Stórir bræður…

… eru frábær uppfinning. Fínt að hafa einhvern sem passar svona vel upp á mann… og er góður í stærðfræði og bílaviðgerðum 😉 Minn stóri bróðir á afmæli í dag, hann eyðir reyndar deginum í að koma sér heim frá útlöndum. Hlakka til að vita hvernig honum líst á gjöfina sem tekur á móti honum þegar hann kemur heim. Hann mun eins og áður vera svo mikið sem 13 árum eldri en ég. Það er nú ekki mikið þar sem ég er alltaf svo ung 😉

Hér erum við að segja hvoru öðru brandara fyrir nokkrum árum.

systkini.jpg

Heima…sögur úr hversdagsleikanum!

Mmmhh… alveg jafngott að vera heima og mig minnti. Þetta hljómar eins og ég hafi ekki farið heim í ár.
Ég skrapp aðeins í bókasafnið með pabba í gær, tók þátt í því erfiða verkefni að reyna að finna bók á norsku fyrir hann til að lesa. Ég lifði mig auðvitað inn í verkefnið og á meðan ég ráfaði milli bóka sá ég eina af þeim konum sem vinnur þarna sitjandi úti í horni að lesa (að sjálfsögðu). Ég hélt áfram ráfinu og þá segir hún allt í einu upp úr bókinni: „Hvar ert þú búin að vera?“ Hmmm… Ég veit ekki til þess að ég þekki þessa konu nema bara í sjón og hef nú ekki verið neinn fastagestur á bókasafninu undanfarin ár svo ég leit í kringum mig og komst að þeirri niðustöðu að annað hvort væri hún að tala við mig eða lesa upphátt. Ég spurði þess vegna mjög sakleysislega: „Uuuu.. ég?“ Og hún leit þá upp úr bókinni og sagði: „Já, hvar ertu eiginlega búin að vera?“ Það er aldeilis að mín er saknað á bókasafninu. Verð að fara að stunda það betur.
Bróðurbörnin mín bestu, Heiður og Hjalti, eru í helgarpössun hérna. Heiður harðneitar að svara nafninu sínu og fullyrðir að hún heiti Viddi. Nema í kvöldmatnum í gær, þá hét hún Grettir því það var lasagna í matinn. Viddi er þó enn með sama persónuleikann því hann tekur það reglulega fram að við séum vinkonur. „Hann“ er mjög ósáttur við þá staðreynd að ég hafi ekki tíma til að leika mér allan daginn. Alveg sama hvaða skemmtiatriði amma og afi „hans“ bjóða upp á, það er ekkert í húsinu jafnspennandi og að fá að sitja við hliðina á mér og horfa á mig læra. Þrátt fyrir að hafa ítrekað lofað að fara ekki inn til mín birtist Viddi alltaf brosandi í dyrunum og kíkir á tölvuna. „Ég má alls ekki trufla þig þegar þú ert að læra… ég er bara að horfa á“…. 5 sekúndum seinna…. „Má ég ýta á H? Ég ætla bara aðeins að æfa mig að skrifa…“ og… „Ertu byrjuð í skóla?“ Erfitt að svara með því að ég sé búin að vera stanslaust í skóla í 18 ár svo ég lét eitt já bara duga. „Hvernig er skólinn þinn á litinn?“ Hmmm… ætti ég að velja aðalbygginguna, Odda eða Árnagarð? Skiptir engu, þær byggingar eru allar í jafn óspennandi litum fyrir 4 ára barn! Eins og staðan er ákkúrat núna langar mig örugglega jafnmikið til að fara bara að leika mér eins og hann Vidda minn langar að læra með mér.

Óður til Akraborgar

Mig langar heiiiiiiim! Á undanfarin tvö skipti sem ég hef ætlað heim hefur veðrið tekið upp á því að verða brjálað. Mér finnst þrjár vikur of langt milli heimferða fyrst ég er nú bara 40 mínútur á leiðinni. Ég var að spá um daginn þegar ég sat ein í köldu íbúðinni minni og missti af þvílíkri matarveislu hjá mömmu hvort ég hefði farið með Akraborginni ef hún væri ennþá til… það er spurning.
Við Akraborgin eyddum mörgum stundum saman í gamla daga. Á fyrsta lagi var auðvitað ótrúlegt stuð að leika hana syngja þegar hún opnaði „munninn“ um leið og hún lagðist að bryggjunni heima, svona þegar við biðum í bílnum eftir einhverjum sem var að koma með henni. Það hefur örugglega verið gaman fyrir þá sem voru með mér í bílnum líka. Ég held ég hafi verið 7 ára þegar ég fór fyrst alein með henni, í eina af milljón heimsóknum til Öddu. Um svipað leyti fórum við Guðrún saman tvær í Ödduferð með Akraborg, eyddum næstum því öllum ferðapeningnum í nammi á leiðinni og ákváðum svo að leika hunda (frábær hugmynd). Skriðum um gólfin milli ælandi fólks (því til mikillar gleði) því það var vægast sagt vont í sjóinn þennan dag.

Hönnunin inni í skipinu var mjög undarleg því reyksvæðið (skær-appelsínugult þema) var þeim megin sem minna fannst fyrir veltingnum og sjónvarpið með teiknimyndum (eiturgrænt þema) fyrir krakka var á þeim stað sem var verst að vera. Sniðugt. Ég hef aldrei verið sjóveik en tók hins vegar upp á því þegar ég var búin að fara margar Bogguferðir í góðu stuði að verða sjóhrædd. Áður en ég varð flughrædd. Þetta var svo slæmt á tímabili að ég undirbjó mig fyrir dauða minn í hvert skipti sem ég labbaði inn í skipið. Ég sat alltaf og talaði við konurnar sem voru að vinna í sjoppunni og keypti mér maltesers til að borða eitthvað gott í síðustu máltíðinni. Svo spurði ég þær reglulega hvort við værum að sökkva og hvort þetta væri nú ekki svolítið hættulegt. Mikið hefur verið gaman hjá þeim. Þessi ofsahræðsla skánaði reyndar aðeins með tímanum og í dag finnst mér mun betra að sigla en fljúga.. ég kann nefnilega að synda en er ekki með vængi 😉

Meðan ég sat á sjoppustól, hlustaði á fallegu hljóðin í sjóveika fólkinu og hugsaði um væntanlega dauðastund mína var ég farin að stúdera veltinginn frekar mikið. Öllum veltingi fylgdi brak eins og allt væri að liðast í sundur, ótrúlega traustvekjandi og heimilislegt. Algengasti veltingurinn var bara uuuuuupp og niiiiiiiiiiiður, og inn á milli extra hátt upp og svaka dýfa niður sem hafði yfirleitt í för með sér að allir sögðu „vóóóóóó“ og svo komu nokkur gubb meðal aumingja sjóveika fólksins sem var svo óheppið að reykja ekki. Veltan frá helvíti var svo upp – brjálað zikzak til hliðanna – niður. Viðbjóður. En af einhverjum ástæðum komst ég lifandi frá þessu öllu og þykir pínu vænt um Boggu gömlu. Ég mætti allavega á bryggjuna til að kveðja hana eftir síðustu ferðina 1998… veifaði vasaklút í áttina til hennar og hugsaði um hvað það var gaman að veltast um í maganum á henni.

Ef Kjalarnesið verður með stæla á föstudaginn leigi ég mér gúmmíbát og sigli heim.

Hetjur í kulda hversdagsleikans

Svona fimbulkuldi er ávallt hressandi. Hitastigið inni í íbúðinni minni er í harðri samkeppni við hitastigið utandyra. Ofnarnir eru bara að hlýja sjálfum sér og dreifa hitanum ekkert frá sér, ég er hætt að þurfa að nota ísskápinn því allt kælist jafn vel utan hans og ég tek reglulega nokkrar MÁ¼llers æfingar til að halda á mér hita.

Ég sá smá vonarglætu í fyrrinótt en þá vorum við Lísa að læra hérna og brunabjallan fór í gang. Það hlaut að þýða að einhvers staðar í húsinu væri að minnsta kosti heitt og jafnvel myndi temmilegt magn af logum teygja sig í áttina að íbúðinni minni. Á endanum kom í ljós að ungur drengur með saklaus hvolpsaugu hafði verið að elda sér mat, ég var vitni að því þegar einhver léttklædd frenja ruddist inn til hans og öskraði á hann að stoppa helvítis bjölluna áður en hann myndi vekja alla í húsinu. Hún rauk svo burt aftur og við Hvolpur stóðum og horfðum á eftir henni. Ég vona að hún gefi vonbiðlum sínum viðvörun um að það sé ekki æskilegt að vekja hana nema hún hafi fengið sinn átta tíma svefn. Á ganginum voru stúdentar farnir að ráfa um eins og uppvakningar enda ekki allir jafn hressir og við Lísa í lærdómnum og Hvolpur í eldamennskunni. Að lokum kom bróðir Garða-Palla út úr íbúðinni hans (ég held að það búi um það bil 10 manns í þessari íbúð) og bjargaði málunum á sekúndubroti. Hetja gangsins, heill sé honum.