Nátthrefna

Mikið væri gott að geta alltaf vakað fram á nótt og sofið fram eftir morgni. Ég hef sagt það áður og stend við það að ég er nátthrafn. Ég er viss að ég næði bestum afköstum í vinnunni ef ég gæti unnið milli 8 á kvöldin og 4 á nóttunni. Verð að koma sólarhringsopnun að í næstu starfsáætlun Borgarbókasafnins.

Mig langar voðalega til Vopnafjarðar núna. Það koma tímabil þar sem ég sakna þess virkilega mikið að eiga ekki fjölskyldu í nágrenninu, og ekki tengdafjölskyldu heldur. Læt mig dreyma um hvað það væri nú gott að geta farið í mat til mömmu og pabba eða skroppið til ömmu og afa til að spila og fá súkkulaðirúsínur og kók.
Það skiptir mig þess vegna verulegu máli að eiga góða vini.

Ég er að verða föðursystir í janúar. Ég hlakka mikið til. Er að upphugsa leiðir til að verða uppáhaldsfrænka. Harpa móðursystir, þetta verður hörð samkeppni! 😉
Er að plana að fara austur í febrúar eða mars og vera í nokkra daga til að knúsa litla krúttið. Lítil börn eru ekkert hversdagsleg fyrir mér.

Óli er að útskrifast á laugardaginn. Þá verður hann líka bókasafns- og upplýsingafræðingur. Veislan verður á sunnudaginn. Er bjartsýni að bjóða 30-40 manns í 80 fm íbúð? Nei, það finnst mér ekki 🙂

Kannski maður ætti að fara að sofa. Ætla fyrst að lesa. Er að lesa seinni hlutann af Persepolis sem við Óli fengum í afmælisgjöf frá Ásgeiri í vor. Las fyrri hlutann strax en hef svo ekki gefið mér tíma í seinni hlutann fyrr en núna. Þetta eru æðislegar bækur.

Góða nótt!