Saga Vopnafjarðar?

Jæja, fyrst maður er farin að tjá sig um Vopnafjörð þá er best að halda áfram.
Það hefur voðalega lítið verið skrifað um Vopnafjörð. Ég íhugaði það einu sinni að gera skrá yfir efni sem skrifað hefði verið um Vopnafjörð sem verkefni í bókasafns- og upplýsingafræðinni en hætti við vegna hráefnisskorts. Þegar ég fór að skoða málið sá ég að mjög lítið hefur verið skrifað um Vopnafjörð. Það helsta sem ég rakst á voru greinar úr Múlaþingi, viðtöl og greinar úr bókum eins og Aldnir hafa orðið og Bóndi er bústólpi og örfáar nýlegar greinar um sveitastjórnarmál. Svo hefur verið skrifuð saga Búnaðarfélags Vopnafjarðar.
Vopnafjörð vantar Smára Geirs og Hjörleif Guttorms. Þetta segi ég vegna þess að þegar ég hef leitað eftir efni um Norðfjörð þá er úr nógu að moða, margar bækur og greinar verið skrifaðar um sögu og náttúru Norðfjarðar.
Nú á Vopnafjörður sér mjög merkilega sögu, bæði í fortíð og nútíð. Vopnafjörður státar líka af mikilli og fjölbreyttri náttúru. Okkur vantar bara einhverja (fleiri) sem eru tilbúnir til að skrifa, rannsaka, taka myndir og gefa út bækur og birta greinar.
Ég tel að sveitarfélagið ætti að beita sér fyrir því að Saga Vopnafjarðar verði skrifuð og hvetja fólk til að skrifa um Vopnafjörð og Vopnfirðinga. Ég vildi líka gjarnan sjá ljósmyndabók um Vopnafjörð (eftir Jón Sig. og Bjarka?), sú yrði flott! 🙂
Sveitarfélagið Austurbyggð hefur í samvinnu við Landsbankann stofnað rannsóknarsjóð sem hefur það að markmiði að efla samstarf Austurbyggðar við hinar ýmsu háskólastofnanir landsins og með því koma sveitarfélaginu Austurbyggð á markvissan hátt inn í íslenskt rannsóknarsamfélag og að hvetja háskólafólk til að vinna lokaverkefni sín í og um Austurbyggð. Mér þætti áhugavert að sjá Vopnafjarðarhrepp gera eitthvað svipað sem tilraun til að efla rannsóknir og skrif um Vopnafjörð.

Varðveitum Vopnafjörð í máli og myndum!

*Báðum framboðum er frjálst að „stela“ þessari hugmynd 🙂