Pennavinir, Lítil prinsessa og sauðburður

Jæja, næsta skref í barndómi var að lesa gömul bréf frá pennavinum. Það rifjaði ýmislegt upp. Væri gaman að hafa uppá einhverju af þessu liði. Hef reyndar nú þegar þefað uppi nokkrar bloggsíður. Væri líka áhugavert að fá að skoða bréfin sem ég skrifaði en sennilega bara meira vandræðalegt en áhugavert samt.

Svo færist ég hægt og rólega upp í bókmenntunum. Er orðin 10 ára á þeim vígstöðum. Er að lesa bókina Lítil prinsessa sem ég fékk í afmælisgjöf þegar ég var 10 ára. Man þegar ég las hana fyrst þá var ég sífellt og endalaust að hlaupa yfir í herbergi til mömmu og pabba til að spyrja hvernig hitt og þetta væri borið fram. Erlendu nöfnin fengu nefnilega að halda sér í þýðingunni. Mjög skemmtilegt fyrir þau örugglega!

Sauðburðurinn gengur ágætlega miðað við veður. Ömurlegt náttúrlega að þurfa að hafa allt inni en það hefst einhvernveginn.

5 thoughts on “Pennavinir, Lítil prinsessa og sauðburður”

  1. Já pennavinabréfin eru ferlega fyndin. Ég fór einmitt aðeins í gegnum mín í fyrrasumar eða sumarið þar áður og fannst þau einmitt alveg hrikalega neyðarleg flest en þá vissi ég líka að mín eigin bréf hafa verið helmingi verri þannig að ég vona að þeim hafi verið hent. Ég hins vegar heldi sjaldnast nokkru þannig að þau sem ég hélt ekki sérstaklega upp á eins og sérlega fyndin bréf frá Hrönn, Steinunni og Bryndísi fóru á skjalasafn!

  2. Ég fékk að lesa eitt bréfa minna áður en það varð safngripur. Ó hvað það var pínlegt en jafnframt gaman að sjá að ég virðist hafa þroskast eitthvað pínulítið.

  3. Örugglega hafa nú einhverjir hent þessum bréfum, en ég tími því ómögulega. Hef líka velt því fyrir mér að þetta er stórmerkilegt þjóðfræðiefni og auðvitað sagnfræðiefni líka.

  4. Já þegar ég fór í gegnum mín bréf datt mér í hug að gaman væri að hittast nokkrar stelpur og lesa upp gömul bréf frá hvor annari sem við eigum í okkar fórum, það yrði frábært he he. En talandi um bréf þá hlýtur að vera hægt að opna sér skjalasafn með bréfum sem mamma þín hefur sent frá sér Eygló. Kannski hugmynd að atvinnu á Vopnafirði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *