Vopnfirskt handverk

Ég hvet alla til að fara í Bónus og fá sér handverkuð vopnfirsk svið.

Pabbi hafði einmitt þann skemmtilega starfa í haust að þrífa svið. Svo endilega farið í Bónus og kynnið ykkur vopnfirskt handverk 😉

Vopnafjarðarsviðin eru handverkuð, skoluð
og hreinsuð í köldu vatni (ekki burstuð) og sviðin með kósangasi eingöngu
(án súrs).

Þetta er seinvirk verkun en gerir það að sviðin eru einstaklega falleg,
jöfn, brún áferð á þeim, alveg laus við brunabletti – og bragðið alveg eins
og á heimagerðum sveitasviðum.

Kárahnjúkavirkjun

Þetta skrifaði ég 10. desember 2002. Held að megnið af þessu standi ennþá fyrir sínu.

Ég er á móti virkjun. Fyrir því eru margar ástæður. Fyrst og fremst þá virkar þetta á mig eins og einhver aum „redding“ hjá ríkisstjórninni við byggðavandanum og lélegum hagvexti. Ég trúi því varla að það sé ekki neinn alþingismaður í Sjálfsstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum sem hefur efasemdir um þetta…
Svo eru það umhverfissjónarmiðin. Það sem mér finnst hvað mest skerí er að lónið sem fylgir virkjunni verður orðið fullt af aur eftir 80-400(Ég hef heyrt ýmsar tölur á þessu bili) og mér finnst það í raun alveg jafn skerí hvort sem það verður eftir 80 eða 400 ár. Ef það verður eftir 80 ár þá á ég jafnvel eftir að sjá það fyllast og það verða ömmubörnin og langömmubörnin mín sem þurfa að glíma við vandann. Ef þetta verður eftir 400 ár þá er samt ekki svo langt í það. Þetta er semsagt gert af skammsýni. Maður hefur heyrt þau sjónarmið að þá verði búið að finna upp einhverja tækni til að redda þessu, en hvað ef svo verður ekki? Við getum ekki treyst því að tækninni fleygi jafnhratt fram að henni hefur gert undanfarin ár. Atriði númer tvö er landfokið sem þessu fylgir, íslenskur jarðvegur er mjög léttur og þetta atriði á strax eftir að hafa áhrif. Svo er það blessað landið sem fer undir þetta, við fáum það aldrei aftur og dýr og menn geta aldrei nýtt sér það aftur.
Svo eru það efnahagsleg sjónarmið. Ég hef ekki enn séð að nokkur maður geti á sannfærandi hátt sett það fram að þetta sé arðbært og mér skilst líka að Alcoa fái að hirða mest af arðinum. Það er líka ekki sniðugt að fara út í svona stóra framkvæmd því það leiðir líklegast til verðbólgu og vissulega ef þetta fer svo allt til andskotans þá erum við í verulega vondum málum að vera búin að henda í þetta 100 milljörðum(gerið ykkur grein fyrir því að í einum milljarði eru þúsund milljónir).
Svo eru það byggðasjónarmiðin. Flytja brottfluttir Austfirðingar aftur þangað vegna álvers? Flytja aðrir landsmenn til Reyðarfjarðar vegna álvers? Eru líkur á því að ungir Austfirðingar ákveði að flytjast ekki í burt vegna álvers? Ég held ekki(enda var Reyðfirðingurinn sem talað var við í Kastljósi ekkert á því að flytja þangað aftur heyrðist mér). Það hljómar líka álíka spennandi í mínum eyrum að vinna í álveri og að vinna í frystihúsi(kannski ranghugmyndir, hef ekki kynnt mér álver nógu vel). Mér finnst líka vanta upplýsingar um það hvað það koma margir til með að hafa fasta vinnu þarna þegar þetta verður allt komið í fasta skorður. Mér finnst líka heimskulegt að byggja álver þar sem það er sannað að vinna í álveri heftur slæm áhrif á heilsuna.
Mér finnst mjög undarlegt að það séu hafnar framkvæmdir vegna virkjunarinnar t.d. vegagerð og skurðagerð og gera samninga við erlend fyrirtæki áður en búið er að fastnegla að þetta verði gert(reyndar virðist Halldór Ásgrímsson vera búin að ákveða að þetta verði gert). Er búið að greiða formlega atkvæði um þetta á Alþingi? Er búið að greiða úr öllum kærumálum vegna virkjunarinnar? Mér finnst þetta mjög óþægileg staða og ætla svo sannarlega að vona að þjóðin verði formlega látin vita þegar búið verður að ákveða að virkja/eða virkja ekki. En sumir háttsettir embættismenn virðast líta svo á að þetta komi þjóðinni ekki við og að það séu bara listaspírur og vísindamenn sem stjórnast af tilfinningum sem hafa eitthvað á móti þessu. Ég held reyndar að þeir sem eru á móti virkjunum finnist í öllum starfsstéttum, öllum byggðalögum og ÖLLUM stjórnmálaflokkum.

Blogg

Jæja, þá er Óli útskrifaður og veislan búin. Útskriftin gekk vel og var ekkert alltof langdregin og leiðinleg. Veislan var góð. Það kom fullt af fólki. Óli fékk fullt af pökkum sem innihéldu m.a. 9 bækur, 1 DVD-mynd, 2 geisladiska og gjafakort í Kringluna. Við vorum með alltof mikið af kökum og allir óverdósuðu á sykri en ég held að fólk hafi verið ánægt…eða allavega kurteist 😉 Svo ef einhvern langar í kökur þá eruð þið velkomin.

Ég er hætt í náminu í opinberri stjórnsýslu sem ég byrjaði á í haust. Var ekki alveg að höndla þetta endalausa samviskubit sem fylgir því að vera í skóla (allavega fylgir það mér í skóla), semsagt samviskubit yfir því að vera ekki að læra öllum stundum. En námið var að mestu leyti skemmtilegt, alveg á mínu áhugasviði og góðir kennarar svo ég er að hugsa um að byrja í þessu aftur seinna þegar mig fer virkilega að langa aftur í skóla.
En núna ætla ég að nýta tíma minn til að lesa meira (að eigin vali), hitta vini mína oftar og…blogga!

Grísakast og útskrift

Mikið er einmanalegt á netinu á föstudagskvöldi. Sit hér og bíð eftir því að þvottavélin klári.

Buðum Hafdísi, Mumma og Sóleyju í mat áðan. Sóley var uppá sitt hressasta og lék alls kyns kúnstir með kirsuberjatómata og borðaði svolítið af rúsínum (sem voru reyndar nýrnabaunir). Við fórum svo yfir til þeirra og spiluðum Catan og Grísakast. Grísakastið vakti mikla lukku.

Á morgun útskrifast Óli. Annaðkvöld förum við í útskriftarveislu til Auðar og Sverris (reyndar Kára líka en ég þekki hann ekkert). Á sunnudaginn er svo útskriftarveisla hjá Óla. Spennandi tímar framundan.