Nafnamartröð

Dreymdi í morgun að ég hefði óvart sagt vitlaust nafn í skírninni. Þetta voru tvö nöfn, bæði frekar ljót og pössuðu vægast sagt ömurlega saman. Ég er búin að gleyma seinna nafninu en fyrra nafnið var Friðsteinn. Sætt. Var að reyna að hringja í prestinn því ég vildi reyna að stoppa þetta sem allra fyrst (hafði af einhverjum ástæðum ekki „fattað“ vitleysuna í athöfninni sjálfri… aha…). Auðvitað var eins og ég hefði aldrei notað síma áður, hitti ekki á takkana, gerði vitlaust númer og svo svaraði enginn. Og barnið hét Friðsteinn Xxxxxx. Þegar ég vaknaði við að „Friðsteinn“ var farinn að láta heyra í sér fannst mér ennþá að ég yrði að hringja í einhvern til að leiðrétta þetta. Eins gott að ég hringdi ekki hálfsofandi í þjóðskrá og heimtaði nafnabreytingu. Það getur verið erfitt að vera nafnanörd.

I just keep loosing my beat

Ég hélt að ég ætti heima á efri hæð af tveimur í mínu fagra húsi. Undanfarna daga hef ég komist að því ég bý á annarri hæð af þremur. Ábúarnir á efstu hæðinni eru svolítið spes… Mér finnst þeir ljótir en það er allavega ekki hægt að segja að þeir séu latir, skila þvílíkum afköstum á hverjum degi. Þeir eru allir með átta lappir… jibbí, ég á heima í kóngulóarhúsi! Þetta hefur alltaf verið draumur minn, ég man hvað ég öfundaði Lísu þegar hún bjó í Kópavoginum og sá nýjar tegundir af kóngulóm á hverjum degi. Gular, grænar, feitar, stórar… yndislegt. Þegar ég lauma barnavagninum út á tröppur í hádeginu snýst hausinn á mér í hringi til að staðsetja hvert einasta kvikindi sem gæti verið nálægt mér. Stundum liggja þær bara og slappa af í þessum fáránlega stóru meistaraverkum sínum sem hanga meðal annars utan í þakinu. Svo lítur maður aðeins af þeim og allt í einu eru þær horfnar! Og mann fer að klæja við tilhugsunina um hvar þær gætu mögulega verið. Hrollur hrollur…..

Þjóðfræðibras: Ég er búin að vera að skrifa upp viðtöl (sem ég á að vera löngu búin með). Fékk annað upptökutæki en ég var með og þar leyndist viðtal sem einhver annar á. Diskurinn er ekki merktur og sá sem tekur viðtalið kynnir sig ekki en þetta virðist vera um Ólafsvöku… einhver búinn að týna viðtali??? Á eftir að athuga þetta betur og auglýsa á réttum stöðum en það sakar ekki að byrja hér 😉

Afmælisbarn dagsins er engin önnur en mamma mín!

family2.jpgmamms.jpg

Mér finnst hún nú hafa breyst fáránlega lítið á 50 árum! Heppilegt að í dag er bannað að vera í megrun, held að ég fái nefnilega svolítið mikið gott að borða á eftir (allir dagar eru reyndar megrunarlausir hjá mér en það er fínt að hafa þetta svona opinbert).

Aukaafmælisbarn dagsins er svo Guðmundur Hrafnkell sem er 3 mánaða í dag!

Húrra, húrra, húrraaaa!

Oh happy day

Á gær var bakið mun skárra… ó yndislegu sterasprautur! Ég gat í fyrrakvöld rétt úr mér og labbað og verð að passa mig að gera ekki ALLT sem mig langar að gera – því ekki vil ég aftur verða Bogbjartur. Bestu fréttirnar af öllum eru þær að í gær fórum við suður með Guðmund Hrafnkel til hjartalæknis og allt kom alveg frábærlega út úr því  – einstaklega fullkomið hjarta. Við vorum búin að bíða í þrjár vikur eftir þessum tíma því það heyrðist aukahljóð í hjartanu hans – og heyrist reyndar enn- en það er algjörlega saklaust 🙂 Ég er auðvitað ánægðust í öllum heiminum með þessar niðurstöður. Nú sefur umræddur Hrafnkell úti í vagni en er af einhverjum ástæðum alltaf að rumska… ég hef samt áralanga reynslu af að tryggja góðan svefn í vagni!

barnavagn.jpg

(Á vagninum er Hvítibangsi Bergþór Kristjánsson, „sonur“ Öddu ;))

hér ligg ég….

… og get ekki annað!

Við fórum tvisvar til Reykjavíkur um helgina – fyrst í skemmtilega ferð og svo í ekki svo skemmtilega ferð. Á laugardaginn brunuðum við fjölskyldan suður og kipptum Lísmundi með… Guðmundur Hrafnkell fór svo í vagninn og labbaði um Smáralind með pabba sínum á meðan ég komst í langþráða vinkonuverslunarferð 😉 Við kíktum svo til Óla og Eyglóar í heimsókn þar sem GH ætlaði að rifna úr gleði og fórum svo heim eftir fínan dag…

Á sunnudaginn rölti ég út með vagninn um hádegi. Mér er búið að líða frekar illa í bakinu undanfarnar vikur en hef svosem ekkert kippt mér upp við það. Á þessum göngutúr versnaði bakið á ótrúlegum hraða og þegar ég rakst á mömmu og pabba (sem voru úti í sjoppu að fóðra barnabörnin á nammi ;)) tók pabbi að sér að keyra vagninn heim og ég fékk bílfar á Vogabrautina. Þar lagðist ég aðeins upp í sófa… og gat ekki staðið upp aftur! Tja… eða ég gat það með því að rúlla mér fram úr og labba svo eins og krypplingur um. Lækkaði skyndilega um svona 20 cm 😉 Það virtist vera sama hvort ég reyndi að sitja, liggja, standa eða labba, allt var eiginlega óbærilegt vegna sársauka. Þegar þetta versnaði bara og versnaði ákváðum við að fara í aðra Reykjavíkurferð – með mig á  bráðamóttöku. Þetta var fjögurra manna ferð þar sem brjóstabarnið varð auðvitað að fara með, Daði til að sjá um barnið og mamma til að sjá um mig 😉 Við tók skemmtileg bið hjá okkur mömmu á meðan feðgarnir rúntuðu um bílastæði sjúkrahússins. Mér var svo troðið framfyrir til að barnið gæti mögulega sloppið við að koma inn að drekka í mesta samansafni af sýklum í allri Rvk og tókst það – hann ákvað (eins og venjulega) að vera svo tillitssamur að sofa bókstaflega alla ferðina – í fjóra klukkutíma.

Greining læknisins var að þetta væru bólgur í vöðvafestingum milli mjaðmagrindar og hryggjarsúlu, nammi namm. Bólgueyðandi lyf, æfingar og tíminn áttu að lækna þetta en úps… engin bólgueyðandi lyf í lagi fyrir mig. Sem betur fer hafði Ingibjörg frænka nefnt þann kost að kannski væri hægt að sprauta beint í staðinn fyrir lyf svo ég gæti fengið verkjastillandi þó ég væri með barn á brjósti. Það var því ákveðið að sprauta mig með sterum hér og þar í bakið og sjá hvort það virkaði – sem tekur sólarhring. Dagurinn í dag átti semsagt að geta verið slæmur milli deyfingar og stera – og já takk hann er slæmur. Nú er bara að vona að elsku sterarnir virki svo í kvöld. Ég er með einkahjúkkuna Daða hérna heima þar sem ég get varla lyft barninu upp… buhuhu… 🙁

Fylgist spennt með næsta þætti af bakverjum miss brown!

Misjöfn eru morgunverkin og allt það

Klukkan er að nálgast 12 á þessum fagra mánudagsmorgni. Undanfarna klukkutíma er ég búin að…

…. Hoppa í sturtu á methraða

… Klæða mig – einnig á methraða og klæða annan einstakling – aðeins minni

… Panta tíma í smurningu fyrir bílgreyið Rögnvald

… Setja í þvottavél og þurrkara, taka úr þvottavél og þurrkara, hin eilífa hringrás.

… Skipta á tveimur kúkableyjum með glöðu geði og spyrja eiganda þeirra hvort það hafi nú ekki verið gott að losna við þetta. Það var fátt um svör.

… Fylla út og skila skattframtalinu

… Pakka Guðmundi Hrafnkeli í ýmis lög af fötum, stinga honum ofan í vagn og setja hann út á tröppur þar sem hann sefur vært

… Flakka um á netinu og skrifa tvö email

Samt er ég glaðvakandi og hress, frábært að eiga allan daginn eftir en vera samt búin að gera helling. Af einhverjum undarlegum ástæðum hef ég aldrei sofið jafn vel á nóttunni og verið jafn óþreytt á daginn og eftir að ég eignaðist barn! Hef alltaf átt svo erfitt með að sofa en nú er álagið svo jafnt yfir allan daginn að ég steinsofna um leið og ég leggst á koddann. Draumabarnið er líka svo tillitssamt að því finnst best að sofa á nóttunni svo við vöknum bæði hress og kát á morgnana.

Ég er annars alltaf að uppgötva fleiri og fleiri lagatexta sem ég hef sungið vitlaust þegar ég var lítil… já og suma löngu eftir að ég hætti að vera lítil. Á fyrsta lagi hafði ég mikla þörf fyrir að syngja enska texta án þess að skilja neitt í ensku – en það skiptir engu máli þegar maður er svona lagviss eins og ég 😉 eheheh, ég held mér hafi aldrei tekist að raula lag þannig að önnur manneskja fatti hvað það er. En allavega…. ég söng hið frábæra lag „agadjúsei“ villt og galið sem mér fannst vera fagur óður um djús en er víst „I’ve got you babe“ sem er ekki næstum því jafnspennandi. Ég á milljón dæmi um svona enska texta en það eru eiginlega íslensku textarnir sem eru verri.. það er eitthvað svo áberandi að syngja þá vitlaust og þar sem ég þjáist af mjög miklu ímyndunarafli myndskreytti ég lögin oft algjörlega vitlaust. Vögguvísur eru mér kannski óeðlilega ofarlega í huga núna en ég heyrði „Dvel ég í draumahöll“ alltaf mjög vitlaust… „sígur ró á djúp og dal, dýr til hvílu ganga“ heyrði ég „sígur rófa á djúp og dal, býr til hvíluganga“. Ég sá alveg þessa hvíluganga fyrir mér, langir gangar með rúmum… en ég skildi ekki hvernig rófan bjó þá til. Ekki fleiri opinberanir…. ég er farin að gera eitthvað!

donkey kong…..

…. hvar sem er, hvenær sem er!

donk.bmp

Ef bara þessi filma hefði ekki týnst í öll þessi ár… þá hefði ég pottþétt getað auglýst tölvuspil og grætt milllllljónir.. hvar var metnaður fjölskyldunnar? 😉

———-

Jahá! Þessa færslu skrifaði ég í lok janúar en eitthvað klikkaði… mundi eftir henni þegar Óli Gneisti skrifaði um tölvuspil á sínu bloggi 😉 Ég var að dunda mér við að skoða gamlar svarthvítar filmur sem Adda hafði tekið en aldrei framkallað og þar leyndust nokkrar mjög „eðlilegar“ myndir af mér eins og þessi. Það er ekki hægt að tapa dýrmætum tíma þó maður þurfi að fara á klósettið.

Mánuður

Guðmundur Hrafnkell varð mánaðargamall í gær – ótrúlegt en satt! Það hefur væntanlega sjaldan svona margt gerst á einum mánuði í lífi mínu… og ég hef aldrei verið svona mikið innilokuð heldur 😉 Á gær fórum við á rúntinn tvö og það var í fyrsta skipti í tæpa tvo mánuði sem ég keyrði bíl. Þvílíkt frelsi að komast út og geta farið þangað sem ég vil – eða næstum því þangað sem ég vil 😉 Nú er stefnan tekin á fyrsta göngutúrinn, greinilega ekki sniðugt að eignast barn á Áslandi í byrjun febrúar ef mann langar fljótt út að labba… En núna er þetta allt upp á við, barnið að eldast og vorið að koma… 🙂 Næstu mánuðum verður eytt í að hafa það gott, fara í heimsóknir, fá heimsóknir, ferðast og síðast en ekki síst njóta þess að eiga svona fallegan strák 😉

mars1-037b.jpg

Nýtt líf

Það er eiginlega ómögulegt að reyna að lýsa síðustu viku nema að skrifa heila bók – og ég hef ekki alveg tíma í það núna 😉 Litli strákurinn minn er að sjálfsögðu það fallegasta sem ég hef séð og var svo góður að skella sér bara í heiminn viku fyrir settan dag svo ég þurfti ekki að bíða eftir honum. Við vorum að koma heim úr fimm daga dekri á fæðingardeildinni og það liggur við að maður sakni þess að vera þar, allt starfsfólkið er svo gott. En auðvitað er líka gott að koma heim!

Ég er búin að setja fullt af myndum inn á síðuna hans – umbi.barnaland.is – og þar segi ég væntanlega nánar frá þessu öllu fyrir þá sem hafa áhuga 😉 Er að vinna í að laga þetta til og senda aðgangsorðið á þá sem hafa beðið um það. Örfáar myndir fyrir þá sem eru að bíða:

Nýfæddur.. hann er sko með vaff á enninu alveg eins og ég var með 😉

umbifaeddur-028.jpg

Glaðvakandi – 3 daga gamall

umbifaeddur-191.jpg

Komin heim! Á dag… 🙂

umbifaeddur-254.jpg

Takk fyrir allar kveðjurnar í smsum og hérna, ég hef ekki alveg undan að senda til baka 🙂