3 mánuðir

Mikið er langt síðan ég hef bloggað. Ekkert blogg í heila 3 mánuði. Þrír mánuðir er langur tími en samt finnst mér stutt síðan ég bloggaði síðast. Það gerist margt á 3 mánuðum…samt gerist svo lítið.

Hvað hef ég gert síðustu 3 mánuði?

Kannski ber hæst að ég keypti mér íbúð með honum Óla mínum. 1. ágúst byrjum við að borga af skuldahalanum en 15. ágúst fáum við íbúðina afhenta. Þetta er 3 herbergja íbúð, 90 fm, staðsett í Bökkunum í Neðra-Breiðholti. Við ætlum að mála hana gula. Mikið hlakka ég til!

Ég kláraði líka síðustu prófin mín í þessu lífi í vor…eða bara í þessu námi. Er sumsé búin með öll námskeið og þá er bara eftir að klára lokaverkefnið, sem ég er á ágætri leið með. Það er mjög indælt að þetta námstímabil sé að verða búið en samt á ég eftir að sakna þess að vera ekki í skóla. Í haust er fyrsta haustið síðan 1988 sem ég er ekki að fara í skóla. Wish me luck!

Svo fór ég austur á Vopnafjörð til mömmu og pabba í sauðburð og var þar í rúma viku. Það var auðvitað gaman eins og alltaf. Það er nauðsynlegt að sleppa bóndanum í sér lausum annað slagið.

Eftir sauðburðinn fór ég enn austar til afa á Norðfirði. Þar vann ég svolítið í lokaverkefninu mínu í nokkra daga og spjallaði heilmikið við afa.

í byrjun júní fór ég svo aftur til Reykjavíkur og byrjaði í sumarvinnunni minni á Foldasafni. Það er mjög indælt að vinna þar.

Ég er búin að fara í tvær grillveislur með H-lista fólki og var það hin besta skemmtun. Vona að þær verði fleiri áður en sumarið er á enda.

Ég er búin að fara á tvö ættarmót í sumar. Annað í Svarfaðardal í ætt Guðmars afa Óla. Hitt í Hofsárdal í ætt Ástu ömmu. Bæði ættarmótin voru vel lukkuð og skilst mér að ekki sé langt að bíða næstu ættarmóta í þessum fjölskyldum.

Um miðjan júlí voru mamma og Óla frænka hjá okkur og brölluðum við ýmislegt með þeim. Fórum í árlega Pizza Hut ferð í boði Einkaklúbbsins, út að borða á Ítalíu, fórum í Bláa lónið og síðast en ekki síst á bingó í Vinabæ! Geri aðrir betur! Og haldiði ekki að mamma hafi keypt sér „alvöru bíl“ í ferðinni…þannig að nú get ég loksins fengið lánaðan bíl þegar ég kem á Vopnafjörð 😉

Þetta er svona það helsta sem ég hef verið að brasa síðustu þrjá mánuði en auðvitað hef ég gert ýmislegt fleira…en það verður ekki tíundað hér.

Núna er ég á fullu að vinna í textanum í lokaverkefninu mínu, en ég á að skila uppkasti 8. ágúst svo nú er eins gott að standa sig.

(Þessi færsla er hreint ekkert tengd því að ég á að vera að læra!!!)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *