Næring

Djöfull finnst mér alltaf undarleg umræðan um kolvetni. Ótrúlega margir að stæra sig af því að vera hættir að borða brauð eða segjast vera að reyna að hætta því. Í þessum pakka fylgir pasta, hrísgrjón og kartöflur oft með. Og svo eru aðrir sem hreinlega segjast reyna að sneiða hjá öllu kolvetni.
En hvers vegna í ósköpunum mælir þá Manneldisráð með því að kolvetni séu 55-60% af mataræðinu?

Málið er að til eru góð kolvetni, hlutlaus kolvetni og slæm kolvetni.
Slæma kolvetnið er t.d. matur sem inniheldur mikinn sykur t.d. gos, nammi og kökur. Og auðvitað eigum við að lágmarka neyslu okkar á þessum kolvetnum.
Hlutlausa kolvetnið er hið „baneitraða“ brauð, pasta, hrísgrjón og kartöflur þ.e. matur sem inniheldur mikla sterkju. Þetta er hlutlaust kolvetni vegna þess að í raun gerir það ekkert slæmt en það er tiltölulega laust við vítamín og steinefni og gerir okkur því ekki beinlínis gott.
Góðu kolvetnin eru svo t.d. gróft korn, grænmeti og ávextir. Þetta eru góð kolvetni vegna þess að þessi matvæli eru rík af næringarefnum og trefjum.

Og svo er nú annað…að jafnvel sama fólkið og er að sneiða hjá kolvetni er líka að sneiða hjá fitu. Fitan á að vera um 30% af mataræðinu samkvæmt Manneldisráði.

Og þá höfum við 10% eftir og það er fyrir blessuð próteinin og miðað við umræðuna í dag gæti maður haldið að best væri að lifa á skyri og próteindrykkjum. Og auðvitað er skyr gott í hófi.

Það sorglega við þetta er að próteinin er það sem Íslendingar þurfa síst að hafa áhyggjur af. Langflestir fá miklu meira en nóg af próteinum. Prótein er t.d. í mjólkurvörum og kjöti…sem að Íslendingar eru mjög svo hrifnir af.

Annars hef ég gert yndislega næringarfræðilega uppgötvun…og það er möndlur. Þær eru ríkar af góðum fitusýrum, E-vítamíni, fólasíni, járni og kalki. En þær eru jafnframt orkuríkar svo að maður er ekkert að úða þessu í sig en ég fæ mér alltaf nokkrar með morgunmatnum. Mér skilst að 9 möndlur fullnægji dagsþörfinni fyrir kalk sem er mjög gott fyrir mig því ég er svo léleg við að drekka mjólk.

Jæja, svo mæli ég með því að allir skelli sér í alvöru næringarfræði og hætti að hlusta á kjaftæðið sem dynur á okkur.