Föstudagsskap II

Nú er aftur komin föstudagur. Og ég er komin í föstudagsskapið og núna get ég meira að segja leyft mérað njóta þess 🙂 Á eftir ætla ég í Kringluna að kaupa óþarfa og seinnipartinn í dag er vísindaferð. Jibbý föstudagar lengi lifi!

Föstudagsskap

Ég er í óþægilega miklu föstudagsskapi. Maður gæti haldið að nú væri einmitt tíminn til að vera í föstudagsskapi, en svo er ekki í mínu tilfelli. Ég sé nefnilega fram á föstudagskvöld með miklum aðferðafræði lærdómi og svo þarf ég að vakna klukkan átta í fyrramálið og fara í próf.

Helgin verður þó væntanlega alveg ágæt þrátt fyrir allt.

Páskaplan

Það er nánast orðið ákveðið að ég fer til Norðfjarðar um páskana. Jibbý! Ég hlakka mikið til, enda ekki farið þangað síðan í desember 2001 og þá stoppaði ég bara í einn dag. Markmiðið með ferðinni er fyrst og fremst að heimsækja afa en auðvitað líka að kíkja á aðra ættingja og fleira skemmtilegt.
Ætla svo að taka með mér lesefnið í Starfsemi og rekstri bókasafna og upplýsingamiðstöðva og reyna að vera dugleg að lesa inná milli skemmtiatriða.

Óspennandi blogg

Jæja, nú er það einn eitt hlutaprófið í aðferðafræði sem er á dagskrá…og ég auðvitað á síðustu stundu eins og venjulega…er reyndar kannski óvenju tímanlega í þetta skiptið, er byrjuð að læra núna og prófið er ekki fyrr en á laugardag.

Var annars aðeins að skoða bloggið…og vá hvað það er óspennandi!
Samkvæmt blogginu þá geri ég varla annað en að læra, taka til og vera veik. Svo kemur einstaka sinnum fyrir að ég skrifi um e-ð sem er í sjónvarpinu eða um tónlist. Það gerist líka æ sjaldnar að ég skrifi e-ð um vini eða vandamenn.

Ég vil bara láta ykkur vita að bloggið gefur ekki raunsanna mynd af lífi mínu! Ég lifi mjög skemmtilegu og innihaldsríku lífi. Ég bara virðist ekki hafa þörf fyrir að skrifa um það sem mér finnst skemmtilegast. Spurning hvort ég ætti að reyna að bæta úr því…?

Lifið heil!

Viðbjóðslegt verkefni

Ég er að vinna alveg viðbjóðslega leiðinlegt og tilgangslaust verkefni! Það fjallar um fullyrðingar og framkvæmdir í málfræði! Verkefnið felst í því að endursegja 3 bls úr kennslubókinni, hljómar einfalt…en er ekki einfalt. Urf!
Jæja, best að fara í Pollyönnu-leik og ímynda sér að þetta sé rosa skemmtilegt og eigi eftir að skipta sköpunum fyrir starfsframann.

Skjölin lifna við

Við Óli eyddum laugardeginum okkar á afskaplega heilbrigðan hátt. Við fórum á ráðstefnu sem haldin var á vegum Borgarskjalasafns, Sagnfræðingafélagsins og Sögufélagsins í tilefni af 50 ára afmæli Borgarskjalasafns. Þar voru fluttir sex fyrirlestrar, þar af einn sem fluttur var af besta og frægasta bloggara landsins. Fyrirlestrarnir voru svona misáhugaverðir en í heild var þetta mjög skemmtilegt. Salurinn var fullur af fólki í eldri kantinum, svo að við Óli drógum meðalaldurinn niður um þónokkuð mörg ár.

Jóhanna, aðdáandi minn nr. 1 (er það ekki annars? :)), var fundarstjóri. Hún var svo einstaklega heppinn að þurfa að reyna að hafa hemil á Pétri Péturssyni (fyrrverandi þuli) í fyrirspurnatímunum. Pétur var nefnilega ekkert að spyrja um neitt sérstakt heldur bara að miðla af viskubrunni sínum og hann gat haldið endalaust áfram. Kallinn er reyndar mjög skemmtilegur en þetta var kannski ekki alveg viðeigandi þarna.

Í hléinu var svo boðið uppá úrvals veitingar, tertur og smurt brauð. Ég fékk mér þrjár sneiðar af meiriháttar góðu brauði, það var smurt með sinnepi og áleggið var kjúklingabringa, beikon, laukur og baunaspírur…þvílíkt nammi! Og svo fékk ég mér eina sneið af tertu sem var líka mjög góð.

Sem sagt undarlegur en góður laugardagur. Kvöldinu verður svo eytt í Popppunktsgláp og lærdóm.

Framtíðarplön

Ég er alveg að missa mig yfir kennsluskránni! …af því að hún er svo spennandi. Ég er líka að vinna í því núna að ákveða hvernig ég á að klára þetta blessaða nám mitt…og ég sem er nýbyrjuð.

Núna er planið mitt sem sagt að taka bókasafns- og upplýsingafræði til 90 eininga en hafa inní því 15 einingar af annaðhvort þjóðfræði eða safnafræði. Ég bara veit ekki hvort það á að á að vera þjóðfræði eða safnafræði.
Ef ég tek þjóðfræði þá fer ég í Inngang að þjóðfræði, Efnismenning: hlutirnir, heimilið, líkaminn og Þjóðfræði samtímans: álfar, innflytjendur og hryðjuverkamenn. Ef ég tek safnafræði þá fer ég í Inngangur að miðlun, Fornleifavernd og Sagnfræði og söfn: heimildafræði og miðlun.

Ef ég verð súperdugleg þá get ég útskrifast í júní 2005 en raunhæft plan er október 2005. Já, ég er alltaf svo mikið að flýta mér…en það er alveg óvart.

Svo er ég komin með massívt plan um hvað ég ætla að gera eftir útskrift…eða ekki.

Jæja, er farin að sofa. Góða nótt!

Aloe Vera jógúrt

Smakkaði Aloe Vera jógúrt í dag og það var bara alveg ótrúlega gott. Keypti mér þess vegna eina flösku af svona drykkjarjógúrt. Vona að það fari ekki fyrir því eins og svo mörgu jógúrti sem ég hef keypt þ.e. að ég gleymi ekki að borða það og það skemmist í ísskápnum hjá mér.