Kaldi

Í síðustu viku var fyrsta staðlotan mín í Háskólanum á Akureyri þessa önnina. Sú hefð hefur skapast í fjölskyldunni minni að fara í bústað á aðventunni til þess að slaka á og eiga góðar stundir saman fyrir jólin en eftir að við bræðurnir byrjuðum allir í háskólanámi gekk það ekki lengur upp. Á seinasta ári ákváðum við því að færa þá ferð yfir á fyrstu lotuferðina mína í Háskólanum á Akureyri og dvelja saman í einum af þeim bústöðum sem KÍ hefur yfir að ráða í Kjarnaskógi á Akureyri. Það heppnaðist vel og því var það endurtekið í ár.

Við höfum alla jafna ekki verið mjög aktíf í þessum ferðum hingað til enda hafa þær fyrst og fremst snúist um kósýheit og afslöppun en Eva, kærastan mín, kom með þá hugmynd í ár að við gætum kíkt í Bruggsmiðjuna á Árskógssandi.

Þetta var auðvitað frábær hugmynd. Ég er, eins og margir vita, talsvert bjórnörd. Ég til dæmis skrifa um bjór á hinni frábæru matarsíðu matviss.is. Mér finnst bjór mjög merkilegur drykkur og pæli mikið í honum. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort að ég var ekki glaður með kærustuna þegar hún stakk upp á ferð í brugghús í þessari ferð. Eva er auðvitað best.

Og þessi heimsókn var ekkert annað en frábær. Agnes, sem stofnaði Bruggsmiðjuna ásamt Ólafi eiginmanni sínum, tók á móti okkur og byrjaði auðvitað á því að skenkja okkur bjór. Hún fór í gegnum sögu fyrirtækisins sem byrjaði sem brjáluð hugmynd en er orðin að einhverju flottasta fyrirtæki landsins. Þegar talað er um frumkvöðlastarfsemi þá er Bruggsmiðjan einmitt gott dæmi. Þau fengu hugdettu, létu hana rætast og fyrirtækið gengur vel í dag.

Agnes fór vel í gegnum ferilinn sem varð til þess að fyrsti bjór Kalda varð til. Mér fannst merkilegt að heyra að þau hikuðu ekki við að kaupa sér sem bestu bruggunartækin til að byrja með en áhugaverðast fannst mér að heyra að þau fengu strax frá upphafi með sér hörku bruggmeistara, David Masa. David hannaði fyrstu bjórana sem við þekkjum sem Kalda og það þarf ekki nema að smakka þá bjóra til þess að vita að þar er maður sem veit hvað hann er að gera.

Bruggsmiðjan var fyrsta örbrugghúsið hér á landi og allt frá byrjun hefur það staðið fyrir ákveðin gæði í bruggun bjórs. Maður veit það orðið þegar maður smakkar bjór frá Kalda að þar er á ferðinni gott brugg. Arftaki David er að einhverju leyti Kristinn Ingi Valsson, sem hlýtur að teljast meðal efnilegustu bruggmeistara á Íslandi. Hann á heiðurinn af seinasta Sumar Kalda sem var áhugaverðasti sumarbjór íslensku brugghúsana seinasta sumar. Kristinn er ennþá að læra fagið en miðað við sumarbjórinn þá má búast við miklu af honum.

En að heimsókninni aftur. Agnes er góður gestgjafi og gaf mikið af sér í heimsókninni. Hún ræddi opinskátt við okkur um rekstur fyrirtækisins hingað til og hugsanleg áform þess í framtíðinni. Kannski fengum við, bara sjö manna hópur, persónulegri þjónustu en stærri hópar en þetta var virkilega ánægjuleg heimsókn. Þarna voru staddir fagmaður í tæknifræði og brunahönnun, nemi í hagfræði, nemi í lögfræði, nemi í viðskiptafræði, nemi í lífeðlisfræði, leikskólakennari og nemi í menntavísindum og svo mamma, sem veit alltaf best og við vorum öll sannfærð um að þetta væri vel rekið fyrirtæki, í góðu og hentugu húsnæði sem uppfyllir alla kröfur, sem hefur skemmtilegar hugmyndir um framtíðina og þekkir sinn markað. Það var líka virkilega gaman að heyra, fyrir mig sem er að læra stjórnun, að starfsmannstefna fyrirtækisins er að gera vel við fólkið sem vinnur þar. Þannig hefur þeim tekist að koma í veg fyrir starfsmannaveltu að mestu leyti.

Og svo er bjórinn þeirra bara verulega góður.

Mynd á viku – af hverju?

Eins og þeir sem hafa ratað hingað inn eða fylgjast með mér á Facebook og Twitter hafa tekið eftir set ég nú inn eina mynd á viku undir hinu frekar lýsandi nafni ‘Mynd á viku’. Þetta er ákveðið verkefni sem ég setti mér fyrir árið, að taka, vinna og birta eina mynd á viku. Ég hef gert þetta áður, árið 2010.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að gera þetta núna er að mér finnst ég hafa staðnað í ljósmyndun undanfarið. Ég er fastur í einhverju fari sem mér gengur illa að losna úr og finnst ég lítið hafi þróast áfram sem ljósmyndari. Vegna þessa hef ég alls ekki verið nógu duglegur að taka myndir, ef ég undanskil myndir sem ég tek í vinnunni á leikskólanum. Ég hef lítið farið úr húsi með myndavél í þeim eina tilgangi að taka myndir. Ég hef líka ekki verið nógu duglegur að hafa með mér myndavél þó að ég fari eitthvað í öðrum erindagjörðum og latur að taka upp vél í þau skipti sem hún hefur fengið að fljóta með.

Í byrjun árs í fyrra reyndi ég að leysa þetta vandamál með því að kaupa mér myndavél. Ég keypti litla Micro Four Thirds vél frá Olympus með tveimur kit-linsum (14-42 3.5-5.6 og 40-150 4-5.6) og bætti við 17 mm 1.8 linsunni frá Oly.  Þetta er fínasti pakki. Vélin með 14-42mm eða 17 mm linsunum (sú síðarnefnda er oftast á) passar í góðan úlpuvasa ef svo ber undir og þó vélin mætti alveg vera betri á háu ISO (hér er dæmi af tónleikum, þetta sleppur svosem alveg) þá er ég mjög sáttur við hana.

En eins og ég hefði getað sagt mér sjálfur þá gera nýjar græjur mann ekki betri og auka bara áhugan rétt á meðan nýjabrumið er enn til staðar. Þess vegna ákvað ég að „neyða“ sjálfan mig til þess að taka myndir. Ég var að spá í PAD (mynd á dag – photo a day) verkefni en fannst það full mikið verk. Þess vegna varð PAW (mynd á viku – photo a week) fyrir valinu. Ef ég stend mig þá koma 52 myndir út úr þessu. Ég er nokkuð sáttur við heildarútkomuna frá 2010. Auðvitað eru þar myndir sem bera tímaskorti og leti vitni en þar eru líkar myndir þar sem ég ákvað sérstaklega að nota ákveðna tækni við myndatöku eða myndvinnslu og prófa mig þannig áfram. Það sama ætla ég að gera núna. En það besta við 2010 verkefnið var að ég tók alveg heilan helling af myndum yfir allt árið því að ég var svo oft með vél á mér. Ég vona að það sama gerist núna.

Lífið það gengur í hringi

Titill þessarar færslu er sóttur í texta við lag Skálmaldar, Valhöll. Ég trúi því nefnilega, og hef upplifað, að svona er þetta bara. Lífið gengur í hringi. Þegar ég var unglingur sveiaði gamla fólkið sér yfir því sem unga kynslóðin missti sig yfir og í dag horfi ég upp á jafnaldra mína gera það nákvæmlega það sama. Við erum bara orðin svona gömul.

Þegar ég byrjaði í því sem þá hét fyrsti bekkur en heitir í dag annar bekkur var ég nýr pjakkur í Digranesskóla. Sem heitir í dag eftir sameiningu tveggja skóla sem voru innan við 300 metra frá hvorum öðrum Álfhólsskóli. Mér var tekið ágætlega af þessum bekk sem ég lenti í. Alveg eins og þegar ég kom aftur í sjötta bekk eftir tveggja ára búsetu á Akureyri. Þetta voru góðir krakkar og ég held ennþá sambandi við nokkra af þeim og spjalla við hina þegar ég hitti þá á förnum vegi.

En þegar við byrjuðum í öðrum bekk fengum við umsjónarkennara sem var þá tiltölulega nýútskrifaður úr námi. Þetta var ung kona sem hafði augljóslega brennandi áhuga á starfi sínu og kenndi okkur af miklum áhuga og ástríðu. Hún reyndar tengdist bekknum það vel að þegar hún hætti sem umsjónarkennari eftir þriðja árið, þegar ég var fluttur til Akureyrar, þá bauð hún bekknum heim til sín í kveðjuveislu. Sjálfur hitti ég hana svo fyrir tilviljun fyrir norðan þangað sem hún flutti á meðan ég bjó þar.

Líða svo árin og ég er orðinn leikskólakennari og ákveð að skella mér í framhaldsnám. Það var svolítið yfirþyrmandi, að vera mættur í meistarnám í menntavísindum í háskóla og mæta á fyrstu önn í einn af þeim áföngum sem þarf að taka til þess að öðlast gráðuna. Þarna var samansafn af mjög reyndum kennurum af öllum skólastigum sem höfðu frá ýmsu að segja. Mér fannst ég svolítið blautur á bakvið eyrun.

Marserar þá inn í skólastofuna forstöðukona miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Og mér leið strax betur því að ég þekkti hana á augabragði. Þarna var kominn fyrsti kennarinn minn sem ég man eftir, og einn af þeim bestu. Mér fannst svolítið viðeigandi að kennarinn sem tók mér svo vel sem litlum og feimnum strák í sjö ára bekk í Digranesskóla væri nú að kenna mér í meistarnámi í kennslufræðum í háskóla.

Lífið það gengur í hringi.

Jarre, Grier og táningarnir

Nei, ég hef ekki hugmynd um það hverjir Jerome Jarre og Nash Grier eru. Né langar mig sérstaklega að vita það. Þeir vekja ekki áhuga minn. Samt tókst þeim að fylla Smáralindina af táningum núna um daginn. Flott hjá þeim.

Fyndnustu viðbrögðin í þessu öllu saman finnst mér þó ekki koma frá æstum krökkunum í verslunarmiðstöðinni heldur jafnöldrum mínum á Facebook. Djöfull erum við að verða gömul. Það að horfa á fólk um og yfir þrítugt fussa og sveia yfir ungdómnum og skilja ekkert í því hvernig einhverjir gaurar sem það veit ekki hverjir eru geta valdið svona viðbrögðum er ekkert minna er stórkostlega fyndið.

Auðvitað eru þessir gaurar ekki hluti af okkar menningarheimi (flestra okkar allavega). Það væri hreinlega stórfurðulegt ef svo væri. Við erum rétt rúmlega tveimur áratugum eldri en flestir þeir sem fylktu liði í Smáralind. Menningarheimur unglinga (eða menningarheimar ætti þetta kannski frekar að vera) skarast ekki við menningarheim okkar gamla fólksins nema að takmörkuðu leyti. Sem betur fer, það tilheyrir einfaldlega þessum aldri að vera öðruvísi en þeir sem eldri eru.

Þá finnst mér líka fyndið að fólk sé að fussa yfir því að þarna hafi orðið öngþveiti. Eins og að það sé eitthvað skrýtið við það að krakkarnir hafi viljað sjá þessa stráka, eða jafnvel komast á Vine myndband hjá þeim. Svo er nú ekki eins og það þurfi mikið til þess að öngþveiti skapist hér á landi. Eru nokkuð það mörg ár síðan einhver handleggsbrotnaði þegar fólk þusti inn í opnun einhverrar raftækjabúðar?

Mynd á viku – Eva

Árið 2010 setti ég sjálfum mér það verkefni að taka eina mynd á viku og birta. Myndirnar birtust þá á gamla blogginu mínu og á Flickr síðunni minni. Ég ákvað svo um helgina að gera þetta bara aftur í ár. Fyrsta myndin er af Evu.

Eva

Ef smellt er á myndina komist þið inn á safn allra myndanna hingað til.

Truflun

Truflun

Þá er ég kominn á Truflun. Ég hef bloggað á nokkrum stöðum í gegnum tíðina, alveg frá þriðja eða fjórða ári í menntó. Ekki mjög mikið þó undir það allra seinasta, held að ég hafi birt eitt blogg í fyrra. Undanfarið hef ég nær eingöngu skrifað um trúmál og efahyggju eða þá eitthvað í skólanum. Ég hugsa að skrifin um trú, kukl og hindurvitni  muni fyrst og fremst birtast á vefriti Vantrúar eftir sem áður en hér gæti ratað eitthvað inn um skólamál, t.d. þegar ég byrja á lokarannsókninni minni. Hér hugsa ég að birtist aðallega hugleiðingar mínar um hitt og þetta; pólitík, mat og drykk, ljósmyndun og daglegt líf t.d. Og talsverð vitleysa sjálfsagt líka.

Ég flutti allar færslurnar af gamla wordpressblogginu mínu hingað yfir þannig að fólk getur skoðað þær ef það hefur áhuga. Ég rakst þó á þegar ég fletti yfir það um daginn að þar er að finna hitt og þetta sem ég hef skipt um skoðun á. En það er bara ágætt, það er gott að skipta um skoðanir öðru hverju.