Bátaljós

Í dag fékk ég gíróseðill inn um lúguna sem höfðaði mjög sterkt til mín. Já, gíróseðill sem höfðaði til mín.

Framan á umslaginu er gluggi með nafninu mínu og heimilisfanginu, undir honum stendur Hristið umslagið! og til hliðar er mynd af björungarbát og fyrir ofan stendur Bátaljós. Merki slysavarnafélagsins Landsbjargar er svo við hliðina á því.

Ég hristi umslagið og það hringlar í því. Ég opna umslagið, forvitin að vita hvað sé í því. Það er rauður eldspýtustokur með björgunarbát framan á og á stendur Bátaljós.

Og svo er auðvitað gíróseðill þar sem fram kemur að þetta sé styrktarsöfnun fyrir björgunarbátum um allt land. Það eru 9 björgunarbátar til nú þegar en það vantar 5 í viðbót til að loka hringnum.

Af hverju höfðar þetta svona sterkt til mín? Í fyrsta lagi er eitthvað heillandi við þennan eldspýtustokk. Í öðru lagi er smá lesning um Landsbjörgu á gíróseðlinum og m.a. fjallað um unglingadeildirnar. Það rifjar upp allar þær góðu minningar sem ég á um það þegar ég var í unglingadeild björungarsveitarinnar. Og í þriðja lagi stendur á gíróseðlinum Bátaljós: Tendraðu ljós fyrir sjófarendur sem er eitthvað sem við höfum fjallað mjög mikið um í þjóðfræðinni undanfarið þ.e. þann sið að láta ljós loga í glugga þegar einhver nákominn er á sjó. Og ég gæti talið upp fleiri atriði og allt verður þetta til þess að mig langar virkilega að borga þennan gíróseðil.

Svo ég held að ég slái til og borgi gíróseðilinn. Fyrsti styrktargíróseðillinn sem ég borga, hinir hafa allir lent í ruslinu…

Kennaraverkfall

Deilendur í kennaradeilunni ætla ekki að hittast aftur fyrr en 4. nóvember! Það eru tvær vikur þangað til! Og þá verður verkfallið búið að standa einn og hálfan mánuð!

Mér finnst þetta fáránlegt. Kröfur kennara eru að ég held ekkert ósanngjarnar (svo er reyndar spurning hvort það eru sveitarfélögin eða ríkið sem eiga að brúa bilið) og það er „ólíðandi“ að 20% þjóðarinnar séu verklaus í svona langan tíma bara út af „nokkrum krónum“.

Náttúrugripasafn Íslands

Í dag fórum við í Safnafræðinni í heimsókn á Náttúrufræðistofnun Íslands. Það var mjög merkileg upplifun. Þar fengum við að sjá margt og mikið og ég lærði alveg heilmikið.

Það sem kom mér kannski mest á óvart er að þarna er lítið Náttúrugripasafn, það hafði ég aldrei nokkurntíma heyrt um. Kannski er ekkert skrýtið að ég hafi ekki heyrt um það því að safnið er frekar lítið og þarna hefur verið sama sýningin óbreytt frá árinu 1985, enda er það eins og að stíga til fortíðar að koma þarna inn. Sýningin er svo sem ekkert slæm en maður sér strax að þetta er gömul sýning t.d. vegna þess að munirnir (t.d. blóm) eru upplitaðir og það er mikill texti en ekkert á ensku eða öðrum tungumálum en íslensku. Ég dauðvorkenndi konunni sem var að vinna þarna því það virtist ekki vera mikið að gera, enda koma ekki nema um 5000 gestir á ári og þá eru skólahópar taldir með.
Þó að skólahópar komi þarna töluvert þá er engin safnkennsla því það er enginn aðstaða til þess. Það eru t.d. engir munir sem má handfjatla og enginn fyrirlestrarsalur eða kennslustofa.
Svo er þetta blessaða safn uppá 3. hæði í lyftulausu húsi, svo að það er nú ekki beinlínis gott aðgengi fyrir aldraða og fatlaða.
En samt var þetta fínt safn t.d. mikið safn að uppstoppuðum fuglum og fiskum. Þarna er geirfuglinn okkar en hann liggur reyndar undir skemmdum enda er hann í miklu ljósi og hita. Synd.

En það er margt fleira þarna en þetta blessaða safn. Þetta er rannsóknarstofnun sem geymir helling af náttúrumunum t.d. berg, steindir, steingervinga, skordýr, plöntur og fleira. Svo er þarna mikið og gott bókasafn á sviði náttúruvísinda 🙂 Að koma inná bókasafnið var reyndar eins og að koma inní torfbæ því það var svo gömul lykt þar.

Svo fengum við að fara í geymslu Náttúrufræðistofnunar. Það var magnað. Þar er enn meira af munum og gamla Náttúrugripasafnið en þar var t.d. að finna apa og páfagauka, uppstoppaða að sjálfsögðu. Þar var líka kort yfir komu ísbjarna til landsins, mjög áhugavert.

En það sem situr eftir eftir heimsóknina er: Hvers vegna í ósköpunum er ekki búið að koma upp Náttúrugripasafni Íslands með sómasamlegum hætti?!!! Það myndi gefa þjóðinni svo mikið! En Náttúrugripasafn Íslands hefur verið til á pappírum frá árinum 1889 og margoft hefur næstum því verið búa að koma því af stað
Þess má líka geta að ekki fást peningar til að varðveita þá muni sem eru til nú þegar með eðlilegum hætti. Þarna eru mikil verðmæti sem liggja undir skemmdum. Þetta er til skammar.

Veistu af þessu Sigríður Anna?

8108 orð

Fjúff, er að fara að skila verkefni sem er 8108 orð á 30 blaðsíðum. Og nei, þetta er ekki BA-ritgerðin mín. Þetta er viðtal í eigindlegum rannsóknaraðferðum. Einhver hluti af þessu eru aðdragandi viðtals, lýsing á umhverfi og fólki og hugleiðingar mínar um viðtalið og rannsóknina en langstærstur hluti er viðtalið sjálft.

Þetta er ógeðslega tímafrek vinna en sem betur fer frekar skemmtileg.

Og svo er bara að prenta…

Helgi langafi og huldufólk

Ég fór á Stofnun Árna Magnússonar í dag. Maður þarf að hringja dyrabjöllu til að komast þar inn, frekar skrýtið á opinberri stofnun. En mér var hleypt inn eftir að ég hafði borið upp erindið. Erindið var að fara á segulbandasafnið og hlusta á eina spólu. Ég er nefnilega að fara að gera útvarpsþátt sem er verkefni í þjóðfræði.

Ég fór semsagt og hlustaði á Helga Gíslason langafa minn segja sögur. Það var mjög skrýtin upplifun. Hann dó nokkrum árum áður en ég fæddist og ég veit ekkert mjög mikið um hann og hafði náttúrlega aldrei heyrt röddina hans. En þarna sat og ég hlustaði á hann segja sögur.
Karlinn var bara skemmtilegur og með ekta Hrappsstaðarödd og hann var meira að segja flámæltur.

Það sem ég hafði mestan áhuga á var um huldufólkstrú og það er líklegt að ég noti það í útvarpsþáttinn…svo að þið getið beðið spennt.