Obladi Oblada

Þetta var hreint ágætur dagur. Merkilegt nokk.

Það er rólegt í vinnunni þessa dagana. Verið að uppfæra Gegni og þess vegna getum við lítið gert í vinnunni nema segja: „Því miður, við getum ekkert gert fyrir þig“. Það er samt hægt að skila bókum og fá bækur lánaðar.

Fór klukkutíma fyrr úr vinnunni og spókaði mig í bænum með Rósu. Fékk auðvitað kaupæði. Keypti jakka og tvo boli í Flash og skó af götusölukonu. Þetta kostaði ekki nema tæpan 10.000 kall allt saman. Rósa greyið keypti ekkert nema þurrkaða ávexti. Mér fannst reyndar fyndið hvað ég vanmat hæðina á Rósu. „Hva, ertu nokkuð nema svona einnogsjötíu?“ „Uuu, ég er reyndar einn sjötíuogsjö“. Svona er ég nú stór, ég tek ekkert eftir því þó fólk í kringum mig sé hávaxið.

Svo fór ég til Heiðu. Borðaði samloku og kók hjá henni og við spjölluðum og gláptum á sjónvarpið.

Núna er ég að horfa á Magni Rockstar: Supernova. Mikið er ég stolt af honum. Hann er alveg að brillera þarna. Svo er hann svo góður við alla. Er eiginlega eins og hann sé pabbi allra hinna. Ég á mynd af Magna sem er tekin á Eiðum 1997. Ætli hún sé ekki mikils virði í dag 😉 En ég verð að viðurkenna að ég var mikill aðdáandi Magna meðan hann var í Shape. Alltaf gaman að sjá æskugoðin verða að stórstjörnum…eða eitthvað.

Jæja, best að einbeita sér að sjónvarpinu. Ógeðslega er gaman að horfa á þennan þátt, svo skemmtileg lög og góðir söngvarar.

Góða nótt