Svefn og matur

ummm, ég svaf út í morgun. Það var notalegt og nú er ég mun hressari en í gær. Hlakka til að geta sofið út aftur á morgun eða vaknað snemma og gert eitthvað gagnlegt og skemmtilegt.
Ég fór á Pizza Hut með Svenna og Hrönn eftir vinnu í gær. Það var gott. Fékk mér gott pasta með sveppum og skinku. Svo fórum við til Evu og horfðum á Idol. Mér fannst Aggi nú bara standa sig vel, það vantaði bara aðeins meiri kraft og innlifun. En drengurinn kann alveg að syngja.
Ætla að elda kjúkling í kvöld og svo vonandi gera eitthvað skemmtilegt.

Lista-Bakkalárus

Jæja, þá er útskriftin afstaðin. Ég er sumsé komin með Baccalaureus Artium gráðu í bókasafns- og upplýsingafræði. Eftir nokkra daga fæ ég svo leyfi frá Menntamálaráðuneytinu til að kalla mig bókasafns- og upplýsingafræðing (jibbý, enn eitt tilefni til að fagna). Útskriftardagurinn var góður. Athöfnin var hátíðleg, þó mér líði pínulítið eins og ég væri á færibandi. Veislan var fín, góð terta, fallegt freyðivín og skemmtilegt fólk. Takk allir sem glöddu mig á útskriftardaginn með heimsóknum, gjöfum og kveðjum 🙂

En núna er það bara „grár“ hversdagsleiki sem er tekinn við. Er þessa dagana aðallega að henda bókum í vinnunni, það er gott djobb (nú sýpur Óla frænka hveljur(hvað sem það nú þýðir)).

Jæja, best að fara að koma sér heim að skúra…haha!
Ykkar einlæg,
Eygló

Einkunn komin í hús

Jæja, kannski kominn tími á að ljóstra upp einkunninni góðu fyrir almenningi 🙂 Þó að Olla sé eiginlega búin að því 😉 Ég fékk semsagt að vita á föstudaginn hvað ég hefði fengið fyrir BA verkefnið mitt. Ég fékk 9 og er ljómandi kát með það. Á tímabili var ég jafnvel hoppandi kát með það í orðsins fyllstu. Samkvæmt mínum útreikningum er meðaleinkunnin mín þá 8,17 sem þýðir að ég er með fyrstu einkunn (7,25-8,99) svo að ég er ljómandi kát með það líka.
Eftir 11 daga er svo útskrift. Kannski komin tími á að ákveða hvað ég ætla að gera í tilefni þess og jafnvel bjóða fólki. Og jafnvel komin tími á að kaupa útskriftarföt. Ég fór allavega í útskriftarklippinguna í morgun og núna er ég algjör krulla.

Túnfisksalat og Kjarnafæði

Nýjasta æðið mitt er túnfisksalat. Er búin að borða OF mikið af því síðustu daga. Ég er búin að prófa nokkrar tegundir. Sú sem ég prófaði í dag var frá Kjarnafæði. Það er alveg merkilegt hvað því fyrirtæki tekst að búa til vondan mat og alveg merkilegt að maður skuli láta sér detta í hug að kaupa eitthvað frá þeim. Held að héðan í frá verði Kjarnafæði á bannlista. Vona að mamma læri þetta einhverntíma líka 😉

Fingurskorin útskriftarstelpa

Ég er alveg að missa mig. Ég hlakka svo til/kvíði svo fyrir að fá einkunnina fyrir BA-verkefnið mitt. Kíki oft á dag inná Ugluna til að athuga hvort eitthvað sé komið. Get samt ekkert verið pirruð yfir seinagangi, það er nú bara ein og hálf vika síðan ég skilaði. En þetta verður vonandi komið á hreint fyrir lok næstu viku. Ég verð líka að fara að ákveða hvað ég ætla að gera í tilefni útskriftarinnar. Fór í Smáralind á sunnudaginn með Heiðu en keypti auðvitað allt annað en útskriftarföt og inniskó sem er það sem mig vantar. Fann reyndar geggjað pils en það var pínu dýrt og ég veit ekki hverju ég ætti að vera í við það. Það stefnir því allt í fleiri verlsunarferðir á næstunni. Afrakstur ferðinnar á sunnudaginn voru þó langþráð úlpa, græn peysa, brúnt leðurbelti og Henson galli.

Ég missti mig annars í alvöru í gærkvöldi. Var að laga til í eldhúsinu, að þurrka af eldavélarhellulokum og SKAR mig! Og það kom BLÓÐ! Viðbrögð mín voru sæmandi 5 ára barni. Ég öskraði á Óla og fór að hágráta. Hann hélt helst að ég hefði tábrotnað, þvílík voru hljóðin. Þegar Óli var búin að ná í plástur og hugga litlu stelpuna sína fékk hann að hreinsa upp blóðsletturnar. Ótrúlegt hvað getur blætt úr einum litlum fingri. Ég veit ekki hvað er langt síðan að ég hef meitt mig þannig að blæddi. Stefni að „karlmannlegri“ viðbrögðum næst.
Núna er ég með sáran plástursputta og beiti þess vegna undarlegri fingrasetningu á lyklaborðið.