Ólíkar skoðanir

Ég á stundum rosalega erfitt með að skilja fólk sem hefur aðrar skoðanir en ég eða fólk sem hugsar öðruvísi en ég eða gerir hlutina öðruvísi en ég. Þetta er vissulega galli á mér. Ég get samt alveg virt það að fólk sé öðruvísi en ég; hafi aðrar skoðanir, hugsi öðruvísi og geri hlutina á annan hátt, en ég en að ég geti skilið það er oft fjarri lagi. Ég á það sem sagt til að halda að mínar skoðanir, mínar hugsanir og mínar gerðir séu þær einu réttu og þess vegna á ég líka erfitt með að viðurkenna að ég hafi rangt fyrir mér og erfitt með að taka gagnrýni. En það er ekki þar með sagt að ég skipti ekki um skoðanir eða geri hlutina öðruvísi næst.
Bara smá pæling…

Týshelgi

Núna er Týshelgin gengin í garð. Við áttum von á því að fá Tý til landsins á svipuðum tíma í fyrra en þeir canceluðu þeirri ferð…en núna eru þeir semsagt komnir. Gleði, gleði. Við Óli ætlum að tvenna tónleika með þeim. Hérna í Reykjavík á Grandrokk í kvöld og á Selfossi annaðkvöld. Það verður fjör. Er samt ekki geðveikt vel stemmd í kvöld út af prófinu sem er á morgun…en ég læt það samt ekki eyðileggja þetta fyrir mér 🙂 En annaðkvöld verður eintóm gleði þegar við förum með Evu, Heiðu og Emmu á Selfoss.

Aðferðafræðitossi

Ég er aftur að fara illa undirbúin í Aðferðafræðipróf. Það er hálfglatað, talandi um að læra ekki af mistökum. Mér hefði ekkert veitt af því að fá skell í síðasta prófi…en ég bara rann ljúflega í gegnum prófið og fékk 7,7 sem er einkunn sem maður ætti að geta verið stoltur af. Er hálfpartin að vonast til að fá skell á morgun, svo að ég læri eins og brjálæðingur fyrir lokaprófið…ekki veitir af.
Fékk einu sinni skell í svona hlutaprófi í sálfræði, fékk 3,9 sem er lægsta einkunn sem ég hef fengið á prófi ever. Svo lærði ég eins og vitleysingur fyrir lokaprófið og fékk 9,8 á því…sem skilaði mér reyndar bara 8 í lokaeinkunn af því ég var búin að vera að tossast alla önnina.
Svo að tilfinningar mínar gagnvart prófinu eru blendnar, ég gæti verið heppin og það verði spurt mikið um það sem ég kann og fengið ágæta einkunn…en ég gæti líka verið óheppin og fengið mjög lélega einkunn. Þetta er reyndar bara 10% próf og ef ég fæ lélegri einkunn á þessu hlutaprófi en á lokaprófinu þá gildir bara lokaprófið. Svo að kannski ætti ég bara að vonast eftir sjokkerandi lélegri einkunn.
Blah…það verður allavega stuð þegar þetta verður búið.

Skólinn næstum búinn

Núna er farið styttast verulega í þessari önn, bara ein og hálf vika eftir af kennslu og drjúgur tími af þeim kennslustundum á eftir að fara í upprifjun fyrir próf. Núna er bara eftir eitt próf og eitt og hálft verkefni og þá verð ég komin í upplestrarfrí sem stendur í tvær vikur og svo eru 3 próf…og svo eru bara næstum komin jól. Mikið verður það nú ljúft 🙂

Mér er annars bara búið að ganga vel með þau verkefni sem ég er búin að fá til baka og mesta gleðin í þeim efnum er einkunn uppá 9.5 fyrir 40% ritgerð í 5 eininga kúrsi 🙂 Eintóm gleði yfir því, en er samt búin að fá fínar einkunnir fyrir hitt líka á bilinu 7-9,5 Ó mæ gad, æm so smart 🙂

Heiða í bakgarðinum

Mér finnst fyndið að hafa leikskóla í bakgarðinum. Mér finnst ennþá fyndnara að Heiða vinkona mín skuli vinna á leikskólanum í bakgarðinum. Núna er krakkarnir úti og Heiða líka og annar hver krakki virðist vera að öskra á Heiju eða Heiðu eftir því hversu langt þau eru komin í málþroska.
Yfirleitt er bara frekar kósý að hafa leikskóla í bakgarðinum, en það er stundum ótrúlegt hvað það er mikið energí í gangi þarna.

Túristi í eigin landi

Fórum í göngutúr áðan, það var mjög gaman. Röltum um Þingholtin og mér leið eins og ég væri í útlöndum, bara gapti og góndi og aaaaði og úúúaði því að það er svo mikið af flottum húsum þarna sem ég hef bara aldrei áður séð, eða allavega ekkert verið að horfa á. Mér fannst þetta allt saman mjög merkjó.

Svo fórum við niðrá á Laugarveg og kíktum í nokkrar búðir, en ég keypti mér ekki neitt, varð samt alveg veik í öllum bókabúðum því að ég sá svo margar bækur sem mig langar í. Óli keypti eina bók og eina möppu.

Sá svolítið skondið niðrá Lækjargötu, en þar er skilti á húsi sem á stendur Lækjargata og svo með litlum stöfum undir Heilagsandastræti(það er ekki neitt kort, þetta er prentað á skiltið), alltaf lærir maður eitthvað nýtt.

Þetta var sem sagt hinn besti göngutúr…alltaf gaman að vera túristi í eigin landi 🙂

Afmæli

Í dag hefði Sóley, tengdamamma mín, orðið 49 ára hefði hún lifað en hún dó fyrir rúmum 19 árum. Mér finnst hálfundarlegt að finna fyrir söknuði vegna manneskju sem ég þekkti aldrei, en þannig líður mér samt og mér finnst allt sem ég heyri um Sóleyju mjög áhugavert.
Í tilefni dagsins er kveikt á kertum við myndina af henni sem er í stofunni hjá okkur.

Dót

Mér finnst alveg merkilegt hvað maður sankar að sér miklu dóti og það er sama hvað maður á mikið dót, mann langar alltaf í meira og maður kaupir sér alltaf meira. En margt af þessu dótti gerir ekkert nema þvælast fyrir manni og stundum finnst mér þetta dót hálfþrúgandi, finnst ég vera að drukkna í dótinu mínu. En ég er vissulega mannleg og auðvitað þykir mér vænt um margt af þessu dóti og finnst ég varla geta komist af án þess OG mig langar alltaf í meira.
Dótið sem ég er að tala um er í raun allt draslið sem fylgir okkur t.d. búsáhöld, föt, snyrtidót, raftæki, húsgögn, bækur, geisladiskar, videospólur, skrautmunir og fleira og fleira.
Ég fæ reglulega löngun til að fara í gegnum allt dótið mitt og velta hverjum hlut fyrir mér og spyrja nokkura spurninga t.d. þarf ég á þessu að halda?, þykir mér væntum þetta? en það vex mér alltaf í augum, þó að ég fari reglulega í gegnum vissa hluti t.d. fataskápinn og smádraslskúffur. Núna er ég í svona kasti, langar mest að fara niðrí geymslu og HENDA!

Verkefni fæðist

Það er undursamlegt að vera viðstaddur fæðingu verkefnis. Sérstaklega þegar meðgangan hefur verið erfið og hríðirnar hafa staðið í nokkrar vikur. Núna er ég þreytt og sæl og ógurlega ánægð með afkvæmið. Svo verður afkvæmið metið og ég fæ það til baka með stimpli um gæði þess, hvort sem þau verða nú mikil eða lítil. Hvernig væri að koma upp svona kerfi með börn?

En nú er ég farin að sofa, þarf víst að vakna eftir tæpa 5 tíma.
Góða nótt…eða góðann daginn.

Að sinna skyldum

Jæja, þá er ég búin að sinna skyldum mínum sem tölvutengill Katalogosar, svona í bili. Var að uppfæra síðuna.
Næst á dagskrá er að er að sinna skyldum sem húsmóðir og káldreifari
Á morgun er á dagskrá að sinna skyldum sem námsmaður.