Fingurskorin útskriftarstelpa

Ég er alveg að missa mig. Ég hlakka svo til/kvíði svo fyrir að fá einkunnina fyrir BA-verkefnið mitt. Kíki oft á dag inná Ugluna til að athuga hvort eitthvað sé komið. Get samt ekkert verið pirruð yfir seinagangi, það er nú bara ein og hálf vika síðan ég skilaði. En þetta verður vonandi komið á hreint fyrir lok næstu viku. Ég verð líka að fara að ákveða hvað ég ætla að gera í tilefni útskriftarinnar. Fór í Smáralind á sunnudaginn með Heiðu en keypti auðvitað allt annað en útskriftarföt og inniskó sem er það sem mig vantar. Fann reyndar geggjað pils en það var pínu dýrt og ég veit ekki hverju ég ætti að vera í við það. Það stefnir því allt í fleiri verlsunarferðir á næstunni. Afrakstur ferðinnar á sunnudaginn voru þó langþráð úlpa, græn peysa, brúnt leðurbelti og Henson galli.

Ég missti mig annars í alvöru í gærkvöldi. Var að laga til í eldhúsinu, að þurrka af eldavélarhellulokum og SKAR mig! Og það kom BLÓÐ! Viðbrögð mín voru sæmandi 5 ára barni. Ég öskraði á Óla og fór að hágráta. Hann hélt helst að ég hefði tábrotnað, þvílík voru hljóðin. Þegar Óli var búin að ná í plástur og hugga litlu stelpuna sína fékk hann að hreinsa upp blóðsletturnar. Ótrúlegt hvað getur blætt úr einum litlum fingri. Ég veit ekki hvað er langt síðan að ég hef meitt mig þannig að blæddi. Stefni að „karlmannlegri“ viðbrögðum næst.
Núna er ég með sáran plástursputta og beiti þess vegna undarlegri fingrasetningu á lyklaborðið.