Flóamarkaðir og grasker

Á fimmtudag fór tíminn að skóla loknum að mestu í heimanám og búðarferð.

Á föstudaginn byrjuðu fimleikarnir aftur hjá þeirri sveimhuga og þeirri snöggu og voru þær þokkalega sáttar við það.  Á meðan sú sveimhuga var í sínum tíma fórum við hin á bókasafnið með ameríkönunum, en eldri stelpan þeirra ætlar líka að vera í fimleikum.

Á bókasafninu vorum við svo heppin að barnaleikrit var sýnt þar á meðan við heimsóttum það og fengu krakkarnir tannbursta í gjöf að lokum.

Eftir fimleikana fórum við að horfa á fótbolta, íslensk/þýsk/ameríski bekkjarfélagi þeirrar sveimhuga var að spila, ameríkanarnir komu líka og var þetta hin besta skemmtun.  Kvöldmaturinn var borðaður seint þennan daginn.

Í gær var stóri flóamarkaðs dagurinn hjá frúnni, í morgunsárið fór hún ein niður á „Festplatz“ og festi kaup á skautum á þá sveimhuga, hliðardiskum og forláta kistil fyrir prjónana (hann þarf að vísu að líma aðeins eftir meðferð þess skapmikla).  Eftir smá bakstur um hádegið fór hún á flóamarkað í næsta þorpi með íslensk/þýsku frúnni, þar var árlegur flóamarkaður tileinkaður börnum.  Frábærlega sniðug hugmynd, íþróttasalur þorpsins er notaður, föt eru skilmerkilega merkt og flokkað í stærðir, einnig eru leikföng, skófatnaður, bækur og annað það sem börn nota og vaxa upp úr.

Þegar fangið var orðið fullt var farið á afgreiðsluborð (eitt af 5) þar sem voru tvær konur, önnur las upp af merkimiðum og braut saman, hin skráði samviskusamlega niður í bók númer seljanda, flokk (fatnaður, leikföng etc.) og verð, reiknaði svo saman og rukkaði.  Þetta gekk algjörlega smurt og var alveg frábært, þarna fékk sá skapmikli kuldagalla fyrir veturinn, peysur og skyrtur og sú snögga skyrtu fyrir málningarvinnu í skólanum.  Hver flík á € 1 – 2,5, nema kuldagallinn kostaði € 6.-

Svo var bakað svolítið meira seinnipartinn og grillað um kvöldið.

Í dag fórum við í höllina í Ludwigsburg, okkur gafst að vísu ekki tími í þetta skiptið til að skoða höllina sjálfa, en í garðinum var hin árlega graskershátíð – þar er líka ævintýragarður og blómagarður, en við sáum að við þurfum annan dag til, ef við eigum að geta skoðað allt þarna.  Frábærlega skemmtilegt og áttuðum við hjónin okkur á því hvað við eigum eftir að lesa mörg Grimmsævintýrir fyrir börnin.  Það bíður víst eftir því að við komum aftur heim, þar sem bækurnar eru ofan í kassa á einhverju háalofti í Grafarvogi.

2 replies on “Flóamarkaðir og grasker”

  1. Já Hildigunnur, mér fannst þetta alveg brill! Um að gera að stela hugmyndinni ef þú hefur einhvern farveg, það er hægt að gera þetta sem fjáröflun fyrir hin ýmsu félög eða eitthvað svoleiðis. Endilega að hafa samband ef þú vilt nánari upplýsingar 🙂

Comments are closed.