Foo Fighters…Ensími

Núna ætti ég að vera að hlusta á Foo Fighters en mig langar bara svo mikið meira að hlusta á Ensími svo að ég er að því. Renndi reyndar Foo Fighters playlistanum í gegn einu sinni áðan og líkaði svo sem ágætlega en Ensími kallaði. Vona að Ensími verði ekkert að kalla annaðkvöld. Nýjasti Ensími-diskurinn er annars þrusugóður, fór ekki að hlusta á hann fyrr en eftir tónleikana um daginn, þrátt fyrir að hafa átt diskinn frá því um áramótin.

Jóga

Mig langar að prófa jóga. Það bara kostar of mikinn pening og mig vantar einhvern til að fara með. 5 vikna námskeið sem mig langar á kostar 13. 200 krónur og það eru 10 tímar. Það hlýtur að koma að því að ég eigi nægan pening og tými að fara á svona námskeið. En þangað til verð ég bara að kynna mér jóga á eigin vegum, þess vegna tók ég bók um jóga núna áðan og bíð spennt eftir að kíkja á hana…

Framundan

Það er ýmislegt framundan. Ber þar hæst tónleika með Foo Fighters, flutninga, skóla og flutninga „útiálandiliðs“ til höfuðborgarinnar. Mikið hlakka ég til. Mest hlakka ég til flutninganna. Það er svo gaman að koma sér fyrir á nýjum stað, gaman að ákveða stað fyrir hvern hlut og sjá þetta allt raðast saman á nokkrum dögum. Það verður líka gaman að kaupa húsgögn. Þetta verður í fyrsta sinn sem við flytjum í íbúð þar sem við eigum allt innbúið sjálf, það verður gaman. Það eru mjög margir kostir sem þessir flutningar hafa í för með sér 🙂

Það verður líka gaman að byrja aftur í skólanum. Bara sterk tilhlökkun, enginn kvíðahnútur eins og í janúar þegar ég var að byrja og þekkti engann, núna þekki ég dágóðan slatta af fólki sem er í b&u. Svo verður líka gaman að búa til félagslíf 😉

Mér finnst undarlegt til þess að hugsa að eftir 2 sólarhringa þá verð ég á Foo Fighters tónleikum. Hef bara hlakka of mikið til flutninga til að geta hlakkað til tónleikanna. En það verður örugglega bara enn meira gaman fyrir vikið.

Eva og Heiða flytja svo hingað einhverntíma í byrjun september, það verður gaman gaman. Heiða verður meira að segja nágranni minn.
Svenni bróðir og Hrönn flytja hingað um næstu helgi og við verðum enn meiri nágrannar, í sömu götu og allt.

Á þessu má sjá að ég er bara að springa úr tilhlökkun og sé haustið í dýrðarljóma. Vona að það standi undir væntingum, það þarf e-ð meiriháttar að fara úrskeiðis til að klúðra þessu.

Matarsögur

Þetta er uppskriftabók þar sem talað er við 17 misfrægar íslenskar konur um mat og þær gefa síðan nokkrar uppskriftir hver. Meðal þeirra sem eiga uppskriftir í bókinni eru Guðrún Eva Mínervudóttir, Siv Friðleifsdóttir, Diddú, Þórunn Lárusdóttir og Dýrleif Örlygsdóttir.
Gaman að kíkja í hana.

Koss götunnar

Koss götunnar er skrifuð af Elínu Arnar. Þetta eru sögur þriggja fyrrverandi fíkla og móður eins þeirra. Neyslusaga þeirra er sem sagt rakin og leið þeirra til að losna við fíknina sem var í öllum tilfellum að taka trú.
Mjög áhugaverð bók og gefur líklegast raunsanna mynd af lífi þeirra sem eru í mikilli neyslu.

Davíð

Þetta er lífssaga Davíðs Oddssonar, skrifuð af Eiríki Jónssyni árið 1989 þegar Davíð var rúmlega fertugur. Mjög áhugaverð bók finnst mér. Fannst kaflinn um menntaskólaár Davíðs sérstaklega skemmtilegur. Þar kom m.a. fram að Davíð var kjörinn inspector í MR árið 1969 og breytti þá ýmsum stjórnarháttum í skólafélaginu t.d. sniðgekk hann þá sem höfðu verið kosnir með honum í stjórn og valdi sér ráðgjafa úr hópi „óbreyttra“ nemenda. Í ráðgjafahópnum voru m.a. Geir Haarde og Kjartan Gunnarsson. Áhugavert. Kom mér líka á óvart að Davíð útskrifaðist úr MR 22 ára gamall, vegna þess að hann féll á landsprófi og féll í 3. bekk Menntaskólans(1. ár).
Bókin er svo sem ekkert sérstaklega vel skrifuð og alltof mikið af löngum tilvitnunum. Bókin er hálfpartinn skrifuð í óþökk Davíðs og byggir ekki á viðtölum við hann heldur viðtölum úr fjölmiðlum og viðtölum við ættingja, samstarfsmenn og Ingibjörgu Sólrúnu 😉 Það var mikið vitnað í Ingibjörgu, þau virðast hafa verið svarnir óvinir strax þarna en það vissi ég ekki enda 6 ára þegar þessi bók er skrifuð.
Góð bók fyrir þá sem eru áhugasamir um Davíð en þetta er kannski ekkert sérlega áreiðanleg heimild.

Undir köldu tungli

Las bók um síðustu helgi sem heitir Undir köldu tungli og er skrifuð af Sigursteini Mássyni. Sigursteinn er þarna að skrifa sanna sögu Karólínu(dulnefni) sem ólst upp hjá móður sinni sem haldin var geðklofa og greinist svo síðar sjálf með annan geðsjúkdóm, geðhvörf. Þetta er allt saman mjög átakanlegt og lítið um ljósa punkta í lífi Karólínu.
Ágæt bók.

Bókanostalgía

Ég var að fínraða fræðibókum í barnadeildinni í vikunni og fékk heiftarlegt nostalgíukast, þarna var nefnilega að finna flestar þær bækur sem ég notaði í grunnskóla og slatta af bókum sem ég á sjálf. Ég eyddi heilmiklum tíma í þetta og skoðaði fullt af bókum vel og vandlega undir því yfirskini að ég væri að kynna mér efni safnsins…og auðvitað var ég að því.
Langaði bara að deila þessu með ykkur 🙂

Hver tók ostinn minn?

Ég var að klára bókina Hver tók ostinn minn? Það er áskorun að takast á við breytingar eftir Dr. Spencer Johnson.
Þetta er víst sjálfshjálparbók en hún er í aðeins öðrum stíl en þær sem ég hef verið að lesa áður. Þetta er sem sagt dæmisaga sem fjallar um tvær mýs, Þef og Þeyting, og tvo menn, Loka og Lása og leit þeirra að ostinum í lífinu. Boðskapurinn er í stuttu máli sá að við verðum að takast á við breytingar til að fá meira út úr lífinu, til að fá meiri ost.
Fín bók og fljótlesin. Ég nýtti tækifærið og notaði hraðlestaraðferðir á hana og var ekki nema hálftíma að lesa hana og það í vinnutímanum(Já, það er sko brjálað að gera!)