Helgi langafi og huldufólk

Ég fór á Stofnun Árna Magnússonar í dag. Maður þarf að hringja dyrabjöllu til að komast þar inn, frekar skrýtið á opinberri stofnun. En mér var hleypt inn eftir að ég hafði borið upp erindið. Erindið var að fara á segulbandasafnið og hlusta á eina spólu. Ég er nefnilega að fara að gera útvarpsþátt sem er verkefni í þjóðfræði.

Ég fór semsagt og hlustaði á Helga Gíslason langafa minn segja sögur. Það var mjög skrýtin upplifun. Hann dó nokkrum árum áður en ég fæddist og ég veit ekkert mjög mikið um hann og hafði náttúrlega aldrei heyrt röddina hans. En þarna sat og ég hlustaði á hann segja sögur.
Karlinn var bara skemmtilegur og með ekta Hrappsstaðarödd og hann var meira að segja flámæltur.

Það sem ég hafði mestan áhuga á var um huldufólkstrú og það er líklegt að ég noti það í útvarpsþáttinn…svo að þið getið beðið spennt.