Martraðir um hvítabirni II

Í gær bloggaði ég um hryllingssögur Jóhannesar Friðlaugssonar af hvítabjörnum sem gengu á land í Þingeyjarsýslum. Sagan sem ég nefndi sérstaklega er fundin og hún er mikið óhugnanlegri en mig minnti. Kannski engin furða þótt ég yrði hræddur við að fá svona skepnu heim til mín:

Allmörgum árum seinna fluttu þangað önnur hjón með tvo syni sína og bjuggu þar í nokkur ár, án þess að nokkuð bæri til tíðinda. Þá var það einn vetur, að harðindi gerði mikil, og kom hafís að öllu Norðurlandi. Einn morgun vöknuðu hjónin á Þeistareykjum við hávaða fram í bænum, og rétt á eftir er baðstofuhurðin brotin í spón, og stór hvítabjörn kemur inn á gólfið. Svo var rúmum háttað í baðstofunni, að þau voru aðeins tvö og bæði fyrir stafni, en annað var háarúm, og sváfu drengirnir þar, en hjónin í neðra rúminu. Þegar björninn kom inn, rís bóndinn upp úr rúmi sínu og kallar í drengina og biður þá að vera kyrra og láta ekkert á sér bæra. Ætlar bóndi svo að seilast í stóran hníf, sem var upp undir sperru í baðstofunni. En áður en hann fengi náð honum, sló dýrið hann með hramminum, og þurfti hann ekki meira. Fór konan sömu leið. Síðan lagðist dýrið á líkin og fór að éta þau. Á meðan lágu drengirnir alveg grafkyrrir og þorðu ekki að hreyfa sig af hræðslu og skelfingu við dýrið. Þegar dýrið var búið að seðja sig af líkunum, fór það fram úr baðstofunni og út. Risu þá drengirnir á fætur og fóru að ræða um, hvernig þeir ættu að frelsa sig frá birninum og helst að ráða hann af dögum – og hefna svo foreldra sinna. Var þá annar þeirra 12 vetra, en hinn 10 vetra. Komu þeir sér saman um það, að eldri drengurinn skyldi taka stóra hnífinn og fara milli þils og veggjar, því að það var manngengt á milli. En á þilinu var allbreið rifa. Gerðu þeir ráð fyrir, að dýrið mundi koma aftur til að vitja um leifarnar af líkunum, og átti þá yngri drengurinn að gera vart við sig uppi í háarúminu. En þá mundi dýrið rísa upp á afturfæturna og fara að gægjast upp í rúmið að drengnum. Ætlaði þá eldri drengurinn að reyna að koma lagi á björninn með hnífnum, í gegnum rifuna á þilinu. Fór þetta eins og drengirnir höfðu ráðgert. Eftir nokkra stund kom dýrið inn aftur og fór að gæða sér á leifunum. Reis þá yngri drengurinn upp í rúminu. Kemur dýrið auga á hann, rís upp á afturfæturna og teygir hrammana upp á rúmstokkinn. Sætir þá eldri drengurinn færi og leggur hnífnum í kvið bjarnarins og sker út úr, og verður það svöðusár. Þegar björninn fékk lagið, snýr dýrið út úr bænum án þess að skipta sér neitt af drengjunum. En drengirnir náðu bæjum í Mývatnssveit, og bærinn lagðist í auðn.

— Jóhannes Friðlaugsson, Gróin spor, bls. 210-12.

Glöggir lesendur taka eftir að þessi bútur er in medias res, en frásögnin á undan fjallar um hjón sem bjuggu áður á Þeistareykjum, en bóndinn varði sig bangsanum með grjótkasti eftir að sá síðarnefndi hafði áður étið konu hans upp til agna. Þá situr aðeins spurningin eftir: Ætli jörðin að Þeistareykjum sé enn á lausu, ef ske kynni að mann langaði til að reisa sér bústað?

Martraðir um hvítabirni

Ég furða mig stundum á því sem ég las sem barn þótt mér hafi þótt fátt eðlilegra þá en að ég hefði áhuga á því sem ég hafði áhuga á. Í dag tókum við pabbi loksins í gegn geymsluna hennar mömmu sem við í sameiningu lögðum í rúst á 25 ára löngu tímabili, en kannski aðallega ég samt. Þar kom ýmislegt upp úr kössum, þar með talin bók sem hafði ómæld áhrif á mig (þá á ég ekki við bókina UFO: Fljúgandi furðuhlutir eftir Einar Ingva Magnússon, eina af sérviskum unglingaskeiðs lífs míns).

Bókin heitir Gróin spor og er þannig orðin til að faðir (stjúp)afa míns Huga, Jóhannes Friðlaugsson, var í og með öðrum störfum rithöfundur. Bókin er úrval þess sem hann skrifaði og er gefin út í tilefni af aldarafmæli hans árið 1982. Bókina myndskreytti afabróðir minn Hringur og því eigi síður var dálítið til af þessari bók í fjölskyldunni og fengum við bróðir minn hvor sitt eintakið. Ég hef kannski verið níu ára, ég er ekki viss. Það hefði verið 1993, en kannski fékk ég bókina ári fyrr. Þetta voru þá aukaeintök sem aldrei höfðu farið út og afa datt í hug að við gætum haft gaman að, ekki síst myndunum.

Nú er frá því að segja að hvort tveggja myndirnar og textinn skelfdi mig. Ég blaðaði nefnilega í gegnum bókina eitthvert kvöldið og rambaði á myndir af ísbjörnum. Þá varð ekki aftur snúið, ég þurfti að lesa hvað stóð þarna um ísbirni. Kaflinn heitir Hvítabjarnaveiðar í Þingeyjarsýslum og þar er meðal annars frásögn af því, ef ég man rétt, þegar tvö ung systkin urðu ein eftir á bæ nokkrum, gott ef faðirinn var ekki að róa til fiskjar og móðirin farin á næsta bæ eftir einhverjum lífsnauðsynjum, og börnin ein eftir.

Svo kom ísbjörn inn í bæinn.

Ég var stjarfur af hræðslu og las sem óður væri til að sjá hvernig þeim reiddi af, sömuleiðis allar hinar ísbjarnasögurnar, og svaf svo heldur seint og illa um nóttina. Það var um líkt leyti sem ég las í Úrvali (já, ég las Úrval alveg upp til agna) um konu í Norður-Ameríku sem lenti í því óláni að einhver skollans björn kíkti í heimsókn til hennar eitt kvöldið og lenti í áflogum við Nýfundnalandshundinn hennar. Sá stökkti birninum á brott en drapst fljótlega af sárum sínum. Eftir þetta varð ég mikill talsmaður Nýfundnalands- og Sankti Bernharðshunda.

Lengi á eftir átti ég von á því að hvað úr hverju kæmi ísbjörn inn um dyrnar (á þriðju hæð, á Laugarnesvegi) einmitt þegar allir væru sofnaðir nema ég og hann æti mig lifandi, foreldrar mínir hrjótandi í hinum enda íbúðarinnar og gætu ekkert gert í þessu.

Nú er þessi bók fundin aftur og þá er að sjá hvort ég þori að rifja upp kynnin við hvítabirnina. Hitt er svo annað að eftir ár verð ég að líkindum staddur á Svalbarða á ráðstefnu. Martraðir um hvítabirni munu vera lenskan þar í mesta skammdeginu, svo kannski ég geymi mér litteratúr Jóhannesar Friðlaugssonar fram að því?

Ástin á tímum fasismans

Stærstan hluta ævi minnar hef ég búið við frjálsa Evrópu. Ég bjó í Evrópu á ófrjálsum tímum og við kalt stríð en vissi ekki af því. Þegar Berlínarmúrinn féll voru það mér engin tíðindi. Þegar Sovétríkin hættu að vera tamt hugtak og Rússland Jeltsíns tók við og sömuleiðis ýmis önnur ríki, þá varð ég ekki vel var við það. Ég tók eftir því þegar Júgóslavía hætti að vera til, enda hafði ég verið þar. Ég skildi ekki hvernig land gat hætt að vera til. Ég hélt að það hefði horfið af yfirborði jarðar þegar mér var sagt frá því. Stríðið í kjölfarið stóð í áratug, allt til 2001.

Það hefur í raun ekki verið friður í Evrópu neitt sérstaklega lengi. Það er enn ekki friður í Evrópu í raun og nægir að líta til átaka um Krímskagann. Evrópusambandið sjálft stendur völtum fótum og áhrifamáttur Sameinuðu þjóðanna virðist vera veikur ef nokkur. Sjálfur hef ég búið við þau forréttindi að hafa alltaf verið laus við átök í mínu lífi og þannig trúað því í blindni að Evrópa – og heimurinn almennt – sé í góðum málum. Að stríð í Evrópu séu liðin tíð og að framtíðin sé sjálfkrafa bjartari en grimm fortíðin. Um tvítugt trúði ég einlægt á slíka framfarahyggju. Núna fylgist ég með upprisu fasismans og skil loksins hvað heimurinn er brothættur.

Eftir tuttugu daga flyt ég til Póllands skamma hríð til að kenna þar námskeið við háskólann í Katowice í Slesíu. Pólland er núna fasistaríki. Það er eitthvað öfugsnúið við það, að þetta ágæta land sé núna í fylkingarbrjósti fasista í Evrópu þegar það var þeirra fyrsta fórnarlamb á fyrri helmingi síðustu aldar. En sú þróun á sér raunar afar langa sögu.

Hvað um það, nú les ég í blaðinu að nasistatvibbinn Jarosław Kaczyński sé farinn að funda með helvítis skepnunni Viktor Orbán í Niedzica í Póllandi – pottþétt í kastalanum þar. Eru ekki illmenni alltaf í kastölum? Um þann síðarnefnda er helst að segja að honum að þakka hef ég aðra ástæðu utan við þá augljósu fyrir því að ég mun aldrei gleyma brúðkaupsdeginum mínum: þá að þann dag las ég fyrirsögnina „Ungverjaland ekki lengur lýðræðisríki“. Það sem þá hafði átt sér stað var eiginlegt afnám prentfrelsis í landinu. Um hinn fyrrnefnda hef ég ekkert fegurra að segja, en ég játaði þegar Lech bróðir hans fórst í flugslysi 2010 að ég varð fyrir vonbrigðum þegar kom í ljós að fyrstu fréttir um að báðir bræður hefðu verið um borð reyndust rangar, og fékk nokkrar ákúrur fyrir kaldrifjað sjónarmið. Ég get ekki staðið við það, en hitt er enn að ég legg á fáa menn eins mikla fæð og hann.

Það sem nú stendur til hjá Kaczyński er að feta í fótspor Orbáns, að herða tökin á ríkisfjölmiðlum svo stýra megi fréttaflutningi af ríkisstjórninni (þetta er raunar það sem Vigdís Hauksdóttir hefur lýst yfir að hún vilji gera á Íslandi, bara með aðeins frábrugðnu orðalagi). Og óneitanlega minnir þetta nýja kærustupar á Hitler og Mussolini; báðir hafa lengi verið fasistar í eigin heimalandi en eru nú farnir að skiptast á ráðgjöf og reynslu um hvernig best megi koma ár fasismans fyrir borð. Mér lægi við að segja að þetta sé svolítið krúttlegt, væri þetta ekki svona skelfing óhugnanlegt.

Nú stendur Evrópusambandið frammi fyrir því að stjórnvöld í Svíþjóð og Danmörku, sem óneitanlega draga taum líkrar hugmyndafræði og þeir Orbán og Kaczyński aðhyllast og sömuleiðis ýmsir aðrir starfsbræður þeirra s.s. Geert Wilders í Hollandi, eru að brjóta svona líka hressilega Schengensáttmálann með því að taka upp landamæraeftirlit. Að auki brjóta þau mannréttindi á hælisleitendum með því að ræna af þeim fjármunum og heyrst hefur í sænskum lögreglufulltrúa sem segist einfaldlega hlýða því sem honum er sagt; sé hann beðinn um að rífa gullfyllingar úr hælisleitendum þá einfaldlega geri hann það. Á sama tíma brjóta Orbán og Kaczyński grundvallarmannréttindi heima fyrir, eins og réttinn til tjáningar, og því verður ekki tekið þegjandi heldur.

Stærstu fólksflutningar síðari ára standa yfir sakir borgarastyrjalda í mið-Austurlöndum sem eru bein afleiðing af stríðsrekstri Vesturlanda þar, og upp úr þessu spretta andófshreyfingar eins og Íslamska ríkið sem Vesturlönd kunna ekki önnur svör við en frekari stríðsrekstur, og Evrópa heldur áfram að reyna að einangra sig frá umheiminum á meðan hún leysist hratt en örugglega upp innan frá. Evrópusambandið átti að vera trygging gegn stríði í Evrópu eftir Síðari heimsstyrjöldina. En nú er heimsvaldastefnan loks komin aftan að og farin að bíta Vesturlönd í rassinn. Vesturlönd hafa löngum þóst ætla að „frelsa“ fólk í mið-Austurlöndum frá hroðalegum harðstjórum, en þegar fólkið flýr stríðið heima fyrir veit enginn neitt hvernig á að höndla bankið á dyrnar. Viljinn til hjálpar sýnir sitt rétta andlit á meðan fólk drukknar í Miðjarðarhafi og frýs til dauða á Lesbos.

Hvert leiðir þetta allt saman? Ég veit það ekki. Sannast sagna vildi ég helst vera laus við að þurfa að hugsa um það. En það getur enginn neitað því að Evrópa er í hræðilegu ásigkomulagi um þessar mundir og getur engum um kennt nema sjálfri sér. Og nú er ég á leið til Póllands, til lands sem gegnum tíðina hefur mátt þola margt en hefur nú ríkisstjórn sem vill undir forystu ógeðslegs manns verða heimssögulegur gerandi í upprisu fasismans.

Pólland er yndislegt land segja mér allir, og ég er fullur tilhlökkunar. Á sama tíma óttast ég að hin sameinaða Evrópa, sem þrátt fyrir að vera ung er sú eina sem ég þekki, muni leysast upp í vitleysu – að skammtímasjónarmið verði látin vega þyngra á metunum en langtímahagsmunir, að öfgaöfl verði áhrifameiri en nokkru sinni fyrr. Þegar okkar nánustu nágrannar á Norðurlöndum eru farnir að hegða sér eins og nasistar eru blikur á lofti.

Ég er búinn að missa trúna á Facebook sem samskiptatæki svo ég ætla að endurvirkja þetta blogg á meðan ég er í Póllandi og á ferðalögum um mið- og austur-Evrópu. Sennilega verður það allt voðalega hversdagslegt, en ég er af forvitnu sortinni og mun reyna að læra ekki síður um skoðanir fólks á þessu öllu saman en um land, tungu og menningu.

Eins og skáldið sagði: Þetta verður eitthvað.

 

Gullöldin var aldrei til

Ég heyri reglulega talað um það sem ekki er kennt í íslenskum skólum. Það er mun sjaldnar að mér hlotnast nokkur innsýn í það hvað sannarlega er kennt í íslenskum skólum. En það sem vantar er jafnan það sama: börn í dag þekkja ekki sögu landsins, enda er hún ekki kennd í skólum. Börn núorðið kunna ekki nægileg skil á beygingu sterkra sagna, þau þjást af þágufallssýki, mál þeirra er gegnsýrt af undarlegu slangri. Það er á ábyrgð skólanna að ráða bót á þessu. Allt yrði betra ef Björn Guðfinnsson gengi aftur og ef Íslandssaga Jónasar frá Hriflu yrði kennd á nýjan leik. Börn hér kunna ekki stærðfræði, og skýrir það að nokkru leyti tilurð íslenska hagkerfisins. Þau þurfa að nema við fótskör kínverskra talnaspekinga. Lestrarkunnátta íslenskra barna er svo hrikaleg að færustu sérfræðingar efast um að þau einu sinni kunni að fletta, og Barnaverndarnefnd OECD berjandi utan dyrnar eins og skessa. Raungreinalæsi er sömuleiðis ekkert meðal íslenskra barna, enda er námsefninu stýrt af ráðherra sem heldur að leysa megi öll vandamál með álbræðslum og uppistöðulónum síðan hann sjálfur var forheimskaður í skóla.

Svona hefur þetta raunar alltaf verið. Hverjum þykir sinn fugl snoturri en næsta manns illfygli.

Ég held að tvennt liggi hér að baki sem hefur minna með menntakerfið sjálft að gera en ráða mætti af umræðunni: annars vegar eru það áhugamál þeirra sem kvarta undan áherslum í menntakerfinu, hins vegar eru það áhugaefni nemendanna sjálfra. Ef við könnum fyrra atriðið þá kemur í ljós að flestum finnst halla á þann hlut menntunar sem þeim sjálfum er hvað helst hugleikinn. Margur heldur mig sig eins og sagt er og sést það best á því hvað fólk er gjarnt á að kvarta undan því að nemendur nútildags kunni ekki skil á sömu hlutum og það sjálft hafði á takteinum á sama aldri – sem það hafði á takteinum sakir áhuga á efninu, ekki vegna þess eins að téðu efni og öllum heimsins vísindum öðrum var haldið að því í skóla. Þeir sem kvarta undan skorti á sögukunnáttu hafa sjálfir haft áhuga á sögu í barnæsku og jafnvel lesið sér til utan skóla alls kyns fróðleik til viðbótar við formlega námið. Þeim sem gekk vel í tilteknu fagi eiga kannski erfiðast með að skilja hvers vegna öðrum gengur verr í því.

Þar komum við einmitt að áhuga einstakra nemenda. Ég var svona nemandi sem þreifst á sögulegum fróðleik og kemur það væntanlega engum á óvart sem þekkir mig núna. Þær kennslubækur sem ég hafði hafa ekki yfir sér sama dýrðarljóma og Íslandssaga Jónasar frá Hriflu, en þær höfðuðu til þess áhuga sem ég þegar hafði. Í skóla las ég Íslandssögu Gunnars Karlssonar frá landnámi og eitthvað fram um stórubólu. Þegar ég lærði um Sturlungaöldina í grunnskóla teiknaði ég umfangsmikla teiknimyndaseríu um atburði hennar, og fór að vísu nokkuð frjálslega með efnið. Ég lærði um sjálfstæðisbaráttuna, lýðveldisstofnunina og um þrískiptingu valdsins í fjórða bekk. Þegar ég lærði um eitthvað áhugavert í samfélagsfræði leitaði ég mér aukaupplýsinga í þeim bókum sem til voru heima (með umbeðinni aðstoð foreldra minna, að sjálfsögðu). Sama þegar kennarinn minn í þriðja bekk sagði okkur af djáknanum á Myrká. Þá spurði ég heima hvort við ættum þjóðsögur á bók. Sjálfur átti ég alfræðibækur fyrir börn sem hétu Heimur í hnotskurn, Heimur vísindanna, og sú allra besta hét því lýsandi heiti Hvers vegna, hvenær, hvernig, hvar? Aðra átti ég um sjö undur veraldar. Þetta var það sem höfðaði til mín.

Málfræði og réttritun þurfti ég ekki að hafa fyrir vegna þess að ég hafði heilmikið sjónminni og vissi einfaldlega hvernig rétt mál ætti að líta út, ég fann það á mér. Þess vegna gekk mér vel í íslensku, en það að hafa ekki lagt á mig neinn formlegan málfræðilærdóm fyrr en í framhaldsskóla hefur aftur á móti háð mér síðan; ég hef verið seinn að tileinka mér málfræðihugtök og beita þeim. Það er kannski að hluta vegna þess að ég skildi ekki tilganginn með málfræðireglum sem barn, að allir gætu ekki bara séð þetta í hendi sér, alveg eins og stærðfræðiséníin skildu ekki hvert vandamál annarra var. Allt skýrist þetta af upplagi og áhuga.

Það eiga ekki öll börn jafnauðvelt með málið og ég átti, alveg eins og það eiga ekki öll börn eins auðvelt með að læra stærðfræði. Þannig er það bara. Þeirra áhugasvið liggja þá annars staðar en í bóklestri. Sum þeirra gætu eins verið efni í stærðfræðinga, sem er fag sem mér tókst aldrei að skilja. Sjálfur lærði ég það sem ég hafði áhuga á af brennandi ástríðu en öðru tók ég sem hverju öðru hundsbiti og böðlaðist gegnum það, og þetta sama hef ég séð einnig í öllum börnum sem ég hef nokkru sinni haft kynni af, þótt það kunni að vera aðrir hlutir sem þau hafa áhuga á en ég. Það er nefnilega þannig að börn eiga það til að þrjóskast á móti því að læra það sem þeim þykir lítið spennandi, og það verður erfiðara að tileinka sér efni sem manni þykir leiðinlegt því meira sem maður er ákveðinn í að það höfði ekki til manns. Ég féll í stærðfræði níu ár í röð, frá áttunda bekk og öll mín sex ár í menntaskóla, eftir að hafa staðið mig í meðallagi fyrstu sjö ár skólagöngunnar. Kannski er skólakerfinu um að kenna að einhverju leyti – það hefur að vísu aldrei neinn Hriflu-Jónas samið goðsagnakennda stærðfræðibók – en gleymum því ekki að langflestir stóðu sig ágætlega. Ég hafði bara ekki áhuga.

Og ég var heldur ekkert sítalandi um það sem ég þó hafði áhuga á, af því ég hafði áhuga á óteljandi öðrum hlutum. Ég var sérviturt barn sem gat vitnað í Grettis sögu og kunni skil á örlögum Reynistaðabræðra en ég gekk ekki um gólf talandi um þetta, eða pínlegan dauða Snorra Sturlusonar sem hefur alla ævi verið mér hugleikinn. Ég dáði líka Davíð Stefánsson frá Fagraskógi og langaði að geta ort eins og hann. Mig grunar að nær enginn hafi vitað af þessum áhuga mínum. Ég var nefnilega eins og aðrir krakkar og talaði um tölvuleiki og bíómyndir, æfði handbolta og var í skátunum, átti mér annað heimili í Vatnaskógi og í Húsdýragarðinum á sumrin, safnaði körfuboltamyndum og pogsi, ég eyddi dögunum kubbandi úr Legó og teiknandi myndasögur, allir héldu að ég yrði arkitekt eða listamaður. Svo varð ég bókmennta- og miðaldafræðingur, þjóðfræðiáhugamaður og ljóðskáld öllum að óvörum nema sjálfum mér.

Er endilega víst að Íslandssagan sé ekki nægilega vel kennd lengur? Er það þess vegna sem „börn vita ekki einu sinni hver Jón Sigurðsson var“? Gleymum í bili sjálfsögðum breytum eins og fjölbreyttara úrvali námsgreina, fjölbreyttara úrvali afþreyingarefnis, gjörbreyttum heimilisaðstæðum, fjölda grunnskólabarna sem hefur margfaldast með ósköpum síðan á miðri síðustu öld, óteljandi framfarir í menntunarfræðum: Hefur sá sem þannig spyr spurt börn upp til hópa, eða aðeins eitt barn, eða fáein, hvort það viti hver Jón Sigurðsson var? Veist þú hver Adele er?

Er íslenskukennslu um að kenna þótt börn tali öðruvísi en Jónas frá Hriflu, eða hefur ekki internetið sýnt að fólk af öllum kynslóðum skrifar misjafnlega, og mun það ekki ætíð hafa verið þannig meðal þeirra sem á annað borð gátu skrifað? Við útrýmdum ólæsi og kvörtum svo undan því að fólk skuli skrifa, en ég verð að játa að ég átta mig ekki alveg á vandamálinu. Hvernig er það, vita börn ekki skil á kjarna, möttli og jarðskorpu eða kunna þau ekki mun á flóði og fjöru vegna þess að þetta er ekki kennt, eða gleymdist kannski að spyrja þau? Er tilhneigingin kannski helst sú að alhæfa um skólakerfið út frá fáum samræðum við börn sem auk þess var stjórnað af manneskju með tiltekin áhugamál, sem vill forvitnast um framgang þessara áhugamála í skólakerfinu?

Það held ég að sé skýringin á því að sumum finnst börn ekki vita rass um skreiðarútflutning, um spánsku veikina, um muninn á togi og þeli, um framræslu votlendis, lotukerfið og hæð Hvannadalshnjúks (sem ég hef aldrei getað munað, fyrir eða eftir breytingu). Ástæðan er einfaldlega sú að börn hafa ekki endilega áhuga á því sama og nostalgískir foreldrar þeirra, og menntakerfið virkar ekki þannig að það dæli upplýsingum í heilabú barna sem upp frá því hafi brennandi áhuga á landi, sögu og þjóð, máli og samfélagi, virkni jarðskorpunnar og gangi himintunglanna. Samhengi allra þessara hluta verður fyrst ljóst með aldri og reynslu.

Ef þú aftur á móti spyrð börn hvað þau lærðu skemmtilegt í skólanum í dag, þá kannski kemstu að raun um hvað er kennt í skólanum. Allt hitt sem þú vilt að barnið þitt kunni skil á er sennilega kennt líka. Það hefur bara ekki sérstakan áhuga á því. Barnið þitt er barn en ekki vél. Að hneykslast á því að barnið þitt sé ekki símalandi um skútuöldina eins og þegar þú varst hnokki dragandi marhnúta á eyrinni er eins og að tuða undan því að dóttir þín hafi meiri áhuga á Monster High en Hjaltabókunum. Kynslóðir eru ólíkar, þannig er það bara, og allt þetta sem sumir halda að skólar kenni ekki lengur, það er víst kennt og lærist samt. Vandinn er ekki skólakerfið heldur þessi ímyndaða gullöld íslensks skólakerfis sem aldrei var til frekar en gullöld íslenskrar menningar. Menningin er síbreytileg og fólk þarf bara að læra að díla við það.

Loðnu Spielbergbörnin

Þegar ég fór á Jurassic World í bíó um daginn hafði ég séð fyrir mér að það yrði að minnsta kosti einn töluvert loðinn drengur í myndinni. Af hverju? Vegna þess að Steven Spielberg treður svoleiðis persónu inn í allar myndir sem hann kemur nálægt.

Í Close Encounters of the Third Kind er þessi hér:

Í Poltergeist kemur þessi fyrir:

Elliott í E.T. er ansi hærður líka:

Tim Murphy i Jurassic Park er sennilega minnst hærður af þeim öllum en töluvert þó:
tim_murphy

Þessi er aðalpersónan í Super 8:

Og að lokum er drengurinn hægra megin hér sá sem ég átti von á í Jurassic World:
Screen Shot 2015-07-21 at 15.25.24

Að lokum má spyrja sig: Hvað er málið með þessa loðnu Spielbergdrengi?

Maðurinn sem ég forðast

Það er náungi sem vinnur í Háskólanum, í sömu byggingu og ég, sem ég forðast eins og ég get. Þegar ég byrjaði að vinna í Gimli mætti ég honum dag einn á ganginum og við heilsuðumst. Við könnuðumst hvor við annan síðan í MR forðum daga. En ég mundi engan veginn hvað hann heitir, var ekki viss hvort ég hefði nokkru sinni vitað það; né gat ég rifjað upp fyrir sjálfum mér hvernig við höfðum verið kynntir eða í gegnum hvern.

Ljóst var að við hefðum aldrei verið vinir, en nú í haust eru liðin fimmtán ár síðan við urðum hæ-félagar, það er að segja: menn sem heilsast á förnum vegi en segja aldrei neitt meira. Það er ekki alltaf slæmt að eiga sér hæ-félaga þótt það sé auðvitað ekkert fyrirmyndarform af kunningsskap. Maður verður líka að gæta sín að brjóta ekki reglurnar með því að brydda upp á einhverju umræðuefni. Þess vegna forðast ég hann.

Það rann nefnilega fljótlega upp fyrir mér eftir að ég hóf störf að það voru mistök að endurnýja hæ-félagsskap okkar á þessum nýja vettvangi. Hann hefði átt að leysast upp smátt og smátt eftir því sem menntaskólaárin hurfu í mistur fortíðarinnar, en þess í stað heilsuðumst við. Við fundum það ekki strax, en uppvakinn félagsskapur okkar átti eftir að umturnast í ófreskju, óskapnað, eins og aðrar siðlausar mannlegar tilraunir sem best hefðu áfram verið óreyndar.

Við fundumst dag hvern á göngunum, oftar en þrisvar og oftar en fimm sinnum suma daga, og stirðnuð bros okkar urðu innspýting beiskju í sálir okkar. Suma daga þóttumst við ekki sjá hvor annan, jafnvel þótt við vissum báðir að augu okkar höfðu mæst á ganginum litum við hvor í hina áttina eins og gripnir skyndilegri andakt. Mörg urðu slík Evrekumóment á göngum Háskólans. „Þarna er helvítis fíflið. Evreka!“ og litið upp í loftið. Eitt sinn gekk hann óvart inn í lesstofu grunnnema til að forðast mig. Ég hló nöturlega að mistökum hans.

Nú þegar kveðjuhót okkar eru dauð getum við umfram allt ekki talast við. Ég bölvaði honum í sand og ösku þegar hann tók lyftuna í dag, upp á næstu hæð! Ég þurfti lengra upp en hann, en sakir þess að hann náði lyftunni fyrst gat ég ómögulega hætt á þær félagslegu hamfarir sem það hefði haft í för með sér að verða honum samferða. Hvernig tekur maður lyftu með manni sem ekki má ná augnsambandi við? Ég klöngraðist upp stigann, og aðeins fullvissan um að dag einn næði ég lyftunni á undan honum fékk sefað beiskjuna í hjarta mér. Dag einn!

Með tímanum höfum við tekið að njóta þess svo mjög að viðurkenna ekki tilvist hvors annars að við óskum þess næstum því að við gætum spjallað um það í lyftunni. Næstum því.

Líf doktorsnemans og það sem helst er að Íslandi

Mér gengur ekkert að skrifa hér. Síðustu fimm færslur eða svo hafa allar endað í sorpinu því þær voru ýmist of fræðilegar, og þá getur maður eins skrifað fræðigrein, eða of illa skrifaðar, leiðinlegar eða á annan hátt óáhugaverðar.

Nú fer fram rektorskjör við HÍ. Það fær mig til að hugsa um líf doktorsnemans og hvernig það er, gagnvart því hvernig fólk hugsar sér að það sé. Ég hef reyndar verið svo lengi í þessu að ég man ekki hvernig seinni flokkurinn er. En reyndin er þannig að HÍ fær greitt fyrir hvern útskrifaðan doktor en sá hefur sjálfur þurft að afla sér tekna meðan á náminu stendur, ýmist með umsóknum í samkeppnissjóði eða með námslánum (ég hef gert hvort tveggja). Það er því mikill hvati fyrir háskólann að útskrifa sem flesta doktora.

Svo vita allir að háskólinn getur ekkert ráðið alla þessa doktora og það er ekki eins og atvinnulífið hafi neinn áhuga á þeim heldur, ef marka má SA og aðra talsmenn þess. Þeim finnst menntakerfið ekki koma til móts við þarfir atvinnulífsins; af því fyrir þeim skiptir engu máli hvaða hæfileika og menntun fólk hefur í raun og veru, heldur þarf að umbylta menntakerfinu á fimm ára fresti með hliðsjón af stundarhagsmunum hinna ríku.

Á Íslandi er líka löglegt, einhverra hluta vegna, að ráða ekki menntað fólk vegna þess að það sé „of hæft“. Raunveruleiki doktorsnemans er því sá að:

  1. Hann eyðir fjórum til tíu (stundum fleiri) árum í rannsóknir sem gagnast fræðasamfélaginu og almenningi
  2. Með ærnum tilkostnaði fyrir sjálfan sig
  3. Til að öðlast gráðu sem útilokar hann frá hér um bil öllum atvinnumöguleikum
  4. Nema í háskólum, sem geta reyndar ekki ráðið hann vegna fjárhagsörðugleika og plássleysis
  5. (Og svo eru á bilinu fimm til tvöhundruð manns sem sækja um hverja eina stöðu eftir því hvar í heiminum er borið niður)

Því er aftur á móti ekki að neita að þetta er gefandi starf, þó að andlegt álag geti raunar verið svo mikið að það er alþekkt um allan heim að nemendur brotna undan álaginu. Sjálfur get ég þó ekki kvartað.

Svo eru reyndar séríslensku aðstæðurnar ekki til að bæta geðheilsuna alltaf. Nú lætur trúðurinn í Stjórnarráðinu eins og hann geti bara afnumið gjaldeyrishöft í vikunni á meðan fjármálaráðherra situr á Flórída og spyr hví íslenskir launþegar geti ekki bara étið kökur, hvað þeir þurfi alltaf að vera að sífra þetta um að launin þeirra allavega haldi í við verðbólguna sem þeim kumpánum finnst svo gaman að fóðra með peningafórnum úr ríkissjóði.

Þessu lofar forsætisráðherra: að krónunni verði fleytt fyrir þinglok. Ég reikna með að flestir séu paníkerandi yfir því núna hvert í fokkanum þeir geti flúið áður en trúðurinn hleypir loftinu úr blöðrunni. Það verður kannski auðveldara að yfirgefa landið en ella nú þegar snjó hefur varla leyst nema í fimm mínútur í senn síðan í byrjun nóvember, og varla við öðru að búast en að veðurfar fari ekki bara versnandi héðan af ef satt er sem sagt er að golfstraumurinn sé á undanhaldi.

Ísland er ekki sérstaklega byggilegt land og hefur farið versnandi, bæði veðurfarslega og pólitískt séð. Stjórnvöld ráðast á grunnstoðir lýðveldisins: á lýðræðið, á lýðréttindi, á heilbrigðiskerfið, á menntakerfið, og allri gagnrýni á þetta niðurrif alls þess sem heilagt er hefur verið svarað þannig að nú svíði „vinstrisinnuðu menntaelítunni“ sárast þar sem skorið er og rétti höggstaðurinn fundinn. En þetta snýst ekkert um vinstrimennsku eða pólitík, heldur um að búa í manneskjulegu samfélagi. Einu sinni dugði orðið samfélag til að lýsa þeim gildum sem allir gátu sameinast um, en nú dugar það ekki lengur. Nú þarf að taka sérstaklega fram að samfélög séu fyrir fólk. Stjórnvöld hafna enda öllum samvirkni- og samfélagshugsjónum af því þau skilja þetta ekki. Fyrir þeim er menntun og spítalar og lýðræði bara eitthvert punt undir rassinn á kommúnistum og kennurum, svona fólki sem aldrei hefur átt gasgrill eða búið í Garðabæ.

Það er ekkert alltaf gaman að búa við þennan yfirgengilega valdhroka, þessa botnlausu heimsku sem kjörnir fulltrúar hafa tekið í misgripum fyrir hugsjón og lýðræði og flengja hver annan með og stæra sig af á flokksþingum og í fjölmiðlum. Ísland hefur aldrei staðið betur en einmitt nú, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Það var og.

Það var nú svo sem aldrei margt annað í stöðunni fyrir mig en að leita mér að vinnu erlendis eftir doktorsprófið, nema til komi óvænt staða eða nýdoktorsstyrkur fáist hér heima. Verst ef Kögunarbarnið og Vafningsfíflið verða búnir að sökkva landinu í millitíðinni. En maður getur þá kannski sent peninga heim til fjölskyldunnar eins og fólk gerði hér í eina tíð. Ef maður fær þá vinnu nokkurs staðar. En það eru áhyggjur síðari tíma. Ég hef tvö ár enn fram að því. Ef að verðbólgan étur ekki styrkinn minn.

Táningarnir í Fræðagerði*

Til heiðurs Þeofrastosi:

Ég þekki mann í fræðunum sem fer leynt með kynhneigð sína af ótta við að hún gæti komið niður á fræðaferli hans. Það versta er að sá ótti er ekki ástæðulaus í heimalandi hans.

Ég þekki mann í fræðunum sem er ofurgagnrýninn á flesta kollega sína, en gerir síðan sjálfur öll sömu mistök og hann ranglega sakar aðra um. Hann hlær að einhverjum og gerir síðan nákvæmlega það sama og hann, aðeins verr.

Ég þekki konu sem hætti í fræðunum af því hún fékk ekki af sér að fara fram á það við neinn að verða leiðbeinandi sinn.

Ég þekki mann í fræðunum sem enginn vill vita af. Hann var eitt sinn mjög efnilegur að sögn en hefur farið illa með sig. Hann er strandaglópur í námi, getur ekki útskrifast en ekki er hægt að loka hann úti heldur.

Ég þekki konu í fræðunum sem hefur svo miklar áhyggjur af að kennurum hennar og kollegum þyki hún vera fífl að hún þorir aldrei að tjá skoðanir sínar.

Ég þekki mann í fræðunum sem gerir ekki annað en tjá skoðanir sínar af lítilli þekkingu og enn minni reynslu. Kennurum hans og kollegum finnst hann vera fífl.

Ég þekki mann í fræðunum sem talar afar illa um fræðimenn sem heyra ekki til en smjaðrar svo fyrir þeim á ráðstefnum.

Ég þekki mann í fræðunum sem reynir stöðugt að þóknast leiðbeinendum sínum sem eru innbyrðis ósammála og hnakkrífast yfir tölvupóstinn svo hann sjái til. Hann skiptir um ritgerðarefni tvisvar í mánuði að meðaltali og veit varla sjálfur lengur hvað hann er að gera. Það sést á öllum umsóknum hans sem er hafnað hvert sem hann sendir þær.

Ég þekki mann í fræðunum sem heldur að námskeiðsritgerðir sem hann fékk bágt fyrir einu sinni hafi verið merkari fræði en öll samantekin ritaskrá kennara sinna.

–––––
* Þessi færsla heitir eftir barnaefni sem sýnt var í lok níunda áratugarins í íslensku sjónvarpi og nefndist Táningarnir í Hæðagerði. Þeir fjölluðu um ógeðslega rík forréttindabörn í Beverly Hills sem óku um á limmúsínum með sundlaug í stað skotts.

Á þessum mótum breytist lífið (agnarögn)

Í gær urðu ákveðin tímamót, sem mér síðan fipaðist við að koma í orð þess heldur sem tilefnið var meira. Ég ætla að gera aðra atlögu að því hér.

Haustið 2000 fylktu spenntir nýnemar í Menntaskólanum í Reykjavík liði úr skólasetningu í dómkirkjunni og dreifðust á stofur í hinum ýmsu byggingum skólans. Á stofu C-101 í Casa Nova var skipað ýmsu úrvalsfólki og þeirra á meðal voru þrjú töluvert lúðaleg ungmenni, gerólík um flesta hluti, sem náðu gríðarvel saman en í tveimur kippum þó: við Alli annars vegar, en Alli og Silja hins vegar.

Síðan féll ég um vorið og tók þriðja bekk aftur.

Ég kann ekki að skýra hvers vegna við Silja urðum ekki vinir fyrr en við lentum aftur saman í bekk haustið 2002 öðruvísi en svo að sennilega taldi hvort okkar hitt ekki hafa neinn áhuga á frekari kynnum. Dag einn bar það til að við tókum bæði fjarkann af Lækjartorgi og þá var ekki um annað að ræða en að ég settist hjá henni. Upp úr kafinu kom að bæði spiluðum við á hljóðfæri og þegar komið var fram í janúar höfðum við tekið upp lagið Permiscua musica í gervi hljómsveitarinnar Helþrymju með liðsinni Hallgríms Jóns Hallgrímssonar frænda míns og Smára tarfs. Það var eins og við hefðum aldrei ekki þekkst. Lagið má heyra hér.

 

 

Það var þennan vetur sem við fórum að hittast öll þrjú saman. Menntavegurinn hafði leitt Alla upp í Breiðholt og þegar voraði 2003 stóðum við Silja okkur nógu líkt á prófi að hvorugu okkar var lengur til setunnar boðið á þeim skólabekknum.

En þó að gamla miðbæjarskólanum hafi ekki haldist á okkur þá höfum við Silja og Alli alltaf haldist saman. Við höfum í öll þessi ár verið óbreytanlegur kjarni í misstórum vinahópum eftir tímabilum, en þessi síðustu ár hafa fundirnir verið færri og lengra á milli þeirra en við höfum haft vanda til. Svoleiðis kemur fyrir. En það er líka það eina sem hefur breyst. Einhvern veginn höfum við þessar ólíku manneskjur alltaf haldið tryggð hverjar við aðra; við höfum átt athvarf hvert í öðru andspænis erfiðleikum lífsins, leitinni að ástinni, og í því sem mestu máli skiptir í lífinu sem er að hafa það skemmtilegt.

Við grínuðumst stundum með það hvert okkar myndi gifta sig fyrst, og nú þegar við höfum öll gift okkur á rétt rúmu ári finn ég það sterkar en áður hvað við erum alltaf eitthvað svona samferða í þessu. Þegar ég gekk áleiðis heim í nótt eftir brúðkaup Silju og Dóra hennar leiddu fæturnir mig, á ef til vill lítt dularfullan hátt, inn á Þingholtsstræti þar sem ég staldraði við dularfulla byggingu sem lætur lítið yfir sér en geymir heilan heim sem mótaði mig, og við gluggann sem vísar inn að ganginum langa í Cösu Nova varð mér litið inn, þar sem eitt sinn gengu þrjú lúðaleg ungmenni og veltu fyrir sér undarlegustu hlutum sem aðeins ungu fólki kæmi í hug að hugsa um upphátt, Silja gestikúlerandi af innlifun og Alli flissandi í leðurjakka með einhverja græju í hönd og sígarettu bak við eyrað, ég frakkaklæddur og ofsmurður geli um hárið, bestu vinir sem nokkru sinni hafa verið til. Hvernig getur maður annað en velt því fyrir mér hvað í ósköpunum maður gerði til að eiga skilið að eiga svona minningar, hversu mikil heppni það var að við þrjú höfum einmitt ratað í þennan sama þriðja bekk B haustið 2000.

Það er það sem ég hugsa um núna á þessum tímamótum þegar Silja giftist síðust okkar (þvert á allar spár mínar varð ég fyrstur til) og flytur til Stokkhólms nú eftir helgi. Af okkur eru til ýmsar sögur misjafnlega viðeigandi endursagnar, og margar þeirra eru varðveittar á þessari bloggsíðu sem enn lifir frá þeim árum þegar við vorum í MR og hittumst daglega við okkar Stammtisch á Prikinu. Það er því við hæfi að setja punkt hérna í bili við ævintýrið af Silju, Alla og Agga hinum vammlausu, eins og við kölluðum okkur. Ævintýrin verða öðruvísi núna en sagan heldur áfram, enda eru vináttuböndin sterkari en svo að trosnað geti; þau hafa lifað af umbreytingu úr lúðalegum börnum í töluvert lúðalegt fullorðið fólk sem sjálft á börn. Við skiljum kannski ekkert hvað varð af árunum, en þau hafa að mestu verið góð.

Silju og Dóra bíður töluvert ævintýri í Svíþjóð, nýtt upphaf, og ég veit að lífið á eftir að leika við þau þar. Þeim sendi ég hamingjukveðjur og knús og loforð um að bresta ekki í grát í þetta skipti.

Meistaraverk æskuáranna III: She's All That

Sjá áður í syrpunni:
I. Backdraft er ennþá málið
II. Lilli klifurmús er sjálfselskur kúkalabbi.

Paul Walker og Freddie Prinze Jr. beita unga stúlku andlegu ofbeldi til að sýna fram á hversu æðislegir þeir eru

Paul Walker og Freddie Prinze Jr. beita unga stúlku andlegu ofbeldi til að sýna fram á hversu æðislegir þeir eru

Aftur svindla ég á reglunum þar sem aldrei hefur verið hægt að halda því fram að She’s All That sé meistaraverk þótt mér hafi þótt hún áhorfanleg þegar ég var á fyrsta ári í menntó, auk þess að menntaskólaárin teljast varla til æskuáranna. Þessi mynd fær að fljóta hérna með því ég fékk þá hugmynd á dögunum að kíkja á hana aftur, í fyrsta sinn síðan ég var sextán ára.

Hún hefur ekki elst vel. Raunar hefur aldur ekkert með það að gera; svona myndir eru aldrei í lagi.

She’s All That (1999) fjallar um átján ára hönkið Zack (Freddie Prinze Jr.) sem er eins nálægt því að vera guð og hægt er í skólanum sínum. Alla ævi hefur hann verið algjörlega vammlaus og heyrt til einhverjum æðri klassa af manneskju en skólafélagarnir, þar til daginn eftir vorfrí á lokaárinu í gaggmenntó (high school) að kærastan hans Taylor (Jodi Lyn O’Keefe) — sem er flottasta stelpan í skólanum, sem gert er skýrt í myndinni að er hlutverk en ekki hlutlægur veruleiki, þannig að hún er þrátt fyrir allt skörinni lægra sett en hann sem er fæddur fullkominn — segir honum upp fyrir framan allan skólann, svo að segja, því hún hefur tekið saman við Matthew Lillard af öllum mönnum.

Það að Zack og Taylor eru ekki jafningjar kemur þegar fram í því að hlutverk sætustu stelpunnar er að vera viðhengi sætasta stráksins. Þegar Taylor hefur dömpað Zack gerir hann veðmál við ungan Paul Walker (sem verður að segjast að átti eftir að verða myndarlegri með árunum) um að hann geti gert hvaða stelpu sem er að heimkvámudrottningu sinni á lokaballinu (því vitað er að hann verður kóngurinn, það er enginn annar eins og hann í skólanum). Og þetta tekst! Svona framan af að minnsta kosti. Taylor tapar öllum vinsældum sínum af því hún er ekki lengur viðloðandi Zack, hybris hennar er að telja sig standa honum jafnfætis á grundvelli fegurðar sinnar og vinsælda og því lætur hún hvarvetna eins og hún eigi staðinn, en tapar fyrir vikið vinsældum sínum og vinum. Hún verður drottning í lokin en svo er komið fyrir henni þá að þegar hún heldur bitra heimkvámuræðuna er slökkt á míkrófóninum svo enginn þurfi að hlusta á hana.

Stúlkan sem Zack á að umbreyta úr lúða í læðu er listabrautartýpan Laney (Rachael Leigh Cook), sem vill í fyrstu ekkert með hann hafa og sýnir honum fram á með vandlætingu sinni á honum að enn geti hann bætt um betur. Þó er það að mestu leyti hann sem mótar hana og gott betur en það, í mynd fyrrverandi kærustunnar (þetta sést á því þegar þær hittast í fyrsta skipti og hann hefur keypt á hana sams konar kjól og sú fyrrverandi er í), og öll þeirra samskipti fara fram meira eða minna á hans forsendum. Stundum með valdi (ekki líkamlegu, þó).

Ekki bætir úr skák að allir krakkarnir í myndinni eru ógeðslegt Kaliforníuyfirstéttarpakk. Þau eiga sér engin vandamál, sjást aldrei læra heima, hanga á ströndinni, halda partí í einbýlishúsum með innréttuðum neonljósum á fjórum hæðum, aka um á rándýrum bílum. Það er einmitt svona fólk sem elst upp í því að niðurlægja og ráðskast með fólk af sér lægri stigum, eins og Zack sést ítrekað gera í myndinni. Það eina sem hann þarf að hafa áhyggjur af er hvort stúlkan vilji samt elska hann þótt hann hafi gert hana að tilraunadýri í ógeðslegu veðmáli og það hvaða ivy league háskóla hann eigi að velja (Yale, Dartmouth, Harvard …) því þeir hafa allir tekið við honum áður en lokaprófin eru einu sinni hafin, af því efristéttarfólk þarf ekki að fá einkunnir.

Öll myndin gerir út á þessa sérstöðu Zacks. Aldrei verður hann fyrir neinum neikvæðum afleiðingum af hátterni sínu, nema því þegar Laney verður skúffuð út í hann í svona kortér fyrir að hafa veðjað útliti hennar og stéttarstöðu að henni forspurðri. Eina önnur konfrontasjónin er þegar pabbi hans segir honum að það sé misskilningur að hann ætli að stjórna því í hvaða háskóla hann fari (með öðrum orðum: „Þú ræður mér ekki pabbi!“ — „Uh, ég er ekkert að reyna að ráða þér.“ — „Ó, úps, sorrí!“), og þegar Paul Walker ákveður að reyna sjálfur við Laney, með þeim afleiðingum raunar að hún hrekst aftur í fangið á þeim sem minna úrþvættið er.

Það er ekkert gott við þessa mynd. Hún reynir að vera gagnrýnin á firringu en endar á því að upphefja dramb, ofneyslu, stéttskiptingu, andlegt ofbeldi og þá einkum og sér í lagi manipúlasjón og andlegt niðurbrot.

Í lok myndarinnar fara Laney og Zack í sleik eins og ekkert hafi í skorist (en þá er Paul Walker nýbúinn að reyna að nauðga henni í afviknu hótelherbergi) og Zack lýsir því yfir að kannski ætli hann bara að slaufa háskóla og gerast gjörningalistamaður (sbr. hin eftirminnilega hakkísekkssena, sem reynist vera grútléleg þegar maður sér myndina aftur). Þetta getur hann því skólinn er núna eiginlega búinn og að honum loknum er enginn eftir til að tilbiðja hann. Hann, sem er algjörlega hæfileikalaus á sviði lista, getur samt sem áður stigið niður á plan konunnar sem hefur ekki lagt stund á myndlist nema lungann úr stuttri ævi sinni. Nú eru þau jöfn, reynir myndin að segja okkur. Nei. Það eru þau ekki. Við vitum nefnilega að í raun ætti myndin að heita He’s All That.