Bigfoot

Ég sá áðan að eðalmyndin Bigfoot er á dagskrá RÚV í kvöld. Ég var reyndar búin að steingleyma þessari mynd en um leið og ég las nafnið á henni rifjaðist upp fyrir mér svakaleg minning tengd henni.

Ég man að mamma var að ryksuga ganginn á Furugrundinni og ég var eitthvað ósátt (fínt orð yfir einhvers konar frekjukast) og reyndi að grenja nógu hátt til að yfirgnæfa ryksuguna. Þegar við vorum fyrir utan herbergið hennar ömmu kom Jóna Magga frænka mín sem þá bjó líka hjá okkur og sagði að hún ætlaði að bjóða mér í bíó daginn eftir. Ég man ennþá hvað ég snarþagnaði enda ekkert smá að vera boðin í bíó. Kannski betra að minnast á að þetta var árið 1987, svo fólk haldi ekki að ég elti mömmu grenjandi þegar hún reynir að ryksuga. Jóna Magga sagði að ég gæti kannski orðið hrædd þar sem þetta væri um rosalega stóra, loðna veru sem héti Bigfoot eða Stórfótur 😉 En ég þyrfti þess nú ekki því þetta væri bara búið til. Ég man eftir tilhlökkuninni í kringum þetta og ég man eftir einu atriði úr myndinni, í minningunni er það þegar Bigfoot rennur niður á framrúðu á bíl – þá brá mér svakalega og ég man að stundum bjóst ég hálfpartinn við svona risastórum loðnum haus á framrúðunni á bílnum okkar.

Er hér með farin að slappa af yfir Bigfoot og athuga hvort atriðið komi 😉

Appropriate incongruity

Ég er að fara í próf á morgun. Mér finnst vera mörg ár síðan ég tók próf síðast en það er víst ekki alveg svo langt. Ég er komin á það stig í lestrinum að mér finnst ég allt í einu ekki kunna neitt, hef pínu áhyggjur yfir að mér eigi ekki eftir að ganga vel en er samt ekki beint stressuð. Semsagt kærulaus. Held líka að það sé rétt munað hjá mér að ég hafi aldrei áður tekið próf á ensku í HÁ. Það sem hefur verið kennt á ensku hefur verið próflaust eða með kennara sem skilur líka íslensku. Ég hef líka alltaf getað lært alveg eins og mér hentar, hangið yfir bókum fram á nótt og sofið þá bara út í staðinn, vaknað svo og haldið áfram. En það hefur eitthvað breyst síðan ég lærði síðast fyrir próf og ég get ekki leyft mér þann munað að vaka hálfa nóttina 😉

Af einhverjum ástæðum vaknaði ég með eiturhressa lagið um Daloon rúllurnar á heilanum. Það er Daloon dagur í dag! Hvað ætli það þýði nú, ég sem hef aldrei smakkað svoleiðis. Er þetta til ennþá? Hvað er eiginlega langt síðan þetta var auglýsing í sjónvarpinu? Við erum kannski að tala um mest grípandi auglýsingastef á Áslandi? Harðir keppinautar gætu til dæmis verið: heima.. heiiiiiiiimaísinn, þú tekur hann upp og borðar’ann síðan…., aaaaaaað innan ég prýði með polytex, texið er efni sem aldrei bregst… og já já já jahahahahá, ég er tiiiiilbúinnnn!

Fleiri auglýsingastef verða sungin síðar.

Bókaormur

Þegar ég eignaðist barn bjóst ég við því að fá senda allskonar bæklinga og auglýsingar um barnavörur, svona af því nú væru komnar nýjar víddir í mögulega peningaeyðslu mína. En ótrúlegt en satt, það eina sem gerðist var að Landsbankinn gaf barninu 5000 krónur. Ég var þá búin að stofna reikning þar svo ég hafði nú ekki á móti því að fá smá viðbót inn á hann. Núna eru rúmir sjö mánuðir síðan þessi neytandi bættist í samfélagið og allt í einu er eins og það hafi verið send út fréttatilkynning um að hann sé fæddur. Á meðan Daði fær tilboð frá símafyrirtækjum fæ ég senda Pampers bleyju og upplýsingabækling um Gerber barnamauk. Ákaflega áhugaverður póstur 😉

Barnið er nú líka gengið í sinn fyrsta klúbb – í kjölfar eins af símtölunum sem snúast um nýlega fæðingu þess. Ég var reyndar mjög ánægð með þetta símtal, klúbburinn heitir Bókaormar. Nú fær hann senda eina bók í hverjum mánuði og það er að mínu mati besti klúbbur sem hann gæti mögulega verið í, ég bíð æsispennt eftir fyrstu sendingu og eftir því sem mánuðir og ár líða verður hann það væntanlega líka 😉 Aldrei of snemmt að byrja að lesa fyrir börn. Það var mjög mikið lesið fyrir mig þegar ég var lítil…. mjög, mjög mikið þar sem ég var yfirleitt lesin í svefn og það hefur aldrei fundist manneskja sem er lengur að sofna en ég, öllum fjölskyldumeðlimum til mikillar ánægju 😉

file0063.jpg

Á kvöld ætla ég út að borða með Lísmundi kökuskrímsli, slurp slurp 😀 Þar af leiðandi get ég því miður ekki tekið á móti símtölum frá æstum söluaðilum rétt á meðan en ég verð ekki lengi 😉

María Sigrún, kókdrykkja og sofandi barn

Á kvöld er María vinkona mín að halda upp á stórmerkilegt stórafmæli. Ég er með í anda en vona að andinn verði ekki það sterkur að ég fari að sjást þar því ég er ekki beint í sparifötunum ákkúrat núna 😉 María er auðvitað ein af skemmtilegustu manneskjum sem ég þekki, ég kynntist henni þegar við byrjuðum í þjóðfræði haustið 2002, eðalfólk sem var þar samankomið 😉 Katrín Rut lýsti mér einu sinni sem „stelpukonu“ þegar hún var að reyna að átta sig á hvað ég væri eiginlega og mér finnst sú lýsing passa mjög vel við Maríu. Ég sendi henni blogg-hamingjuóskir þó ég hafi óskað henni til hamingju á réttum degi, það er samt spurning hvenær hún rekst á þessa færslu 😉

Ég var þrí-plönuð í kvöld. Umrætt stórafmæli, styrktartónleikar og nuddtími. En skortur á pössun þýðir kósýkvöld heima með krónprinsinum og ég kvarta svosem ekki yfir því 🙂 Maður er svolítið latur þegar barnið vaknar syngjandi klukkan 5 að morgni (það er reyndar mjög óvenjulegt en gerðist í morgun) og Daði er í vinnunni frá 7 á morgnana og til miðnættis! Ég uppgötvaði í kvöldmatnum að ég var búin með 3/4 af tveggja lítra kókflösku yfir daginn 😀 Ein…. Flott! Ekkert smá jákvæð orka þar á ferð! Það er hægt að fara að tala um mig eins og bíl, hvað ég eyði mörgum lítrum og svona… Virðist allavega innbyrða jafnmikið og bíll. Sem betur fer er ég samt ekki farin að drekka bensín, þreytan er ekki komin á svo slæmt stig. Framar á listanum er væntanlega að setja kók á bílinn, það væri ódýrara en bensín eins og staðan er í dag! Að því gefnu að ég versli á réttum stöðum.

En… eftir langan dag er eitthvað svo gott við að hanga í tölvunni og slappa af, drekka VATN (til að þynna kókið í líkamanum aðeins), vera búin að ganga frá í hverju einasta herbergi og vita að barnið er sofandi inni í herbergi. Ahhh 🙂

sleep.jpg

Tók smá áhættu áður en afslöppunin mín hófst og lýsti allt svefnherbergið upp með flassinu á myndavélinni… En það slapp! Guðmundur Hrafnkell í draumalandi fyrr í kvöld…

Gleði gleði gleði

Ef það væru til íþróttaáhugamælar þá myndi minn áhugi varla vera mælanlegur. Ekki að ég sé eitthvað á móti íþróttum, áhuginn er bara eitthvað takmarkaður. Ég lít upp til þeirra sem standa sig vel í íþróttum, þær persónur hafa sjálfsaga og metnað sem ég bý ekki yfir. Ég samgleðst íslenska handboltaliðinu og finnst flott að hrósa meðlimum þess með því að taka vel á móti þeim.

Ég var að hugsa í dag. Það gerist svona öðru hverju. Sumir dagar eru bara pirrandi, fullir af klaufaskap og litlum óhöppum. Barnið sofnar ekki þegar maður er búinn að pakka því í vagn, bíllinn ákveður að fara ekki í gang og allir hlutir virðast sækja í að detta í gólfið. Og ég verð pirruð. Og það var einmitt undir svona kringumstæðum sem ég hugsaði að þetta eru svo fáránlegir hlutir til að pirra sig yfir… hvað með alla sem hafa það svo virkilega slæmt. Og ég labba um í landi þar sem er friður, ég á góða heilsu, fjölskyldu, vini og síðast en ekki síst yndislegt afkvæmi… og ég pirra mig á hlutum sem skipta engu máli. Og áfram hugsaði ég. Það að ég pirra mig á þessum hlutum er merki um hvað ég hef það gott. Sama hversu „fullkomið“ líf manns er þá tekst manni alltaf að finna eitthvað að. Því verra sem ástandið er sættir maður sig við minna, því minni verða kröfurnar og því stærri atriði þarf til að maður kvarti. Ég er þakklát fyrir allt sem ég hef… þakklát fyrir að vera í þeirri aðstöðu að láta smáatriði fara í taugarnar á mér? Kannski, en ég geri mér betur og betur grein fyrir því að umrædd smáatriði eru í rauninni lúxus. Og þó ég ætli að halda áfram að vera mannleg (ákvað það eftir langa umhugsun ;)) og verða pirruð yfir engu eins og annað fólk, þá geri ég mér allavega grein fyrir því hversu heppin ég er.

Svo er það öðruvísi pirringur. Ég er búin að viðurkenna að „erfiðir“ dagar geta böggað mig en að öðru leyti nenni ég voðalega sjaldan að nöldra. Mér hefur alltaf fundist þægilegast að hugsa bara hvað mér finnst og leyfa svo öðrum að sjá um nöldrið. Ég veit ég veit… ef allir væru eins og ég myndi ekkert gerast í heiminum, engar framfarir, engar rökræður, nokkrir milljarðar af hugsandi Dagbjörtum sem nenna ekki að rífast. Það þýðir ekki að ég hafi ekki skoðanir en ef þær eru neikvæðar finnst mér betra að halda þeim fyrir mig. Og þá að seinni íhugun dagsins. Hvernig nennir fólk ALLTAF að nöldra yfir hlutum? Hvað fær fólk til að vilja eyða tíma sínum í að sjá neikvæðar hliðar á öllu sem gerist og röfla yfir því? Þetta er ákveðinn skali. Ég skil best að fólk eyði tíma í að vekja athygli á slæmum hlutum sem snerta öryggi, heilsu eða almenn lífsgæði annarra manneskja. Ég skil aðeins minna hvernig fólk nennir að tala um gengi og stjórnmálamenn, ég skil þörfina á því en finn enga löngun til þess sjálf. En ég skil hins vegar alls ekki hvernig fólk nennir að tjá sig sérstaklega neikvætt um það þegar annað fólk gerir eitthvað jákvætt. Hvernig nennir fjöldi fólks að skrifa sérstakar bloggfærslur um hversu asnalegt, leiðinlegt og ömurlegt það er að gera svona mikið úr því að taka á móti handboltagaurunum? Hvernig nennir fólk að tjá sig um að það sé við það að fara að gubba af ógeði á þessum ýktu viðbrögðum? Væri ekki ágætis tilbreyting að hugsa bara að þetta sé að minnsta kosti eitthvað sem er gott og gaman fyrir marga… þetta er ekki stríð, ekki sjúkdómur, ekki fátækt, ekki mannvonska – ekki vandamál! Svarið við spurningunni um hvernig fólk nennir að skrifa sérstakar bloggfærslur til að röfla yfir einhverju eins og þessu er væntanlega: Alveg eins og ég nennti að skrifa þessa bloggfærslu. En… ég skil þetta samt ekki! Er röfl virkilega grunnÞÖRF hjá einhverjum? Alveg sama hvað það er, svo lengi sem er hægt að vera neikvæður út í eitthvað? Skoðanir eru nauðsynlegar en hver og einn verður víst að vega og meta hvenær hann vill kasta þeim á netið og hvenær ekki.

Og hana nú.

Dagger… sem finnst skemmtilegra að lesa jákvæðar bloggfærslur en netútgáfu af Velvakanda

Má bjóða þér meiri pipar…

Ég elska að fara út að borða. Það er næstum því hægt að segja að það sé mitt helsta áhugamál eins óskynsamlegt og það hljómar 😉 Það er bara eitthvað við það að velja sér girnilega og spennandi rétti, láta færa sér þá og þurfa ekki að gera neitt sjálfur nema að borða (ég get alveg séð um það sko…). Ég hef hingað til komist yfir að prófa ansi marga staði og sumir eru alltaf sígildir eins og Argentína. Það er einstaklega heppilegur staður fyrir mígrenifólk því það er alltaf svo dimmt þar inni 😉 Og góður matur. Og fyndinn piparstaukur.

Þegar ég fór í fyrsta sinn á Argentínu fórum við Erling þangað af því hann átti afmæli. Ég gaf honum máltíðina í afmælisgjöf enda var ég helmúruð ræstingarstúlka á Sjúkrahúsi Akranes og munaði ekki um þetta. Allavega, hann hafði fengið sér steik og þegar við vorum rétt að byrja að borða kemur þjónn röltandi með stærsta piparstauk sem ég hafði séð… hafði reyndar bara séð svona venjulega piparstauka sem eru til á flestum heimilum. Stundum finnst mér eitthvað óviðráðanlega fyndið og þá getur ekkert komið í veg fyrir að ég hlæji… og hlæji… og byrji svo aftur að hlæja að sama hlutnum aðeins seinna.. og svo aftur löngu seinna, alveg upp úr þurru. Þetta var eitthvað svo ofvaxinn hlutur að mér fannst asnalegt að hlæja ekki. Síðan þá hef ég farið nokkrum sinnum að borða þarna og í hvert skipti þarf ég að undirbúa mig sérstaklega áður en þjónninn rogast með piparstaukinn að borðinu og spyr hvort ég vilji meiri pipar. Fyrst dreif ég mig að segja nei takk svo ég gæti hlegið í friði þegar þjónninn væri farinn en nú er sjálfsaginn orðinn svo mikill (stundum) að ég get þegið pipar.

Nema hvað… Þegar ég sat við eldhúsborðið (mjög) árla morguns í vikunni og las Fréttablaðið rakst ég á vægast sagt merkilega frétt… Argentína er búin að flytja inn stærsta piparstauk á landinu. Og það þurfa TVEIR þjónar að hjálpast að til að hægt sé að ná úr honum pipar. Ef þetta er ekki ástæða til að fara út að borða, þá veit ég ekki hvað! Nú er tilvalið að ég testi sjálfsagann og reyni að horfa grafalvarleg á tvær fullorðnar manneskjur pipra steikina mína. Og ef ég meika það ekki þá er hvort sem er viðeigandi að hlæja, þetta er komið yfir öll mörk.

Á enga mynd af piparstauknum (verð að taka vélina með næst ;)) en símaatriðið í Trigger Happy var líka fyndið… samt auðvitað ekki jafn fyndið 😀

Gleraugu

GHrafnkell er búinn að læra að rífa af mér gleraugun. Ég er auðvitað ekki alltaf með þau og þess vegna eru þau kannski enn meira spennandi. Hann horfir mjög sakleysislega á mig þegar ég sit með hann… kemur svo nær…. og aðeins nær… og kippir þeim svo til sín. Sama hversu fljót ég er að reyna að grípa, hann nær alltaf að koma fingraförum og slefi á þau. Duglegur.

Það er reyndar ekkert skrýtið að hann heillist af gleraugum… hann er nú einu sinni sonur minn. Þegar ég var þriggja eða fjögurra ára fékk Adda systir gleraugu í fyrsta skipti. Til gamans má geta að hvort gler var með radíusinn 10 cm. Eða svona um það bil. Frá þeim degi sem hún setti gleraugun á sig upphófst hin mikla dýrkun mín á þessu fyrirbæri. Adda var þar með orðin að gleraugum í mínum huga. Ég teiknaði risastór gleraugu og klippti þau út. Og gaf henni. Aftur og aftur, henni til mikillar gleði átti hún heilu hrúgurnar af teiknuðum og útklipptum gleraugum. Stundum var hún sjálf reyndar með á myndinni. Lítil manneskja með risastór gleraugu. Svo í eitt skiptið sem ég hékk utan í henni inni í herberginu hennar tók hún gleraugun af sér til að þrífa þau. Ég sá þarna kjörið tækifæri, stillti mér upp alveg framan í henni og byrjaði að gretta mig eins mikið og ég gat. Sérðu mig? Sérðu hvað ég er að gera? Hún var með mínus einn eða tvo… Og hefur væntanlega óskað þess á þessum tímapunkti að hún sæi verr 😉

Ljúfa líf

Sumarið er allt í einu langt komið, maður er auðvitað bara í einu löngu fríi hvort sem það er vetur, vor, sumar eða haust svo þetta er allt saman ágætt! Ég fagna því samt að eftir morgundaginn fer birtutíminn formlega aðeins að styttast því öfugt við alla aðra finnst mér svo gott að hafa myrkur á nóttunni. 21. júní er þess vegna alltaf þröskuldur sem er gott að komast yfir í átt að kósý vetrarkvöldum með kertaljós 😉

Ég er að reyna að halda þessu bloggi lifandi og það kostar það að ég skrifa um fátt annað en barnið því það er fátt annað að gerast. En til að vera væmin þá er ég virkilega að njóta þess að fá að vera alla daga með Guðmundi Hrafnkeli og fylgjast með hvað hann breytist hratt, hvernig hann lærir nýja hluti, hvað honum finnst leiðinlegt og hvað skemmtilegt. Ef ég færi frá honum í nokkra daga væri hann gjörbreyttur þegar ég kæmi aftur, það væri svakalegt ef maður breyttist alltaf svona hratt alla ævina… ef maður sæi ekki einhvern í nokkra mánuði þyrfti maður bara að byrja að kynnast honum upp á nýtt 😉 En Keli kúl er orðinn 4,5 mánaða. Þessa dagana er hann að tryllast úr pirringi vegna væntanlegrar tanntöku og nagar allt sem hann kemst í, hvort sem það er dót, fötin hans eða bara hakan á mér. Hann er líka að þróa breytilegt notkunarsvið raddbanda og gólar stundum svo hátt að það er ekki hægt að tala saman í kringum hann… ekki grátur, meira svona eins og jóðl 😉 Hann vill taka allt sem hann sér, er semsagt byrjaður að tæta. Hann veit fátt skemmtilegra en að hitta fólk, hlær framan í hvern sem er og nýtur þess að fá sem allra mesta athygli. Og já… svo hefur hárið á honum þróast yfir í voðalega sætan brúsk sem er ekki nokkur leið að hemja…

juni5-013.jpg

Og talandi um breytingar…. 2 mánaða:

april1-015.jpg

…. og svo 4 mánaða í sama stól:

juni4-096.jpg

Hér með lýkur monti og myndasýningu!

As time goes by*

Það er komið sumar, ótrúlegt en satt. Ég ætla að njóta þess í botn að þurfa ekki að vinna allt sumarið. Undanfarin tíu ár hefur maður byrjað að vinna um leið og skólinn klárast og aldrei fengið almennilegt sumarfrí. Síðasta sumar var ég reyndar með mjög fljótandi vinnutíma en eyddi að sjálfsögðu sumrinu í að vera óglatt… stanslaust… og gat þess vegna ekkert notið góða veðursins heldur þráði ég kulda, rigningu og rok!

Ég fór á árgangsmót þarsíðustu helgi og er einmitt búin að setja myndir af því inn á myndasíðuna mína, var að sjálfsögðu edrú og hvað er þá skemmtilegra en að taka myndir af öllum hinum? Við dönsuðum alveg helling við eðaltónlist, gekk stundum svolítið illa að lyfta fótunum upp af gólfinu því sumir stunda það að dansa með það sem þeir eru að drekka svo gólfið var vel klístrað en það gerði dansinn bara skemmtilegri.

Það var svo ekkert smá stuð að upplifa  jarðskjálftann, ég elska jarðskjálfta! Ég varð bara að prófa að skrifa þetta… ég er alveg skíthrædd við jarðskjálfta. Við fjölskyldan ferðuðumst alltaf mikið innanlands þegar ég var lítil og þegar önnur börn hefðu spurt hvort það væru sundlaugar eða eitthvað skemmtilegt á staðnum spurði ég: er þetta á jarðskjálftasvæði? Svo nei, mér var ekki mjög skemmt þegar íbúðin byrjaði að titra og skjálfa. Ég greip sveinbarnið snjalla af leikteppinu og skokkaði út á tröppur í smá hressingarstund. Það fannst honum stuð og brosti framan í nágrannana sem ráfuðu út á götu til að athuga hvað væri að gerast.

Eftir tvo daga verður litla barnið svo 4 mánaða gamalt! Bráðum fer hann bara að hlaupa út um allt og óþekktast 🙂 Oooog í dag er einmitt ár síðan ég komst að því að hann var á leiðinni 😉 Frekar mikið búið að gerast og breytast á þessu eina ári…

*Skilaboð til ákveðins aðila: Ég horfi stundum á þessa þætti á morgnana á BBC prime….. PRIME, ekki CRIME 😉

Og það er árið áttatíu og níu

Ó internet, ó internet!

Ég átti þennan og þessa og þennan og þessa og þennan svo eitthvað sé nefnt! Við Guðrún lékum okkur ekkert smá með þessa Fabuland karla, byggðum alltaf risastórt hús og allir voru með sitt hlutverk… rostungurinn var alltaf kóngurinn. Einn af „nýjustu“ körlunum var flóðhestur, reyndar kvenkyns. Ég man hvað ég var fúl þegar hann týndist í leik hjá okkur Guðrúnu. Skil ekki hvernig, við vorum bara í leiknum „hendum dótinu aftur fyrir okkur inn í geymsluhillurnar og reynum svo að finna það“… og hann fannst aldrei 😉

Svo fyrst ég er byrjuð þá er þetta líka hressandi!  Fæ bara kitl í magann! Enda varla til sætari gaurar en þetta 😉

Og ein spurning að lokum… hvað hétu Smjattpattarnir á frummálinu? 😉