Halinn og innrætið: Jöðrun og afmennskun í Tralla og Láka jarðálfi

Tralli er geysilega merkileg bók, einkum merkileg fyrir þær sakir að höfundi hennar Viktor Mall fannst hún eiga erindi við börn. Það fannst Vilbergi Júlíussyni þýðanda bókarinnar greinilega líka, en hann gerði sitt besta til að milda efnivið bókarinnar sem er heldur lítt dulbúinn rasismi. Þannig hefur Vilbergur til dæmis ákveðið að Tralli sé jarðálfur (hvað sem það er), en bókin heitir á frummálinu Historien om eskimotrolden Figge sem afhjúpar hvað Tralli á í rauninni að vera: einhvers konar skáeygt eskimóaskrímsl með hala sem býr á svo framandi slóðum að sólin sest aldrei. Það er erfitt að halda áfram bara eftir þessa setningu en við verðum að láta okkur hafa það; þetta er jú bók sem geymd er í barnadeildum allra bókasafna og við viljum vita hverju við otum að börnunum okkar.

Tralli býr semsagt þar sem sólin aldrei sest og þarf því aldrei að fara í rúmið. Þess í stað stendur hann aleinn á pínulitlum ísjaka og gerir ekki neitt að því er virðist, allan daginn. Hvað er enda hægt að gera á ísjaka sem er varla sex sinnum stærri en maður sjálfur? Þessi ísjaki á að heita land eskimóanna, en það eru engir aðrir eskimóar (eða „eskimóatröll“) á þessum ísjaka og ekkert minnst á neina aðra eskimóa. Tralla leiðist sýnilega enda sofnar hann dag einn og verður þess ekki var að ísjakinn er flotinn suður á bóginn og farinn að bráðna. Að lokum bráðnar ísjakinn alveg undan honum og Tralli sekkur í hafið, og samt vaknar hann ekki. Hér er hann í hlutverki velþekktrar erkitýpu sakleysingjans sem óafvitandi flækist inn í alls konar ævintýr og hefur síðast verið gerð ódauðleg í persónunni Forrest Gump. Þannig gleypir hvalur Tralla en hann verður einskis var og sefur bara og hrýtur í maga hvalsins. Hvalurinn þolir ekki þessar hrotur og skyrpir Tralla upp á ónefnda Suðurhafseyju.

23262191_10155922024651584_1954124131_o

Og hverja skyldi Tralli vekja með hrotum sínum nema einmitt „negrana á eyjunni“. Sjón er sögu ríkari:

19250067_10155922024661584_105519977_o

23360817_10155922023481584_1427169109_n

Hvað er hægt að segja um þetta? Sjáið varirnar á „negraprinsessunni“, sjáið hárið á henni, sjáið að hún er klædd í einhverja stráskýlu og með leireyrnalokka. Það vantar bara bein í nefið á henni (enda þótt allajafna þyki jákvætt „að hafa bein í nefinu“ þá gildir það svo sannarlega ekki um einhverja ósiðmenntaða svertingja). Nei, fjandakornið, hvað gerir negrapsinessan næst? Hún tosar í rófuna á Tralla af því henni finnst hún svo framandi. Og þá loksins vaknar eskimóatröllið Tralli, þegar negrarnir toga í rófuna á honum. Mér finnst mjög erfitt að skrifa allar þessar setningar, ég sver það.

Hér tekur sagan á sig sígilda ævintýraformgerð þrítekningar, en hennar þekktasti fulltrúi er án efa sagan af Gullbrá og björnunum þrem og þeirra mismátulegu eigum (ég mun fjalla um þá sögu síðar). Fyrst togar negraprinsessan í skottið á Tralla og vekur hann, næst togar negradrottningin í skottið á Tralla, sem honum líkar alls ekki, og loks togar negrakóngurinn í skottið á Tralla og þá verður hann vondur.

23313061_10155922024646584_1348310249_o

Svo hrædd verða þau hjón að kóngurinn stekkur bakvið hól flassandi berum bossanum undir náttserk sínum og drottningin æðir burt með sólhlífina á lofti undan ómennskum ópum eskimóatröllsins: Íja–úa–tra. Hvaða eiginlega Mordormállýska þetta á að vera er óljóst. En ljóst er af frásögninni að eskimóatröllið er framandi vera jafnvel hinu mest framandi fólki (og höfum hér í huga að höfundur bókarinnar er danskur, það hjálpar heilmikið). En nú bregður svo við að negraprinsessan er ekkert hrædd við óskiljanleg gól Tralla, en hún er agalega forvitin um halann á honum.

23335785_10155922024551584_1589668974_o

Jahérna, hvað höfum við hér? Tralli hefur gert hana að halanegra. Og hvað er nú það, nákvæmlega? Við þekkjum það sem niðrandi orð yfir svart fólk, en í Norður-Evrópu á 19. öld þá var talið að til væri tiltekin manngerð sem væri halanegri, þ.e. bókstaflega svart fólk með hala. Ein heimild um slíkar hugmyndir er alfræðirit Jóns Bjarnasonar Ritgjörð tilheyrandi spendýrafræði (ÍBR 67-73 4to, hér 69 4to) frá miðri 19. öld sem byggð var á evrópskum alfræðiritum og hefur að hluta verið gefin út af Árna H. Kristjánssyni.

Halanegri, meðal annarra manngerða

Halanegri, meðal annarra manngerða

Síðan dansa eskimóatröllið og halanegrinn samba (nema hvað?) og lifa hamingjusöm til æviloka. Tralli er með öðrum orðum bók sem fjallar um tröll sem mætir negra og þau reynast á sama kúltúrplani, afmynduð með sinn hala, dansandi sína frumstæðu dansa. Sennilega hefur bókinni verið ætlað að fagna fjölbreytileikanum en í rauninni gerir hún fátt nema afhjúpa rasískar hugmyndir höfundarins um fólk sem er ekki H.C. Andersen hvítt.

Ef einhverjar efasemdir vakna í brjósti lesandans um að halar séu einlæglega svona demóníserandi (fyrir utan kynþáttabundna karíkatúrinn sem annars birtist í myndskreytingum Tralla) má benda á bókina um Láka jarðálf til samanburðar. Að vísu er hún eftir annan höfund en myndlýsandinn er álíka lélegur og haldinn álíka fordómum. Bók þessi fjallar um Láka, sem er jarðálfur, og hann býr ofan í jörðinni þar sem jarðálfar búa.

No shit.

No shit.

Foreldrar Láka heita Snjáki og Snjáka og þau voru fædd fyrir tíma Mannanafna-
og Barnaverndarnefnda. „Á hverjum degi, þegar Snjáki og Snjáka vöknuðu, sögðu þau: „Við ætlum bara að gera það, sem er ljótt!“ Svo kysstu þau Láka litla og sögðu: „Þú átt bara að gera það, sem er ljótt. Þá verður þú reglulega stór og ljótur jarðálfur, alveg eins og pabbi þinn.““ Foreldrar Láka eru semsagt frekar brengluð eintök og andfeminísk í ofanálag.

Samt nógu síviliseruð til að halda kaktus, þótt það segi kannski ekki mikið. Ekki nógu klár til að fatta að það gagnast ekki að hafa glugga fyrir hann ofan í jörðinni þar sem sólin skín ekki.

Samt nógu síviliseruð til að halda kaktus, þótt það segi kannski ekki mikið. Ekki nógu klár til að fatta að það gagnast ekki að hafa glugga fyrir hann ofan í jörðinni þar sem sólin skín ekki.

Láki ákveður dag einn að hann vill iðka sín illvirki ofanjarðar frekar en neðanjarðar, og fljótlega finnur hann heimili Elsu og Ívars sem eru í mömmuleik (og miðað við að bókin er gefin út árið 1956 hlýtur það að vera verulegur áfellisdómur yfir persónu Ívars). Láki felur dúkkurnar þeirra svo Elsa og Ívar fara að gráta. „En Láki faldi sig á bak við tré. Hann sló á magann og sagði: „En hvað það er gaman að gera öðrum illt!““ Þetta skottlanga skrímsl heldur áfram illkvittni sinni, hellir rødgrød med fløde yfir hvítan kött og fer þannig bæði illa með feldinn og eyðileggur hádegismat fjölskyldunnar í senn. Svo setur hann púður í tóbak föðurins svo pípan hans springur og sprautar vatni yfir póstburðarmanninn.

Og kúkar sennilega í skorsteininn, þótt það sé ekki tekið fram

Og kúkar sennilega í skorsteininn, þótt það sé ekki tekið fram.

Láki er vondur sjöhundruðututtuguogeinu sinni, sem er frekar mikið má reikna með. Og hann finnur ekki lengur gleði í illvirkjum sínum, svo hann ákveður að prófa að vera góður einu sinni. En góðverkin eru smitandi, hann getur ekki hætt. Og hér birtist svo boðskapur sögunnar:

„En í hvert skipti, sem hann gerði eitthvað gott, varð hann líkari venjulegu barni.“

„En í hvert skipti, sem hann gerði eitthvað gott, varð hann líkari venjulegu barni.“

Og umbreytingin heldur áfram:

„Þegar hann gerði góðverk í næsta skipti, urðu álfsklærnar hans að venjulegum drengs-höndum. Og þegar hann gerði góðverk í þriðja skipti, varð álfs-strýið hans að venjulegu drengs-hári. Að lokum datt álfs-skottið af honum, og þá var Láki loks orðinn að venjulegum dreng.“

23313092_10155922023491584_1481591396_o

Og þá fyrst, eftir alls konar góðverk á heimilinu, segir pabbi Ívars og Elsu að hann megi nú koma og eiga heima hjá þeim alltaf, „því að nú ert þú orðinn eins og venjulegur drengur.“ Heyr á fokkíng endemi! „Nei, hjá þvílíkum kynþáttahöturum vil ég aldrei búa,“ hefði Láki svarað ef þetta væri barnabók með almennilegan boðskap, en því er aldeilis ekki að heilsa. Láki fær „lítið rúm til að sofa í og lítinn stól til að sitja í,“ rúmið reyndar þrefalt minna en hann sjálfur. Jafnvel án halans er hann ekki nema þriðja flokks mannvera, og aðeins þegar hann er laus við hin skrímslislegu ytri einkenni fær hann viðurkenningu sem alvöru manneskja. Þá er ekki einu sinni spurt að uppruna, hvort hann eigi foreldra. Nei, þau bara taka hann í algjöru ábyrgðarleysi; aðeins af því hann er gott vinnudýr og lítur ekki út eins og einhver fokkíng jarðálfur.

Nú máttu reyna að troða þér í þetta dúkkurúm, hahahaha!

Nú máttu reyna að troða þér í þetta dúkkurúm, hahahaha!

Þannig er Láki eftirnýlendusaga að hún undirstrikar hversu dýru verði mennskan er keypt í samfélagi hinna hvítu, halalausu yfirboðara sinna. Afmennskun og jaðarsetning hins framandlega er algjör í Láka rétt eins og í Tralla. Þannig orka þessar bækur saman eins og bónusútgáfan af Litla, ljóta andarunganum sem fjallar um það að eina leiðin til að sleppa frá afmennskun annarra er að gerast rasisti sjálfur við fyrsta tækifæri. Tralli er sagan af villimönnum sem ekki eru þóknanleg manntegund, en Láki fjallar um það hvernig slíkar manntegundir gætu mögulega aðlagast vestrænu samfélagi. Báðar bækur eru viðurstyggð og skulu hvergi lesnar nálægt börnum, ekki einu sinni í hljóði.

Heimspeki eymdarinnar: tilvistarkreppa og jaðarsetning í Bláu könnunni

Síðast tók ég fyrir Græna hattinn, sem í raun er sjálfstætt framhald á fyrri bók Alice Williamson um Bláu könnuna. Eins skelfileg og Græni hatturinnn er, þá er ljóst að Williamson hefur þurft að draga af sér þar enda hefur fyrri bók hennar þótt einum of óhugnanleg. Í lok Græna hattsins hefur lesandanum verið fengin óljós von, en vonleysi einkennir Bláu könnuna.

Í upphafi sögu er lesandi ávarpaður, „Hér sjáið þið litlu, bláu könnuna,“ svo veggurinn milli söguheims og lesanda er rofinn og lesandi gerður þátttakandi í framvindunni, hann er beinlínis gerður ábyrgur því hann situr undir atburðarásinni og aðhefst ekkert: „Hún stendur uppi á hillu. Henni leiddist og langaði niður.“ Hér er tíma verksins sömuleiðis breytt; fyrst er lesanda talin trú um að atburðir sögunnar eigi sér stað frammi fyrir augum hans, en svo er hann sviptur þeirri falsvon þegar ljóstrað er upp um að atburðir sögunnar hafa þegar gerst. Raunar er einkennandi fyrir verkið hvernig umbroti þess er markvisst beitt til að ýta undir falska von lesandans um úrlausn á vanda könnunnar en brjóta hana jafnharðan niður aftur, á meðan crescendo væntinganna ýfir upp spennu textans uns allt hrynur að lokum.

Sjáið bara! Sjáið þessa könnu hvað hún er leið! Hún hefði betur bara sætt sig við tilveruna!

Sjáið bara! Sjáið þessa könnu hvað hún er leið! Hún hefði betur bara sætt sig við tilveruna!

Þannig er lesandi tældur áfram til þátttöku og fyrr en varir hefur hann gerst meðsekur í hatursglæp. Það er erfitt að segjast ekki hafa tekið þátt í raun heldur aðeins unnið þarna þegar öskunni úr ofnunum rignir yfir þig, svo þegar kannan liggur brotin að leikslokum er ansi billegt að segjast ekki hafa vitað í hvað stefndi. Allt í bókinni stefnir að þessu lokamarki, bæði fyrir atbeina könnunnar og annarra. Heimspeki eymdarinnar í verkinu er þessi: Þér líkar ef til vill ekki staða þín í lífinu, en hún getur aðeins versnað því meir sem þú reynir að bæta hana.

Aðrar persónur sögunnar eru ekki kynntar, þær bara eru og þær eru sjálfsagðar, og þær birtast hver á fætur annarri á einhverjum óljósum stað þar sem er hilla og blá kanna. Gerist sagan í verslun? Við vitum það ekki. Það eina sem við vitum er að hillan er notuð sem mise-en-scène fyrir heiminn; hvað liggur handan hillunnar er ekkert nema óskilgreind von, innantóm hugmynd um ytri veröld.

Von byggist upp:

Litla bláa kannan sagði við litla, gamla manninn: „Ég er lítil, blá kanna og mér leiðist svo mikið hérna uppi á hillunni. Viltu vera svo góður að taka mig niður, því annars hoppa ég sjálf niður á gólf?“

Það er svo margt sem gerist hér í einni sviphendingu og kemur lesandanum að óvörum: kannan getur talað! Frá fyrstu síðu vissum við að hún væri tilfinningavera sem byggi yfir hugsun. Þetta er kanna með andlit, en að vísu þarf það ekki að þýða neitt; amma mín á blómavasa með auga en þó vitum við ekki til þess að vasinn geti séð. En nú tekur kannan af allan vafa og talar við „litla, gamla manninn“ eins og við eigum að vita hver það er. Kannan finnur sig knúna til að skilgreina sjálfa sig innan tilveru sögunnar: hún er lítil, blá kanna. Þetta ætti litli, gamli maðurinn að geta sagt sér sjálfur, en ítrekaðar tilraunir könnunnar til að skilgreina stöðu sína í heiminum benda einmitt til þess að þær séu mikilvægar: staða hennar er ekki viðurkennd, tilvist hennar er hafnað. Ennfremur birtist afleiðing þessarar jaðarsetningar könnunnar í hótun hennar um að fremja sjálfsvíg á staðnum ef litli, gamli maðurinn hjálpar henni ekki niður þangað sem henni virðist tilveran grænni. Óhugnaðurinn rífur í lesandann frá fyrstu sitúasjón. Upplausn er í vændum, ógnin er komin í spilið.

Litli, gamli maðurinn veitir könnunni falsvon.

Litli, gamli maðurinn veitir könnunni falsvon.

„Nei,“ sagði litli, gamli maðurinn.
„Ég vil ekki hjálpa þér niður, litla bláa kanna.“

NEI? Hvað er að? Kannan hótaði rétt í þessu að svipta sig lífi og litli, gamli maðurinn lætur eins og það að rétta fram litla fingur sé til merkis um meðvirkni. Hann vill ekki hjálpa henni. Hann hafnar könnunni um þátttöku í heiminum. Heimur könnunnar er hilla, og verður hilla, og fyrr má kannan deyja á gólfinu en að hann hjálpi henni. Hann reynir að firra sjálfan sig ábyrgð, en er í raun ábyrgur með aðgerðaleysi sínu, rétt eins og lesandinn: eins og við öll sem skellum skollaeyrum við þegar jaðarsetning fólks á sér stað frammi fyrir augum okkar. Þessi kanna talaði við hann, en hann viðurkennir ekki að hún sé fólk, hann sér aðeins könnu.

Og svona gengur sagan með risi og hnigi á víxl, þar sem ein opna birtir von um úrlausn en sú næsta kæfir niður vonina: Litla, gamla konan er beðin um aðstoð, en hún neitar að hjálpa könnunni. Litli drengurinn er beðinn um aðstoð, en hann neitar að hjálpa könnunni. Litla stúlkan er beðin um aðstoð, og allir sem hafa áður lesið Græna hattinn fyllast nú von því það var litla stúlkan sem keypti hann, en nei: litla stúlkan neitar að hjálpa bláu könnunni.

Næst birtist litli svarti kötturinn, sem er einnig persóna í sjálfstæðu verki eftir Alice Williamson, Svörtu kisu.

„Mjá, mjá,“ sagði litli svarti kötturinn.
„Ég skal hjálpa þér niður, litla, bláa kanna.“

Kannan er ómenntuð og hefur ekki áttað sig á því að kettir hafa ekki þumla, svo það er ógjörningur fyrir svörtu kisu að hjálpa könnunni niður. Hvort er hún samt öll af vilja gerð, eða hreinlega full af illsku og hatri í garð myndhverfðra jaðarhópa? Það er óvíst. Þó má draga vísbendingar af hræðilegum svip kattarins, rauðglóandi glyrnum hans, þegar hann hrindir könnunni fram af hillunni.

Svarta kisa myrðir bláu könnuna

Svarta kisa myrðir bláu könnuna

Svo litla, bláa kannan féll niður á gólf.
Hún brotnaði í þúsund mola.

Og gólfið niðri er alveg eins og hillan: glóandi rautt, rautt eins og blóð könnunnar; í senn tákn um að dauðinn er ekki aðeins óhjákvæmilegur nú, heldur að hann hafi alltaf verið í nánd, jafnvel uppi á hillunni; táknrænt sömuleiðis fyrir það að tilveran var eftir allt saman engu skárri þegar af hillunni var komið. Hún var eins. Allt er eins. Eins og það á að vera. Kannan hefði betur sætt sig við það.

„Og þar með endar sagan af litlu, bláu könnunni.“

„Og þar með endar sagan af litlu, bláu könnunni.“

Eða svo segir sagan, en bókin heldur samt áfram á þrem öðrum tölusettum blaðsíðum. Á síðu 29 er bláa kannan brotin, en á næstu síðu er hún heil!

22264663_10155839864441584_308765065_n

Hér er freistandi að túlka könnuna sem eins konar kristsmynd: fyrst er boðskap hennar tekið fálega meðal þeirra sem valdið hafa til að breyta heiminum (sem í þessu tilviki er hilla), síðan er kannan svikin og tekin af lífi, loks rís kannan aftur upp frá dauðum. Á næstu síðu hefur kannan verið hrifin upp til æðri tilveru:

22264606_10155839864796584_1092579487_n

Og við erum skilin eftir ein í tilverunni:

22291930_10155839864991584_934266636_n

Hins vegar er öllu sennilegri túlkun að þetta séu hinstu hugrenningar hinnar deyjandi bláu könnu, þar sem hún óskar sér burt á einhvern annan og betri stað. Sennilega hefur Terry Gilliam haft þessi endalok Bláu könnunnar í huga þegar hann aðlagaði söguna í kvikmyndina Brazil. Tómhyggja sögunnar bendir til þess að hér sé á ferðinni enn ein falsvonin um einhvers konar upprisu, en tómu síðurnar í lokin sýna lesandanum að í heimi sögunnar er ekki smæsta tangarhald hafandi á voninni: speranza del mondo sögunnar er að allir haldi sig við þá hillu sem þeim hefur verið úthlutað, ellegar fari illa fyrir þeim. Dantelögmálið og Jantelögmálið sameinast í eitt: látið af allri von þegar í stað, því þið eruð ekki neitt. Hvítu síðurnar eru tómið og dauðinn. Litla, bláa kannan er ei meir og verður aldrei aftur. Við drápum hana.

Niðurbrot andans: tilvistarleg athugun á Græna hattinum

Græni hatturinn (e. The Little Green Hat) er stutt hryllingssaga eftir Alice Williamson sem kom út í bókaflokknum Gay Colour Books á sjöunda áratugnum. Sagan er sérstök fyrir það að hún er óræð vinjetta af sitúasjón, nefnilega af hatti sem veit að hann er lifandi en er jafnframt fangi í hattabúð. Hans einasta von um lausn er að einhver kaupi hann, en enginn vill kaupa hann. Þannig líður tilvist hattsins áfram í fæðingu vonar og upplausn hennar aftur. Með því er andi hattsins stöðugt brotinn niður.

Frumútgáfa Græna hattsins

Frumútgáfa Græna hattsins

Það sem flækir málin er að það er ekki aðeins hatturinn sem lifir og veit hann lifir, heldur vita það sömuleiðis hinir ýmsu vegfarendur sem eiga leið hjá hattabúðinni. Hatturinn á í beinum samskiptum við konur og karla, pilta og stúlkur, um vanda sinn: að hann er fastur í hattabúðinni þar til einhver frelsar hann úr ánauð. Þrátt fyrir að hið vel stæða fólk sé meðvitað um aðstæður hattsins neita þau að kaupa hann: „Nei, litli græni hattur, ég vil ekki kaupa þig,“ hreyta þau framan í hann snúðug á svip. Hatturinn er þannig táknrænn fyrir stöðu þræla á árum áður, en ekki síður fyrir stöðu ómaga og öreiga andspænis borgarastéttinni.

Hatturinn er aðeins til sem einhvers konar ófrjálst ítem, skraut fyrir hina efnameiri, sem skuld við einhvern ónefndan yfirboðara sem þarf að reiða af hendi svo hann geti lifað frjáls. Hvernig hatturinn komst í þessar aðstæður er ósagt; hvað hattabúð merkir í þessu samhengi er einnig órætt og sérstaklega óhugnanlegt. Hugurinn hvarflar ósjálfrátt til fangabúða, jafnvel útrýmingarbúða, því þegar nánar er að gætt eru fleiri hattar í búðinni, en þeir eru ekki lifandi. Þeir eru annað hvort látnir eða þá að þeir hafa aldrei lifað.

Fyrra tilfellið gerir neyð græna hattsins þeim mun meiri: hróp hans á hjálp fara sem vindur um eyru vegfarenda þegar hann einn er eftir á lífi. Hinn möguleikinn eykur enn á þær tilvistarlegu spurningar sem textinn vekur: ef græni hatturinn er sá eini sem hefur verið á lífi, þá er hann einstakur. Því síður er skiljanlegt að fólk láti sem ekkert sé þegar hatturinn ávarpar það. Það gefur til kynna að síðari möguleikinn sé ólíklegur; fólk er vant því að tala við hatta í söguheimi bókarinnar. Hattar eru hugsandi verur, geymdar í hattabúðum, og ganga kaupum og sölum sem höfuðskraut fyrir hinar ráðandi stéttir.

Telpan kaupir græna hattinn — stjaksett lík annarra hatta hvíla á afgreiðsluborðinu öðrum höttum til aðvörunar

Telpan kaupir græna hattinn — stjaksett lík annarra hatta hvíla á afgreiðsluborðinu öðrum höttum til aðvörunar

Loks biðlar græni hatturinn til stúlku sem á leið hjá búðinni, hvort hún vilji vinsamlegast kaupa sig. Þessi stúlka vill það gjarnan og reiðir af hendi skilding úr buddu sinni til ónefndrar konu sem virðist hafa öll tögl og hagldir í hattabúðinni. Þar blasir við hin óhugnanlega sjón, tveir stjaksettir hattar sem áður hafa verið lifandi en hefur nú verið refsað fyrir að hafa ekki getað sannfært vegfarendur um að skilja kapítal sitt eftir í versluninni. Þannig mætti jafnframt lesa söguna sem líkingu yfir hið kapítalíska hagkerfi, þar sem millistéttin afhendir auðstéttinni fjármuni sína í skiptum fyrir stolin gæði sem hún hefur ekki þörf fyrir, á meðan öreigastéttin (hattarnir) treðst undir. Beinast liggur þó við að lesa söguna sem líkingu annars vegar fyrir þrælahald og þannig mætti túlka hattana sem svarta þræla, hins vegar fyrir útrýmingarbúðir þar sem hattarnir eru gyðingar.

Græni hatturinn er því mjög pólitískt hlaðin saga og alls ekki við hæfi barna. Á Íslandi hefur hún verið prentuð oft í ritröðinni Skemmtilegu smábarnabækurnar, sem er eins mikið rangnefni og hugsast gæti: hún er hvorki skemmtileg né er séns að smábörn fái nokkru sinni skilið hana. Það væri enda ekki æskilegt.

Jói og baunagrasið

Bókmenntum fylgir visst menningarlegt samhengi sem kalla mætti tíðaranda. En tíðarandinn breytist og þar með túlkun fólks á bókmenntunum. Ef taka ætti dæmi um róttækar breytingar á túlkun bókmennta út frá tíðaranda mætti nefna Tíu litla negrastráka, sem eitt sinn þótti saklaus bók en þykir nú með betri dæmum um menningarlega viðurkennda kynþáttafordóma fyrri tíðar. Þá mætti nefna George úr Fimmbókum Enid Blyton, sem hefur á síðari árum verið túlkuð á forsendum hinsegin fræða annars vegar sem lesbía og hins vegar sem transmanneskja (að vísu út frá vissum staðalmyndum sem eiga sér raunverulega stoð en telja mætti varasamar að alhæfa út frá).

Af því mér finnst gaman að rugla í fólki þá vil ég á næstunni birta nokkrar greiningar á barnabókmenntum sem verða aðeins að hluta settar fram af alvöru.

JÓI OG BAUNAGRASIÐ
Þetta er enskt ævintýri sem fyrst var fært í prent á átjándu öld en, eins og gjarnt er um ævintýri, er talið töluvert eldra. Freudísk/lacanísk greining á þessari sögu liggur svo lóðbeint við að ég er hissa á að Sigmund hafi ekki sjálfur skrifað heila bók um efnið (ef hann gerði það, vinsamlegast látið mig vita).

Sagan fjallar um ungan dreng, Jóa eða Jakob, sem býr einn með efnalítilli móður sinni. Hann á engan föður, eða það kemur sögunni ekki við. Karlmennska hans veltur því á móðurinni. Fyrst um sinn er hann aðeins drengur og er sendur til drengslegra erinda, að selja mjólkurkú sakir uppskerubrests svo þau geti framfleytt sér eitt misseri enn. Jói rekst á undarlegan eldri mann (aldrei gott) sem ginnir hann til að skipta á kúnni í stað þriggja bauna sem hann kveður göldróttar, baunagrasið muni ná alla leið til himnanna, hann skuli sko bara sjá!

Jói gengst við þessu og mætir keikur heim til móðurinnar með baunirnar (sem ég kýs, fyrir sakir groddaskaps, að líta á sem táknrænar hreðjar). Móðirin bregst ókvæða við, hafandi sent dreng í karlmannsverk, og fleygir afrakstri ferðar hans út um gluggann, þar sem baunirnar ná að festa rætur í foldinni. Hin fallíska móðir getur ekki komið í veg fyrir líkamlegan þroska sonarins, því upp af hreðjum hans vex hinn gríðarlegi reður sem er leið hins unga manns til þroska.

Jói klífur eigin reður til hans óhjákvæmilegu niðurstöðu, sem er risakona sem býr í höll uppi í skýjunum (í sumum gerðum sögunnar er engin kona, en við skulum ekki láta það skemma fyrir okkur). Stærð konunnar er táknræn, því fyrir ungan mann sem rétt svo er að komast í blóma kynferðisvitundar virðist engin hindrun svo stór eins og sú að missa sveindóminn. En konan fóðrar hann samt sem áður á þeim mat sem hún hafði áður ætlað manni sínum. Þar með kemur Jói á milli manns og konu, og þegar risinn kemur heim þá bregst risakonan þannig við að hún felur hann í tákngervingu sjálfs legsins: stórum potti sem situr við hlið hlóðanna. Jói er ekki enn maður, hann getur enn ekki tekist á við hinn táknræna föður og orðið að manni sjálfur. Því er legið hinn eini öruggi staður.

Risinn á hænu sem verpir gulleggjum og hörpu úr skíragulli sem getur sungið og spilað eftir skipun. Jói hnuplar þessum kostum, bæði menningarkapítali og auðmagni. Með þetta tvennt getur hann orðið meiri maður en hann nú er. En risinn verður þessa var og æðir á eftir Jóa. Risinn áttar sig á því að þessi patti hefur notið konu hans á sama hátt og hann sjálfur (ástin virðist búa í maganum í þessari sögu).

Jói kemst niður baunagrasið á flótta, með auðmagnið á bakinu, og hrópar til móðurinnar að færa sér karlmennskuna: öxi. Móðirin gerir það með semingi, en Jói þrífur til axarinnar og heggur niður baunagrasið, sem nú er hin einasta festa risans í heiminum, og táknrænt vanar risann – föðurímyndina. Nú er hinn táknræni faðir dauður, Jói hefur öll efnahagsleg tögl og hagldir, og móðirin hefur gefið eftir sína fallísku stjórn. Nú er Jói orðinn fullsigldur maður.

Kannski ekki sú þroskasaga sem við áttum skilið, svo vísað sé í Batman Begins, en sú þroskasaga sem við fengum.

Blackface í Jungle Book?

Sumt er svo augljóst að það er ómögulegt annað en að fullt af fólki hafi komið það til hugar á undan manni sjálfum. Það vill þó óneitanlega flækja málin að sumt sem virðist augljóst er alls ekki rétt, eða í besta falli umdeilanlegt. Þannig kom mér í hug fyrir nokkru, þegar ég rifjaði upp það sem að mínu mati er besta kvikmyndaatriði allra tíma, að ábyggilega væri til fullt af fólki sem vildi túlka það á versta veg. Atriðið sem um ræðir er söngatriðið í höll apakóngsins í Jungle Book, nánar tiltekið þegar bangsinn Balú æðir inn í apadulargervi til að bjarga Móglí. Tengingin er sú að apar eru augljóslega staðgengill svartra í dýraheiminum eins og dæmin sanna, og þegar bjarndýr setur upp apagrímu úr kókoshnetu hlýtur það að vera táknrænt blackface.

Og viti menn: auðvitað fann ég snarlega greinarkorn um nákvæmlega þetta. Greiningin hangir raunar á einni forsendu: „While the animation of monkeys would clearly not be racist, specifically representing those monkeys as African American puts the innocence of intentions a little more into question.“ Apar eru semsagt ekki nauðsynlega svartir, en þessir apar eru látnir líkja eftir talshætti og menningu svartra í Bandaríkjum þess tíma (1967). En hvernig stenst greiningin forsenduna?

Höldum áfram á braut hins augljósa: Apakóngurinn heitir Louie, eins og frægur svartur tónlistarmaður, getur beitt höndunum eins og trompet, sem er einkennishljóðfæri sama tónlistarmanns, og ennfremur hafði sú hugmynd komið upp að sjálfur Louis Armstrong yrði beðinn um að talsetja apakónginn. Það var þó fljótlega slegið út af borðinu af ótta við að það yrði gagnrýnt að svartur maður yrði látinn leika apa. Í hans stað gerðist hinn skjannahvíti, ítalskættaði söngvari Louis Prima apakóngur í þágu barnamenningar. Apinn hélt nafninu í hvoru tilvikinu sem var en hann er teiknaður í líking Prima. Prima var engu síðri trompetleikari og djassgeggjari en Armstrong, báðir voru þeir frá New Orleans og Prima meira að segja sótti ein sín fyrstu tónlistaráhrif til Armstrong. Tónlistin í höll apakóngsins endurspeglar með öðrum orðum sömu menningu hvort sem hann sjálfur er svartur eða hvítur. En það varð ofan á að apinn er hvítur.

Greinarhöfundur gerir sér raunar mat úr því að Louie apakóngur sé talsettur af hvítum manni, því það sé eitt að setja á svið slíkar kynþáttabundnar staðalmyndir en jafnvel enn verra sé að láta þá hvítan mann talsetja þær. Það er gilt sjónarmið, en það er þá og því aðeins gilt að staðalmyndin sé til staðar.

Þrír aðrir apar eiga sér rödd í myndinni og allir koma þeir fyrir í sama atriði. Þeir voru annars vegar talsettir af félögunum Pete Henderson og Bill Skiles, sem báðir voru hvítir, og svo af Hal Smith sem einnig talsetur einn fílinn í myndinni, en hann var sömuleiðis hvítur. Það er því ekki einn svartur leikari í hlutverki apa í myndinni (á þeim tíma hefði Disney semsagt verið gagnrýnt fyrir það sem það er nú gagnrýnt fyrir að hafa ekki gert, fyrst það á annað borð urðu að vera apar). Aparnir eru sömuleiðis flestir með sömu George Harrison hárgreiðsluna og falla almennt illa að karikatúr sem sýnir svarta í gervi apa (hrægammarnir sem síðar koma eru með nokkurn veginn sömu hárgreiðslu, og það var ætlunin að sjálfir Bítlarnir talsettu þá). Swingdans þeirra sem slíkur á sér vissulega rætur í svartri menningu, en á sjöunda áratugnum endurspeglar hann ekkert frekar svarta menningu en hvíta þar sem þessi dans var áratugum á undan orðinn almennur. Þessi tenging milli apanna í Jungle Book og svartra er þannig ekki útilokuð, en hún er að minnsta kosti ekki augljós.

Tengingin milli apa og svartra er samt svo augljós í vestrænni menningu að það er ekkert óeðlilegt þótt fólk á öðrum áratug 21. aldar hugsi strax um blackface þegar það sér Balú dansandi og syngjandi eins og fífl í apabúningi. Þvert á móti ber það vott um nauðsynlega færni til menningarlæsis í heimi þar sem kynþáttabundnar staðalmyndir eru oft lúmskar og flóknar. En manni fyrirgæfist sömuleiðis fyrir að halda að það hafi helst vakað fyrir Disney að fá tengingu við hinn óviðjafnanlega Louisianadjass inn í myndina frekar en að ala á staðalmyndum um svarta, gera þá að öpum og niðra þá svo með blackface. Það þarf að gæta að því sömuleiðis að þótt Louie apakóngur sé valdasjúkur og þannig á meðal neikvæðari persóna myndarinnar, þá er hann ekki beint vondur heldur, og aparnir almennt eru ekki sýndir í neikvæðu ljósi. Þeir líkjast að mörgu leyti Móglí og Balú sem helst hafa það lífsmarkmið að syngja og skemmta sér, en það er valdagræðgi kóngsins sem gerir þeim óvært að dvelja meðal þeirra. Hér mætti á móti benda á hina sígildu amerísku staðalmynd að svartir séu húðlatir, en sami björn og klæðist apabúningi hefur skömmu áður sungið heilmikinn lofsöng um gildi letinnar, svo innra samræmi skortir ef það er tilfellið.

Þegar öllu er á botninn hvolft er Louie apakóngur valdapersóna innan frásagnarinnar. Það er aðeins í stærra samhengi, utan sögunnar sjálfrar, sem má líta á hann sem undirokaðan; þá ekki í dýraheiminum heldur gagnvart mannheimum. Hann vill að Móglí gerist sinn Prómeþeifur og færi sér eldinn að vopni, svo hann geti gert sig gildandi meðal manna, staðið uppréttur, talað eins og þeir. Um það snýst allt tónlistaratriðið. Það er þarna sem greiningin sækir allt sitt púður: Aparnir eru eins og minni menn, ekki viðurkenndir sem menn; aparnir endurspegla stöðu svartra.

Þessi rök eru ágæt en því er ósvarað hvers vegna sama kvikmynd myndi draga upp mynd af félagslegri stöðu hins undirokaða, vekja samúð með og gera lítið úr honum um leið. Hvað þá um að okkur eigi að skiljast að api eigi ekkert erindi í mannheima, að löngun hans í eld sé aðeins hybris, en hinn dulkóðaði api merki í raun hinn svarta mann? Þetta er ekki útilokað, en því fer fjarri miðað heimildir að þetta hafi vakað fyrir þeim sem gerðu myndina. En er þetta upplifun fólks af myndinni? Styrkir þessi sena staðalmyndir sumra áhorfenda um svarta? Það gæti vel verið. Eftir sem áður er ekki mikill fótur fyrir því að túlka senuna þannig, óháð því hvaða menningarlegu skírskotanir við viljum heimfæra upp á hana, því einu rökin fyrir því að aparnir séu svartir er í raun sú staðreynd að þeir eru apar. Það eru ekki góð rök.

Hugmyndin er með öðrum orðum ekki alveg galin en greiningin er jafnveik og forsendan. Nú á dögum þykir í öllum tilfellum afkáralegt og niðrandi að klæðast dulargervi sem tákna á einhvern hóp sem maður ekki tilheyrir, og að því leyti má alveg hugsa sér fimmtíu árum síðar að það hafi ekki verið voða pc að sýna björn í apabúningi, síst af öllu þegar Disney vissi fullvel að fólk myndi tengja apa við svarta. En ef það er ekkert sem bendir til að aparnir hafi átt að endurspegla svarta á nokkurn hátt – fremur, eins og allt virðist benda til, að það hafi verið forðast með öllum tiltækum ráðum – er þá hægt að segja að Balú í apagervi sé blackface? Varla. Ómeðvitað, þrátt fyrir að Disney hafi gætt sín vandlega á að gerast ekki sek um nákvæmlega það sem þeim er nú núið um nasir fyrir? Kannski. En í þessu tilviki er greining byggð á augljósum forsendum heldur þunn, því hið augljósa er ekki alltaf eins augljóst og maður gæti haldið.

Dauði hinnar gagnrýnu umræðu

Það er ekkert nýtt við skærur í hugvísindum. Þegar maður er ungur og vitlaus er jafnvel hætt við að maður teldi sig nú aldeilis til í slíkt tusk, færan um að æða ótrauður á foraðið með sannleikann að vopni. Þau sem eru eldri og reyndari skilja betur hvers vegna valdahlutföll gera það í mörgum tilvikum ómögulegt að taka þátt í slíkum deilum, ekki síst eftir því sem þeim er betur ljóst að deilur snúast ekki eins oft um sannleika eins og það að hafa rétt fyrir sér. Hljóta ekki fræðimenn að vera öðrum færari um að hlýða á rök og móta sér skynsamlegar skoðanir, að sjá sannleikann þar sem hann blasir við? Nei, ekki endilega. Enda blasir sannleikur sjaldnast við.

Þó að heiftarlegar deilur blossi við og við upp meðal hugvísindafólks hefur verið lítið um þær meðal miðaldafræðinga, þ.e. þeirra hugvísindamanna af ýmsum stéttum sem eiga það sameiginlegt að einblína á miðaldir hver frá sínum sjónarhóli (sjálfur er ég íslenskufræðingur en telst einnig til miðaldafræðinga). Miðaldafræði hafa löngum þótt heldur forpokuð og gamaldags hvað sumt varðar. Til dæmis hefur gengið erfiðlega að viðurkenna að kynþáttabundin hugsun hafi raunverulega verið til á miðöldum, enda hafi kynþáttahugtakið sem slíkt ekki verið skilgreint fyrr en á 19. öld. Því sé hugsunin að baki hugtakinu varla eldri en hugtakið sjálft. Þetta er, auðvitað, vitleysa. Hugtakið er aðeins kerfisbundin nálgun á hugmynd um greiningu mannkyns sem virðist hafa verið til með mismunandi formerkjum frá ómunatíð.

Það er því afskaplega mikilvægt að á síðustu fimmtán árum hefur orðið hugarfarsbreyting meðal margra miðaldafræðinga. Fleiri og fleiri rannsóknir hafa miðað að því að skoða miðaldasögu og -bókmenntir út frá sjónarmiði kynjafræða, kynþáttafræða og nýlendufræða, svo fátt eitt sé talið. Þessi nálgun hefur gert okkur kleift að öðlast mun betri skilning en nokkru sinni fyrr á því hvernig sjálfsmyndir verða til og hvernig munur sjálfsins og annarra var hugsaður og ítrekaður á miðöldum. Þetta hefur einnig að gera með það hvernig Íslendingar skópu sína sjálfsmynd á miðöldum, svo þetta er ekki innihaldslaus pappír fyrir okkar sögu heldur.

Þetta skiptir gríðarlegu máli. Þess vegna skiptir engu minna máli að hægt sé að ræða þessa hluti af yfirvegun. En það er erfitt að vera yfirvegaður andspænis sögulegum kúgunartólum ef maður sjálfur verður fyrir þeim dagsdaglega. Reynsluheimur fræðimanna sem ekki eru hvítir er einfaldlega annar en okkar hinna. Það eru fyrst og fremst fræðimenn af öðrum uppruna en evrópskum sem hafa vakið máls á þeirri kynþáttabundnu orðræðu sem ekki aðeins er viðloðandi í heimildum fyrri tíma, heldur einnig í orðræðu fræðasamfélagsins í dag. Ennþá búa hvítir fræðimenn við yfirburði í heiminum almennt, og þetta gildir um fræðaheiminn einnig. Jafnvel þar skiptir hörundslitur máli þegar kemur að því að meta verðleika fólks. Rasismi er kerfisbundinn og leynist víða. Það er því skiljanlegt þegar þolinmæðin brestur, þegar yfirvegunin er látin lönd og leið. En það er verra þegar það gerist að ósekju.

Upphaf máls er árlega miðaldafræðiráðstefnan í Leeds, sem er sú stærsta í Evrópu og sú næststærsta í heimi. Í ár var ákveðið að yfirskrift ráðstefnunnar yrði Otherness, sem hægast er að þýða sem framandleiki. Hugtakið á helst við þá sem eru jaðarsettir, en það er flóknara en svo og jafnvel þetta hugtak er umdeilt vegna ýmissa merkingarauka sem stundum vilja hanga saman við það. Tvennt gerist svo á Leedsráðstefnunni: það er augljóst þeim sem ekki eru hvítir að þau eru í svo miklum minnihluta á ráðstefnunni að annað eins gerist varla nema, svo dæmi sé tekið, í íslensku sjávarþorpi. Þannig er þetta á miðaldaráðstefnum. Hitt er að einn heiðursfyrirlesari hefur mál sitt á því að segja hræðilegan brandara, að ef hann virkaði ekki sérlega framandlegur á áheyrendur þá ættu þau sko að sjá hann eftir sumarfrí á Kanaríeyjum. Einhverjir gerðu sitt besta til að hlæja að þessu fyrir kurteisissakir, en það mun ekki hafa verið sannfærandi.

Viðbrögðin, í fyrstu, voru nauðsynleg. Það var löngu kominn tími til að gagnrýna það hversu yfirgengilega hvít miðaldafræði eru, og það hvernig hvítir miðaldafræðingar leyfa sér stundum að tala. Auðvitað var það löngu tímabært. Þetta eru vísindi sem helst laða að hvítt fólk, eru ítrekað misnotuð af hvítum rasistum og nýnasistum í ofanálag, og það þarf kannski ekki að undra að hugarfar sumra þar innanborðs sé gamaldags þegar þeir gera ekki annað en að fjalla um afgömul efni. En það þarf að gagnrýna samt sem áður. Þar hefur viss kynslóð (að mestu) norður-amerískra fræðimanna rutt brautina fyrir nýja, alþjóðlega kynslóð sem hefur tekið upp merki þeirra. Ég tilheyri þessari síðari kynslóð og get fullyrt að áhrif hinnar fyrri eru ómæld. Norræn fræði, svo dæmi sé tekið, eru orðin mun alþjóðlegri en nokkru sinni. Þau eru orðin gagnrýnni og taka nú tillit til ýmiss konar félagslegra þátta sem hefðu þótt framandlegir í umræðu um íslenskar miðaldabókmenntir fyrir ekki nema tuttugu árum. Þetta var umræða sem hreinlega þurfti að taka og allir viðloðandi vissu hvorum megin sannleikans þeir voru. Eða þannig var það þangað til kollegi minn og vinur leyfði sér að nálgast umræðuna með örlítið blæbrigðaríkari hugsun en hann áttaði sig á að væri leyfilegt.

Bandarísk fræðikona af asískum uppruna, velþekkt fyrir dugnað í baráttu fyrir alls konar félagslegum réttlætismálum innan miðaldafræða, skrifaði inn í áhugahóp um fornensku á Facebook um ályktun félagsskapar miðaldafræðinga sem eru „of color“ vegna ráðstefnunnar í Leeds. Þetta hugtak þýðist ekki á íslensku, enda er því ætluð viss andstaða gagnvart hinni eldri afmörkun „litaðra“ (colored) andpænis hvítum, nokkuð sem umdeilt er hvort raunverulega heppnist enda er sömu aðgreiningu viðhaldið með nýja hugtakinu. Á móti er því ekki að neita að sú aðgreining getur einmitt verið gagnleg þegar rætt er um jaðarsetningu litaðra hópa. Með öðrum orðum: þetta er flókið. Í ályktuninni var staða litaðra (ég neyðist til að nota þetta orð á íslensku) fræðimanna hörmuð sem og skilningsleysi fræðasamfélagsins gagnvart þeim flóknu strúktúrum og valdahlutföllum milli kynþátta sem þar eru undirliggjandi.

Vinur minn gerði þau mistök fyrst að átta sig ekki á því að fræðikonan hafði birt þetta sem fulltrúi félagsskapar sem beinlínis kennir sig við „of color“ hugtakið, og þau önnur mistök að gagnrýna (vinsamlega) þessa orðnotkun. Gagnrýni hans var sanngjörn og fólst í því að í raun sé hugtakið mjög ameríkusentrískt. Þótt kynþáttahyggja sé alstaðar í heiminum til þá eru formgerðir hennar og staðalmyndir mjög ólíkar eftir stað og samhengi. Það er nefnilega alls óljóst hvað það merkir að vera litaður í Bandaríkjunum eða í Evrópu, og oft eru mörkin milli hvítra og annarra fremur persónuleg en félagsleg. Hispanir og latneskir geta t.d. í Bandaríkjunum vel flokkast sem hópar litaðra, ekki síst vegna sögulegrar undirokunar þessara hópa og svo þess að oft (en alls ekki alltaf) er fólk af þessum uppruna dekkra á hörund en hvítir. Þó eru ýmsir sem ekki líta á sig sem litaða en kalla sig etníska þess í stað, sakir uppruna. Svo blandast auðvitað allir kynþættir stöðugt saman svo uppruni fólks verður í raun afar ruglingslegur. Aftur: málið er flókið. Í evrópsku samhengi virkar þetta ekki eins. Spánverjar og Ítalir eru ekki litað fólk í augum Evrópubúa þótt það fólk sem deilir með þeim uppruna vestanhafs sé iðulega aðgreint frá hvítum. Það hver er hvítur og hver ekki er m.ö.o. menningarleg ákvörðun og verður svo dæmi sé tekið sérstaklega flókin þegar litið er til Austurlanda nær. Þegar öllu er á botninn hvolft er það sjálfsmynd hvers og eins sem taka þarf tillit til og virða, því það er ekki bara hörundslitur sem aðgreinir hvíta og litaða. Vinur minn sagði þetta ekki, en hugsunin var svipuð. Hann benti á að í Asíu, þar sem hann þekkir vel til, þykir það beinlínis móðgandi að vera dreginn í dilk með lituðum andspænis hvítum. Hann vildi benda á að það eru ekki allir „litaðir“ sem sætta sig við að vera auðkenndir með þeim formerkjum. Þegar honum á móti var bent á að þetta væri nafn félagsskapar en ekki alhæfing baðst hann afsökunar á misskilningnum, en áréttaði að þótt hann vildi ekki gagnrýna fólk fyrir að nota þetta hugtak um sjálft sig, þá gæti verið snúið að nota það um aðra. Hér í frásögninni er rétt að taka fram að vinur minn er frá Hong Kong.

Fræðikonan bregst illa við þessu og sakar vin minn um hvítþvott og afneitun á því að rasismi sé einu sinni til. Sama hvað hann reyndi að skýra mál sitt þá sneri hún harkalega út úr fyrir honum. Ástæðan fyrir því er líka flókin: Hún er sjálf kona fyrir það fyrsta, og sama hvað hver segir þá eru konur enn lítilsvirtar í fræðaheiminum. Í öðru lagi er hún af asískum uppruna og þarf að þola linnulausa áreitni og lítilsvirðingu fyrir þær sakir. Þetta tvennt gerir hana eðlilega árásargjarna þegar efast er um orð hennar. Hún er vön því að tuskast við kvenfyrirlítandi kynþáttahatara og á það til að slengja fólki óforvarendis í þann hóp þegar henni er mikið niðri fyrir. Í þriðja lagi er hún alin upp í Bandaríkjunum þar sem kynþáttabundin hugsun er svo yfirgnæfandi þykkur hluti andrúmsloftsins að hægt væri að skera með hníf. Ástæður þess eru sögulegar eins og allir þekkja og togstreitan eftir borgarastríðið hefur í raun aldrei náð að jafna sig. Bandaríkin eru enn ekki ein þjóð í einu landi og afstaða hvítra til svartra (svo dæmi sé tekið) er enn mjög flókið fyrirbæri að átta sig á. Réttindabarátta svartra átti sér ekki stað í Evrópu með sama hætti og í Norður-Ameríku. Andrúmsloftið í heimsálfunum tveim er og var gjörólíkt og Bandaríkjamenn eiga stundum erfitt með að trúa því að það hugsi ekki allir nákvæmlega eins um kynþætti eins og þeir, enda er allt daglegt líf fólks vestra undirorpið þessum þankagangi þar sem jafnvel er orðið til hugtak um það hvernig hvítir geta talað um kynþætti án þess að nefna þá, með því að beita hundablístru (dog-whistling). Þannig getur stjórnmálamaður t.d. talað um velferðarmæður sem bagga á samfélaginu og allir vita undir eins að hann á við einhleypar svartar konur sem eru of latar til að vinna, án þess hann hafi sagt nokkuð um það. Í fjórða lagi er erfitt að sannfæra baráttufólk um að þeirra eigin hugtök eigi sér ekki alltaf stað og stund. Í baráttuhópum myndast oft viss stemning í kringum viðtekin sannindi og þeir sem ekki fella sig alveg við þau sannindi eru sjálfkrafa taldir hafa rangt fyrir sér. Umræðugrundvöllurinn er ekki alltaf mikill enda er þolinmæði fólks oft af skornum skammti þegar flestir andstæðingar þeirra eru í raun bjánar sem annað hvort skilja ekki baráttuna eða eru beinlínis á móti því að gefa eftir af eigin hagsmunum til annarra. Skynsamleg gagnrýni drukknar í svoleiðis orðræðuumhverfi, sem er einmitt það sem gerðist í tilviki vinar míns. Á köflum getur núanseruð gagnrýni nefnilega hljómað nákvæmlega eins og þöggunartilburðir þeirra sem vilja setja endalausa fyrirvara á alla róttæka umræðu. Þetta er vandamál sem ég get ekki ímyndað mér að verði nokkru sinni leyst.

Vinur minn var á þessum tímapunkti orðinn afneitari kynþáttahyggju, hvítþvottamaður og hrútskýrandi. Þá er honum bent á að fræðikonan er farin að baktala hann í öðrum hópi á Facebook frammi fyrir sumum af helstu amerísku fræðimönnum á sviðinu, og hann fer þangað til að verja sig en er fálega tekið. Þetta hefði getað endað þarna en í miðjum þessum umræðum áttar fræðikonan sig á því að hún hefur verið þögguð í fornenskuhópnum; nær allt sem hún hafði sett inn á síðuna var horfið, en þegar hún fékk hvítan karlvin sinn til að setja inn sömu færslur aftur þá stóðu þær án þess að nokkur hróflaði við þeim. Það er vandséð að þetta sé ekki kerfisbundin mismunun gagnvart henni persónulega, nokkuð sem vitanlega á ekki að líðast, en hún (skiljanlega mikið niðri fyrir) slengir vini mínum í hóp þeirra sem hún telur að hafi reynt að þagga niður í sér. Umræðurnar urðu þungar og hatrammar og vini mínum fannst hann dreginn í svaðið. Þá gerir hann þriðju mistökin: Hann sendir tölvubréf til sameiginlegrar vinkonu þeirra til að skýra mál sitt, að þetta hafi allt farið úr böndunum og það sé nú heldur ósanngjarnt hvernig honum hefur verið spyrt saman við hvíta alræðissinna og aðra rasista. Hann hefur væntanlega sent bréfið til að sjá hvort hægt yrði að miðla málum, en tónninn í bréfinu var ófagmannlegur og hann sér eftir því að hafa sent það.

Vinkonunni, sem er prófessor eins og allir í frásögninni nema vinur minn, blöskrar bréfið, brýtur trúnað og sendir það rakleiðis til fræðikonunnar ásamt eigin inngangi og túlkun á því. Þá fyrst verður allt vitlaust. Nú er vinur minn sakaður um að hafa reynt að doxxa hana, skilgreint hugtak sem merkir að hann hafi a) aflað sér upplýsinga um hana, b) deilt þeim upplýsingum með öðrum, c) í þeim tilgangi að koma höggi á hana. Um leið kemst hún að því að fólk hefur verið að gúgla sig í gríð og erg; þetta sér hún t.d. á prófílum sínum hjá academia.edu og háskólasíðunni sinni og víðar. Þeir vinir hennar sem höfðu staðið með henni í umræðunum segja sömu sögu. Nú virðist þeim sem einhvers konar doxxunarherferð sé í gangi gegn þeim. Með Trump sem forseta og nýnasista marserandi og drepandi fólk er kannski ekki skrýtið þótt bandarískir fræðimenn séu margir hverjir á nálum. Nú var vinur minn nálega kominn með horn og hala.

Næst birtast nokkrar ályktanir prófessora á vefnum, þar af ein sem nafngreinir vin minn ásamt með þekktum rasistum og einum zíonista sem fagnar því alltaf þegar palestínsk börn eru myrt. Þetta fólk sé ábyrgt fyrir persónuárásum, þöggun og doxxun fræðikonunnar og annarra, og það sé nauðsynlegt að afhjúpa það. Annar vinur minn blandar sér í málið og spyr hvort þetta sé nú viðeigandi, að fastráðnir akademíkerar séu að ráðast opinberlega gegn doktorsnema sem hafi ekkert af sér gert nema að segja skoðun sína á flóknu málefni. Fyrir þetta fékk hann yfir sig svívirðingar og ásökun um að taka málstað geranda umfram fórnarlambs og þar með viðhalda retórík nauðgunarmenningarinnar. Þetta fær hann yfir sig frá sumum af helstu fræðimönnum í faginu fyrir að biðja vægðar fyrir vin okkar. Á sama tíma grínuðust fræðimennirnir með það að einn þeirra er nafni þessa hræðilega vinar okkar, og greindu þá að í „góða“ X og „hinn“ X, sem er einmitt grundvöllur jaðarsetningar. Asískur vinur minn var með öðrum orðum jaðarsettur og aðraður í gríni af þeim (aðallega hvítu) fræðimönnum sem helst hafa rannsakað jaðarsetningu og öðrun. Ég held ekki að þeir hafi áttað sig á því hversu illa þessi framkoma hittir þá sjálfa fyrir. Í ofanálag bætist við valdastrúktúr hinna fastráðnu andspænis nemanda sem tölfræðilega átti litlar líkur fyrir á því að geta fengið vinnu við háskóla, en eftir þessa árás er spurning hvort hann muni nokkru sinni geta gert sig gjaldgengan þó ekki væri nema í bandarísku akademíunni. Það er búið að svartlista hann. Hann er „hinn“.

Málið hófst á hvítum fræðimanni sem grínaðist með að hann væri framandlegur eftir sólbað á Kanarí, en hefur endað (í bili) á asískum manni sem hefur verið gerður framandlegur og sakaður um allra verstu fyrirætlanir af (aðallega) hvítum fræðimönnum sem eiga að heita sérfræðingar í framandleikakenningum, og hafa í ofanálag lýst sig opinberlega andsnúna hvíta brandarakallinum. Það væri ekki hægt að ljúga svona furðusögu því til þess er veruleikinn of skrýtinn. Nú hefur framtíð vinar míns og frama verið teflt í tvísýnu, og til þess skrifa ég þetta á íslensku en ekki ensku að eyðileggja ekki eigin feril í leiðinni í vörn fyrir vin minn. Við þurfum á þessum Ameríkönum að halda ef við ætlum að verða eitthvað, svo það er best að við höldum kjafti og verum þæg. Það er í raun ótrúlegt hvað þau upplifa sig ofsótt rétt á meðan þau rústa mannorði valdalausra nemenda. Og það er ömurlegt að sjá að allt sem vinur minn gerðist sekur um hafa þau gerst sek um tífalt. Það gerðu þeir fræðimenn sem helst hafa orð á sér fyrir að vera framsýnir, félagslega meðvitaðir, andfasískir lýðræðis- og réttlætissinnar. Ég hlýt þá að velta fyrir mér hver sé eiginlega framtíðin í þessari umræðu ef það er svona sem hún á að virka. En það sem verst er af öllu er að svona tilgangslaus bræðravíg eru helst til þess fallin að verða vatn á myllu hinna raunverulegu andstæðinga.

Konungsbók eftir Arnald Indriðason

Árið 2006 rættist gamall draumur þegar ég hóf íslenskunám í háskólanum. Það var margt sem heillaði við íslenskuna, en Konungsbók eddukvæða var það sem gerði útslagið um þessa ákvörðun. Sama haust og ég byrjaði í íslenskunni kom út skáldsaga eftir Arnald Indriðason, Konungsbók. Ég var fljótur að næla mér í eintak á bókasafninu og svo hófst lestur, en þeim lestri lauk snögglega. Það var eitthvað sem mér fannst ófullnægjandi við þessa bók en átti erfitt með að henda reiður á.

Screen Shot 2017-07-16 at 13.26.19

Sagan um „unga og bláeyga íslenskufræðinginn Valdemar“ sem kominn var til Hafnar að læra um handritin hefði eins getað verið ég nokkrum árum síðar, svo forsendur sögunnar heilluðu. Það var líka eitthvað svo stórkostleg hugmynd að nasistar berðust við íslenskufræðinga um yfirráð yfir Konungsbók með sinni dularfullu eyðu. Hugurinn hvarflar rakleiðis að dulrænum áhuga nasista, hvort Konungsbók gæti orðið vopn í höndum illra manna ef ráðgátan um eyðuna yrði leyst. Svona eins og Raiders of the Lost Ark. Nýverið fannst bókasafn Himmlers um dulræn efni og að sögn gefur safnkosturinn til kynna að áhugi hans og sumra annarra nasista á dulspeki hafi síst verið ýktur.

Mig hefur því lengi langað að lesa Konungsbók vegna hugmyndanna sem ég hafði um hvað hún hlyti að vera, og núna á dögunum lét ég loksins verða af því að lesa hana. Þannig er auðvitað ósanngjarnt að nálgast listaverk; það er ekki hægt að áfellast rithöfundinn fyrir að skrifa aðra bók en maður hélt sig lesa, heldur þarf maður að leggja eigin hugmyndir til hliðar og leyfa verkinu að tala eigin máli. En ég átti svolítið erfitt með það í tilviki Konungsbókar, því hún fjallar um efni sem ég þekki vel og hef mikinn áhuga á. Svo ég birti þetta með fyrirvara um ósanngirni.

Stíll
Bókin er endurtekningasöm. Öll bókin er lögð í munn Valdemar sem er flatur og tilgerðarlegur persónuleiki. Þrisvar í bókinni lýsir hann andaktugur þessari miklu stórborg, Kaupmannahöfn, og í hvert einasta sinn lýsir hann nákvæmlega sömu húsunum. Þegar lesandinn sér að hann er eina ferðina enn farinn að lýsa Sívalaturni og Frúarkirkju (sem er ekki sérlega imponerandi bygging) fer hann að undrast, því hann er búinn að lesa þennan kafla ekki einu sinni áður, heldur tvisvar. Valdemar endurtekur allar hugsanir sínar fram og aftur um bókina, rifjar upp sömu atvikin aftur og aftur, svo lesandinn finnur alla leið gegnum bókina hversu þunn hún er. Sem hún hefði ekki þurft að vera, nægur er efniviðurinn. Það er líka allt útskýrt svo rækilega ofan í lesandann að ekkert stendur eftir til að velta vöngum yfir, engin túlkun möguleg önnur en sú sem sögumaður býður upp á. Kannski hugsaði Arnaldur með sér að svona íslenskunemi gæti vel verið einstaklega leiðinleg persóna og lélegur penni, og ef svo er þá hefur honum sannarlega tekist vel upp. Mér er sagt að aðrar bækur Arnaldar séu mun betur stílaðar, svo skýringin er altént ekki sú að hann geti ekki gert betur.

Persónur
Valdemar er óþolandi. Hann er sannarlega bláeygur, eins og stendur aftan á bókinni, og hann malar út í eitt einhver banalítet um menningararf og hinn göfuga en brotna prófessor, og er svo teymdur grenjandi eins og ræfill út í gegnum bókina frá einum stað til annars.

Prófessorinn er ekki persóna heldur samsafn eiginleika. Hann er ofdrykkja, sorg og leyndarmál í akademísku starfi. Svo er hann alltaf æstur, nema í fáein skipti þegar hann talar blíðlega til Valdemars. Lesandinn skilur ekki af hverju prófessornum fer að líka við Valdemar, því Valdemar er ekki á nokkurn hátt áhugaverður eða nytsamlegur. Prófessorinn heitir engu nafni, sem er undarlegt. Hann heitir bara Prófessorinn. Jafnvel hinn illi von Orlepp kallar hann Prófessorinn. Prófessorinn er augljóslega pabbi Valdemars en þetta er það eina sem Arnaldur lætur liggja á milli hluta í frásögninni. Það var góð ákvörðun.

Von Orlepp er vondur nasistaforingi, sá helsti í bókinni sem nær að vera persóna, en það er líka vegna þess að við höfum svo skýrar hugmyndir um það hvernig vondir nasistaforingjar eiga að vera.
Aðrar persónur eru ekki þess verðar að nefna.

Saga
Valdemar kemur semsagt til Hafnar á eftirstríðsárunum voða bláeygur og gapandi yfir sívölum turnum og frúarkirkjum og hittir fyrir hinn viðskotailla prófessor sem nennir ekki að tala við hann. Síðan fara nasistar að angra prófessorinn og í ljós kemur að þeir eru á höttunum eftir týndu örkinni úr Konungsbók. Prófessorinn teymir Valdemar með sér rakleiðis til Þýskalands þar sem þeir finna örkina með engri fyrirhöfn í einhverjum kirkjugarði. Þá koma nasistarnir og stela örkinni og fara hlæjandi burt af sjónarsviðinu. Síðan kemur í ljós að prófessorinn er líka búinn að glata Konungsbók, hann lét hinn illa von Orlepp hafa hana í stríðinu, nauðbeygður, og bjó til mjög nákvæma eftirlíkingu af handritinu einn síns liðs með bókfelli, jurtableki og kveikjara. Mjög sennilegt allt saman. Nema hvað, svo flakka þeir einhverjar erindisleysur um Amsterdam og Hamborg uns þeir loks finna Konungsbók um borð í Gullfossi. Það babb kemur í þann bát að nasistarnir eru líka um borð, svo prófessorinn lætur Halldór Laxness fá Konungsbók, en svo hafna þeir von Orlepp í sjónum ásamt týndu örkinni og deyja en Valdemar getur þó allavega endurheimt Konungsbók frá Nóbelskáldinu.

Og til hvers var þetta þá allt saman? Jú, nasistarnir vildu nota Konungsbók á einhvern ótilgreindan hátt til að skapa sjálfum sér og þeirra kynþáttabulli einhverja ímynd um forsögu. Þetta kemur í ljós á síðustu blaðsíðum bókarinnar. Var það þá allt og sumt? Manni finnst það nú heldur sakleysislegt fyrir nasista, og ef eitthvað er frekar klént og ólíklegt til árangurs. Engin dulspeki kemur við sögu. Sagan endar á því að Konungsbók og Flateyjarbók koma í land að lokum sem réttmæt eign Íslendinga, án þess að nokkur viti hvað hefur gengið á á undan eða hvað orðið er um prófessorinn. Í raun mætti draga söguna saman í eina setningu: hún fjallar um menn sem bítast um eina bók af því þeir halda að hún geti leyst úr þjóðernislegri sjálfsmyndarkrísu þeirra. Og það er bara ekki sérlega skemmtileg saga.

Eftirþankar
Ég veit að Arnaldi er annt um söguefnið eins og mér. Hann hélt dásamlegt erindi á ráðstefnu sem haldin var á vegum Árnastofnunar í tilefni af 350 ára afmælisári Árna Magnússonar, og þar segir hann um þessa sögu sína:

„Einhvern veginn þannig er saga handritanna í hugum okkar sem horfum á þau utan frá og erum ekki innmúruð í fræðin. Það liggur alltaf einhver hræðilegur voði yfir þeim. Þau finnast í aumustu moldarkofum, týnast og brenna og sökkva í hafið og eru eins konar munaðarleysingjar sem fá ekki einu sinni að koma heim en kveljast í árhundruð hjá vondu stjúpmóður okkar allra, Dönum. Það er aldrei hátt til lofts og vítt til veggja þar sem þau dvelja. Að þeim var lengst af jafn fátæklega búið og þjóðinni á sinni tíð. Líklega er það einnig fyrir þá sök sem þau eiga svo tryggan stað í hjarta okkar. Bústaðir þeirra voru ekki skrauthallir veraldar heldur örreytiskot við myrkasta útjaðar heimsins, þar sem þau hafa legið undir skemmdum í reyk og sóti og skít. Þau bera þess líka fögur merki að hafa lifað með þjóðinni eins og Konungsbók getur best vitnað um. Hún er með öllu skrautlaust ritverk sett í ódýrasta vasabrot eins og verstu sjoppubókmenntir dagsins og laus við listfengi og óþarfa prjál í ytri búnaði. Þvert á móti er hún tötrum klædd bókardrusla, sótug upp fyrir haus, skítug og tætt, sjálf fátæktin og útjaskað allsleysi landsmanna lifandi komið. Það er auðsætt á henni að hún hefur lifað með sínu fólki og upp á þess kjör og, eins og stundum má segja um þjóðina sem bjó hana til, þá vantar í hana nokkrar blaðsíður. Konungsbók er af þeim sökum ekki endilega rétt nafngift. Það er ekkert konunglegt við hana. Hún er þvert á móti andstæða alls þess sem kallast má konunglegt. Hún hefði með réttu mátt heita Alþýðubókin.

En líkt og er með önnur íslensk handrit og handritsslitur skyldu menn vara sig á því að dæma verk eins og Konungsbók eftir ásýndinni. Þótt við ættum aðeins hana eina værum við rík að bókmenntum og hefðum lagt stóran skerf til heimsmenningarinnar. Hún geymir ómetanlegar heimsbókmenntir og þegar við skiljum ekkert lengur í því hvert Ísland stefnir er gott að eiga hana að, vegna þess að hún minnir okkur á að okkar fegursta og dýrmætasta eign er útslitin, vesæl bókardrusla. Ekki risavaxnar bankastofnanir sem stóðu á brauðfótum. Ekki íslenska fjármálasnilldin sem aðrar þjóðir áttu að taka sér til fyrirmyndar. Ekki Kárahnjúkavirkjun og útlensk álfyrirtæki. Ekki frystigeymslur austur í Kína. Ekki olíuauðlindir á Drekasvæðinu. Þegar við viljum hugsa til raunverulegra verðmæta sem aldrei láta sig varða neitt um bóluáhrif eða hagvöxt eða galdeyrishöft eða efnahagshrun og alþjóðabanka, þá er gott að hugsa til Konungsbókar.

Það rann upp fyrir mér þegar ég leitaði að einhverju sem fól í sér sönn verðmæti andstætt froðuverðmætunum og skrifaði litla ævintýrasögu um íslenskan prófessor í Kaupmannahöfn á sjötta áratugnum sem misst hafði okkar dýrmætu Konungsbók úr höndum sér og reyndi að ná henni til baka. Þegar sagan kom út árið 2006 hafði bókaþjóðin á fáeinum árum stökkbreyst í bankaþjóð og sagan af prófessornum átti að vera einhvers konar andmæli gegn þeirri vissu sem þá ríkti, að peningar einir skiptu máli í lífinu. Áminning um að við hefðum með einhverjum hætti glatað því sem meiru skipti, glatað uppruna okkar, glatað Konungsbók. Þá flugu auðmenn hér um loftin blá á einkaþotum svo varla sást til sólar. Litlar kammersveitir léku undir borðum hinna nýríku. Manngildið var metið í himinháum kúlueignum og óskiljanlegum kúlulánum. Og menn borðuðu gull suður undir dómkirkjunni fögru í Mílanó.“

Mér finnst svo ólíku saman að jafna milli sögunnar og þessarar lýsingar á kjarna hennar. Hér skrifar Arnaldur af tilfinningu sem alveg skortir í bókina, stíllinn rennur ákveðinn og blátt áfram, næmur en samt kíminn. Í bókinni verður sama meining hins vegar flöt, endurtekningasöm og einhvern veginn tilfinningasnauð. Konungsbók er tákn um eitthvað meira en aðeins sjálfa sig sem prófessorinn er tilbúinn að deyja fyrir, en samt trúir lesandinn ekki löngum einræðum um gildi hennar. Slagsmálin um borð í Gullfossi í lokin virðast frekar niðurstaða flumbrugangs og kjánaskapar en einhver mikilvæg barátta um sjálfsmynd og menningu. Það er eins og langar ræður um bókina þar sem hún er skýrð eins og fyrir barni séu hugsaðar fyrir erlenda lesendur í því tilfelli að bókin yrði þýdd, en mikilvægi Konungsbókar verður þrátt fyrir það aldrei sæmilega skýrt. Það er þess vegna sem sú Konungsbók sem Arnaldur ætlaði sér að skrifa klikkar, ef mér leyfist. Sú Konungsbók sem ég hefði viljað lesa aftur á móti, yfirgengilegt nazisploitation með kukli og hvaðeina, ég skal reyna að syrgja hana í hljóði.

Hvenær drepur maður ekki mann? American Psycho og framhald hennar

Ég fór mjög geist í lokasprettinum á doktorsritgerðarskrifunum svo ég hef ekki haft mikla orku til menningarrýni síðan í apríl. Núna langar mig að bæta úr þessu og fjalla sömuleiðis meira um bækur. Hingað til hef ég helst nennt að blogga um kvikmyndir og það verður sömuleiðis gert hér þótt efniviður myndanna sem skoða skyldi sé skáldsaga Brets Easton Ellis, American Psycho, sem ég hef ekki lesið.

Titill sögunnar er afar lýsandi fyrir efniviðinn. Hún gerist í New York á níunda áratugnum og fjallar um uppa innan við þrítugt, Patrick Bateman, sem vinnur við eitthvað óljóst — sennilega viðskipti. Hann hefur ekki unnið sér inn fyrir starfinu, heldur hefur hann fæðst til þess. Hið sama gildir um alla kollega hans. Í raun og veru gerir hann ekkert í vinnunni. Vinnan felst í að sitja við skrifborð í klæðskerasniðnum jakkafötum og þykjast vera mikilvægur. Áhorfandinn fær þegar að vita að honum þykir þetta allt innantómt. Allir í kringum hann eru nákvæmlega eins og hann, fullir af yfirborðshluttekningu hver með öðrum, svo snobbaðir að lífið snýst um hver fær borð á hvaða veitingastað og hver á flottasta nafnspjaldið.

Það sem er einna helst áberandi er fullkomið sinnuleysi allra í garð hver annars. Allir þykjast þekkjast, en persónur myndarinnar fara tíðum mannavillt af því þeir þekkja hver annan ekki í sjón. Þannig nær Bateman færi á vinnufélaga sínum Paul Allen sem heldur að hann sé annar vinnufélagi sinn, Halberstram. Bateman myrðir Allen, að því er virðist af öfund, og það sem eftir lifir myndar myrðir hann enn fleiri. Í lokin játar hann allt saman en vinnufélagarnir hlæja að honum. Þegar Bateman segist hafa myrt Paul Allen segir annar vinnufélagi að það geti ekki verið því hann hafi borðað með Allen í London nokkrum dögum fyrr.

Hérna liggur galdurinn. Í myndinni er nefnilega alveg óljóst hvort Bateman hefur yfirleitt drepið nokkurn og það má skilja myndina á hvorn veginn sem er. Sá kvittur barst mér í eyru eftir að ég hafði séð myndina í bíó á sínum tíma að í bókinni væri alveg ljóst að Bateman hefði engan myrt, þetta hefði allt verið ímyndun. Og flestir vinir mínir hafa viljað túlka myndina þannig sömuleiðis. Mér finnst það bara ekkert skemmtileg túlkun svo ég fór að kanna málið og það kemur í ljós að þessi endalok eru sömuleiðis opin í bókinni. Þá hefur Ellis skrifað fleiri bækur þar sem Bateman kemur við sögu þar sem sömuleiðis er gefið í skyn að hann sé fjöldamorðingi. Og er þetta ekki fullkominn endir? Bateman myrðir Paul Allen en það er ekki tekið mark á því, af því einhver sem þekkir heldur ekki vinnufélaga sína í sundur heldur sig hafa borðað með honum í London. Að lokum skipta örlög Allens engu máli, því þessir menn sinna engum raunverulegum skyldum öðrum en að troða í sig mat og áfengi, bera saman nafnspjöld og þykjast þekkja hverjir aðra. Þannig eru þeir allir amerískir sýkópatar, allir jafn siðblindir og veruleikafirrtir.

Svo kom reyndar út kvikmynd, sem hægt er að taka mark á eða ekki eftir behag, sem gjörbreytir söguheimi myndarinnar. Hægt væri að hafna alveg gildi American Psycho 2 fyrir fyrri myndina. Það hafa bæði Bret Easton Ellis gert og aðalleikkonan Mila Kunis, sem segir að upphaflega hafi þetta átt að vera allt önnur mynd en svo hafi handritinu verið breytt í miðjum tökum. Það sést líka langar leiðir að myndirnar eru fullkomlega óskyldar fyrir utan viðbótina um Patrick Bateman. American Psycho 2 er nefnilega hefðbundin unglingaslógmynd í anda Urban Legend og annarra slíkra mynda sem einkum fjalla um kynlíf og slægða unglinga, en fyrri myndin er töluvert langt frá þeirri stemningu. Sjálfur hef ég nú samt sem áður það prinsíp að sé William Shatner í kvikmynd, þá sé hún kanóna. Svo er leikstjóri myndarinnar Morgan J. Freeman, sem hljómar næstum því eins og annar fremur virðulegur náungi, svo það gefur myndinni aukið gravitas. Svo við skulum taka mark á myndinni.

Í American Psycho 2 er það ljóst frá upphafi að Patrick Bateman er einn þekktasti fjöldamorðingi sögunnar og að aðalpersónan, Rachael Newman, var eitt verðandi fórnarlamba hans þar til hún tók málin í eigin hendur og drap hann. Í kjölfarið ákveður hún að gerast fjöldamorðingjamorðingi og að besti farvegur þeirrar lífsköllunar sé hjá FBI. Við fyrstu sýn eru margir gallar á þessari ráðagerð, en myndinni er alveg sama. Rachael sækir nám í Western Washington University þar sem fyrrum FBI-kempan William Shatner kennir handahófskenndar upplýsingar um fjöldamorðingja. Allir nemendur hans vilja fá að verða aðstoðarkennari hans næsta misseri, því það að verða aðstoðarkennari Williams Shatner jafngildir því að fá að fara í FBI-skólann í Quantico (allir sem þekkja til háskóla vita hverslags þvæla það er, og persóna Shatners í myndinni furðar sig einmitt á því að nemendur haldi að það að vera aðstoðarkennari sinn komi þeim á einhverja framabraut). Rachael drepur því helstu keppinauta sína um hina eftirsóttu stöðu. Einn þeirra kyrkir hún með smokki eftir að hafa ginnt hann í herbergi sitt undir yfirskini um öllu hefðbundnari notkun getnaðarvarna.

Þetta er auðvitað hlaðið alls konar merkingu. Það sem hefði farið utan um harðan lim hans er hið lina sem drepur hann, svo stungið er upp á táknrænni vönun; hann fær heldur ekki hin holdlegu kynni sem hann sóttist eftir. Þá er þetta ábending um að myndin sé meðvituð um stöðu sína meðal slógmynda sem mjög eru uppteknar af kynlífi og vönun. Aðra karla drepur hún með penetrasjón: samnemanda með ísnál í hnakkann (rétt eins og Bateman), ræstingakarl myrðir hún með kústskafti upp í munn og út um hnakka, sem er ekki smuga að framkvæma í alvörunni. Og undir öllum þessum morðum er svo kankvís og glaðleg tónlist að það verður óbærilegt. Er þetta gamanmynd? Ég hallast að því.

Síðan drepur hún William Shatner ooog … hérna virðist ráðagerðin öll vera farin út um gluggann, bókstaflega, því William Shatner dettur út um glugga. William Shatner virðist með öllu ófært að deyja virðulega í kvikmyndum. Hann hafði lifað ótal Star Trek myndir áður en hann varð undir stillansa. Hvað um það, Rachael drepur svo bara aðstoðarkennarann hans og þykist vera hún. Og kemst upp með það. Og fer til Quantico. Myndin búin. Ég hef ekki haft fyrir því að nefna sálfræðinginn einu sinni, því ef hann er klipptur úr myndinni þá breytist framvinda hennar ekki neitt.

Það er engin fágun yfir þessu. Öllu er slengt framan í áhorfandann eins og dauðum skunki og hin óvæntu sögulok eru hvorki óvænt né sögulok. Það er engin saga. American Psycho 2 virðist helst tjá þá hugmynd að of efnaðir háskólanemar séu óttalegt pakk (má e.t.v. til sanns vegar færa) og að fjöldamorðingjum sé ekki treystandi til að myrða eingöngu til góðs. American Psycho er á hinn bóginn afskaplega fáguð athugun á ýmsum sviðum mannlegs samfélags. Hún fjallar um stéttskiptingu, firringu hinna efnaðri, ójöfn valdahlutföll þar sem hinir útvöldu geta framið hvers konar myrkraverk án afleiðinga í krafti stöðu sinnar, en þótt hún sýni þann heim frá sjónarhóli innherja þá er myndin sem dregin er upp svo framandi áhorfandanum að sjónarhornið er samt sem áður upp og utan frá. Þannig dregur hún áhorfandann inn í óhugnanlegan heim þar sem fólki er meira annt um nafnspjöld en annað fólk, veit ekki hvað annað fólk heitir, skilur ekki mannleg samskipti. Hin ráðandi stétt er afmennskuð á sama tíma og fulltrúi hennar, Bateman, afmennskar þá sem eru undir hann settir og ryður öðrum úr vegi — án nokkurra afleiðinga.

Athafnir Batemans eru táknrænar fyrir þá viðskiptahætti sem hann myndi stunda ef hann raunverulega sinnti starfinu sínu. Ef hann væri ekki bókstaflegur morðingi, þá væri hann það óbeint. Hvenær myrðir þá Bateman mann og hvenær ekki? Það er hvers og eins að svara. En forðumst fyrir alla muni þá hugmynd að aðeins sé eitt svar við þeirri spurningu.

The Babadook

Vatt mér loksins í að horfa á hina rómuðu mynd The Babadook, sem er áströlsk hryllingsmynd með svo óhugnanlegri kápu að ég lagði ekki í að horfa á hana lengi. Svo varð ég fyrir vonbrigðum. Ég hef séð hina og þessa mæra hana fyrir dýpt og fyrir að einblína meir á andlega hlið hryllingsins en hina holdgerðu, en mér fannst hún eiginlega nudda mér upp úr táknunum allan tímann. Hluti af því sem heillar mig við hryllingssögur er hið óþekkta, svo þegar ég fatta á fyrstu mínútunum hvað skrímslið er þá er galdurinn eiginlega horfinn. Ég athugaði hvað aðrir hafa haft um myndina að segja og fæ ekki betur séð en að túlkun myndarinnar sé svo augljós að enginn hafi farið á mis við hana. Það er ekki eitt sér slæmt en það merkir samt að myndinni mistekst að vera hryllingsmynd í hefðbundna skilningnum; henni tekst ekki að vera tvíræð. Hið sálræna er svo yfirþyrmandi að skrímslið verður ótrúverðugt nema sem hugarburður.

The Babadook fjallar um tómið eftir missi. Amelia hefur misst manninn sinn Oskar í bílslysi sem varð þegar hann ók henni á sjúkrahús að fæða son þeirra Samuel. Nú á hún aðeins soninn eftir. Og sonurinn er svo gjörsamlega óþolandi að þolinmæði hennar gagnvart honum er hreint út sagt aðdáunarverð. Hún gerir allt til að halda stráknum góðum en lífi hennar fer hrakandi frá degi til dags ekki síst vegna hegðunarvandamála hans sem setja allt hennar félagslíf í uppnám. Í ofanálag er hann einstaklega myrkfælinn og á hverju kvöldi þarf Amelia að gá undir rúm og inn í skáp til að sýna honum að ekkert skrímsli sé í herberginu, og svo lesa þau fyrir háttinn. Samuel hefur búið til ýmiss konar vopn til að díla við skrímslið sem hann heldur statt og stöðugt fram að raunverulega sé til staðar í húsinu. Snemma í myndinni fær áhorfandinn að sjá að hann hefur hengt föt og hatt föður síns á snaga niðri í kjallara, eins konar ímynd föðurins sem hann missti, einasti mögulegi staðgengill hans. Í sama rými skapar drengurinn vopn sín. Kjallarinn er jafnframt sá staður sem allar eigur föðurins eru geymdar; eins konar musteri utan um föðurinn sem enginn má hrófla við. Amelia má heldur ekki heyra hann nefndan á nafn. Hann er eins og gamalt leyndarmál, falið í kjallara.

Nú bregður svo við að Samuel finnur skrýtna bók í herbergi sínu og biður Ameliu að lesa hana fyrir sig. Henni líst ekki á blikuna, vill heldur lesa aðra bók, finnst þessi helst til óhugnanleg. En strákur gefur sig ekki. Bókin fjallar um Herra Babadúk, svartleit fígúra með langa fingur og pípuhatt, sem ekki er hægt að losna við ef maður einu sinni hleypir honum inn. Bókin verður fljótt eftir þetta mjög ógnvekjandi og lyktar með þeim orðum að hver sá sem hafi Babadúkuna heima hjá sér óski þess skjótt að deyja heldur. Móðirin rífur bókina í tætlur og fleygir. Daginn eftir er bankað þrisvar á dyrnar, rétt eins og segir í bókinni að Babadúkan muni gera, en grandvaralaus Amelia opnar dyrnar án þess að hugsa og sér engan. Næst er barið harkalega þrisvar aftur og hún opnar aftur og sér þá bókina, samanlímda fyrir utan dyrnar, og nú er bókin orðin ennþá óhugnanlegri en fyrr og sýnir nú sjálfa móðurina drepa hundinn og soninn. Hún brennir bókina.

Nú fer sögunni fram á tveim sviðum samtímis þar sem bæði móðir og sonur hafa á sinn hátt hleypt Babadúkunni inn í líf sitt. Föðurleysið er alltumlykjandi í myndinni; jafnvel þegar Amelia reynir að njóta einverustundar með titrara í rúmi sínu er sonurinn skyndilega mættur í herbergið með allan þann farangur; strákurinn verður á sinn hátt staðgengill föðurins að hann býr til vopn til verndar heimilinu og hindrar – í fjarveru föðurins – móður sína í að njóta smávægilegustu kynferðislegrar nautnar. Skorturinn á fjölskylduföður verður yfirþyrmandi. Og eftir því sem Babadúkan lætur meir á sér kræla, þeim mun ofbeldisfyllri verður móðirin; ófrjósemi hennar táknuð með rauf í eldhúsvegg hennar sem kakkalakkar skríða út um.

Fallísk táknmynd föðurins vofir yfir móðurinni í rúminu, krefjandi þess að fá að „koma inn.“

Fallísk táknmynd föðurins vofir yfir móðurinni í rúminu, krefjandi þess að fá að „koma inn.“

Það er um þetta leyti sama Babadúkan birtist Ameliu fyrst í gervi manns hennar heitins, og hér eyðileggur snilld kvikmyndagerðarmannanna fyrir sjálfum þeim. Auðvitað er Babadúkan ekki annað en faðirinn, eða öllu heldur skortur á honum, tómið eitt og sorgin. Samanber sú hryllilega sena þegar móðirin fer á lögreglustöðina og reynir að koma þeim í skilning um að einhver (eða eitthvað) sé að stalkera þau mæðgin en lögreglan neitar að hlusta, og svo sjást föt og pípuhattur Babadúkunnar hangandi á snaga aftan við móttökuna. Þetta atriði kallast fullkomlega á við efigíu föðurins sem Samuel hefur gert sér í kjallara hússins, en þetta er eyðilagt með því að blaðra því beint í áhorfandann hvað Babadúkan táknar. Áhorfandinn þarf ekki þessa handleiðslu, ekki frekar en bækur þurfa neonskilti til að auðkenna umsnúning í frásögninni.

Faðirinn er Babadúkan

Faðirinn er Babadúkan

Eins og þetta væri ekki orðið nógu augljóst þá þarf Babadúkan auðvitað að mæta aftur í gervi föðurins undir lok myndar, þegar móðirin hefur myrt hundinn eins og bókin sagði að hún myndi gera og rétt svo komist hjá því að myrða soninn sömuleiðis; táknmynd gremjunnar eftir missi eiginmannsins. Hún ælir út úr sér Babadúkunni sem hún er sjálf orðin, svartri klessu eins og eitthvað upp úr Sjóveikur í München, en þegar Babadúkunni hefur verið hafnað þannig stendur hún frammi fyrir þeim aftur um sinn eins og faðirinn; reynir svo að ráðast á mæðginin en Amelia hefur betur, grefur sorg sína og tekst á við óttann. Babadúkan hörfar niður í kjallara þar sem hún býr allar götur síðan, enda er aldrei hægt að losna við Babadúkuna eins og bókin segir. Föðurmyndin dvelur semsagt þar sem strákurinn hafði gert sér sína föðurmynd, þar sem hann hafði tekið að sér hið föðurlega ábyrgðarhlutverk og reynt að öðlast karlmennsku upp á eigin spýtur; Babadúkan býr í musteri föðurins, eins og gamalt leyndarmál sem ekki má nefna. Babadúkan er faðirinn.

Lokaatriðið er eins og hugræn atferlismeðferð, þar sem Amelia heldur niður í kjallara til að fóðra Babadúkuna á ormum. Babadúkan reynir að ráðast á hana en hún róar hana niður, svo hún hörfar aftur út í horn og étur litlu ormana sína. Amelia hefur náð tökum á tóminu í hjartanu. Það hverfur aldrei alveg, það blossar jafnvel upp niðri í kjallara minninganna, þar sem hin svarta hattklædda vera dvelur í skugga. Jafnvel forliður nafns hennar hljómar eins og faðir: Baba. Eða eins og annar gagnrýnandi benti á, að myndin gæti eins heitið The Dadabook. En þegar tekist hefur að ná tökum á óttanum er ef til vill hægt að horfa fram á við, öðlast aftur líf á eigin forsendum. Um þetta fjallar The Babadook og minnir þannig á El Orfanato, mynd um konu sem býr í fyrrum munaðarleysingjahæli og telur sig sjá afturgöngu barns sem þar dvaldi, en í raun og veru er hún fórnarlamb eigin ótta. The Babadook er ekki eins skelfilega sorgleg og sú mynd, og ekki einu sinni eins skelfileg, en báðar eru þær hryllingsmyndir sem í raun eru ekki hryllingsmyndir þegar öllu er á botninn hvolft, heldur myndir um sálræna vanlíðan og erfiðar minningar. Það er allt gott og blessað. En ég þvertek fyrir að það geri þessar myndir neitt sérstaklega djúpar. Þvert á móti verða þær einnota, því yfirskynið sem þær virka undir er horfið þegar maður horfir á þær aftur.

Ég fæ mikið meiri hroll af því að gera mér í hugarlund hvernig The Babadook hefði getað orðið en ég fékk af því að horfa á hana. Hana vantaði lítið upp á að vera góð mynd, á meðan El Orfanato er á allan hátt frábær mynd. Engu að síður eru þær sama marki brenndar að það er engin ástæða til að sjá þær oftar en einu sinni. Og það er eitthvað svo mikil synd þegar það er innbyggt í kvikmynd að hún virki aðeins einu sinni á hvern áhorfanda.

Meistaraverk æskuáranna IX: Kúrekinn og karlmennskan í Westworld

Um þessar mundir mun HBO (Hórdómur, blóð o.fl.) hafa tekið til sýningar sjónvarpsþættina Westworld, sem færri vita að byggðir eru á samnefndri kvikmynd eftir Michael Crichton sem hann bæði samdi handritið að og leikstýrði árið 1973. Í myndinni fjallar Crichton um svipuð efni og hann gerði í síðari verkum sínum, t.d. um takmörk vísindalegrar þekkingar, en einkum á Westworld margt sameiginlegt með síðari bók hans um Júragarðinn og samnefndri kvikmynd. Crichton, sem sjálfur var læknir án réttinda, var mikið í mun að láta vísindamenn hafa það óþvegið, nokkuð sem stundum hefur verið mildað í kvikmyndagerðum verka hans. Þau sjónarmið kunna að skýrast af óþoli hans á vísindahyggju og áhuga á hinu yfirskilvitlega sem hann taldi að vísindin hefðu hafnað af offorsi. Það er því töluvert áhugavert að ekki nema fjórum árum eftir að hann lýkur doktorsprófi í læknisfræði við Harvard hafi hann þegar verið orðinn svo foj út í fræðin að hann bjó til Westworld, eina af frægari kvikmyndum um ofurtrú mannsins á tækni sem gerð hefur verið; nógu fræga að minnsta kosti til að hafa verið tekin fyrir í Simpsonsþætti.

Westworld er öll löðrandi í táknum. Hún hefst á falsklegri sjónvarpsauglýsingu fyrir skemmtigarð þar sem fólk viljugt til að greiða þúsund dollara á dag getur upplifað sína leyndustu drauma. Allir sem þar koma fyrir virðast svo yfirgengilega glaðir, jafnvel þannig að þau trúa því ekki sjálf, og Colgatebrosið á þulinum í lokin er eins og til að undirstrika að þeim sem reka þennan garð sé ekki treystandi.

Næst fær áhorfandinn að kynnast hetjum myndarinnar þar sem þær sitja í einum af mörgum sigrum mannsins yfir náttúrunni: framtíðarlegri krómaðri svifflaug. Annar þeirra er hinn karlmennskulegi James Brolin, maður sem er svo þrunginn testósteróni að hann svitnar litlum Burt Reynoldsum, og hinn ekki svo karlmannlegi Richard Benjamin, sem dreymir um að vera meira karlmenni en hann er og undirstrikar það með voldugri hormottu. Í þessari senu er Benjamin eins og spenntur lítill strákur: hvernig byssuslíður fæ ég, eru byssurnar þungar? Og svo framvegis. Brolin kemur fram við hann með þolinmæði föður gagnvart syni á leiðinni í Disneyland, og gefur til kynna að val sitt á byssuslíðri sé mun karlmannlegra en það sem Benjamin hefur áhuga á. Hann hefur verið áður í þessu Disneylandi og veit hvernig það virkar.

En þetta er ekkert Disneyland. Þetta er Delos, skemmtigarður sem nefndur er eftir grísku eyjunni sem tvíburagoðin Apollon, guð sannleikans og framsýninnar, og Artemis, guð veiðinnar og meydómsins, fæddust á. Delos stendur í dag sem rústir horfins menningarsamfélags. Allt er þetta merkingarbært eins og færð verða rök fyrir hér á eftir.

Delos er skipt í þrjá hluta: Vestraheim, þar sem hægt er að upplifa villta vestrið í kringum 1860; Miðaldaheim, sem byggður er á Vestur-Evrópu 13. aldar; og Rómverjaheim, sem byggður er á borginni Pompeii fyrir gos. Gestir velja sér þann heim sem þeir vilja heimsækja og fá til þess allar græjur áður en þeim er hleypt inn í heiminn. Hér er rétt að staldra aðeins við til að átta sig á því um hvað myndin fjallar. Það liggur ljóst fyrir þegar í upphafi að Delos er skemmtigarður fyrir ríkt fólk, að sama fólk fer þangað til að uppfylla einhverjar dýpri þrár sem þeim eru óheimilar í siðlegu samfélagi, og að allt er þetta byggt á nýjustu tækni og vísindum. Í raun er skemmtigarðurinn fullur af vélmennum sem líta út og hegða sér alveg eins og fólk samkvæmt þeim lögmálum sem hver heimur er byggður á, og hinir mennsku gestir eru þangað komnir til að gera hvað sem þeim sýnist við þessi vélmenni.

Hér tekur við mikilvægt atriði: hetjur myndarinnar þurfa nú að kynna sig fyrir vísindamönnunum með nafni, en ef ég man rétt þá er hvorugur aftur nefndur á nafn þar til kárnar á dalnum. Ég kem aftur að því síðar. En það sem áhorfandinn fær út úr þessu er að nöfn þeirra skipta ekki máli í þessum tilbúna heimi. Þar eru þeir hverjir sem þeir vilja vera. Í heimi Delos eru mörk mennskunnar því í raun afmáð. Vélmennin verða ekki þekkt frá fólki og fólk getur skotið vélmennin sundur eins og því sýnist, það getur keypt af þeim vændi, það getur jafnvel tælt vélmennin til fylgilags við sig. Ekki fylgir sögunni hvað gerist ef gestur reynir að nauðga vélmenni, hvort vélmennið gefi alltaf undan, eða hvað gerist ef óreiðuhegðun gests beinist að manneskju. Það eina sem áhorfandinn fær að vita er að byssur hrífa ekki á lifandi verur, aðeins á hluti (t.d. vélmenni) sem ekki hafa líkamshita. Þessi skýring nær ekki býsna langt. Hún svarar því ekki hvað gerist ef kúlu er skotið að vélmenni sem manneskja gengur í veg fyrir (í einni senu sjáum við Brolin stökkva frá skothríð sem beinist að vélmenni, mögulega af þeirri ástæðu), og enn síður svarar hún því hvernig sverðin í hinum heimunum bíti ekki á manneskjur. Þau virðast fullvel geta það. Myndin hefði e.t.v. verið kröftugri hefði hún ekki gefið upp þann agnarlitla mun sem greina má á vélmenni og manneskju (þ.e. undarlegir lófar); ef gestir hefðu raunverulega velkst í vafa um hvort þeir hefðu alltaf drepið vélmenni fremur en manneskju. En það er út fyrir efnið hér.

Aðalatriði myndarinnar – það sem gerir hana raunverulega óhugnanlega – er einmitt hegðun hinna mannlegu gesta í hinu tilbúna sögulega umhverfi. Gestir greiða tæpast 1000 dollara á daga aðeins til að búa við lakari aðbúnað fyrri tíma. Westworld er jú einu sinni vestrið; er ekki gráupplagt að ræna bankann, skjóta fólk á barnum og nota konur fyrir kynlífsdúkkur? Það virðist okkar mönnum finnast. Þeir fara inn á bar og panta viskí (hinn kvenlegi Benjamin reynir að panta kokteil en hinn karlmannlegi Brolin segir honum að hætta þessu kjaftæði, þetta sé vestrið). Þeir eru ekki fyrr komnir á barinn en sjálfur Yul Brynner af öllum mönnum sullar viskí yfir Benjamin og segir að hann sé kærulaus með drykkinn sinn. Þessari senu mætti jafna við atriðið þegar Alan Grant og Ellie Sattler sjá fyrst risaeðlur í Júragarðinum: hér er vestragarður og Yul Brynner er vondi karlinn! Eftir nokkra eggjan frá Brolin svarar Benjamin fyrir sig og vegur Brynner í einvígi. Í fyrstu er hann ekki viss hvort hann hafi vegið mann eða vél, en Brolin sannfærir hann um að byssurnar geti aðeins skotið á dauða hluti sem fyrr var sagt. Eftir að Benjamin lætur sannfærast fer siðferðiskennd hans innan heimsins hrakandi. Þeir félagar taka þátt í barslagsmálum, kaupa vændi, skjóta fleira fólk – með öðrum orðum nota þeir yfirburði sína til að þröngva vilja sínum upp á vélar, upp á vélar sem líta út og hegða sér alveg eins og þeir sjálfir.

Á bak við þetta allt saman eru Guðirnir, eða öllu heldur táknmynd þeirra í vísindamönnunum sem hönnuðu og reka garðinn. En nú bregður svo við að vélarnar eru farnar að sýna af sér skringilega hegðun. Þær bila þótt ekkert virðist vera að þeim við nánari aðgæslu. Hegðun þeirra verður ekki skýrð með vísindunum einum. Einn vísindamaðurinn segir að sumir þættir í tækninni séu sjálfir hannaðir af tölvum; í raun réttri viti þeir ekki nákvæmlega hvernig vélarnar virki. Guðirnir hafa misst stjórnina á sköpunarverkinu. Prómeþeifur hefur fært sköpunarverkinu eldinn. Við tekur algjör viðsnúningur á aðstæðum.

Eftir að hinum fyrrum raga Benjamin hefur verið borgið úr steininum af Brolin (og þeir í sameiningu skotið fógetann) fagna þeir afrekum sínum utan við bæinn. Þá lenda þeir í því að vélskröltormur lætur til skarar skríða gegn þeim og bítur Brolin í hans karlmannlegu framlengingu – handlegginn. Undir eins og Brolin þarf að takast á við snákinn glatar hann allri karlmennsku, gróf röddin verður kvenleg, sár vonbrigði hans þegar hann uppgötvar að öryggi þeirra er ekki eins tryggt og þeir töldu brjótast út í barnslegum pirringi. Öll yfirvegun er horfin úr honum á þessu andartaki. Það þarf ekki einu sinni að vera freudisti til að skilja myndmálið; þetta er nákvæmlega sama narratífa og þegar sögusjálf Þórbergs Þórðarsonar gekk eftir Reykjavíkurtjörn og lenti í hrökkál sem slöngvaði sér upp úr og beit í besefann á honum og vanaði þar með. James Brolin hefur verið vanaður.

Það sést enn skýrar í næsta atriði þegar einn gesta í Miðaldaheimi lendir í einvígi við svarta riddarann. Áður hefur hann reynt að þröngva vilja sínum upp á unga vélstúlku sem heitir Daphne – eftir gyðju sem rétt svo var forðað frá nauðgun Appolons af Delos með því að henni var umbreytt í lárviðartré. Aftur er hið goðlega táknmál alltumlykjandi, með mannlegan fulltrúa Appolons fyrir hönd fyrirtækisins Delos. Hér kemur Guðunum ekki til hugar að forða Daphne, heldur verða þeir gramir og hugsi yfir því að vélmenni – hvað þá kynlífsvélmenni – hafi neitað gesti.

Hér vakna upp spurningar um frelsi og vilja; vélstúlka sem sýnir allar mannlegar tilfinningar þegar hún neitar ógeðfelldum manni um að gerast kynlífstæki hans þá stundina, enda þótt hún hafi verið hönnuð til þess arna. Áhorfandinn á að fyllast hluttekningu með hinum undirokuðu vélmennum rétt áður en þau bylta og drepa forréttindafólkið og umturna öllum þeirra perversjónum í einni sviphendingu. Þegar hér veit áhorfandinn hvað er í vændum. Skröltormurinn er næsta þrep á sömu leið og næst vegur svarti riddarinn tilraunanauðgara Daphnear með sverði – hinn effeminíski karlmaður penetreraður með því sama og átti að gera hann sjálfan mikinn andspænis gervifólki, því ekki er hann mikill maður meðal raunverulegra. Slíkar fantasíur enda jafnan á einn veg þegar til kastanna kemur. Hann hefur ekkert vald. Valdið var veitt honum af Guðunum, en þegar þeir hafa misst stjórnina er raunin sú að vélmennin eru voldug. Þeim hefur bara verið haldið niðri af kúgurum sínum til þessa. Við víg miðaldaperrans taka Guðirnir kast og reyna að slökkva á öllum garðinum – rétt eins og í Júragarðinum. En rafmagnsleysið losar þá endanlega undan valdi sínu, og svo fer að þeir fá ekki einu sinni opnað rafdrifnar hurðarnar að rannsóknastofu sinni og kafna þar inni allir sem einn. Guðirnir eru dauðir, og sá maður sem þeir hafa skapað er manninum öflugri.

Víkur nú sögunni að Brolin og Benjamin þar sem þeir þriðja sinni mæta Yul Brynner – þrisvar oftar en flestir. Nú ákveður Brolin að láta slag standa en Brynner plaffar hann í köku. Meðan Brolin enn lifir nafngreinir hann vin sinn og segist vera hæfður, næst skýtur Brynner hann ögn meira uns hann deyr og Benjamin ávarpar vin sinn nú líka með nafni, en hann er dáinn. Hér loksins gangast þeir við mennsku sinni sem þeir skildu eftir þegar þeir tóku á sig ímynd karlmennskunnar – kúrekans – tylltu á sig hatti, slengdu um sig belti með slíðri og þungum skotvopnum, öllu því sem gerir karlinn að manni. Og þar stendur berskjölduð söguhetjan Peter Martin sem við skyndilega munum hvað heitir, raunveruleiki Vestraheimsins orðinn svo raunverulegur að honum líkar allilla, og sjálfur Yul Brynner stendur frammi fyrir honum búinn að skjóta vin hans í spað og segir honum að draga. Okkar maður tekur á rás. Karlmennskan er horfin honum. Yul Brynner æðir á eftir honum með riffil og nær af löngu færi að skjóta af honum kúrekahattinn; tákn fyrir tákn, riffill sem framlenging reðurs hefur af hetjunni hattinn sem gerði hana að kúreka til að byrja með.

Nú eru það vélmennin sem taka yfir Delos með sömu hegðun og mannfólkið áður borgaði fjármuni til að fá að gera. Í Rómarheimi og Miðaldaheimi er fólk hakkað í spað með sverðum, í Vestraheimi eru allir skotnir í sundur, jafnvel einn Guðanna sem verður á vegi Benjamins og Brynner þiggur tvö skot í brjóstið bara fyrir að vera þar. En vélmennin gera ekki greinarmun á fólki og vélmennum; þau drepa og pynta allt sem fyrir þeim verður. Aftur vakna upp spurningar um tengslin við eyjuna Delos og guðina þaðan, sem tákna sannleika og framsýni, veiði og meydóm; hér virðist Crichton með goðafræði vara áhorfendur beinlínis við því að gæla við hugmyndir um slíka paradís, og tilraunir mannanna til að spilla meydómi vélkvenna með valdi eru að lokum kveðnar niður af vélmennum sem veiða og drepa hvern þann sem verður í vegi þeirra. Í lokaviðureign Brynners og Benjamins glatar sá fyrrnefndi andlitinu og þá sést að ekkert er á bak við það nema holt höfuðið, þakið innan með tölvukubbum eins og móðurborð.

Hér mætti taka útgangspunkt í Holu mönnum T.S. Eliot sem staddir eru milli himnaríkis og helvítis því gjörðir þeirra hafa fært þá á hvorugan staðinn, og mætti þá túlka það samfélag sem skapaði þá út frá því. Sjálfsagt væri þó meir borðleggjandi að líta á þetta sem táknmynd innantómrar neyslumenningar, þar sem maðurinn er ekkert en reynir af vanmætti að fylla upp í tómið með siðferðislega vafasömum meðölum. Ég vil þó líta svo á að hér sjái Benjamin sitt raunverulega sjálf, það helvíti sem líf hans raunverulega er, speglað í þeim sem hann reyndi að láta gremju sína bitna á. Þegar hann hefur horfst í augu við það hyldýpi missir hann fótamátt og sest niður í tilvistarlegri örvinglan. Hann hefur horfst í augu við dauðann en veit ekki hvort hann getur horfst í augu við lífið hér eftir heldur. Hann hefur glatað því sem gerði hann mennskan, og munurinn á honum og vélinni virðist honum tilfallandi núna. Áhorfandinn er skilinn eftir án lausnar, því hér endar myndin.

Túlkun myndarinnar er engu að síður fremur borðleggjandi með risi og voldugu hnigi í lokin þar sem niðursveiflan endurspeglar fyrri uppsveiflu. Það mætti stilla upp töluvert mörgum andstæðupörum frá fyrri hluta til þess seinni. Í upphafi ríkir tæknin en í lokin hrynur hún og auðnin ríkir. Í upphafi sækjast menn eftir að þröngva sér kynferðislega upp á vélar, en eru að endingu emaskúleraðir og penetreraðir af vélum. Í upphafi stjórna Guðirnir heiminum sem þeir skópu, en í lokin hefur sami heimur drepið Guðina. Í upphafi er karlmaðurinn sem síðar er kvengerður, og þar á móti er hinn kvenlegi karl sem verður karlmannlegur, en það kostar hann heimsmyndina. Siðferði er tilfallandi þegar maður aktar gegn vél, en þegar því er snúið við verða orsök og afleiðing skyndilega mjög siðferðislega áþreifanleg fyrirbæri.

Sérstaklega er áhugavert að bera saman Westworld við sjálfstætt framhald hennar Júragarðinn, þar sem hið kvenlega og dýrslega í birtingarmynd risaeðlunnar er undirokað og framleitt en hefur síðan sigur gegn hinu karlgerða og stjórnaða í birtingarmynd vísindanna. Hér er hefðbundnum valdahlutföllum snúið á hvolf þar sem hinn karllegi stjórnandi lýtur í lægra haldi og náttúran sigrar allar nauðgunartilraunir – svo vísað sé til orða Ians Malcolm í Júragarðinum þar sem hann líkir einmitt tilraunum vísindamannanna við nauðgun hins náttúrlega heims. Westworld er miklu opinskárri um viðsnúning valdahlutfallanna, þar sem vélarnar að lokum gera allt það sama við fólkið og fólkið hafði áður gert vélunum.

Sennilega mætti lesa út úr því jafnt trúarlegt siðferði (t.d. gullnu regluna) sem almennt siðferði, en beittust er Westworld einmitt í því að hér er venjulegt fólk sett í þær aðstæður að það getur gert hvað sem því sýnist við annað venjulegt fólk. Fyrrnefndi hópurinn er alveg jafnforgengilegur þeim síðari og sá síðari er þeim fyrrnefnda, og þar vakna spurningar um siðferði á við þá hvað þurfi til að geta talist manneskja, hvort hvaða hegðun sem er sé ásættanleg undir tilteknum kringumstæðum, hvort raunverulega sé enginn skaði skeður ef ofbeldi er beitt gegn veru sem ekki er „raunveruleg“: hvort sem það er skaði sem sá sem veldur þarf einnig að líða eða aðeins sá sem verður fyrir ofbeldinu. Jafnframt vekur myndin upp spurningar um forréttindi hinna ríku, hvort skemmtigarður af þessum toga væri réttlætanlegur ef hann væri mögulegur, eða hvort setja þurfi því einhver mörk sem hægt er að fá fyrir peninga. Aftur kallast þetta á við Júragarðinn, en báðar myndir virðast ekki síður kalla á sálgreiningu en marxíska greiningu; gagnrýni þeirra er ekki endilega fyrst og fremst á hið efnislega fremur en á hið siðferðislega, þótt vitaskuld haldist þetta tvennt jafnan hönd í hönd. Ekki síst vekur Westworld upp spurningar um „rétt“ karla til kvenmannslíkama, sem verða engu minna aðkallandi þótt hér eigi að vera um vélar að ræða. Þar væri vert að greina myndina nánar út frá heimspekikenningum um sjálfið, hvað geri manneskju mennska til að byrja með, en hér er ekki rúm til þess.

Sjá áður í syrpunni:
I. Backdraft er ennþá málið
II. Lilli klifurmús er sjálfselskur kúkalabbi.
III. She’s All That.
IV. The Lion King
V. Táningsstúlkan penetreruð hnífi
VI. Gremlins
VII. Good Will Hunting
VIII. Tveir á toppnum 2