Fáránleiki Arnar Bárðar

Um daginn tók ég hér til kostana víðáttubilað greinarkorn eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur sem birst hafði í mogganum. Þar hafði Kolbrún eftir liggur við hverja einustu rangfærslu og fölsun sem boðberar ríkiskirkjunnar höfðu slett út í umræðuna (PR-taktík?) og bætti heldur í frekar en hitt. Séra Örn Bárður Jónsson er einn af þeim prestum sem mikinn hefur farið vegna hófsamra tillagna Mannréttindaráðs og í honum kristallast sú kenning margra að heiftin í mótbárum ríkiskirkjunnar sé til komin vegna ótta þeirra við að missa sinn stærsta markhóp (og í leiðinni stóra tekjulind) fái hún ekki áframhaldandi óheftan aðganga að leik- og grunnskólum til þess að boða trú og auglýsa tómstundastarf.

Sjónarmið Arnar Bárðar hafa komið fram annars vegar í útvarpsviðtölum (í einu slíku sletti hann því framan í stjórnarmann Siðmenntar undir lok viðtals að húmanismi væri aumasta trú sem til er, af sínum alþekkta kristilega kærleik og siðgæði) og hins vegar í greinum í Fréttablaðinu. Þar hefur Örn skrifast á við Guðmund Inga Markússon, trúarbragðafræðing og foreldri. Hér er fyrsta grein Arnar, hér svar Guðmundar, önnur grein Arnar og svar Guðmunar við henni er linkurinn í fullu nafni hans.

Nú hefur svo Örn Bárður bætt við enn einni greininni en það er ekki að sjá að hann hafi meðtekið neitt í góðum svörum Guðmundar. Þvert á móti færist Örn allur í aukana. Ég var að íhuga það að birta bara valda búta úr grein Arnar án athugasemda því að það er í raun voðalega litlu við málflutning hans að bæta í rauninni, hann dæmir sig alveg sjálfur. En á endanum varð úr að smá kverúlantaröfl fylgir gullmolum Arnar úr hlaði.

Þú spyrð um trúboð og hvar það fari fram. Svar mitt er: Alls staðar. Þess vegna verður ekki sett bann á það enda er skoðanafrelsi í landinu. Við verðum að treysta því á hverri tíð að þeir, sem koma inn í skóla til að kenna eða kynna eitthvað, geri það á fræðilegan og hlutlægan hátt.

Af því að trúboð fer fram allstaðar leggjum við trúarbragða- og kristnifræðukennslu í hendur kennara, ekki presta, imana, goða eða annara hagsmunaaðila trúfélaga. Kynningar eru í fínu lagi sem hluti af kennslu eins og tillögur Mannréttindaráðs benda raunar á. Þetta sér auðvitað hver maður að liggur beint við útfrá orðum Arnar. Nema reyndar Örn sjálfur.

Tilburðir Mannréttindaráðs minna mig á sögur eftir Búlgakov, Kafka og fleiri sem skrifuðu um fáránleikann í tilverunni. Miðstýrt vald sem leggur stein í götu borgaranna og heftir frelsi þeirra er alltaf á villigötum. Alltaf.

Alltaf já. Líka þegar alþingi semur sérstök lög sem leik- og grunnskólum ber að fara eftir. Og væntanlega líka þegar í þessum lögum kemur fram að leik- og grunnskólar eru bundnir af aðalnámskrám sinna skólastiga. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að Örn Bárður aðhylltist einhverskonar frjálshyggju-anarkisma, og tengi slíka hugmyndafræði reyndar ekki við ríkisrekna trúfélagið sem hann sjálfur starfar hjá. Ég sem leikskólastarfsmaður og verðandi kennari er reyndar mjög hrifin af hugmyndinni um sjálfstæði skóla en einhver mörk verða að vera.

Þú spyrð um mörk. Þau liggja um lendur traustsins og hvergi annars staðar nema fólk verði sett í bönd eins og Mannréttindaráð vill t.d. gera með presta. Markmið ráðsins mætti kannski umorða á tæpitungulausan hátt svona: Okkur skal takast að drepa þjóna drottins í dróma. Við ætlum okkur að hindra presta og einangra starf þeirra við kirkjuhúsin ein.

Þvílíkt dómadags væl í prestinum. Ef prestar fá ekki að stunda trúboð sitt í opinberum skólum þá er verið að einangra þá við kirkjurnar og þeir drepnir í dróma. Er þetta boðlegur málflutningur? Má biðja um smá heiðarleika í mónitor?

Þú nefnir dæmi um bænahald í skólum. Það gæti verið samkomulag foreldra þar sem öll börnin í einhverjum bekk eru skírð og öll í sömu kirkjudeild að þau leyfi kennara að hefja kennslu dagsins með bæn.

Það gæti líka verið samkomulag foreldra um að leggja 10 mínútum fyrr af stað í skólann, hittast fyrir utan skólastofuna og biðja saman þar. Af hverju er Erni Bárði svona mikið um að koma bænum og öðrum trúarathöfnum inn í skólastofuna? Af hverju má hún ekki bara vera vettvangur kennslu? Bænir eru auk þess ekki kennsla.

En ég hef heyrt um leikskóla þar sem tíðkast að hafa kyrrðarstundir með íhugun þar sem kenndar eru t.d. yogastellingar. Í mínum huga er það trúboð, austrænt að uppruna. Á að banna slíkt?

Ah. Ok. Þessi gaur.

Markmið Gídeonfélagsins er opinbert. Félagar þess vilja dreifa Nýja testamentinu til sem allra flestra enda er þeim bókin kær og dýrmæt.

Uhh já markmiðið er opinbert og má nálgast á heimasíðu félagsins. Að ávinna menn og konur fyrir Guð. Og dreifing NT í grunnskóla er aðferð til þess. Ég auglýsi aftur eftir heiðarleika.

Að dreifa Kóraninum, Mormónsbók eða ritum Votta Jehóva er alls ekki sambærilegt við dreifingu NT.

Nei, þær bækur tilheyra nefnilega ekki trúnni hans Arnar.

Þú spyrð: „Er það mismunun að allir nema tveir fari í kirkjuferð? Er það rétt, með velferð barnanna í huga, að skilja þau frá hópnum?“

Svar mitt er: Það hefur alltaf haft kostnað í för með sér að tilheyra minnihlutahópi. Þessi nálgun, „vesalings ég og börnin mín“, virkar ekki sannfærandi. Þú verður bara að kyngja því að börnin þín uppgötvi að þau tilheyri minnihlutahópi ef þú hefur valið sjálfum þér og þeim lífsskoðanir minnihlutans. Kristnir menn um allan heim verða að þola hið sama.

Einmitt. Réttur barna þinna til þess að vera stillt upp við vegg trúarbragða sinna vegna er veigaminni en réttur kirkjunnar til þess að fá að stunda trúarathafnir með skólabörnum á skólatíma. Og það er lykilatriðið í þessu máli. Það er engin að banna neinum að eiga sína trú og rækja hana eins heitt og hann vill. Það er eingöngu farið fram á að slíkt sé ekki gert á vegum menntastofnanna og á skólatíma.

Örn Bárður réttlætir svo þessi mannréttindabrot með því að vísa til þess að í öðrum löndum verði trúfélaga hans að þola hið sama. Við eigum greinilega að hans mati ekki að sýna betra siðferði sem þjóðfélag. Sem er áhugavert.

Ég held að þetta blogg sé orðið nógu langt í bili. Örn Bárður eyðir svo restinni af grein sinni í að pönkast á Mannréttindaráði og ýja að því að Siðmennt hafi tekist að smygla þangað inn félagsmanni sem hafi hneppt aðra meðlimi þess í álög grimms húmanisma og virðingar fyrir mannréttindum. Hann gengur meira að segja svo langt að einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort að umræddur nefndarmaður eigi einhvern rétt að sækja á hendur Erni.

Það er allavega augljóst að Örn sækir innblástur sinn ekki í hinn margboðaða, en lítt stundaða, umburðarlyndiskærleik ríkiskirkjunnar. Hans siðferði á meira skylt við boðskap kirkjunnar aldirnar fyrir Upplýsinguna, sem er kannski sá tími sem margir kirkjunnar menn líta til með söknuði þessa dagana.