Pennavinir, Lítil prinsessa og sauðburður

Jæja, næsta skref í barndómi var að lesa gömul bréf frá pennavinum. Það rifjaði ýmislegt upp. Væri gaman að hafa uppá einhverju af þessu liði. Hef reyndar nú þegar þefað uppi nokkrar bloggsíður. Væri líka áhugavert að fá að skoða bréfin sem ég skrifaði en sennilega bara meira vandræðalegt en áhugavert samt.

Svo færist ég hægt og rólega upp í bókmenntunum. Er orðin 10 ára á þeim vígstöðum. Er að lesa bókina Lítil prinsessa sem ég fékk í afmælisgjöf þegar ég var 10 ára. Man þegar ég las hana fyrst þá var ég sífellt og endalaust að hlaupa yfir í herbergi til mömmu og pabba til að spyrja hvernig hitt og þetta væri borið fram. Erlendu nöfnin fengu nefnilega að halda sér í þýðingunni. Mjög skemmtilegt fyrir þau örugglega!

Sauðburðurinn gengur ágætlega miðað við veður. Ömurlegt náttúrlega að þurfa að hafa allt inni en það hefst einhvernveginn.