Jólin

Á mínu heimili eru jólin haldin hátíðleg á hverju ári, eins og kannski á flestum heimilum í landinu. Ég hugsa að við höldum jólin með svipuðum hætti og flestir aðrir þ.e. við tökum til í húsinu, skreytum, förum í fín föt, borðum góðan mat, gefum hvort öðru gjafir o.s.frv.
Jólin eru af flestum talin kristin hátíð og auðvitað er hún það að vissu leyti, en ég hef kristnina grunaða um að hafa stolið jólunum frá heiðnum sið. Eftirfarandi lýsingu á jólablóti er að finna á heimasíðu ásatrúarfélagsins www.asatru.is:

Hið annað er á jólum, við sólhvörf. Það er helgað næsta stigi sköpunarinnar, sköpun ljóssins og gangi himintungla og þar með tímanum. Jólablótið er helgað þeim guðum sem sólina skópu í árdaga. Jólin eru endurnýjunarhátíð sólarinnar, þá skulu allir hlutir vera sem nýir. Fyrir þetta blót skal þvo allt og hreinsa og lýsa upp öll salarkynni þannig að hvergi beri skugga á. Allir skulu eignast eitthvað nýtt og fá þess vegna gjafir á jólum. Í afkomendum er endurnýjun lífsins fólgin, þess vegna eru jólin sérstök hátíð barnanna. Á jólum er við hæfi að éta svínasteik og heiðra Gullinbursta gölt Freys.

Þessi lýsing minnir mig mjög á jólin heima hjá mér. Það er allt hreint og fínt. Pabba finnst mjög mikilvægt að það sé ljós í hverju herbergi. Allir fá gjafir. En reyndar borðum við yfirleitt rjúpur, en á mjög mörgum íslenskum heimilum er hamborgarhryggur ómissandi á aðfangadagskvöld og það er ekki ólíklegt að svínasteik verði einmitt á borðum hjá okkur vegna rjúpnaveiðibannsins.

Niðurstaðan er sú að eftir rúmlega 1000 ár af kristni halda Íslendingar enn sín heiðnu jól og ekkert nema gott um það að segja(nema hvað það er óþolandi þegar fólk er í Þjóðkirkjunni en er samt ekki trúað).
Gleðileg heiðin jól!

Mótmælandi Íslands

Við fórum í bíó í kvöld á Mótmælanda Íslands, heimildarmynd um Helga Hóseasson. Frábær mynd sem náði að koma út á mér tárum og fá mig til að hugsa svo margt að ég kem því ekki niður á skjá. Skrifa kannski e-ð um þetta seinna þegar það verður komið skipulag á hugsanirnar.

Leti

Óla finnst ég vera löt. Honum finnst ekki eðlilegt að sofa í 10 tíma og leggja sig svo eftir morgunmatinn. En þetta er auðvitað allt honum að kenna, hann var að kaupa sér nýja sæng og ég varð að prófa hana í morgun…og ég get svo sannarlega mælt með henni. Það liggur við að mig langi líka í svona sæng, en ég á samt þessa fínu sæng sem hefur þjónað mér síðan á 8 ára afmælisdaginn.

Jæja, best að fá sér hádegismat og leggja sig svo…

Ég er schnillingur

Ég svona líka brilleraði á þessu Aðferðafræðiprófi, fékk 7,7 sem mér finnst hreint kraftaverk miðað við undirbúning og drykkju kvöldið áður…en hvítvín gerir manni greinilega bara gott 😉 Svo er bara að fá hærra á næsta hlutaprófi og lokaprófinu…verð að muna að kaupa birgðir af hvítvíni fyrir það.

Endalaus hamingja

Jæja, nú eru öll verkefni búin í bili 🙂

Í gær fórum við í vísindaferð til Upplýsingar sem er félag bókasafns-og upplýsingafræða. Það var mjög gaman og fínar veitingar. Fyrst fengum við smá fyrirlestur um félagið og svo fengum við að ráðast á áfengið og snakkið og spjalla að vild. Menn höfðu greinilega um nóg að tala, því að þetta var eins í fuglabjargi. Eftir á fórum við svo nokkur á Kaffi París og fengum okkur að borða og héldum aðeins áfram að drekka.

Stjórnarliðið fór svo heim til Evu og Hildar og þar horfðum við á Ídol. Ég hefði ekki getað verið hamingjusamari með úrslitin í þessum þætti. Gamla Ídolið mitt, Kalli var nefnilega efstur og kemst þess vegna áfram í úrslit. Í öðru sæti var svo stelpa frá Akureyri sem syngur geðveikt vel, hún vann líka í Söngkeppni framhaldsskólanna núna í vetur.
En mikið vona ég heitt og innilega að Kalli verði Ídol Íslands, aðallega vegna þess að þá er gulltryggt að maður fái að heyra meira frá honum 🙂

Í dag er tiltekt á dagskrá, enda ekki verið tekið til á heimilinu í hátt í 3 vikur. Það gengur frekar hægt, er samt búin að smá. Svo er það badminton á eftir og svo kósýlegheit heima með Óla í kvöld. Það verður óskaplega ljúft að kúra sig uppí sofa og horfa á TV-ið alveg án samviskubits.

En ég vona að þið hafið það gott líka…góða helgi!

Verkefni nánast búið

Jæja, þá er verkefnið orðið rúm 2700 orð og 11 bls. Ég á samt eftir að lesa yfir og bæta smá við en ég ætla bara að fara að sofa núna og vakna svo „hress og kát“ í fyrramálið og klára þetta. Það er ákaflega notalegt að þetta sé að verða búið.
Svo kláruðum við næstum því verkefnið í Skjalstjórn áðan, eiginlega ekkert eftir þar nema lesa yfir og laga stafsetningar- og ásláttarvillur. Það er líka notalegt 🙂
Ég ætti þess vegna að geta notið helgarinnar alveg án samviskubits…jibbý!
Góða nótt 🙂

Serbian Flower

Hahaha, ég er að hlusta á Serbian Flower með Bubba. Það er ógeðslega fyndið…one little, one little, serbian flower…alls ekki pláss fyrir þetta „flower“ inní textann. Lögin eru svo sem jafngóð…en textarnir bara passa ekki inní. Mæli samt eindregið með þessari plötu, bara uppá spaugið.
Alltof erfitt að hlusta að þetta þegar maður er að reyna að hugsa um annað, best að setja íslenskan Bubba á fóninn.

Verkefni

Jæja, nú er verkefnið komið á níundu síðu og inniheldur 2050 orð. Líklegast verður þetta á endanum svona 12 síður með svona 2700 orðum. Ég er sem sagt búin að meta tíu síður sem fjalla á einhvern hátt um aldraða eða öldrun. Þá er bara eftir að meta síðurnar sem heild og meta þá tækni sem ég notaði til að meta síðurnar og svo skrifa inngang og lokaorð. Þetta lítur bara vel út og ég get auðveldlega klárað þetta fyrir hádegi á morgun þrátt fyrir að ég sé að fara að vinna hópverkefni í kvöld.

Ég er annars komin í rúmlega viku „frí“. Það er nebblega verkefnavika og þá þarf ég ekkert að mæta í tíma. Og það sem er ennþá betra, þegar ég er búin með þetta verkefni þá er enginn skiladagur á verkefni fyrr en 3. nóvember og það er meira að segja ekkert svo erfitt verkefni 🙂

Jæja…bezt að halda áfram.