Sh-sh-sh-shoeeeee people!

Ég hef ekki þörf fyrir að eiga mörg skópör. Að því leyti er ég væntanlega frekar afbrigðilegur kvenmaður (en ég er hins vegar með þeim mun meiri náttfataáráttu og væri til í að eiga ein náttföt fyrir hverja nótt ársins – að minnsta kosti). Þó ég vilji ekki eiga mörg skópör vil ég eiga góð skópör og það getur verið erfitt að finna þau. Á fyrsta lagi þurfa skórnir að vera númer 37 svo ég passi nú í þá. Þeir þurfa líka að vera mjúkir og þægilegir og ekki of breiðir eða víðir því ég er með svo þunnan fót. Voðalegt vandamál að finna hina fullkomnu skó. Svo er líka mjög góður kostur að maður renni ekki auðveldlega á þeim í hálku. Parið sem er í aðalnotkun þessa dagana kemst ansi nálægt fullkomnun. Ég hélt reyndar þangað til í dag að það væri alveg fullkomið. En eitt smávægilegt atriði virðist ekki vera í lagi. Og verður nú sögð sagan af því.

Upp úr hádegi í dag ákvað ég að leggja af stað heim í seinni hluta „jólafrís“ eftir þriggja daga Reykjavíkurdvöl. Ég raðaði vandlega á mig farangrinum; lítilli ferðatösku, tveimur pokum og kápu. Rögnvaldur eðalkaggi beið stilltur og prúður fyrir utan Skerjagarð og ég skokkaði með allt dótið í áttina til hans. Um leið og ég nálgaðist skottið ákvað lítill og ljótur hálkublettur að birtast fyrir aftan bílinn. Og Dagbjört flaug upp í loftið. Skórnir fá mínusstig fyrir að hafa ekki höndlað þessar aðstæður. Þar sem ég var með mikið í höndunum gat ég ekki borið þær almennilega fyrir mig og lendingin var ekkert sérstaklega mjúk. Ég lenti asnalega á vinstri handleggnum og verkurinn ákvað að rjúka beint upp í öxl og hnakka – sem eru auðvitað mínir aðal og uppáhalds verkjastaðir. Einhvern veginn bögglaðist vinstri höndin sjálf líka og það er sárt að nota hana. Hægri höndinni er ekkert illt en hún er hins vegar svolítið blóðug. Ekki hafa frekari meiðsli verið uppgötvuð en ég borða bara íbúfen og ligg á hitapoka mér til skemmtunar. Eftir þetta fallega flug reyndi ég nú að halda kúlinu, stóð upp og tíndi saman dótið mitt. Um leið hugsaði ég hvað það hefði verið heppilegt ef systir hennar Gurríar hefði verið að labba framhjá, henni finnst víst svo gaman að sjá fólk detta ef ég man rétt 😉 En ég held því miður að enginn hafi orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að horfa á þetta. Gengur bara betur næst…  Og já, einkunnin er ekki ennþá komin. Ég er um það bil að fara í vont skap eftir þetta óréttlæti heimsins 😉

Og svo var allt í einu kominn janúar…

Ég sem ætlaði að plana eitthvað rosalegt fyrir afmælið mitt, nú hef ég allt í einu bara tuttugu og fimm daga til þess. Sjáum til hvort ég nenni að gera eitthvað, ég er svo gömul.

Jólin eru búin að vera frábær. Ég er reyndar voðalega lítið búin að ná að lesa, það er alltaf svo mikið að gera. Fékk samt nokkrar girnilegar bækur í jólagjöf, þar á meðal nýju Ásland í aldanna rás bókina og Sögu jólanna. Hlakka til að ná að kíkja almennilega í þær. Ég fékk líka fáránlega mikið af jólagjöfum í heildina og er ennþá með samviskubit yfir að fólk sé að gefa mér svona mikið. Get nú samt ekki neitað að ég er mjög ánægð með þetta allt, er meira að segja byrjuð að skilja eitthvað í símanum sem ég fékk og það er stórt skref 😉

Jólin byrjuðu mjög rólega hérna þar sem við mamma og pabbi vorum bara þrjú á aðfangadagskvöld. Á jóladag fóru þau svo í kaffiboð og ég fékk Albert í stutta spilaheimsókn. Annan í jólum sóttum við Grethe til Reykjavíkur en hún kom í áramótaheimsókn til Áslands. Um kvöldið var þvílík veislumáltíð hérna og við vorum öll fjölskyldan – og Lísmundur og Grethe líka að sjálfsögðu. Daginn eftir vorum við svo bara í rólegheitum… eða eins miklum rólegheitum og geta verið þegar fjögur börn sem eru 4 ára og yngri eru á einum stað 😉 Óli Gneisti kom við á leiðinni frá Akureyri og við spiluðum og horfðum á eðalkvikmynd með ótrúlega fallegum, grænum aðalleikara 😉 Ég skrópaði svo á spilakvöldi Rannsóknafólksins heima hjá honum daginn eftir þar sem ég nennti ekki alveg þessum endalausu Reykjavíkurferðum. Á staðinn hitti ég Óla (Óla Helga, Óla #1) sem var að sjálfsögðu ekki verra. Daginn eftir fór ég einmitt til Reykjavíkur, hitti Öddu og co og Daða. Á laugardeginum hitti ég konu sem verður væntanlega meðleiðbeinandi með Terry í Mastersverkefninu mínu. Skrýtið að þurfa allt í einu að hætta að hugsa um ekki neitt og fara að spá í skólann aftur. Um áramótin vorum við svo öll fjölskyldan og Grethe heima hjá Kristjáni og Hildi. Borðuðum þvílíkt góðan mat, fórum í blysför, á brennu og horfðum svo á alla flugeldana. Ég get varla dæmt skaupið því börnin á svæðinu voru orðin frekar þreytt og þar af leiðandi missti maður af ýmsum atriðum 😉 Fannst að minnsta kosti mjög fyndið þegar Gísli á Uppsölum gekk aftur með sjónvarpið.

Hér er semsagt kominn jólapistill en ég ætla að láta vera að skrifa sérstaka upprifjun á þessu ári. Venjulega er þetta blogg bara staður fyrir örfá sýnishorn úr lífi mínu þó þessi nákvæma jólalýsing sé væntanlega undantekning 😉 en ég ætla áfram að eiga heildina fyrir sjálfa mig. Pistill um árið myndi þar af leiðandi innihalda frekar fátt, kannski bara BA gráðu og upphaf MA náms, helstu „opinberu“ atburðirnir held ég. Ég er hins vegar búin að kynnast ótrúlega mörgu fólki á þessu ári, bæði í sumarvinnunni minni og í skólanum… sem er frábært en breytir því samt auðvitað ekki að ég þekkti margt frábært fólk fyrir sem ég þekki enn 😉 Búin að læra margt nýtt og líka farin að skilja sumt betur sem ég hef lært fyrir löngu.
Ég vona að árið 2007 verði sem best fyrir ykkur öll… þó ég kunni nú alltaf betur við ártöl sem enda á sléttum tölum 😉 Ekkert óeðlilegt við það… eða hvað?

Hér skála Heiður Dís og Katrín fyrir nýju ári… Skál!

skal.jpg

Jól

Möndlugrauturinn er í pottinum, við erum búin að fara pakkarúnt og í kirkjugarðinn og allt er að verða klárt. Ég slapp naumlega við að vera étin af jólakettinum, jólafötunum var reddað á Þorláksmessukvöldi. Ég er búin að hitta marga sem mér þykir vænt um undanfarið og suma sem ég hef ekki hitt mjög lengi. Góð tilfinning. Jólin mega semsagt koma núna, líka eins gott því þau koma víst á eftir sama hvað ég segi. Ég er að minnsta kosti komin með jól í hjarta og skiptir það ekki mestu máli? 🙂

Líði ykkur öllum sem best og gleðileg jól!

Ljúfa líf

Tveir heilir lærdómslausir dagar liðnir. Ég er samt ekki enn búin að ná því að ég þurfi ekki að læra og fæ reglulega ósjálfrátt samviskubit. En það hverfur fljótt. Ég er meira að segja búin að fá einkunn fyrir þessa mestu geðveiki sem ég hef upplifað og er mjög sátt!

Á föstudaginn borðuðum við Daði auðvitað afmælismatinn hans.. mmm… ég er enn að hugsa um þennan mat. Fullkomin nautalund á Argentínu, gerist ekki betra. Sleeeeeeeeef! Mér finnst að Daði ætti að eiga afmæli oftar. Og halda alltaf svona upp á það. Á gær yfirgaf ég svo Reykjavík, jólafríið verður svona meira alvöru þegar maður er kominn heim. Mottóið mitt sívinsæla „ég verð að geta borið allt dótið út í bíl í einni ferð“ virkaði ekki alveg. Þurfti nefnilega að flytja allar jólagjafirnar á Skagann. Fyrir utan minn venjulega farangur sem er ekkert lítill. Mér tókst að troða þessu í þrjár ferðir en ég vona samt að sem fæstir hafi séð mig á meðan á þessu stóð, þetta hefði kannski passað betur í fimm ferðir. Að minnsta kosti. Og við skulum hafa í huga að ég bý á þriðju hæð og nota ekki lyftur.
En þetta tókst og ég er komin heim. Bærinn er alltaf búinn að breytast svo mikið í hvert skipti sem ég kem, þó það líði oft bara ein vika… ég þakka bara fyrir að rata heim. Á meðan ég er búin að vera í prófalestri er til dæmis búið að opna BT, Krónuna og Subway hérna. Suss… orðið algjört Reykjavíkurúthverfi.

Ég er farin… að halda áfram að ekki-læra. Munið að vera stillt, þá fáið þið kannski pakka.

Eftir eina viku…

… verð ég komin í frí frá skólanum í heilan mánuð. Það verður frekar ljúft að geta lagst með tærnar upp í loft. Maður verður samt að passa að vera ekki þannig of lengi því þá rennur allt blóðið niður í haus. Ekki gott mál.

Ég er með lista af skemmtilegum hlutum til að gera eftir þessa einu viku. Langefst er að eyða tíma með fjölskyldunni minni og afburða skemmtilegu vinum mínum. Prinsinn í fjölskyldunni er líka að verða eins árs 19. desember, sem er reyndar skrýtið því það getur engan veginn verið ár síðan hann fæddist. Daginn eftir á Daði afmæli en ég ætla að borða afmælismat með honum strax daginn sem prófin klárast. Hann fær semsagt í afmælisgjöf að borða með mér, enda er ég einstaklega skemmtilegur borðfélagi, læt öðrum líða eins og þeir borði svo lítið. Það á samt kannski ekki við í þessu tilfelli, Daði er voða duglegur að borða 😉
Svo er það auðvitað allt jólastússið, einhvers staðar þarf ég að ræna jólapappírslager til að geta pakkað inn öllum þessum gjöfum sem eru hægt og rólega að fylla íbúðina mína. Á næsta ári ætti ég kannski að reyna að kaupa bara litlar jólagjafir, gefa öllum bara leikhúsmiða eða eyrnalokka, þið megið velja hvort þið viljið. Ein jólapappírsrúlla ætti að duga, kannski tvær. Ég þakka hér með sjálfri mér fyrir það að hafa ekki dottið í hug að búa til jólagjafir fyrir þessi jól. Á fyrra var ég að sauma alla Þorláksmessu og langt fram á nótt. Svo er ég líka búin að ráða mér jólakortaskrifara. Verst að hann er bara ímyndun mín svo það stendur ekkert á kortunum. Ég þarf víst að gera þetta allt sjálf.

Jólauppgötvun…

Ég byrjaði fáránlega snemma að kaupa jólagjafirnar í ár, sá fram á að vera búin að þessu öllu áður en desember kæmi. Fannst ég allavega vera búin með mjög mikið. Ég ákvað að gerast skipulögð áðan og skrifa niður stöðuna á þessu og þá kom í ljós að ég er bara búin að kaupa 9 jólagjafir af 23. Það er ekki einu sinni helmingur. Reyndar er ég svo búin að kaupa þrjár hálfar gjafir en það telst varla með. Svo á ég eftir að skrifa og senda jólakort til Ástralíu, Burundi og Ecuador og fresturinn væntanlega að renna út. Uppgötvun mín er semsagt að ég er eiginlega bara sein í jólaundirbúningi þrátt fyrir allt. Piff.

Merkilegur dagur í dag…..

… því Guðrún mín á afmæli. Hún er búin að vera vinkona mín síðan ég man eftir mér og mun auðvitað alltaf verða það. Enda er hún frábær manneskja og algjör hetja… til hamingju Gudda mín og njóttu kvöldsins 🙂
Þessi mynd af okkur var valin úr svona hundrað myndum sem kom til greina að setja hingað en sumar myndir af okkur eiga einfaldlega ekki heima á netinu og þarna erum við svo ungar og saklausar. Erum uppi í Akrafjalli að renna. Sumir þorðu reyndar eiginlega ekkert að renna sér, þetta er svo rosalegt fjall maður. Við erum með eins húfur þarna eins og glöggir lesendur sjá og þeir sem eru ekki litblindir sjá líka að þær eru reyndar í sitthvorum litnum. Við áttum eiginlega alltaf einhver eins föt, erum nefnilega með svo góðan smekk 😉
snjothoturb.jpg