Vinir kvaddir og gestum heilsað

Þetta hefur verið vika breytinga!

Á mánudegi hélt ameríska bekkjarsystir þeirrar sveimhuga kveðjur-/afmælispartý fyrir allan hópinn á leikvelli í Waldhausen Ost, þau fóru beint þangað eftir sund og aðstoðaði frúin við að hemja lýðinn sem skemmti sér stórkostlega.

Á þriðjudegi var hefðbundinn skóli og um kvöldið buðum við amerísku vinum okkar í mat þar sem þau voru við það að flytja aftur heim í hitann í Dallas.  Áttum við ákaflega notalega kvöldstund úti á palli langt fram eftir kvöldi þar sem við lá að heimsgátan væri leyst!

Á miðvikudegi fór sá skapmikli í heimsókn til vinar síns og var þar lengi í steikjandi hita, endaði á því að borða kvöldmat þar áður en hann var sóttur.  Sú snögga skrapp örsnöggt yfir götuna í heimsókn til vinar síns.  Hér heima var svo mikill doði í hitanum að fengin var heimsend pizza þar sem ekki var orka til eldamennsku.

Á fimmtudagsmorgni skutlaði frúin Ameríkönunum á lestarstöðina þar sem þau voru kvödd, vonandi ekki fyrir fullt og allt – en alla vega til langs tíma.  Mikill söknuður er af þeim þar sem samskiptin hafa verið óskaplega mikil á milli þessara fjölskyldna.  Seinni partinn komu syskini af leikskóladeild þess skapmikla í heimsókn ásamt með móður sinni og var mikið leikið og pönnsum sporðrennt.

Á föstudegi fór frúin til Frankfurt að sækja litla bróður sinn og unnustu hans sem eru komin í heimsókn.  Heimferðin gekk óskaplega hægt, þar sem svo að segja ALLIR í Þýskalandi höfðu ákveðið að fara í ferðalag þennan dag – alla vega leit það svoleiðis út á *hrað*brautunum!  En óskaplega er gott að fá góða gesti, þó það taki langan tíma að koma þeim alla leið.

Á laugardegi skruppum við öll til Wilhelma í Stuttgart, það var frekar svalt og skúrir öðru hvoru, svo dýrin voru tiltölulega spræk – alveg upplagt dýragarðsveður.

Á sunnudegi var slakað á aðeins frameftir en svo var skroppið í smá göngutúr í nýja Grasagarðinn hér í Wanne, kíkt á kaktusa (sem þeim skapmikla finnst mjög mikilvægt að móðurbróðirinn sjái) og froska.  Einnig voru ýmis blóm og ávextir skoðaðir.  Seinnipartinn var  sumarhátíð hjá þeirri snöggu, hún var haldin í skólanum.  Það var grillað fyrir utan, krakkarnir sungu og léku sér og þetta var ákaflega huggulegt.  Frúin, gestirnir, sú sveimhuga og sá skapmikli fóru að vísu frekar snemma heim til að undirbúa kvöldmatinn.  Barnapían kom í mat en hún er á heimleið og passar víst ekki meira hér á bæ.

Veðurspáin er frekar svöl og örlítið rök fyrir næstu daga – sem er frekar leiðinlegt gestanna vegna, en að vísu þýðir það að það er hægt að vera úti og rölta án þess að leka niður af svita, en minna verður keypt af ís fyrir vikið.

Allir eru farnir að þrá að komast í sumarfrí sem byrjar á fimmtudag, þá verður spennandi að sýna gestunum nánasta umhverfið og njóta þess að vera í fríi.