As time goes by*

Það er komið sumar, ótrúlegt en satt. Ég ætla að njóta þess í botn að þurfa ekki að vinna allt sumarið. Undanfarin tíu ár hefur maður byrjað að vinna um leið og skólinn klárast og aldrei fengið almennilegt sumarfrí. Síðasta sumar var ég reyndar með mjög fljótandi vinnutíma en eyddi að sjálfsögðu sumrinu í að vera óglatt… stanslaust… og gat þess vegna ekkert notið góða veðursins heldur þráði ég kulda, rigningu og rok!

Ég fór á árgangsmót þarsíðustu helgi og er einmitt búin að setja myndir af því inn á myndasíðuna mína, var að sjálfsögðu edrú og hvað er þá skemmtilegra en að taka myndir af öllum hinum? Við dönsuðum alveg helling við eðaltónlist, gekk stundum svolítið illa að lyfta fótunum upp af gólfinu því sumir stunda það að dansa með það sem þeir eru að drekka svo gólfið var vel klístrað en það gerði dansinn bara skemmtilegri.

Það var svo ekkert smá stuð að upplifa  jarðskjálftann, ég elska jarðskjálfta! Ég varð bara að prófa að skrifa þetta… ég er alveg skíthrædd við jarðskjálfta. Við fjölskyldan ferðuðumst alltaf mikið innanlands þegar ég var lítil og þegar önnur börn hefðu spurt hvort það væru sundlaugar eða eitthvað skemmtilegt á staðnum spurði ég: er þetta á jarðskjálftasvæði? Svo nei, mér var ekki mjög skemmt þegar íbúðin byrjaði að titra og skjálfa. Ég greip sveinbarnið snjalla af leikteppinu og skokkaði út á tröppur í smá hressingarstund. Það fannst honum stuð og brosti framan í nágrannana sem ráfuðu út á götu til að athuga hvað væri að gerast.

Eftir tvo daga verður litla barnið svo 4 mánaða gamalt! Bráðum fer hann bara að hlaupa út um allt og óþekktast 🙂 Oooog í dag er einmitt ár síðan ég komst að því að hann var á leiðinni 😉 Frekar mikið búið að gerast og breytast á þessu eina ári…

*Skilaboð til ákveðins aðila: Ég horfi stundum á þessa þætti á morgnana á BBC prime….. PRIME, ekki CRIME 😉