Jólin

Á mínu heimili eru jólin haldin hátíðleg á hverju ári, eins og kannski á flestum heimilum í landinu. Ég hugsa að við höldum jólin með svipuðum hætti og flestir aðrir þ.e. við tökum til í húsinu, skreytum, förum í fín föt, borðum góðan mat, gefum hvort öðru gjafir o.s.frv.
Jólin eru af flestum talin kristin hátíð og auðvitað er hún það að vissu leyti, en ég hef kristnina grunaða um að hafa stolið jólunum frá heiðnum sið. Eftirfarandi lýsingu á jólablóti er að finna á heimasíðu ásatrúarfélagsins www.asatru.is:

Hið annað er á jólum, við sólhvörf. Það er helgað næsta stigi sköpunarinnar, sköpun ljóssins og gangi himintungla og þar með tímanum. Jólablótið er helgað þeim guðum sem sólina skópu í árdaga. Jólin eru endurnýjunarhátíð sólarinnar, þá skulu allir hlutir vera sem nýir. Fyrir þetta blót skal þvo allt og hreinsa og lýsa upp öll salarkynni þannig að hvergi beri skugga á. Allir skulu eignast eitthvað nýtt og fá þess vegna gjafir á jólum. Í afkomendum er endurnýjun lífsins fólgin, þess vegna eru jólin sérstök hátíð barnanna. Á jólum er við hæfi að éta svínasteik og heiðra Gullinbursta gölt Freys.

Þessi lýsing minnir mig mjög á jólin heima hjá mér. Það er allt hreint og fínt. Pabba finnst mjög mikilvægt að það sé ljós í hverju herbergi. Allir fá gjafir. En reyndar borðum við yfirleitt rjúpur, en á mjög mörgum íslenskum heimilum er hamborgarhryggur ómissandi á aðfangadagskvöld og það er ekki ólíklegt að svínasteik verði einmitt á borðum hjá okkur vegna rjúpnaveiðibannsins.

Niðurstaðan er sú að eftir rúmlega 1000 ár af kristni halda Íslendingar enn sín heiðnu jól og ekkert nema gott um það að segja(nema hvað það er óþolandi þegar fólk er í Þjóðkirkjunni en er samt ekki trúað).
Gleðileg heiðin jól!