Af hverju heldur þjóðfræðikennarinn minn að enginn sé úr sveit lengur?

Af hverju halda þjóðfræðingar að ungt háskólafólk geti ekki verið úr sveit?

Dæmi 1.
Í gær fór ég með þjóðfræðinni í heimsókn á Árnastofnun til að skoða hljóðsnældusafnið þar. Safnið er skráð í einhvern voða fínan gagnagrunn og okkur var kennt lauslega að leita í honum. M.a. er hægt að leita eftir fæðingarstað heimildarmanns. Konan (þjóðfræðingur) sem var að sýna okkur þetta spurði hvort það myndi ekki einhver eftir einhverjum sveitabæ…og bætti svo við jah, þið eruð náttúrlega ekki úr sveit, en kannski amma eða afi.

Dæmi 2.
Í tímanum í dag vorum við að ræða það hvort að gamla bændamenningin á Íslandi væri okkar eina sanna þjóðmenning. Það voru svona skiptar skoðanir á því en kennarinn var nú frekar á að svo væri ekki. Svo vorum við seinna í tímanum að tala um ættarmót. Þar taldi kennarinn að ættarmót hefðu byrjað um 1970-80 og það hefði verið vegna þess að menn hefðu almennt þekkt einhverja sem bjuggu í sveit, kannski ömmu og afa eða frænda en svo hefði fólkinu í sveitinni fækkað og menn hefðu gripið til þess ráðs að halda ættarmót til að halda í ræturnar. Kennarinn taldi að ættarmót væru á undanhaldi því að menn hefðu engar/litlar rætur í sveitinni lengur. Halló! Það býr ennþá fólk í sveit, meira að segja ungt fólk og þónokkuð margir…allavega sem búa úti á landi hefur tengsl við einhvern sveitabæ.

Þetta er eitthvað sem ég hef ekki rekist á áður. Fólk verður ekkert átakanlega hissa yfirleitt þegar ég segist vera úr sveit…gamalt fólk sperrist reyndar allt upp og finnst maður voða merkilegur. En ætli sumum þjóðfræðingum finnist nútímaþjóðfræði svo spennandi að gamla þjóðfræðin verður bara púkó og enginn er úr sveit lengur?