Tímabundin ráðning Björns Vals á Alþingi

Björn Valur Gíslason þingmaður VG er víst að íhuga það að hætta á þingi. Það er í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar blöskraði mér þegar ég las þessi orð þingmannsins:

Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvort ég lengi fríið eða snúi til starfa aftur. Þetta var fyrirvari sem ég gerði í þessu nýja starfi eins og margir gera til að athuga hvernig mönnum líkar vinnan.

Vissulega er það oft þannig að fyrstu mánuðirnir í nýju starfi eru notaðir til þess að fá reynslu á starfsmanninn og að hann fái reynslu af vinnustaðnum. Það sem Björn Valur virðist hins vegar ekki átta sig á er að hann gekk ekki í gegnum neitt venjulegt umsóknarferli til þess að fá vinnuna sem hann er í núna. Hann sótti umboð sitt til kjósenda. Þeir kusu hann til þess að sitja á þingi á þessu kjörtímabili. Man einhver til þess að Björn Valur hafi lýst því yfir í kosningabaráttunni að hann ætlaði nú bara svona að sjá til hvernig þetta djobb væri en hætta svo bara ef hann fílaði sig ekki á nýja staðnum? Það fór nefnilega eitthvað framhjá mér ef svo var.

Nú er það ekki svo að ég sé á því að menn sem kosnir eru á þing megi ekki segja af sér. En smá virðing fyrir kjósendum væri vel þegin, þó að það sé kannski fullreynt.