Foreldrar á Facebook (UTN)

Áfram rúlla bloggin vegna Upplýsingatækniáfangans.

Ég hef svolítið verið að velta fyrir mér þessu með leikskólakennara (og jú grunnskólakennara) og foreldra varðandi Facebook. Ég nefndi hér í seinasta UTN bloggi þá hugmynd að hópar/deildir á leikskólum og bekkir í grunnskólum geti verið með lokaða hópa á Facebook en hvað með einka-aðganga kennara? Á maður sem kennari að samþykkja foreldra barna í umsjá manns sem vini á Facebook? Er maður þá ef til vill að fórna einhverju af frelsi sínu til vitleysisgangs utan vinnutíma?

Ég sjálfur er vinur nokkurra foreldra sem eiga börn á mínum vinnustað en í nær öllum tilfellum er þar um að ræða fólk sem ég þekkti fyrir og ef ekki það þá fólk sem ég treysti alveg til að gera greinarmun á vitleysingnum Agli Óskarssyni sem setur inn ótrúlega misgáfulega statusa og er stundum taggaður á djammmyndum og leikskólastarfsmanninum Agli Óskarssyni. En það er til fólk sem á erfitt með að gera greinarmun á kennurum innan og utan vinnustaðar.

Ég man eftir sögu sem kennari í einum áfanga sagði okkur í fyrra. Hún var (eða er jafnvel ennþá, er ekki viss) deildarstjóri á leikskóla. Einn daginn kemur foreldri til hennar svona frekar ósátt. Fjölskyldan bjó í sama húsi og starfsmaður á leikskólanum og um morgunin höfðu þau (foreldrið og barnið) séð starfsmanninn kyssa sambýling sinn innilega í kveðjuskyni (er ekki að tala um eitthvað öfgakennt, bara innilegur koss) og fannst nú ekki alveg í lagi að starfsmaðurinn gerði svona fyrir framan barnið sitt.

Deildarstjórinn útskýrði að kennarar eigi sitt einkalíf í friði og að svo lengi sem hegðun þeirra er ekki gegn lögum eða þeim mun ósiðlegri hefur það engin áhrif á þá í starfi. Auk þess sem að þetta er nú börnum varla skaðlegt að sjá fólk kveðjast innilega. Foreldrið tók þessum rökum og viðurkenndi að auðvitað væri þetta nú allt í lagi. En þetta er svona dæmi um að sumir gera kröfur til okkar sem störfum með börnum sem ganga lengra en bara það að standa okkur vel í vinnunni. Og það sem ég er aðallega að hugsa er hvort Facebook geti skapað einhver vandræði með það.

Hvað segja félagar mínir í UTN? Og aðrir?