Safnari og veiðimaður

Ég safna allskonar drasli, stundum bara óvart. Ég kann ekki að veiða en stundum veiði ég líka óvart. Aðallega samt bara flugur með númeraplötunni á bílnum mínum.

Það er spennandi að taka til heima hjá mér, þá finnst allt draslið sem ég hef safnað bæði viljandi og óvart. Ég hef líka komist að því að ég set geisladiska aldrei í rétt hulstur og það getur breyst í trylltan ratleik sem endar á því að ég finn eitthvað sem ég er löngu búin að týna en var samt aldrei týnt.

Það er allt í lagi að eiga gömul söfn inni í skáp og finna þau svona öðru hvoru… kannski gömlu límmiðabækurnar og frímerki. En sum söfn heimta bara að vera til án þess að safnarinn ráði neinu um það. Ég er til dæmis að safna stelpum sem líta á mig sem sinn versta óvin af því að kærastinn þeirra slysaðist á einhverjum tímapunkti í sínu lífi til að vera hrifinn af mér. Oftast löngu áður en viðkomandi par kynntist og í nær öllum tilfellum án þess að ég hafi haft einhvern áhuga. En það er nú bara lítið aukaatriði. Sem betur fer finn ég þetta safn ekki inni í skáp þegar ég er að taka til… kannski væri það samt ágætt því þá gæti ég hent því!

Þakklæti

Já.. ég er svo þakklát fyrir að blogg var ekki til þegar ég var 14 ára. Ég held að það sé nógu slæmt að ég ein þurfi að sjá það sem ég var að tjá mig í mína „elsku dagbók“ á þessum tíma. Úff. Þó ég vilji trúa því að ég hefði ekki farið að gelgjast svona í netheimum veit maður aldrei. Hjúkk!

Heibb!

Eru páskarnir búnir? Ég er ekki alveg tilbúin til að hætta að liggja í leti og éta til skiptis.. eða bara bæði í einu svo ég ætla að lengja þá aðeins. Á dag, fjórða í páskum, er ég reyndar búin að svíkjast undan letinni og læra aðeins en ég er að hugsa um að hætta því sem fyrst. Annan í páskum fórum við Óli hinsvegar á Björk og Hot Chip í Laugardalshöllinni. Úhhh það var svo gaman. Þetta á sér auðvitað langa og flókna sögu og ekkert er skemmtilegra en langar og flóknar sögur (eins og ónefndur aðili komst að þegar hann talaði við annan ónefndan aðila í afmælinu mínu.. múhaha).

Þegar ég var litil átti ég auðvitað tvö yndisleg gelgjusystkini og það hafði ýmis forréttindi í för með sér. Meðal þeirra var tenging við hina ýmsu tónlistarmenn og á tímabili ól Adda mig upp í því að dýrka og dá Sykurmolana í einu og öllu. Ég er einstaklega hlýðin og stóð mig vel í þessu. Þar sem þetta var í gamla daga voru ekki sýnd myndbönd í sjónvarpinu allan sólarhringinn heldur var Jón Ólafs með þáverandi mini-afró á hausnum með vikulegan hálftíma myndbandaþátt sem skipti nú eitthvað um nafn en hefur væntanlega heitið Popp og kók eða eitthvað álíka. Þar var nú aldeilis hægt að sjá og heyra eitthvað skemmtilegt en uppáhalds lag+myndband mitt með Sykurmolunum var að sjálfsögðu Deus á þessum tíma.

Tíminn leið og Björk stakk af en ég vildi ekki gefast upp á henni greyinu enda skipti aðdáun mín á henni hana svo miklu máli 😉 Ég var alltaf á fullu í því að verja öskrin í Björk fyrir vinkonum mínum á þessum tíma (nema auðvitað Guðrúnu, hún var með mér í þessu :)) því þeim fannst þetta víst hljóma verr en Sálin hans Jóns míns. Hmmm…  Eftir að Debut kom út 1993 trylltist ég sem aðdáandi og fór meðal annars í hina sívinsælu búð Hugfang (blessuð sé minning hennar) og lét prenta plötuumslagið á bol, alveg eitursvalt. Sumarið 1995 þegar Post kom út var ég í vist og um leið og fyrstu launin skiluðu sér hljóp ég með barnið í kerrunni að kaupa diskinn (í pínulitlu Roxy búðinni, blessuð sé minning hennar líka! Hvað er með að allar búðir séu bara dauðar). Árið eftir náði þetta svo auðvitað hámarki þegar við Guðrún og Ása skelltum okkur á Bjarkartónleikana. Ég mun þá hafa verið útlítandi eins og lítil kartafla, með asnalega wannabe Bjarkarhárgreiðslu og sólbrennd í framan eftir fyrstu vikurnar í vinnuskólanum. Á minningunni voru Guðrún og Ása allavega mun skárri þó þær hafi reyndar verið með svipaða hárgreiðslu 😉 Eftir þetta hætti ég nú að fylgjast mikið með því sem Björk var að gera en vissi svona af því… Þegar Medulla kom svo út fyrir ca 3 árum fann ég að hún var farin að gera eitthvað nýtt – og eitthvað sem ég fíla í dag. Ég fór samt á þessa tónleika án þess að hafa neinar væntingar.

Flest lögin af nýju plötunni fannst mér góð, þetta er allt öðruvísi efni en í gamla daga enda er ég og minn smekkur líka allt öðruvísi en þá, sem betur fer 😉 Tvö stóðu sérstaklega upp úr og gera það allavega þess virði að kaupa diskinn. Þau lög sem hún tók af eldri plötum voru eins og valin eftir mínum smekk… nostalgíulag af Debut, flottasta lagið af Post í geggjaðri útsetningu, Vökuró af Medulla og svo framvegis. Stelpurnar sem eru að vinna með henni stóðu sig líka vel, ekkert smá tækifæri að fá að fara í 18 mánaða tónleikaferð um heiminn… með Björk. Semsagt, frábærir tónleikar – og Hot Chip voru líka góðir 😉

Myndir af fallegu fólki!

Komnar inn myndir frá árshátíðinni okkar vinkvennanna, við vorum að sjálfsögðu ótrúlega sætar og fínar í kjólunum okkar og borðuðum sjúklega góðan mat á Tapas-barnum. Nammmmmm….. Held samt að ég panti aðeins færri rétti næst þegar ég fer þangað, svona svo ég geti örugglega smakkað allt 😉

 

Ég er annars stödd inni í miðri flensu, það er yndislegt!

Bleik í einn dag

Þessi helgi sem er nú liðin fór mest í að ákveða hvort ég væri að fá flensuna sem Lísmundur minn og fleiri eru búnir að vera með eða ekki. Lísmundur kúrði nefnilega hjá mér þegar flensan var í hámarki, það var áhugavert að ýmsu leyti 😉 en alltaf gaman. Þessi flensubyrjun lýsti sér í ofurþreytu og brjáluðum hausverk. Samsetning sem býður bara upp á að maður skelli sér undir sæng og bíði eftir því hvað gerist næst. Spennandi. Ég sleppti meira að segja PISA partýi á laugardaginn… held að einhver verði að refsa mér fyrir það, jafnvel verður mér stillt upp og ég skotin með fullt af teygjum, helsta vopni PISA meðlima. Hins vegar afrekaði ég að fara í heimsókn til Óla á föstudaginn, tók með mér litla sæta flugu og hann drap hana! :O

Helsta afrek helgarinnar var ein afmæliskaka (og reyndar mæting í afmælið þar sem hún var étin). Að þessu sinni var um að ræða hina einu sönnu Sólveigu Scheving sem er einnig þekkt sem Solla stirða. Skrýtið að ég hafi ekki verið búin að gera svoleiðis fyrr miðað við vinsældir hennar. Ég var svipað bleik og hún þegar ég var búin að skreyta kökuna, ágætis tilbreyting.

Niðurstaða af þessu flensulimbói er ekki enn orðin ljós, mér líður ágætlega á daginn og illa á kvöldin. Ákvað þess vegna að bæta upp fyrir leti helgarinnar og vera ofurdugleg að redda litlum og leiðinlegum hlutum í morgun… sækja bækur, senda sjö hundruð email og svo framvegis. Jeij! 🙂

Elsku fólk

Einn nuddtími getur bjargað deginum, vikunni og jafnvel lífshamingju manns, það er nokkuð ljóst! Ég sé fram á bjartari tíma þar sem ég get aftur byrjað að lesa með athygli í meira en fimm mínútur og jafnvel sofið á nóttunni 😉 Sú staðreynd að hálsinn á mér þarf að bera haus er núna eitthvað sem er auðveldara að díla við en undanfarið. Skemmir heldur ekki fyrir að hitta eðalvinkonu og taka eitt kvöld í að segja reglulega „geeeeevuuuuuuð var ég búin að segja þér“… og éta svo eins mikið nammi og maður getur. Ahhhh lífið er yndislegt.

Hugg dagsins (mánaðarins miðað við bloggafköst mín) fær forkí minn fyrir að lenda í svæsnasta naglauppábretti sem ég hef séð lengi. Áts :*