Saga Vopnafjarðar?

Jæja, fyrst maður er farin að tjá sig um Vopnafjörð þá er best að halda áfram.
Það hefur voðalega lítið verið skrifað um Vopnafjörð. Ég íhugaði það einu sinni að gera skrá yfir efni sem skrifað hefði verið um Vopnafjörð sem verkefni í bókasafns- og upplýsingafræðinni en hætti við vegna hráefnisskorts. Þegar ég fór að skoða málið sá ég að mjög lítið hefur verið skrifað um Vopnafjörð. Það helsta sem ég rakst á voru greinar úr Múlaþingi, viðtöl og greinar úr bókum eins og Aldnir hafa orðið og Bóndi er bústólpi og örfáar nýlegar greinar um sveitastjórnarmál. Svo hefur verið skrifuð saga Búnaðarfélags Vopnafjarðar.
Vopnafjörð vantar Smára Geirs og Hjörleif Guttorms. Þetta segi ég vegna þess að þegar ég hef leitað eftir efni um Norðfjörð þá er úr nógu að moða, margar bækur og greinar verið skrifaðar um sögu og náttúru Norðfjarðar.
Nú á Vopnafjörður sér mjög merkilega sögu, bæði í fortíð og nútíð. Vopnafjörður státar líka af mikilli og fjölbreyttri náttúru. Okkur vantar bara einhverja (fleiri) sem eru tilbúnir til að skrifa, rannsaka, taka myndir og gefa út bækur og birta greinar.
Ég tel að sveitarfélagið ætti að beita sér fyrir því að Saga Vopnafjarðar verði skrifuð og hvetja fólk til að skrifa um Vopnafjörð og Vopnfirðinga. Ég vildi líka gjarnan sjá ljósmyndabók um Vopnafjörð (eftir Jón Sig. og Bjarka?), sú yrði flott! 🙂
Sveitarfélagið Austurbyggð hefur í samvinnu við Landsbankann stofnað rannsóknarsjóð sem hefur það að markmiði að efla samstarf Austurbyggðar við hinar ýmsu háskólastofnanir landsins og með því koma sveitarfélaginu Austurbyggð á markvissan hátt inn í íslenskt rannsóknarsamfélag og að hvetja háskólafólk til að vinna lokaverkefni sín í og um Austurbyggð. Mér þætti áhugavert að sjá Vopnafjarðarhrepp gera eitthvað svipað sem tilraun til að efla rannsóknir og skrif um Vopnafjörð.

Varðveitum Vopnafjörð í máli og myndum!

*Báðum framboðum er frjálst að „stela“ þessari hugmynd 🙂

Pennavinir, Lítil prinsessa og sauðburður

Jæja, næsta skref í barndómi var að lesa gömul bréf frá pennavinum. Það rifjaði ýmislegt upp. Væri gaman að hafa uppá einhverju af þessu liði. Hef reyndar nú þegar þefað uppi nokkrar bloggsíður. Væri líka áhugavert að fá að skoða bréfin sem ég skrifaði en sennilega bara meira vandræðalegt en áhugavert samt.

Svo færist ég hægt og rólega upp í bókmenntunum. Er orðin 10 ára á þeim vígstöðum. Er að lesa bókina Lítil prinsessa sem ég fékk í afmælisgjöf þegar ég var 10 ára. Man þegar ég las hana fyrst þá var ég sífellt og endalaust að hlaupa yfir í herbergi til mömmu og pabba til að spyrja hvernig hitt og þetta væri borið fram. Erlendu nöfnin fengu nefnilega að halda sér í þýðingunni. Mjög skemmtilegt fyrir þau örugglega!

Sauðburðurinn gengur ágætlega miðað við veður. Ömurlegt náttúrlega að þurfa að hafa allt inni en það hefst einhvernveginn.

Sveitastjórnarmál

Þegar ég er ekki fjárhúsunum eða að lesa gamlar barnabækur er ég að spá í sveitastjórnarmálin. Ég er miklu spenntari yfir kosningunum á Vopnafirði en í Reykjavík. Ligg yfir heimasíðum listanna og spái í málin. Er alveg á því að breytinga sé þörf á litla Vopnafirði (er reyndar almennt á því að breytingar í pólitík séu af hinu góða). Þó svo að margt gott hafi verið gert þá þarf að gera svo miklu meira til að Vopnafjörður nái að dafna.
Hef svolítið verið að hugsa aftur til ársins 1999 þegar ég flutti héðan til að fara í skóla. Síðan þá hefur fækkað um ca. 60 á Vopnafirði. Ýmis fyrirtæki (t.d. Landsbankinn og Pósturinn) hafa minnkað opnunartíma sinn og önnur hreinlega farið á hausinn eða verið lögð niður (t.d. Kaupfélagið og Mjólkursamlagið) og nú skylst mér að standi til að loka sjoppunni. Þetta gerir það að verkum að störfum fækkar og atvinnulífið verður fábreyttara. Á Vopnafirði munar um hvert starf. Stór hluti Vopnfirðinga vinnur hlutastörf og flestir láglaunastörf sem síðan veldur því að minna kemur inn í sameiginlega sjóðinn. Ef maður vogar sér svo að hugsa til ársins 1996 þá hefur íbúum fækkað um 150 síðan þá og atvinnulífið bara verið á niðurleið. Nú eru íbúar Vopnafjarðar 725 samkvæmt Hagstofunni, af þeirri tölu eru væntanlega nokkrir tugir sem hafa ekki fasta búsetu á Vopnafirði þ.e. skólafólk og aðrir sem eru aðeins á Vopnafirði á sumrum og/eða í fríum (ég „bjó“ t.d. á Vopnafirði til 2003).
Það sem mér finnst verst er að ungt fólk frá Vopnafirði sem er að mennta sig eða er búið að því er ekkert á leiðinni til baka. Ástæðan er einföld, atvinna við hæfi liggur ekki á lausu. Nú skylst mér reyndar að það sé að losna staða bókasafnsfræðings á Vopnafirði en mér skylst líka að það sé aðeins 50% staða, það er bara ekki nóg fyrir 2 bókasafnsfræðinga 😉
Ég held allavega að báðir listarnir verði að setja atvinnumál á oddinn. Vopnafjörður hefur góðan leikskóla og grunnskóla en það er ekki nóg (tala nú ekki um ef maður á ekki einu sinni börn). Vopnafjörður hefur góða heilsugæslu (held ég) og gott elliheimili. Vopnafjörður er dásamlega fallegur (þó ég segi sjálf frá) og hefur óteljandi möguleika til útivistar (sem við ættum að reyna að selja ferðamönnum betur). Vopnafjörður hefur mikla og merkilega sögu (sem við gætum gert meira úr, bæði fyrir okkur sjálf og ferðamenn).
En þjónusta, náttúra og saga gera lítið ef engin er atvinnan. Ég vil sjá Vopnafjörð sem raunhæfan búsetukost fyrir „krakkana“ sem álpuðust til að fara í skóla.

Í sveitinni

Þá er ég komin í sveitina. Flaug hingað á föstudaginn í ágætis flugveðri. Þegar ég lenti á Vopnafirði brá mér samt pínu, það var allt á kafi í snjó! Það er búinn að vera skítakuldi og snjókoma alla helgina og mér skilst að það sé síst að batna. Ekki alveg nógu hagstætt að þurfa að hafa allt féð inni með lömbin í marga daga og jafnvel vikur. En það er samt alltaf gaman að sauðburði.

Ég geng alltaf í barndóm þegar ég kem í sveitina. Um þessar mundir er ég 4 ára ef marka má bókaúrvalið á náttborðinu; Pönnukökutertan, Margrét litla er lasin, Við sem vinnum verkin og Smjattpattarnir fara á ströndina og halda veislu. Dró fram nokkrar vel valdar barnabækur úr hillunni og allar hafði ég fengið að gjöf þegar ég var 4 ára (allar vandlega merktar með nafninu mínu, þeim sem gaf, tilefninu og árinu), nema Smjattpattana þá átti Svenni bró. Yndislegt að lesa þessar bækur aftur.

Ferðasagan…

Við fórum til Skotlands í apríl. Það var gaman. Mig langar helst til að fara þangað strax aftur og það er a.m.k. ákveðið að ég fer þangað aftur í náinni framtíð.

Við byrjuðum í Glasgow. Glasgow var fín. Versluðum svolítið þar eða vorum allavega mikið í búðum. Hápuntkur Glasgow var Necropolis sem er einhverskonar kirkjugarður. Ef þið farið til Glasgow er skylda að skoða þetta. Það var magnað að ganga þarna um, endalausir legsteinar og minnisvarðar. Áhugavert samt að við hliðina á þessum flotta garði var risaverksmiðja! Rétt hjá Necropolis er líka risastór miðaldakirkja sem við skoðuðum, hún er flottari að utan en innan. Við röltum líka um Glasgow Green og skoðuðum Peoples Palace. Það var alveg ágætt.

Ennnn svo fórum við til Edinborgar og þar vildi ég helst búa. Ég get ekki alveg líst tilfinningum mínum til Edinborgar. Ég get allavega sagt að þær eru sterkar. Við gengum á hótelið frá lestarstöðinni, langa leið þegar maður er með tösku á bakinu og tösku í eftirdragi. En það var samt gaman að sjá svona mikið af Edinborg strax. Það var magnað að sjá kastalann. Við skoðuðum hann að innan annan daginn okkar í Edinborg en þann dag var líka besta veðrið sem við fengum í ferðinni. Það sem mér fannst mest heillandi var útsýnið, hefði alveg verið til í að vera þar heilan dag og horfa útí loftið. En það var líka gaman að skoða söfnin þarna. Við fengum leiðsögn um kastalann og það var mjög skemmtilegt enda góður guide með skoskan hreim.
Þegar við vorum komin með nóg af kastalanum ákváðum við að fara niðrá Princes Street og kíkja aðeins í búðir. Svo fórum við á Calton hill, þar lágum við í grasinu í góða verðinu í dágóða stund og nutum útsýnisins og skoðuðum svo National Monument. Fórum svo að hugsa okkur aftur til hreyfings og mér datt í hug að við gætum kannski farið á Arthurs Seat sem er hæsti tindurinn (251 m) í Edinborg. Og við örkuðum aftur af stað og gengum og gengum. Byrjuðum á því að misskilja aðeins hvar tindurinn væri og vorum því nánast búin að ganga um allan Holyrood Park sem er meiriháttar útivistarsvæði (mæli með því!). Á endanum fundum við tindinn en þá vorum við orðin ansi þreytt, enda þá búin að vera á ferðinni í rúma 10 tíma fótgangandi þann daginn. En það var yndislegt útsýni á tindinum. Við fórum semsagt á þessar þrjár aðalhæðir Edinborgar sama daginn. Góður dagur 🙂
Daginn eftir fórum við í dýragarðinn og auðvitað gengum við þangað þó það væri töluvert langt frá miðbænum (45 mín. ganga). Áhugaverðastir voru simpansanir, þeir eru svo mannlegir 🙂 Svo voru mörgæsirnar líka æði en garðurinn er frægastur fyrir mörgæsirnar. Það var líka gaman að sjá kameldýrin, skjaldbökurnar og apakettina.
Fjórði dagurinn í Edinborg fór í búðarráp bæði á Princes Street og á Leith Walk. Leith var svolítið spes, allt öðru vísi búðir en á Princes Street, mikið af secondhand og indverskum búðum. Svo var þar líka búðin sem seldi drusluföt og ömmuföt hlið við hlið og ekkert þar á milli. G-strengur og ömmubrók hlið við hlið. Efnislítill hlýrabolur og risaömmubolur hlið við hlið. Mig langaði mest til að taka myndir en stillti mig. Svo var það nördinn sem hafði látið drauminn um stjörnufræðibúðina rætast. En flestar búðirnar á Leith Walk áttu það sammerkt að þar var vibbafúkkalykt. Á Princes Street eru hins vegar allar þessar „venjulegu búðir, Next, H&M, Virgin megastore og fleiri.

Síðasta daginn okkar í Skotlandi fórum við í túristarútuferð þar sem hápunkturinn var sigling á Loch Ness. Vorum með fínan guide sem gerði grín að Íslendingum með tómar ferðatöskur í nóvember. Við sáum stóran hluta Skotlands þennan dag en mest bara í gegnum rúðuna. Þessi ferð kveikti í mér enn frekari löngun til að koma aftur til Skotlands og þvælast þar um.

Þetta var nú bara stórstikl, gerðum fullt fleira en nenni ekki að fara út í smáatriði, þau er að finna á blogginu hjá Óla.