Hvað hef ég verið að lesa?

Það er langt síðan ég hef skrifað um bækur á þessari síðu. Hef líka verið að lesa afskaplega lítið í vetur.

Í haust las ég Bókasafnslögguna eftir Stephen King. Fannst að ég yrði nú eiginlega að lesa hana fyrst ég væri í þessu námi. Bókin var alveg ágæt en ekki jafn skelfileg og ég bjóst við. Þess má geta í leiðinni að þetta er fyrsta Stephen King bókin sem hef lesið.
Það er alltaf gaman að sjá hvaða mynd rithöfundar draga fram af bókavörðum/bókasafnsfræðingum og í Bókasafnslöggunni var það ekkert sérstaklega fögur mynd…en frk. Lortz var nú samt nokkuð kúl 🙂

Ég fékk tvær íslenskar harmævisögur í jólagjöf, sem sagt Lindu og Ruth. Mjög keimlíkar sögur, helsti munurinn sá að Ruth á börn en ekki Linda. Ég verð nú að viðurkenna að mér finnst gaman að lesa svona bækur en ég er alveg á þeirri skoðun að hvorug þessara bóka hefði samt átt að koma út núna, þær voru ekki tímabærar. Lok beggja bókanna er vorið 2002 og það er bara mjög stutt síðan, það er ekkert hægt að sjá neitt í skýru ljósi sem gerðist þá. Þær hefðu örugglega skrifað um þessa atburði á allt annan hátt eftir 10 ár. En alveg fínar bækur, mæli með þeim við þá sem hafa gaman af svona bókmenntum.

Eftir jólin las ég bók sem fékk í jólagjöf árið 1997, það var Óskaslóðin eftir Kristjón Kormák Guðjónsson. Ágæt bók sem fjallar um strák sem er í dópinu í Reykjavík. Fannst hálfskrýtið þegar ég las hana núna að ég hefði bara verið 14 ára þegar ég las hana fyrst.

Núna er ég að lesa Föruneyti hringsins eftir Tolkien, er enn sem komið er bara búin að lesa fyrsta kaflann en ég vona að ég endist í að klára hana og hinar 2 líka.

Nóg af bókum í bili…

Dr. Gunni stelur frá sjálfum sér

Við keyptum Stóra hvell með Dr. Gunna um daginn. Það voru góð kaup og er sá diskur mikil snilld, skemmtileg lög og margir textanna eru frábærir.

En ég er helst á því að Dr. Gunni hafi stolið af sjálfum sér því að lagið Á eyðieyju af Stóra hvelli er rosalega líkt laginu Sumarstúlkublús af Óttu með Unun. En það er svo sem í lagi því að bæði lögin eru skemmtileg 🙂

Það er annars hreint yndislegt hvað Dr. Gunni syngur illa…en það er bara alveg að virka 🙂

Mæli með því að allir stormi á geisladiskamarkaðinn í Blómaval og kaupi sér Stóra hvell með Dr. Gunna á 1499 kall

Afrek dagsins

Mikið er gott að vakna snemma um helgar. Vaknaði klukkan átta í morgun og var komin uppí Bókhlöðu klukkan níu. Þar sat ég í 2 tíma og lærði og las Íslenska málhreinsun. Fór svo heim og tók aðeins til.
Maður ætti miklu oftar að vakna snemma um helgar, það er e-ð notalegt við það og frábært að vera vel vakandi í hádeginu og hafa afrekað e-ð 🙂

Gettu Betur

Við höfum eytt kvöldinu í að hlusta á Gettu Betur(við ættum kannski ekkert að kaupa nýtt sjónvarp). Það er gaman. Ég er alltaf svo ánægð þegar ég næ að svara einhverju, sérstaklega ef ég næ að svara einhverju á undan Óla eða þegar hann veit ekki svarið. Yfirleitt er það vegna uppruna míns sem ég get svarað einhverju fram yfir Óla. Náði t.d. að svara spurningu um Stefán Stórval frá Möðrudal áðan 🙂 Á meðan Óli bara yppti öxlum.

Ég hef alltaf haft ákaflega gaman af Gettu Betur, þó að lengst framan af hafa litlu sem engu getað svarað(og ekki get ég svarað miklu í dag). Ég vakti eitt sinn ákafa hneykslan meðal vinkvenna minna þegar ég ákvað að sleppa diskóteki fyrir Gettu Betur 😉 Þegar ég var yngri fylgdist ég nú yfirleitt bara með keppninni í sjónvarpinu en í seinni tíð er ég orðin spennt fyrir útvarpskeppninni líka. Þetta árið spillir ekki fyrir að Stefán Pálsson er spurningahöfundur og dómari 🙂

Rútínuleysi og of mikill tími

Mér finnst það ansi hreint merkilegt en þessa dagana þrái ég ekkert heitar en að vera í vinnu eða skóla með skyldumætingu eða að hafa fasta íþróttatíma eða eitthvað álíka. Mig er farið að vanta einhverja svona fasta rútínu, vantar einhvern/eitthvað sem bíður eftir mér á ákveðnum stað á ákveðnum tíma. Kannski er það bara vegna þess að núna get ég nokkurnveginn ráðið tíma mínum sjálf…og þegar ég verð komin í rútínu þá fer ég að þrá frelsið. Rosalega er erfitt að sjá alltaf græna grasið hinu meginn.

Sé fram á það að þurfa að taka málið föstum tökum, búa mér til rútínu og koma reglu á líf mitt. Núna er ég t.d. farin að finna að líkami minn hrópar á hreyfingu en mikið hrikalega er nú erfitt að koma sér af stað. Eigum samt pantaðan badmintontíma á morgun svo að þetta er aðeins í áttina.

Hugsa að ástæðan fyrir litlu bloggi undanfarið sé hreinlega sú að ég hef haft of mikinn tíma til að blogga, þ.e. þegar maður hefur nóg af og alltof mikinn tíma þá kemur maður litlu sem engu í verk.

Óhappadagur

Í dag er óhappadagur. Óhappadagur sem kemur til með að koma við bankareikninga fátækra námsmanna.

Sjónvarpið okkar dó sem sagt í dag. Viðbrögð mín voru: „Vei, þá getum við farið að gera e-ð skemmtilegt“. Óla fannst þetta ekki alveg jafn sniðugt. Frá sjónvarpinu kemur hvorki mynd né hljóð og það var smá brunalykt af því svo að ég býst við að splunkunýtt sjónvarp verði niðurstaðan. Annars væri bráðskemmtilegt að stofna spilaklúbb í staðinn fyrir kvikmyndaklúbbinn 😉

Óhapp nr. 2 átti sér stað við IKEA. Þar á bílastæðinu nánast affelgaðist annað framdekkið og við(lesist Óli) þurftum að skipta um dekk í 3 skipti á 2 mánuðum. Þetta óhapp má væntanlega rekja til óvandaðra vinnubragða dekkjaverkstæðisins Sólning í Kópavogi. Og þá er bara spurningin hvort maður ætti að láta gera við blessað dekkið í 4 sinn(já, þetta er alltaf sama dekkið!) eða kaupa nýtt.

Bless í bili…

Gleðilegt ár :)

Hæhó!
Er ég hætt að blogga? Nei, greinilega ekki! Ég hef bara ekki verið að nenna þessu síðasta mánuðinn. Ég hef þó verið að sýsla ýmislegt og ber þar hæst jólaferð til Vopnafjarðar og Akureyrar. Það var óskaplega gaman og yndislegt og hefðbundið.

Núna er loksins búin að fá allar einkunnirnar mínar og þær voru allar á bilinu 7,5-8,5 sem er vel ásættanlegt. Verst þykir mér að Óli var með aðeins hærri einkunnir en ég í þremur fögum. Mér finnst það reyndar ekkert sérlega slæmt en það kom mér virkilega á óvart 🙂
Núna hef ég semsagt lokið 33 einingum og vegin meðaleinkunn er 8. Þetta þýðir að ég er orðin 1/3 bókasafns-og upplýsingafræðingur og í vor verð ég vonandi rúmlega hálfur bókasafns-og upplýsingafræðingur 🙂
Bjartsýnisáætlun Eyglóar hljóðar svo uppá BA í bókasafns-og upplýsingafræði fyrir 23 ára afmælisdaginn 🙂 Og það er hreint ekki svo langt í hann.
En núna er skólinn sem sagt byrjaður á fullu aftur og þetta legst bara vel í mig.

Ég fór í stórskemmtilega sumarbústaðaferð um síðustu helgi með vinum mínum úr bókasafnsfræði. Mjög góð afslöppun og mikið af skemmtilegheitum og góðum mat 🙂

Ég er að „deyja“ úr spenningi yfir árinu 2004. Stundum verð ég hreinlega andvaka yfir því hvað það er margt skemmtilegt framundan og skemmtunin er nú þegar byrjuð með þessari sumarbústaðaferð og svo er afmælispartý í kvöld 🙂 Gleði, gleði!

Jæja, læt þetta duga í bili.