið er fólk yfir sig hrifið af þjónustunni sem við veitum. Undantekningarnar eru það fólk sem yfirleitt segir ekki mikið og er því ekkert sérstaklega að hrósa okkur. Ég man ekki hvenær síðast var kvartað við mig. Sá þverskurður borgarbúa sem kemur á litla bókasafnið í Sólheimunum og almennt fann þörf á að tjá sig um pólitík – nokkuð stór hluti vel að merkja – var allur í stjórnarandstöðu fyrir skiptin.

Ef einhver tjáir sig um pólitík núna, sem er undantekning fremur en hitt, þá heyrast aldrei styggðaryrði um nýju stjórnina. En hún hefur svosem ekki verið lengi við völd. Lánþegar tala hinsvegar þónokkuð um Davíð Oddsson, og nauðsyn þess að hann víki.

Reykjavíkurborg hefur svo kveðið sinn kreppudóm, og til að mæta kröfum borgarinnar hafa svið hennar hvert fyrir sig gert viðeigandi ráðstafanir. Bókasafnið hefur ekkert bruðlað og því er nokkuð erfitt að mæta kröfum um niðurskurð – ólíkt öðrum stofnunum borgarinnar. Það er því útlit fyrir að öllum útibúum þurfi að loka í tvær vikur í sumar, aðeins einu í einu að sjálfsögðu. Þetta var ákveðið í stað þess að skerða þjónustu, svosem að stytta opnunartíma og annað slíkt.

Þrátt fyrir ýmislegt sem fólk getur haldið eru bókasöfnin nefnilega vel reknar stofnanir. Og mér finnst þetta allt segja sína sögu, allt ofangreint. Það er í raun fátt sorglegra en ef að fíflagangur fyrrum stjórnvalda verður til þess að skera þarf niður í grunnþjónustu samfélagsins. Og heyri það náunginn sem skrifaði í moggann og lagði til einkavæðingu bókasafnanna, að hann er fífl og fáviti, og megi hann hvergi þrífast meðal siðaðra manna.