Ráðherra og fréttaefni

Það er voðalega mikið af því sem ákveðnir fjölmiðlar kalla „stóra X-málið“ í gangi þessa dagana. Í dag var það auðvitað stóra viðtalsmálið.  Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra neitaði að fara í viðtal við RÚV um ástandið í Úkraínu nema að það yrði í beinni eða að hann fengi óklippta upptöku af viðtalinu í hendurnar.

Nú veit ég að það er vinsælt að frýja þingmönnum Framsóknar vits en  ég neita að trúa því að Gunnar Bragi hafi ekki áttað sig á því að með þessum skilyrðum var hann auðvitað að neita viðtali yfirhöfuð. Þetta kallaði ekki á beina útsendingu og þeir sem eru vanir samskiptum við fjölmiðla vita að kröfur um heildarupptökur og önnur álíka gögn eru óraunhæfar.

En það sem mér finnst merkilegast eru útskýringar ráðherra á þessum skilyrðum. Hann vill nefnilega meina að fréttamenn RÚV hafi klippt út alveg ógurlega fréttnæm ummæli eftir sig á föstudaginn. Hann útskýrir með eftirfarandi orðum hver fréttapunkturinn var:

Jú, ég kom því á framfæri að vitanlega gæti utanríkismálanefnd komið með niðurstöðu, tillögu varðandi þá gagnrýni sem komið hefur fram varðandi þingsályktun um að draga umsókn Íslands að ESB til baka. Fréttamanni þótti það ekki fréttaefni að ráðherra opni a slíkt.

Ég sá að Helgi Seljan benti á Facebook á að það væri engin frétt í þessu. Ráðherra þarf nefnilega ekkert að „opna“ á þennan möguleika. Hann er einfaldlega mjög skýr í stjórnsýslunni.

Ég held þó að það sé alveg vinkill á frétt í þessu. Þarna kemur nefnilega berlega fram í hvaða ljósi ráðherrar líta á þingið. Það er ekki sjálfstætt löggjafarvald heldur framlenging af framkvæmdavaldi ráðherra, sem hefur það í hendi sinni hvort að opnað sé fyrir að þingið geti gert breytingar á málum sem hann leggur fram.

Þetta er sennilega ekkert voðalega frumleg frétt. Við höfum svosem vitað að svona er þetta ansi lengi. Og það má auðvitað deila um hvers vel það hefði komið sér fyrir ráðherrann ef að þessi ummæli hefðu fengið að fljóta með. En það er svo auðvitað líka enn eitt dæmið um það hversu illa áttaðir meðlimir stjórnarmeirihlutans eru þessa dagana að ráðherra geri mál úr þessu.

 

Að hafa rangt fyrir sér – og finnast það gott

Mér finnst stundum gott að hafa rangt fyrir mér. Ég á alla jafna ekki í miklum vandræðum með að viðurkenna það, sé mér sýnt fram á vitleysu mína með afgerandi hætti, því að mér finnst gott að læra eitthvað nýtt. Og svo er líka gott að hafa rangt fyrir sér þegar maður heldur að hlutirnir séu verri en þeir eru.

Í dag varð ég hugsi yfir þessari frétt. Það á semsagt að fara að bjóða upp á tveggja ára diplómanám í leikskólakennarafræðum vegna skorts á leikskólakennurum. Mér fannst þetta ekki alveg nógu sniðugt. Ég velti því fyrir mér hvað fólk hefði fyrir sér í því að þetta myndi fjölga leikskólakennurum. Mér fannst líka skrýtið að það ætti bara að bjóða upp á diplómanám á leikskólastiginu en ekki öðrum stigum og velti fyrir mér hvort að það skorti á virðingu við fagstéttina leikskólakennara. Og ég fór á Facebook og röflaði eitthvað útaf þessu.

En svo fóru frekari upplýsingar að koma fram. Reynslan af diplómanáminu sem boðið var upp á árin 2000-2005 var sú að nánast allir sem fóru í gegnum það héldu áfram í B.Ed gráðu (og jafnvel lengra). Það verður ekkert slegið af inntökuskilyrðum eða kröfum í náminu að neinu leyti. Þetta er eingöngu hugsað sem fyrsta þrep þeirra sem eru í náminu, þeir fá þá diplómu sem nýtist þeim til launahækkunnar og geta haldið áfram síðar kjósi þeir að hverfa frá námi um tíma. Einn af toppunum á Menntavísindasviðinu í HÍ kom til sögunnar og tók af allan vafa um það að það yrði engin afsláttur gefinn af náminu. Og bent var á skýrslu sem sýndi það sem við í stéttinni vitum svosem alltof vel, ef ekkert verður gert á næstunni verður sá mikli skortur á leikskólakennurum sem ríkir hér á landi óbærilegur eftir óhugnalega stuttan tíma. Ástandið er verra hjá okkur en í grunnskólanum, þó að þar líkt og í framhaldsskólanum þurfi að fara að huga að aðgerðum líka.

Ég tek líka undir það sem kemur fram í fréttinni að best væri ef sveitarfélögin styddu verðandi leikskólakennara í námi. Ég gerði samning við Kópavogsbæ þegar ég hóf mitt B.Ed. nám og varð ekki fyrir neinu tekjutapi þrátt fyrir að missa úr vinnu vegna skólasóknar. Á móti skuldbatt ég mig til þess að vinna hjá bænum í tvö ár eftir útskrift. Gjöf en ekki gjald.

En ég hafði semsagt rangt fyrir mér. Þetta var eitt af þeim skiptum sem það var gott að vera leiðréttur.

Má ljúga eftir landsfund?

Í ályktunum seinasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins segir eftirfarandi:

“ Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið.

Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Nú er alveg hægt að skilja þetta þannig að hætta eigi viðræðum án þess að greiða um það sérstaklega atkvæði. Reyndar finnst mér það réttur skilningur. Og fjölmargir Sjálfstæðismenn sem styðja ákvörðun um viðræðuslit núna benda á að þetta sé nú bara það sem landsfundur sagði.

En bíðum nú við, hver voru skilaboð flokksins til kjósenda fyrir kosningar?

Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan –
þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðargreiðslu á kjörtímabilinu.

Þessi tilvitnuðu orð eru úr stefnuskrá flokksins fyrir síðustu kosningar. Sem fyrrverandi meðlimur í flokknum geri ég mér grein fyrir því að landsfundur er æðsta vald flokksins. Það hafa margir bent á í umræðunni seinustu daga, að þingflokkurinn sé einfaldlega að hlýða landsfundi og það sem þar komi fram gildi.

En þeir sem eru á því að það skipti engu hvað sagt er fyrir kosningar ef hægt sé að skilja landsfundarályktanir á annan hátt eru þá í leiðinni að segja að það sé bara í lagi að ljúga í kosningabaráttu. Og að kjósendur geti bara sjálfum sér um kennt að hafa ekki lesið landsfundarályktanir.

Alveg óháð því hvar fólk stendur varðandi aðild að ESB þá hljótum við að vera sammála um að þetta eru ömurleg vinnurbrögð hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og fáránleg röksemdarfærsla hjá stuðningsmönnum þessara vinnubragða.

Lesskilningur kennara

Í vikunni var fjallað um kjaramál framhaldsskólakennara í fréttum á Stöð 2. Þetta var ágætis umfjöllun sem sýndi hæfa kennara sem þurfa að vinna aukavinnu til þess að hafa nægar tekjur yfir árið. En á twitter sá ég skondinn viðbrögð. Þar velti einn fyrir sér lesskilningi framhaldsskólakennara og getu til þess að meta tölur.

Þetta eru svosem skilaboð sem kennarar hafa heyrt áður. Að þeir hljóti að hafa vitað hvaða laun biðu þeirra þegar þeir ákváðu að fara í nám og hefja kennslu og þar af leiðandi eigi þeir ekki að vera að þessu væli. Og þetta er auðvitað alveg mögnuð vitleysa.

Með þessum rökum er hægt að afgreiða alla kjarabaráttu eins og hún leggur sig. Væntanlega hafa allir einhverja hugmynd um hvaða tekjur bíða þeirra þegar þeir leggja ákveðið fag fyrir sig. Sem betur fer þýðir það ekki að fólk megi ekki krefjast betri kjara. Það er ekkert lögmál að kjör stétta megi aldrei batna.

Árið 2007 skráði ég mig í leikskólakennaranám. Ég hafði auðvitað einhverja hugmynd um tekjurnar sem biðu mín að loknu námi. Ég ákvað ekki að verða leikskólakennari til þess að verða ríkur. Það var ákveðin hugsjón sem skipti mestu máli, ásamt mikilli ánægju af því að vinna með börnum. Mér finnst þetta skemmtilegt og krefjandi starf og sé ekkert eftir því að hafa fetað þessa braut.

En ég áskil mér, þrátt fyrir að vera í þessu af hugsjón, rétt til þess að krefjast betri kjara. Ég skrifaði ekki undir samning um það að vera alltaf á lélegum launum þegar ég fékk leyfisbréfið. Kjarasamningur leikskólakennara rennur út 30. apríl. Við teljum eins og framhaldsskólakennarar að það þurfi að bæta kjör okkar. Mér finnst alveg ótrúlega hæpið að launahækkun upp á 2,8% verði samþykkt og mun sjálfur ekki samþykkja slíkan samning nema eitthvað alveg ótrúlega magnað fylgi með í pakkanum. Ég tel að ég eigi skilið að fá betri laun fyrir vinnuna mína en ég fæ núna.

Jafnvel þó að ég hafi skoðað kjarasamninga leikskólakennara árið 2007.

Að kynna sér málin

Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata segir í viðtali við Vísi.is að það sé ómögulegt fyrir þingmenn að kynna sér ný lög nógu vel áður en þeir samþykkja þau. Þetta viðtal er  tekið í kjölfar þess að Helgi baðst afsökunar á því að hafa samþykkt lög sem gefa Tryggingastofnun auknar heimildir til þess að krefjast ýmissa upplýsinga um skjólstæðinga sína vegna örorkumats.

Ég tek það fram að ég virði það við Helga að hann hafi beðist afsökunar á þessu. Það er skemmtileg nýbreytni að þingmenn viðurkenni það að þekkja ekki þau lög sem þeir samþykkja og biðjist afsökunar á því þegar í ljós kemur að lögin séu ekki góð. Hinsvegar væri auðvitað best að þeir kynntu sér lögin.

Það er líklega erfitt fyrir fámenna þingflokka að kynna sér öll mál sem koma fyrir þingið og nefndir þess í hörgul. Reyndar held ég að það sé erfitt fyrir alla þingmenn ef út í það er farið. Ýmsar útfærslur og afleiðingar laga geta haft áhrif sem ekki er auðvelt að sjá við yfirlestur á frumvarpi. En einmitt þess vegna er óskað eftir umsögnum sérfræðinga og hagsmunaaðila.

Slíkar umsagnir voru sendar inn vegna málsins sem um ræðir. Öryrkjabandalagið benti á þá vankannta sem mest hafa verið ræddir. Væntanlega hefur verið fjallað um þá umsögn í þeim þingnefndum sem höfðu málið til umfjöllunar.

Ég veit ekki hvernig manni átti að detta í hug af fyrra bragði að safna þeim upplýsingum sem þurfti til að átta sig á því sem fólk síðan hafði út á að setja

En þá hugsaði ég með mér, mikið væri nú gott að hafa nánari aðkomu einhverra annarra nörda úti í bæ sem að eru að pæla í einstaka tölum og hafa færi á að vekja athygli á því áður en ákvarðanir eru teknar

Það eru nú þegar nördar úti í bæ sem vekja athygli á ýmsum flötum þingmála áður en þau eru lögð til samþykktar. Þingið kallar eftir umsögnum þeirra (auk þess sem þeir senda þær oft að eigin frumkvæði) til þess að þingmönnum þurfi ekki að detta í hug að fyrrabragði að safna sér öllum þessum upplýsingum.

Ég hef komið að því að semja og senda umsagnir til þingnefnda, m.a. þegar óskað hefur verið eftir þeim af þinginu. Mér hefur ekki alltaf fundist mikið mark tekið á eðlilegum og vel rökstuddum athugasemdum. Ég hafði skrifað það á einhverja pólitík. Það horfir svolítið öðruvísi við ef þingmenn kynna sér einfaldlega ekki þær umsagnir sem liggja fyrir.

Ég veit auðvitað ekki hvort að Helgi Hrafn hafi ekki kynnt sér þær umsagnir sem lagðar voru fram eins og þá frá ÖBÍ, þó að mér finnist það felast í orðum hans. Og ef svo er, þá finnst mér í sjálfu sér ólíklegt að hann sé einn um það  á þingi. En mikið ofboðslega finnst mér þetta bera vinnubrögðum á Alþingi slæman vitnisburð.