Snjór, vinna, jóga (oh no, not again), þrif og Gettu Betur

Í dag tók ég strætó fjórum sinnum og labbaði heilmikið í snjónum. Mig grunar að skórnir mínir fari ekki vel út úr því. Mér finnst eitthvað indælt við snjóinn, finnst næstum notalegt að verða blaut í fæturna og verða svo kalt á lærunum að það svíður. Finnst æði að ganga úti í hríðinni. Elska að sitja í strætó með eplarauðar kinnar og hlusta á Immigrant song.

Fór á fund í morgun (stundum er ekki vinnufriður fyrir fundum og námskeiðum (já, ok það var þess vegna sem ég fór í háskóla)). Henti svo nokkrum bókum eftir hádegið. Það er gaman…í hófi.

Fór í jóga og bíð spennt eftir morgundeginum, þ.e. bíð spennt eftir því hvort ég fæ harðsperrur.

Horfði á Allt í drasli þegar ég kom heim. Varð svo uppnumin að ég fór beint að þrífa baðherbergið eftir það (ekki að baðherbergið hafi verið allt í drasli, ég er ekki algjör sóði þó ég vaski sjaldan upp). Hlustaði á Gettu Betur meðfram þrifunum (í nýja eldhúsútvarpinu sem er svo fjölhæft að það gengur líka sem baðherbergisútvarp) og var ekkert sérstaklega hrifin. Semsagt ekkert mjög hrifin af Sigmari sem spyrli. Hann var svolítið stífur og alls enginn Logi (enda var svosem ekki við því að búast). En ég ætla að gefa honum sjens. Spurningarnar voru ágætar, ég gat svarað sumum.