Ferðasagan…

Við fórum til Skotlands í apríl. Það var gaman. Mig langar helst til að fara þangað strax aftur og það er a.m.k. ákveðið að ég fer þangað aftur í náinni framtíð.

Við byrjuðum í Glasgow. Glasgow var fín. Versluðum svolítið þar eða vorum allavega mikið í búðum. Hápuntkur Glasgow var Necropolis sem er einhverskonar kirkjugarður. Ef þið farið til Glasgow er skylda að skoða þetta. Það var magnað að ganga þarna um, endalausir legsteinar og minnisvarðar. Áhugavert samt að við hliðina á þessum flotta garði var risaverksmiðja! Rétt hjá Necropolis er líka risastór miðaldakirkja sem við skoðuðum, hún er flottari að utan en innan. Við röltum líka um Glasgow Green og skoðuðum Peoples Palace. Það var alveg ágætt.

Ennnn svo fórum við til Edinborgar og þar vildi ég helst búa. Ég get ekki alveg líst tilfinningum mínum til Edinborgar. Ég get allavega sagt að þær eru sterkar. Við gengum á hótelið frá lestarstöðinni, langa leið þegar maður er með tösku á bakinu og tösku í eftirdragi. En það var samt gaman að sjá svona mikið af Edinborg strax. Það var magnað að sjá kastalann. Við skoðuðum hann að innan annan daginn okkar í Edinborg en þann dag var líka besta veðrið sem við fengum í ferðinni. Það sem mér fannst mest heillandi var útsýnið, hefði alveg verið til í að vera þar heilan dag og horfa útí loftið. En það var líka gaman að skoða söfnin þarna. Við fengum leiðsögn um kastalann og það var mjög skemmtilegt enda góður guide með skoskan hreim.
Þegar við vorum komin með nóg af kastalanum ákváðum við að fara niðrá Princes Street og kíkja aðeins í búðir. Svo fórum við á Calton hill, þar lágum við í grasinu í góða verðinu í dágóða stund og nutum útsýnisins og skoðuðum svo National Monument. Fórum svo að hugsa okkur aftur til hreyfings og mér datt í hug að við gætum kannski farið á Arthurs Seat sem er hæsti tindurinn (251 m) í Edinborg. Og við örkuðum aftur af stað og gengum og gengum. Byrjuðum á því að misskilja aðeins hvar tindurinn væri og vorum því nánast búin að ganga um allan Holyrood Park sem er meiriháttar útivistarsvæði (mæli með því!). Á endanum fundum við tindinn en þá vorum við orðin ansi þreytt, enda þá búin að vera á ferðinni í rúma 10 tíma fótgangandi þann daginn. En það var yndislegt útsýni á tindinum. Við fórum semsagt á þessar þrjár aðalhæðir Edinborgar sama daginn. Góður dagur 🙂
Daginn eftir fórum við í dýragarðinn og auðvitað gengum við þangað þó það væri töluvert langt frá miðbænum (45 mín. ganga). Áhugaverðastir voru simpansanir, þeir eru svo mannlegir 🙂 Svo voru mörgæsirnar líka æði en garðurinn er frægastur fyrir mörgæsirnar. Það var líka gaman að sjá kameldýrin, skjaldbökurnar og apakettina.
Fjórði dagurinn í Edinborg fór í búðarráp bæði á Princes Street og á Leith Walk. Leith var svolítið spes, allt öðru vísi búðir en á Princes Street, mikið af secondhand og indverskum búðum. Svo var þar líka búðin sem seldi drusluföt og ömmuföt hlið við hlið og ekkert þar á milli. G-strengur og ömmubrók hlið við hlið. Efnislítill hlýrabolur og risaömmubolur hlið við hlið. Mig langaði mest til að taka myndir en stillti mig. Svo var það nördinn sem hafði látið drauminn um stjörnufræðibúðina rætast. En flestar búðirnar á Leith Walk áttu það sammerkt að þar var vibbafúkkalykt. Á Princes Street eru hins vegar allar þessar „venjulegu búðir, Next, H&M, Virgin megastore og fleiri.

Síðasta daginn okkar í Skotlandi fórum við í túristarútuferð þar sem hápunkturinn var sigling á Loch Ness. Vorum með fínan guide sem gerði grín að Íslendingum með tómar ferðatöskur í nóvember. Við sáum stóran hluta Skotlands þennan dag en mest bara í gegnum rúðuna. Þessi ferð kveikti í mér enn frekari löngun til að koma aftur til Skotlands og þvælast þar um.

Þetta var nú bara stórstikl, gerðum fullt fleira en nenni ekki að fara út í smáatriði, þau er að finna á blogginu hjá Óla.