Leikskólinn

Þá er sú snögga orðin að leikskólastelpu hér í Þýskalandi, það var vel tekið á móti henni í morgun og krakkarnir farnir að bíða eftir þessum nýja Íslendingi.  Við mæðgur vorum þar fram að hádegi og tók hún fullan þátt í dagskránni, tvær vinkonur drógu hana svo út á leiksvæðið og þar var svo gaman að ekki var hægt að fara heim fyrr en eftir dágóða stund.  Á morgun verður hún ein allan tímann.

Sú sveimhuga var sátt eftir daginn, kom með heimanám eftir daginn, sat svo og reiknaði eftir hádegið – Þjóðverjarnir eru eitthvað aðeins á undan okkur í skólanum sýnist mér.

Sá skapmikli orgaði í morgun yfir því að fá ekki að fara með!  Hann fór svo vopnaður út á pall og skeytti skapi sínu á illgresinu.

Eftir búðarferðina réðst frúin á mosa, fífla og aðra óværu sem liggur hér á milli hellna.  Brakandi blíða var úti, stelpurnar fóru á leikvöllinn að hitta amerísku vinkonur sínar og amman bónaði gólfið.

Setningu dagsins á sú snögga: „eru bara ALLIR góðir hér í Þýskalandi?“

Myndir 5. maí 2009

Skólastúlkan í Hügelschule
Skólastúlkan í Hügelschule
Klifrað í bleiku tré
Klifrað í bleiku tré
Horft yfir borgina
Horft yfir borgina
Hliðarhús við höllina í baksýn, tóm gleði ;)
Hliðarhús við höllina í baksýn, tóm gleði 😉
Göngin út úr kastalanum
Göngin út úr kastalanum
Vinkonur
Vinkonur
Voru eldfærin nokkuð skrifuð hér?
Voru eldfærin nokkuð skrifuð hér?
Trjágöngin á eyjunni
Trjágöngin á eyjunni
"Póstkortamynd" af Tübingen
"Póstkortamynd" af Tübingen

Svo bregðast krosstré …

Aldrei átti þetta nú að gerast, frúin farin að blogga!  En…

Lífið hér í Tübingen er að komast í fastar skorður, sú sveimhuga er búin að vera tvo daga í skólanum, sú snögga byrjar í leikskóla á morgun og sá skapmikli snúllast hér heimavið.  Amman prjónar eins og herforingi, bóndinn óðum að komast inn í hlutina í vinnunni og frúin farin að blogga.

Dótið okkar er væntanlegt í vikulokin, ef allt gengur að óskum.  Bílinn var sóttur í sögulegri ferð í síðustu viku og IKEA verður líklegast heimsótt á næstunni.

Í dag var öllum þrælað út í nokkurra klukkutíma gönguferð, á leiðinni niður í bæ í gegnum skóginn sást íkorni, sá fyrsti í þessari dvöl, en hvorki salamöndrur né sniglar – líklegast of þurrt í veðri fyrir þau.  Svo var arkað upp á kastalahæðina (engar eðlur þar, of svalt) og þaðan niður í eyjuna í miðri Neckar ánni.  Þegar þar var komið var sú snögga að niðurlotum komin og strætó skilaði öllu genginu heim í fiskistauta og kartöflur.

Látum þetta duga sem upphaf bloggferils – njótið vel 😉