Ég hlakka svo til…

Var að horfa á brot úr Silfri Egils þar sem talað var við Auði Lilju, Steinunni Þóru, Kristínu Tómas og Andreu, sem allar bjóða sig fram í forvali VG um næstu helgi. Það vakti hjá mér tilhlökkun, hlakka til að velja fólk til að leiða lista VG á höfuðborgarsvæðinu í vor og hlakka til að sjá hvernig fer.

Á laugardaginn verður líka laufabrauðsgerð á þessu heimili. Allir vinir og kunningjar velkomnir. Hafið samband ef þið eruð áhugasöm. Hlakka til.

Og ég er farin að hlakka til jólanna 🙂

Sturluð stefna

Hvað er að þessum Sjálfstæðismönnum?! Setja Sturlu, Einar Kr. og Einar Odd í þrjú eftstu sætin í NV-kjördæmi og setja svo konur í 4.-7. sæti. Sætt af þeim. Mér sýnist markmið þeirra helst vera að fá engar konur á þing en að stofna í staðinn einhverskonar öldungadeild á Alþingi fyrir alla gráhærðu jakkafatakallana sína. (Nema að þeir geri ráð fyrir að þessir kallar hrökkvi upp af um mitt kjörtímabil og þá fái konurnar að komast að)

Þeir hefðu allavega alveg mátt senda Sturlu eitthvert langt út í heim í þægilegan sendiherrastól. Væri betur komin þar en á Alþingi Íslendinga. Reynar hefðu þeir líka alveg mátt senda Einar Kr. til Japans til að selja hval. Voðalegt hvað maðurinn er eins og lítill krakki sem er að kanna hvað hann getur gengið langt með þessum hvalveiðum sínum.

Mér er óskaplega erfitt að skilja hvers vegna um 40% þjóðarinnar kýs þetta yfir sig aftur og aftur. Ég þekki reyndar sumt af þessu fólki og flest virðist það vera ágætis fólk…fyrir utan að þjást af þessari hugsanavillu.

Ég legg til að fólk læri allt stafrófið fyrir næsta vor og einbeiti sér að seinni hlutanum.

Góðar stundir

Ó, veður!

Ég hef lúmskt gaman af svona óveðri. Finnst æðislegt að vera úti í snjókomu og best er að vaða skafla. Líka yndislegt að vera inni undir teppi þegar hvín og syngur í öllu og horfa á snjókomuna.
Snjórinn léttir líka lundina, þoli ekki endalausa Reykjavíkurrigninguna með tilheyrandi þunglyndi. Nú er bara að halda í vonina um að snjórinn láti sig ekki hverfa strax aftur.

Og svo koma jólin…

Bistróflug

Ég straujaði kortið mitt í gríð og erg í gær, liggjandi uppí sófa.  Ég pantaði mér áskrift að Bistró, nýja matarblaðinu. Ég er algjör uppskriftasjúklingur þó ég eldi sjaldan eftir þeim, kannski þegar ég verð stór. Svo pantaði ég mér áramótaflug til Vopnafjarðar. Jibbý. En það er eins gott að ég þarf ekki að borga fyrir fæði og húsnæði því flugið kostaði mig 24.340 kr. og þeir kalla þetta sparsæti!

Sumardekk í Breiðholti

Ég er á sumardekkjunum og ég bý í Breiðholti, það er ekki góð hugmynd í dag. Slædaði dálítið vel og vandlega niður Fálkabakkann áðan en það slapp 🙂 Nú er það annaðhvort bara strætó eða að harka sig í að skipta yfir (sem er svo sem ekkert mál, eigum vetrardekk á felgum).
Mig grunar að umferðin í Reykjavík sé svolítið skrautleg þessa stundina. Vonandi meiðir sig samt enginn.