Myndvinnsla (UTN)

Nú fer að líða að skiladegi fyrir verkefni 3 í UTN áfanganum og því eru kannski einhverjir farnir að huga að verkefni 4. Að öðrum verkefnum ólöstuðum er það verkefnið sem mér leist strax best á, enda snýst það um ljósmyndun og myndvinnslu. Bent er á forritin Gimp og Paint.net og ég get tekið undir að þau eru bæði mjög fín í því sem þau gera.

Svo fín eru þau reyndar, og þá alveg sérstaklega Gimp, að ég fullyrði að fyrir lang flesta ‘venjulega’ notendur eru þau meira en nóg og gera allar hugleiðingar um Photoshop algjörlega óþarfar. Ég sjálfur er tiltölulega nýfarin að nota PS og í rauninni er helsti kosturinn við það umfram hin forritin að með því fylgir innbygður RAW-converter, s.s. forrit sem opnar og leyfir mér að vinna svokallaða RAW-fæla úr myndavélum, en sækja þarf sérstaka viðbót (plug-in) til þess að slíkt sé hægt í Gimp og Paint.net. En þetta er eitthvað sem ég held að flestir notendur þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af.

Ég setti tengla í kennsluefni (tutorials) fyrir bæði Gimp og Paint.net á delicious fyrir ykkur sem eruð með mér í UTN ef þið hafið áhuga. Svo langar mig líka að benda á skemmtilega viðbót fyrir þá sem eru vanir viðmóti Photoshop en vilja prófa Gimp, þetta heitir Gimpshop og breytir viðmóti forritsins þannig að það líkist PS.