Gleraugu

GHrafnkell er búinn að læra að rífa af mér gleraugun. Ég er auðvitað ekki alltaf með þau og þess vegna eru þau kannski enn meira spennandi. Hann horfir mjög sakleysislega á mig þegar ég sit með hann… kemur svo nær…. og aðeins nær… og kippir þeim svo til sín. Sama hversu fljót ég er að reyna að grípa, hann nær alltaf að koma fingraförum og slefi á þau. Duglegur.

Það er reyndar ekkert skrýtið að hann heillist af gleraugum… hann er nú einu sinni sonur minn. Þegar ég var þriggja eða fjögurra ára fékk Adda systir gleraugu í fyrsta skipti. Til gamans má geta að hvort gler var með radíusinn 10 cm. Eða svona um það bil. Frá þeim degi sem hún setti gleraugun á sig upphófst hin mikla dýrkun mín á þessu fyrirbæri. Adda var þar með orðin að gleraugum í mínum huga. Ég teiknaði risastór gleraugu og klippti þau út. Og gaf henni. Aftur og aftur, henni til mikillar gleði átti hún heilu hrúgurnar af teiknuðum og útklipptum gleraugum. Stundum var hún sjálf reyndar með á myndinni. Lítil manneskja með risastór gleraugu. Svo í eitt skiptið sem ég hékk utan í henni inni í herberginu hennar tók hún gleraugun af sér til að þrífa þau. Ég sá þarna kjörið tækifæri, stillti mér upp alveg framan í henni og byrjaði að gretta mig eins mikið og ég gat. Sérðu mig? Sérðu hvað ég er að gera? Hún var með mínus einn eða tvo… Og hefur væntanlega óskað þess á þessum tímapunkti að hún sæi verr 😉