Sveitastjórnarmál

Þegar ég er ekki fjárhúsunum eða að lesa gamlar barnabækur er ég að spá í sveitastjórnarmálin. Ég er miklu spenntari yfir kosningunum á Vopnafirði en í Reykjavík. Ligg yfir heimasíðum listanna og spái í málin. Er alveg á því að breytinga sé þörf á litla Vopnafirði (er reyndar almennt á því að breytingar í pólitík séu af hinu góða). Þó svo að margt gott hafi verið gert þá þarf að gera svo miklu meira til að Vopnafjörður nái að dafna.
Hef svolítið verið að hugsa aftur til ársins 1999 þegar ég flutti héðan til að fara í skóla. Síðan þá hefur fækkað um ca. 60 á Vopnafirði. Ýmis fyrirtæki (t.d. Landsbankinn og Pósturinn) hafa minnkað opnunartíma sinn og önnur hreinlega farið á hausinn eða verið lögð niður (t.d. Kaupfélagið og Mjólkursamlagið) og nú skylst mér að standi til að loka sjoppunni. Þetta gerir það að verkum að störfum fækkar og atvinnulífið verður fábreyttara. Á Vopnafirði munar um hvert starf. Stór hluti Vopnfirðinga vinnur hlutastörf og flestir láglaunastörf sem síðan veldur því að minna kemur inn í sameiginlega sjóðinn. Ef maður vogar sér svo að hugsa til ársins 1996 þá hefur íbúum fækkað um 150 síðan þá og atvinnulífið bara verið á niðurleið. Nú eru íbúar Vopnafjarðar 725 samkvæmt Hagstofunni, af þeirri tölu eru væntanlega nokkrir tugir sem hafa ekki fasta búsetu á Vopnafirði þ.e. skólafólk og aðrir sem eru aðeins á Vopnafirði á sumrum og/eða í fríum (ég „bjó“ t.d. á Vopnafirði til 2003).
Það sem mér finnst verst er að ungt fólk frá Vopnafirði sem er að mennta sig eða er búið að því er ekkert á leiðinni til baka. Ástæðan er einföld, atvinna við hæfi liggur ekki á lausu. Nú skylst mér reyndar að það sé að losna staða bókasafnsfræðings á Vopnafirði en mér skylst líka að það sé aðeins 50% staða, það er bara ekki nóg fyrir 2 bókasafnsfræðinga 😉
Ég held allavega að báðir listarnir verði að setja atvinnumál á oddinn. Vopnafjörður hefur góðan leikskóla og grunnskóla en það er ekki nóg (tala nú ekki um ef maður á ekki einu sinni börn). Vopnafjörður hefur góða heilsugæslu (held ég) og gott elliheimili. Vopnafjörður er dásamlega fallegur (þó ég segi sjálf frá) og hefur óteljandi möguleika til útivistar (sem við ættum að reyna að selja ferðamönnum betur). Vopnafjörður hefur mikla og merkilega sögu (sem við gætum gert meira úr, bæði fyrir okkur sjálf og ferðamenn).
En þjónusta, náttúra og saga gera lítið ef engin er atvinnan. Ég vil sjá Vopnafjörð sem raunhæfan búsetukost fyrir „krakkana“ sem álpuðust til að fara í skóla.